Ævinlega blessuð og sæl!!!
Það er ekki hægt að segja annað en ég hafi haft nóg að gera síðan síðast. Eins og áður hefur verið minnst á þá er ég allt í einu farin að vinna. Mikið fyrr en ég bjóst við, það mikið fyrr að ég hef ekki ennþá fengið norskt hjúkrunarleyfi og ekki var ég nógu vel gefin til að vera búin að fá norskt sjúkraliðaleyfi. Og hvað þýðir þetta, jú ég er aftur orðin starfsstúlka eða ófaglærð eða hvað sem þið viljið kalla það. Mér finnst það svo sem ekkert leiðinlegt ég elska að annast um fólk svo það skiptir ekki máli nákvæmlega hvað ég geri og á þessum vinnustað eru hjúkrunarfræðingarnir mikið í almennri umönnun.
Biðin eftir hinu norska hjúkrunarleyfi mun taka allt að 6 vikum takk fyrir. Svo þarf ég að fá vottorð hjá fyrrverandi vinnuveitendum um að ég hafi unnið þar og hvaða stöðu ég gengdi og í hvað langan tíma (sem er mjög skiljanlegt en ekki hafði aulinn ég rænu á að láta útbúa það áður en ég flutti). Svo þarf ég að láta þýða þessi vottorð yfir á norsku að kröfu launaskrifstofunnar. Þessa pappíra (vottorðin + norska hjú.leyfið) ásamt fæðingarvottorðum barna minna vilja þeir fá svo þeir geti reiknað út hvað þeir vilja borga mér...... þannig að þar til leyfið er klárt fæ ég bara laun eins og starfsstúlka en fæ svo leiðréttingu á launin þegar þetta kemur allt í hús (skilst mér hihihi).
Mér líst alltaf betur og betur á mig á nýja vinnustaðnum og hef komið sjálfri mér verulega á óvart með hvað mér gengur vel að tjá mig á "norsku" (þeir skilja mig allavega) og að skilja norskuna. Ég viðurkenni samt vel að ég er alveg búin á því þegar ég kem heim. Samstarfsfólkið er líka alveg gáttað hvað mér gengur vel að tala málið og trúa því varla að ég hafi bara komið hingað í byrjun júlí. Ein samstarfskona tjáði mér í dag að ég talaði alls ekki með íslenskum hreim en hún gat samt ekki sagt hvaða hreim ég talaði með þá (veit ekki hvort ég á að líta á þetta sem hrós eða ekki).
Ég hef nú ekki bara verið að vinna þó vinnan hafi átt meira en hug minn allan undanfarið. Við hjónin reynum að halda uppi skemmtidagskrá fyrir drengina svo þeim leiðist nú ekki mikið. Fáfnir Freyr hefur ekki viljað leika meira við nágrannadrenginn (því er nú verr og miður) og gengur illa að fá hann til að gera nokkurn skapaðan hlut nema með mútum (ég er að verða ferlega fær í mútustarfsemi), hann vill helst bara vera í tölvu og geðið er eftir því. Við höfum nú samt gert ýmislegt farið í skoðunarferðir hér um eyjuna, hjólað, týnt ber, farið í skoðunarferðir inn í Bergen og aðeins út í sveit. Einnig erum við búin að prófa keilu og í sama húsi er stór sundlaug með allskonar rennibrautum sem á eftir að prófa (það kostar hálfan handlegg og tvö nýru). Svo förum við reglulega á golfvöllinn. Það er meira farið með Darra Snæ í golf en Fáfnir Freyr hefur líka komið með og það hefur gengið fínt. Núna erum við mæðgin ég og Darri Snær á golfnámskeiði sem er eiginlega skilda að fara á til að hafa aðgang að aðalvellinum.
Við höfum fengið fyrsta ættingjann í heimsókn og það var yndislegt. Pétur systursonur ömmu (býr á Shetlandi) er hér í Bergen í þriggja daga ferð ásamt konu sinni og við eyddum með þeim degi í Bergen sem endaði svo í smá heimsókn hingað til okkar.
Strákarnir byrja í skólanum á fimmtudag í næstu viku (18.ágúst) svo nú fer að komast rútína á liðið. Eigum von á að verða boðuð á fund og skoðunarferð um skólana eftir helgi. Fáfnir Freyr hlakkar mjög mikið til að byrja í skólanum en sá eldri gefur ekki mörg svör þegar hann er spurður.
Veðrið hefur verið yndislegt og ég kann bara vel við hlýjuna, sólina og jafnvel rigninguna (hún er lóðrétt).
Bestu kveðjur til ykkar allra og munið að vera góð hvort við annað.
3 comments:
Gaman að fá fréttir,þú ert nú búin að taka risastórt skref með því að vera farin að vinna,tala og skilja,eftirleikurinn verður auðveldari.Kveðjur til ykkar og ég vona að ykkur gangi áfram vel.
Tek undir allt sem sú að ofan skrifar. Strákarnir koma til með að pluma sig, vittu til með kærri kveðju frá okkur Bróa.
vá lóðrétt rigning, hvað er það??
:)
Post a Comment