Monday, May 30, 2011

Sissa amma

Sissa amma mín kvaddi þennan heim þann 30.maí 2011. Einhvern vegin átti maður ekki von á þessu, hún amma hafði alltaf verið hraust og hress. Maður er aldrei tilbúin þegar ástvinur kveður þannig er það bara og mun sennilega alltaf verða.


(Mynd: Ævar Guðmundsson, Ólsaramyndir 2 á facebook)

Sissa amma var ákaflega falleg kona. Hún var alltaf svo fín og vel til höfð á mjög svo látlausan hátt, hún var svona "akkúrat" manneskja í einu og öllu og kom vel fyrir. Þegar ég var lítil fannst mér alltaf mjög merkilegt og gaman að fylgjast með henni leggja á sér hárið með krulluburstanum og setja á sig varalit, mér fannst hún alltaf svo fín og það var alltaf góð lykt af henni líka. Við hittumst ekki oft á ári þar sem hún og afi bjuggu í Ólafsvík en við á Höfn og kannski fannst mér hún amma ennþá merkilegri fyrir vikið. Í minningunni var alltaf mikið af kaffibrauði hjá ömmu og afa, kannski ekki skrítið þar sem afi er bakari. Það var gott að koma inn í eldhús hjá ömmu eftir að hafa verið úti að leika, og fá súkkulaðisnúð og mjólk. Þá sátum við frændsystkinin ég og Steinar oftar en ekki við útdraganlega skurðarbrettið í eldhúsinu og tókum vel til matar okkar. Ég man ennþá lyktina sem var í búrinu á Ennisbrautinni og mikið fannst mér hún góð og búrið ótrúlega merkilegur staður. Svo var líka alltaf kvöldkaffi hjá ömmu, það var eiginlega bara regla. Þegar ég var lítil stelpa þá var ennþá mjólkurbúð í Ólafsvík og mér fannst ákaflega gaman að fara með ömmu í mjólkurbúðina, kannski af því að mér tókst alltaf að sníkja út úr henni íspinna. Amma og afi fóru oft til útlanda, þegar ég var lítil þótti þetta ekki jafn sjálfsagður hlutur og það er í dag. Alltaf færðu þau mér eitthvað þegar þau komu heim úr þessum ferðum og það þóttu þvílíkar gersemar. Sumt á ég ennþá og man eftir ótrúlega mörgu sem þau færðu mér. Ég man eftir dúkku sem gat grátið, hálsmenum, hringum og fötum. Þetta þótti allt hvað öðru merkilegra enda frá útlöndum komið.

Eftir að ég fullorðnaðist fækkaði því miður samverustundunum og ég hætti að koma til Ólafsvíkur á hverju sumri. Samt héldum við ágætis sambandi. Ég kom nokkrum sinnum til hennar og afa með mín börn, þau voru þá flutt í Vallholtið og ekki laust við að ég saknaði lyktarinnar úr búrinu á Ennisbrautinni. En snúðana mína fékk ég og ekki klikkaði kvöldkaffið, það var engin hætta á því að maður yrði svangur í hennar húsum.

Það eru forréttindi að ná því að eiga afa og ömmu þegar maður hefur náð fullorðinsaldri, það eru ekki allir sem upplifa það. Það er ákaflega gaman að kynnast ömmum og öfum upp á nýtt þegar maður er orðin fullorðin, áherslurnar eru þá orðnar nokkuð aðrar. Við Sissa amma gátum spjallað margt og ég virkilega naut þess að eiga innihaldsríkar samræður við hana um allt og ekkert yfir kaffibolla og bakkelsi að sjálfsögðu.

Amma var ekki mikið í því að vera með tilfinningarnar upp á borðinu en hún má eiga það að hún hrósaði mér alltaf fyrir að drífa mig aftur í nám og hún sagði mér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að hún væri svo stolt af mér, og það var mér mikils virði.

Amma hafði dillandi hlátur og það hafa dætur hennar líka og þegar allur hópurinn var saman komin þá var oft mikið hlegið og ekki á lágu nótunum. Ég hugsa að hláturinn hafi endurómað um alla Ólafsvíkina þegar því var að skipta. Mér finnst eiginlega fátt yndislegra en þessi hláturkór þeirra mæðgna og ég vona að systurnar hlæi örlítið hærra hver og ein til að fylla upp í skarðið hennar ömmu.


Lúlli afi og Sissa amma á góðri stund

Takk fyrir samfylgdina elsku Sissa amma, ég var heppin að fá að kynnast þér.

Friday, May 27, 2011

Ánægð, stolt og svolítið meyr.

Við hjúkkusystur vorum að fá einkunn í hús fyrir lokaverkefnið, hvorki meira né minna en 9.5 takk fyrir. Ég er að vonum ótrúlega montin og ánægð með okkur. Þetta eru svo sannarlega góð laun fyrir erfiðisvinnu.

Ég er líka pínu meyr, vildi óska þess að ég hefði eiginmanninn hjá mér til að gleðjast með mér. Finnst hálf asnalegt að hafa hann ekki mér við hlið á svo stórri stund í mínu lífi, en það verður bara margföld gleði loksins þegar við hittumst.

Ég get ekki ákveðið mig hvort ég á að mæta í útskriftina mína. Langar það, en finnst það svolítil fyrirhöfn og vesen að dröslast enn einu sinni norður í land, með einhverja fjölskyldumeðlimi (langar ekki að gera þetta ein og bóndinn verður ekki viðlátinn). Ég er svo sem búin að hugsa þetta hvort ég eigi að mæta taka við skírteininu og bruna svo heim, en finnst það ekki neitt spennandi. Er jafnvel (og eiginlega orðin viss) að hugsa um að gera mér bara glaðan dag hér heima með mínu fólki og hafa það bara kósý.

Vá ótrúlegt að þessi fjögur ár séu liðin, svo ótrúlega fljótt. Stundum hafa verið felld tár, það hefur verið alveg einstaklega mikið hlegið og umfram allt hefur þetta verið skemmtilegt og gaman. Ég væri samt sem áður að ljúga ef ég segði að þetta hefði ekki verið erfitt, það hefur verið það en skemmtilega erfitt.

Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi! Aldur, barnafjöldi, hjúskaparstaða (þó gott sé að eiga góðan mann) og fyrri störf eru hlutir sem hafa áhrif en alls ekki úrslitaáhrif. Það er vilji nr 1,2 og 3!!!!!!!!

Ef þig langar þá getur þú það.....................

Sunday, May 22, 2011

10 mínútna frægð

Við hjúkkusystur héldum til Akureyrar þann 19.maí og með í för voru tveir eldhressir makar. Tilgangur ferðar okkar var að vera á kynningardegi lokaverkefna hjúkrunarfræðinema þann 20.maí. Við vorum svo sem ekkert yfir okkur spenntar þannig lagað að keyra norður fyrir þær 10 mínútur sem okkur var úthlutað í okkar kynningu, 5 mínútur í kynninguna sjálfa og 5 mínútur í umræður. Svo var veðurspáin að hrella okkur í ofan á lag, vetur konungur mættur á norðurlandið til þess að stríða okkur aðeins.

Við æfðum okkur aðeins í fyrirlestrarsalnum á fimmtudagskvöldinu og skelltum okkur svo út að borða á bautan. Að því loknu fórum við tvær hjúkkusystur ásamt einum maka (sem stóð sig vel í að leika tveggjahjúkkumaka) á Græna hattinn á tónleika með Gylfa Ægis, Megasi og Rúnari Þór. Það er skemmst frá því að segja að þeir voru frábærir og mikið var hlegið.

Fyrirlestradagurinn rann upp og veðurguðirnir buðu upp á hríð. Við vinkonurnar tókum okkur vel út í snjónum í sumarsparisandölunum. Kynningin okkar gekk ljómandi vel og dagurinn var bara hinn skemmtilegasti, gaman að heyra um verkefni bekkjarsystrana og þetta var allt mjög hátíðlegt.



Stoltar hjúkkusystur

Búnar að halda kynninguna og gleðin leynir sér ekki

Hjúkkusystur með afkvæmið


Eftir að kynningardegi lauk var brunað af stað heim. Ekki komumst við nú langt þar sem það snjóaði og snjóaði og vegagerðin ráðlagði okkur að reyna ekki að fara lengra en að Mývatni þar sem þeir væru hættir að reyna að halda veginum opnum. Það kom að því að við yrðum veðurteptar, ekki seinna vænna. Á þessum ferðum okkar til Akureyrar síðastliðin fjögur ár þá höfum við alltaf komist leiðar okkar án teljandi vandræða þó veðrið hafi ekki alltaf leikið við okkur. Við fengum gistingu á Mývatni í íbúð hjá svona líka hressum gaur sem reddaði okkur algjörlega, mælum með Lúdent-gistingu ef einhver þarf á slíku að halda á ferð um Mývatn.

Heim komumst við á laugardag og gekk ferðin vel þrátt fyrir vetrarfæri þar til við vorum komin yfir Öxi.


Hittum þessa jólahesta rétt austan við Egilsstaði, en jólasveinninn var hvergi sjáanlegur.

Þá er námi mínu í hjúkrunarfræði við Háskólan á Akureyri lokið. Útskriftin fer fram þann 11.júní og þá fáum við loksins skirteinið í hendurnar, ég hef reyndar ekki ákveðið mig ennþá hvort ég ætla að mæta í útskriftina finnst það óttalegt vesen eitthvað.

Fáfnir Freyr hefur beðið mig um að fá mér vinnu næst, ekki meiri skóla. Hann stakk meira að segja upp á því að ég gerðist götusópari. Með fullri virðingu fyrir því starfi þá var það nú ekki hugmyndin að vinna við það eftir fjögura ára háskólanám, en gott að hafa það í bakhöndinni ef mig langar í tilbreytingu.

Það er hálf skrítin en notaleg tilfinning samt að hugsa til þess að þetta nám sé búið, engin verkefni, engin próf, eða heimanám sem bíður eftir manni. Nú er bara að byrja að pakka á fullu og að sjálfsögðu henda einhverjum slatta (djöfull safnast upp mikið af drasli hjá manni), svo vinn ég eitthvað smávegis líka. Ég og strákarnir munum fljúga út þann 5.júlí. Nökkvi kemur heim þann 21.júní og flýgur út aðeins á undan okkur (mikið rosalega hlakka ég til að hitta hann). Heimasætan ætlar hins vegar að vinna í Nettó eitthvað fram í ágúst og koma þá til okkar.

Hafið það sem best rýjurnar mínar.

Sunday, May 15, 2011

Jæja

Eins og sennilega flestir hafa orðið varir við þá höfum við hjúkkusystur skilað lokaritgerðinni. Það var ótrúlega mikill léttir þegar hún var komin í umslag blessunin og út á pósthús. Skrítin tilfinning samt en ósköp notaleg. Allar einkunnir komnar í hús þessa önnina nema fyrir blessaða lokaritgerðina, svo þetta er allt að hafast. Við skreppum norður í land nú í lok vikunnar og höldum 5 mínútna kynningu (já þið lásuð rétt 5 mínútur takk) á meistarastykkinu okkar og svo eru gefnar 5 mínútur til að spurja okkur út úr. Þannig að seinnipart þess 20.maí þá er þetta bara búið :))))))

Ég fór í "útskriftarferð" um helgina alla leið inn í Hoffell (c.a 10 mín. akstur héðan). Við tókum á móti 16 bekkjarsystrum okkar þessa helgi í nokkurs konar óvissuferð. Þær gistu í Hoffelli og við skemmtum okkur með þeim þar, og tvær okkar gistu með þeim aðfaranótt sunnudags. Ingibjörg og Dúddi dekruðu við okkur eins og þeim einum er lagið. Við buðum bekkjarsystrunum í siglingu út fyrir Ós og eitthvað hér innan fjarðar. Sýndum þeim námsaðstöðuna okkar í Nýheimum og hjúkrunarheimilið. Þær kíktu í heimamarkaðsbúðina og fengu sér gott að borða á Kaffihorninu. Svo fórum við í fjórhjólaferð með Dúdda inn að Hoffellsjökli (þ.e lóninu þar), borðuðum kvöldmat að hætti Ingibjargar inn í Geitafelli (úti), dúlluðum okkur í alls konar leikjum og skáluðum að sjálfsögðu. Eitthvað var sullað í heitu pottunum, einhverjar minna klæddar en aðrar. Þetta var rosalega skemmtilegt og bekkjarsysturnar lögðu af stað heim í morgun þreyttar en ánægðar. Það þarf sko ekki að fara langt til þess að upplifa ógleymanlega útskriftarferð.

Til marks um hvað sumir eru orðnir leiðir á flakki mínu síðastliðin fjögur ár, þá var yngri sonur minn ekki ánægður þegar að ég sagði honum að hann ætti að gista hjá ömmu og afa. Hann varð bara fúll og setti upp svip, ég reyndi nú að tala hann til og við ræddum þetta fram og til baka. Að lokum sagði hann okei allt í lagi þá, en hvað þarf ég að vera þar í MARGAR VIKUR!!!!!!! Hann varð mjög sáttur þegar hann vissi að við værum nú bara að tala um eina nótt.

Í allri gleðinni þá kemur fyrir að maður upplifi líka sorg. Við heyrðum fréttir af hræðilegum atburðum á föstudaginn þar sem ung kona var myrt. Og megnið af föstudeginum þá var þetta aðal umræðuefnið hvar sem maður kom. Seint á föstudagskvöldið uppgötvaði ég að þetta var dóttir æskuvinar Nökkva. Stúlka sem ég hef hitt nokkrum sinnum frá því að hún var lítil. Síðast hitti ég hana heima hjá foreldrum sínum með tæplega ársgamlan son sinn. Þetta var smá sjokk, alltaf skal maður halda að svona atburðir tengist manni ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég hugsa mikið til foreldra hennar, bræðra og sonar sem ganga í gegnum hræðilega sorg og erfiða tíma.

Á laugardaginn fékk ég líka þær fréttir að Sissa amma mín væri með krabbamein, og við bíðum bara frétta af því hvert ferlið verður í að reyna að vinna á þeim vágesti.

Munum að vera góð hvort við annað og njóta hvers augnabliks sem við eigum saman. Það veit engin hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Thursday, May 5, 2011

Hér um bil næstum því alveg

Sit hér með kaffibollan minn og lýt yfir farinn veg. Já, já konan er bara háfleyg svona í morgunsárið.

Fyrir rúmum fjórum árum sátum við vinkonurnar hér við þetta sama borð og hún sagðist ætla í fjarnám í hjúkrunarfræði, hvort ég skellti mér ekki bara líka. Ég hrópaði nú ekkert uppyfir mig jú, pottþétt alveg strax. Ég var nú eiginlega ekki að nenna þessu þó að löngun í hjúkrunarfræðinám hafi verið ástæðan fyrir því að ég skellti mér í framhaldsskólan og lauk stúdentsprófi (2001). Eftir nokkra umhugsun var ákvörðun tekin um að fylgja vinkonunni í þetta nám.

Fyrsta prófatörnin var skelfingin ein, mig langaði að grenja á hverjum einasta degi og hugsaði vinkonunni þegjandi þörfina fyrir að hafa haft mig út í þetta helvíti.

En hér er ég fjórum árum seinna og við vinkonurnar ásamt tveimur öðrum vinkonum erum að klára þetta. Við höfum unnið myrkranna á milli í næstum tvær vikur svo lokaritgerðin kláraðist nú á réttum tíma. Við höfum mætt snemma á morgnana og skriðið heim seint á kvöldin, við höfum líka skipst á að mæta í vinnuna, einhver verður víst að standa vaktina þar.

Við erum farnar að sjá fyrir endan á þessu og ef að allt gengur að óskum þá er hugsanlegt að við prentum út á morgun. Sei, sei, sei. Ég á mjög bágt með að þurrka glottið af andlitinu, og ég á líka alveg skilið að glotta smá.

Tengdamóðir mín hefur verið svo elskuleg að sjá um heimilið fyrir mig síðast liðna viku, öðruvísi hefði þetta ekki verið hægt. Verst að ég gæti nú alveg vanist svona þjónustu að koma heim og það bíður mín bara ekkert nema að knúsa börnin (ef þau eru ekki sofnuð), öllum öðrum verkum er lokið.

Ég get líka laumað því með að hér er ungur drengur sem telur niður dagana þangað til mamma verður búin með skólann sinn. Spurningin "ferðu þá aldrei meir í skóla?" hefur heyrst nokkrum sinnum. Mamman á reyndar frekar erfitt með að svara öðruvísi en "ekki alveg á næstunni allavega". Hún hefur nefnilega rekið sig á það að það borgar sig ekki að segja aldrei.............................

Hafið það gott og njótið tilverunnar.