Monday, January 30, 2012

Af fólki og nöfnum

Af og til þá sér maður einhvern sem minnir mann á einhvern. Ég hef rekist á mörg kunnuleg andlit hér í nýja landinu. Hvort það sé til marks um skildleika íslendinga og norðmanna er allt önnur saga. Aftur á móti þá finnst mér bara vinalegt að sjá kunnulegt andlit. Við höfum svo gert það, kannski ósjálfrátt eða meðvitað, að kalla viðkomandi okkar á milli nafni þess sem hann minnir okkur á. Ég veit við erum pínu klikk, en það er ekki svo slæmt skal ég segja ykkur, það gefur bara lífinu lit.

Mörg nöfn hér eru líka ákaflega lík eða nánast þau sömu og íslensku nöfnin sem við þekkjum. Og finnst mér ákaflega gaman að spá í nöfnunum.

Kvenmannsnöfn: Magnhild, Borghild, Gudrun, Gerda, Ragnhild, Sigrun, Ingeborg, Bjørg, Aslaug, Andrea, Anita, Eva, Alfhild, Elsa, Ella, Bergljot, Rannveig, Gunvor, Dagny, Solveig, Kristin, Anne/Anna, Hanne/Hanna, Lise, Elise,

Karlmannsnöfn: Gunnar, Leif, Bjørn, Asbjørn, Sigurd, Jon, Olav, Olaf, Harald, Ingvar, Ivar, Hans, Einar, Johannes, Magnus, Geir, Siggeir, Gudmund, Stein, Svein, Thorbjørn, Helge, Oskar/Oscar, Gisle (frekar sjaldgæft),

Kunnuleg ekki satt og þetta eru nú bara nokkur. Mörg fleiri sem eru lík, sum af þessum nöfnum eru algeng og önnur sjaldgæf. Það hefði komið sér vel fyrir börnin mín að heita Jón, Sigurður og Guðrún :) . Ég er ánægð með nöfnin þeirra eins og þau eru og sé ekki eftir því að hafa gefið þeim þau.

Ég er hinsvegar fegin að strákarnir mínir fengu ekki nafnið Sölvi, þó mér finnist það fallegt. Sølvi er nefnilega kvenmannsnafn hér í Noregi.

Góðar stundir

Saturday, January 28, 2012

Myndin

Þá er myndin tilbúin, held ég. Er ekki nógu ánægð með ljósmyndirnar sem ég tók af henni, en þær verða að duga. Kannski á ég eftir að fikta meira við myndina, það kemur í ljós þegar ég verð búin að hafa hana fyrir augunum í einhvern tíma.


Þessi er tekin án þess að nota flass, og er aðeins of dökk.


Þessi er tekin með flassi, og er eiginlega yfirlýst.
Mikið rosalega finnst mér gaman að mála. Vildi gjarnan að ég hefði betri aðstöðu til þess, þetta kostar smá fyrirhöfn. Það þarf að þekja eldhúsborðið með dagblöðum, finna til litina og annað. Svo þarf að ryðja öllu af borðinu á milli máltíða, frekar pirrandi þegar wannabe-listakonan er í ham :) En þetta eru nú bara smámunir og ekkert til að kvarta yfir, lífið gæti verið svo mikið verra en þetta, ekki satt :)

Góða helgarrest.

Friday, January 27, 2012

Laugardagskvöld

Ég hélt áfram að mála

Fáfnir Freyr málaði norska fánann

Öldungurinn :) púslaði

Myndin mjakast áfram


Fáfnir Freyr hjálpaði líka pabba sínum með púslið


Svona leit myndin út þegar ég hætti í kvöld

Wannabe-listakonan og húsmóðirin takast á

Frídagur í dag. Þó mig langaði bara að kúra undir sæng þá ákvað ég að reyna að virkja einhverjar af þessum konum sem í mér búa. Wannabe-listakonan varð fyrir valinu en hún þurfti samt sem áður að slást við húsmóðurina sem tók yfirhöndina öðru hvoru. Á endanum sættust þær á að húsmóðirin fengi að hlaupa um með ryksuguna og taka út úr uppþvottavélinni ásamt fleiri leiðinlegum heimilisstörfum á meðan litirnir á striganum þornuðu á milli atrenna wannabe-listakonunnar.




Wannabe-listakonan ákvað að sýna afrakstur dagsins, fróðlegt að sjá hvað verður úr þessu. Verkið er sem sagt ennþá í vinnslu. Húsmóðirin ákvað að vera ekkert að sýna framvindu mála í tiltekt og þrifum.

Góðar stundir.

Thursday, January 26, 2012

Allt og ekkert :)

Gærdagurinn að vakna (25.01.12)

Undirrituð hefur ekki lent í neinum hremmingum frá síðasta bloggi. Bíllinn er ennþá beyglaður og speglalaus með svartan ruslapoka í stað rúðu. Ég hætti mér nú ekkert mikið út af eyjunni þ.e. inn í Bergen á drossíunni í þessu ásigkomulagi (er það í einu orði eða hvað?) enda frekar óþægilegt að skipta á milli akreina þegar útsýnið er sama og ekkert.

Annars gengur lífið hjá okkur sinn vanagang og öllum gengur vel. Ég er svo stolt af rollingunum mínum að ég er alveg við það að kafna úr monti. Þau eru öll að standa sig svo frábærlega vel.

Hávaðinn í áramótasprengingunum
 er ekki vinnsæll, jafnvel þó þær
væru aumingjalegar :)
Yngri drengurinn stendur sig vel í skólanum og er farinn að tala norsku þar svona af og til. Mér skilst að það komi dagar þar sem hann talar nánast bara norsku og gleymi enskunni þó hún sé ríkjandi, hann reynir að tala ensku við þá fullorðnu samt svona í byrjun. Hann er farinn að vera meira með 3.bekk og það gengur fínt, leikur mikið við þau úti í frímínútum. Í gær fór hann með þeim í smá ævintýraferð út í skóg, þar sem var leikið í feluleik, kveikt bál til að ylja sér við, pylsur þræddar upp á grein og grillaðar yfir bálinu. Hann kom heim í skýjunum eftir ferðina, fannst þetta æðislegt. Það er ekki laust við að mér finnist tilhugsunin um að hann þurfi jafnvel að skipta um skóla ekki spennandi.

Spaugarinn minn á erfitt með að
sleppa grettunum við myndatöku
Eldri drengurinn (spaugarinn mikli) er að standa sig glimrandi vel í skólanum. Hann er nánast eingöngu orðið inn í 10.bekknum og líkar það mun betur en að vera í innflutningsbekknum. Hann tók jólaprófin (svipuð og samræmduprófin) með stæl og fékk mjög góðar einkunnir. Svo tók hann norskt mállýskupróf (dialektu) nú á dögunum. Já, í norsku þá eru þau prófuð í mállýskunum, þurfa að geta útskýrt framburðarmuninn á milli mállýska og vita hvar hvaða mállýska er töluð, bæði bóklegt og hlustun. Það er skemmst frá því að segja að pilturinn fékk 3 á prófinu (einkunnir hér eru frá 0 eða 1 til 6) og mér finnst það fjandi gott hjá honum, honum gekk ekkert sérstaklega vel í hlustunarþættinum en hitt gekk vel. Núna erum við farin að spá í framhaldsskóla, hér þarf að sækja um fyrir 1.mars. Hann veit hvað hann vill læra en ekki alveg komið á hreint hvaða skóla hann vill sækja um. Fyrir áramót var hann staðráðinn í að sækja um í FAS og fara til Íslands, en núna langar hann bæði í skóla hér og í FAS. Spurning hvað verður ofan á, vona að hann sættist á að prófa eitt ár hér. Það er verið á fullu að skipuleggja bekkjarferðalag og safna fyrir því. Í fyrstu var ætlunin að fara til Íslands og var drengurinn staðráðinn í að fara með, svo var farið að pæla í öðrum möguleikum og þá var hann ákveðinn í að fara ekki í ferðina ef Ísland yrði ekki fyrir valinu. Nú er búið að ákveða einhverja ævintýra-hyttuferð innanlands, og gaurinn ætlar að skella sér með og móðirin er alsæl með það. Körfuboltaæfingar stundar hann af kappi og hefur gaman af þó að liðinu hafi ekki gengið mjög vel í keppnum.

Falleg er hún heimasætan
Af heimasætunni er það að frétta að hún er á leiðinni á norskunámskeið og er bara nokkuð spennt fyrir því. Hún fékk tækifæri til að vinna á netaverkstæðinu hjá pabba sínum fyrir jólin og á milli jóla og nýárs. Sjálfboðaliðastarfið í skólanum hans Fáfnis er enn til staðar. Hún má mæta þegar hún vil en hún mætir þar nánast á hverjum degi. Henni finnst þetta rosalega gaman og fær að hjálpa mikið til. Hún hefur aðalega verið að aðstoða inn í innflutningsbekknum og þau eru ánægð með hjálpina sem þau fá þar, enda hefur fjölgað í bekknum og þau segja að það muni mikið um aðstoðina, ekki verra að fá líka að læra smá norsku í leiðinni. Hefur verið mikið að aðstoða einn nemandann sem hefur átt aðeins erfitt og hún er sú eina sem hann hlustar á, svo það er áskorun en ánægjulegt í leiðinni því þeim gengur vel saman. Daman er líka á fullu í Þorrablótsnefnd Íslendingafélagsins ásamt pabba sínum og finnst það bara gaman. Hún er harðákveðinn í að sækja um framhaldsskóla hér og stendur valið á milli tveggja skóla, er að vega og meta hvorn hún á að velja. Ætlar á braut sem heitir Design og handverk, hugurinn stefnir svo í framhaldinu (eins og er) í gullsmíði eða blómaskreytingar en hún þarf að byrja á að taka eitt ár á þessari braut, hvort sem hún velur. Annars var hún að tala um það líka að henni finndist svo gaman að vinna með börnunum að hún týmdi varla að hætta þar, svo eitthvað nám tengt því gæti líka komið til greina.



Af okkur hjónum er það að frétta að við erum sátt við lífið og tilveruna, afskaplega ánægð með hvort annað og börnin okkar. Gengur vel í vinnunni hjá okkur báðum. Bóndinn er að verða búinn að fylla kvóta viðskiptavina sem verkstæðið getur tekið við, er núna í Austevoll í viðræðum við einhverja sem vilja koma í viðskipti við hann. Nóg að gera hjá mér í vinnunni, fæ fullt af aukavöktum (stundum meira en ég vil, það er þetta með erfiða orðið nei) ofan á 50% sem ég er með fast. Ég er að flakka á milli allra deildanna (sem eru 4) og það er bara gaman að fá smá tilbreytingu.
Um það bil hálfsmánaðarlega (stundum í hverri viku) hittum við nokkra íslendinga og syngjum með þeim. Við vitum ekki alveg hvort við eigum að kalla okkur kór eða sönghóp. Höfum aðalega verið að syngja okkur til skemmtunar og þá oftast hver með sínu nefi, en nú er planið að taka málið alvarlegri tökum og fara að syngja raddað og æfa upp nokkur lög almenninlega. Hvað við gerum svo með það er spurning, kannski verða bara stórtónleikar í Grieghallen (tónlistarhúsið í Bergen) hvað veit maður ha,ha,ha. Svo hittist þessi hópur líka reglulega ásamt mökum og borðar góðan mat, skálar í einhverju góðu, syngjum og dönsum. Nökkvi og Yrsa eru eins og áður sagði í þorrablótsnefnd íslendingafélagsins. Blótið verður þann 4.febrúar og ætlar frúin þangað að sjálfsögðu. Hlakka til að fá mér snúning og skála kannski eins og einu sinni til tvisvar.

Það er ýmislegt að gerjast í kollinum á okkur varðandi búsetu. Við erum að spá í hvort við eigum að vera hér áfram eða fara til Íslands aftur. Eins og staðan er í dag þá langar okkur að vera lengur hér og þá er spurningin hvort það eigi að leigja íbúðina sem við erum í áfram, færa okkur aðeins um set og finna aðeins ódýrara leiguhúsnæði eða bara jafnvel að kaupa. En við viljum halda okkur hér á Sotra, langar ekki að flytja inn í Bergen. Nánari fréttir af þessu öllu síðar.

Tré með hjartað á réttum stað eða ekki :) Það er allavega hjarta þarna.

Þá er einni langlokunni enn lokið :) Spurning um að reyna að hafa styttra á milli blogga svo þau verði ekki svona löng.

Kærar kveðjur og verið góð hvort við annað elskurnar.

Sunday, January 15, 2012

Hrakfarir ósköp venjulegrar konu. Sönn saga.

Ég er að hugsa um að deila með ykkur ævintýrum mínum frá því um kvöldarmatarleyti föstudagsins 13. jan til kl 04 laugardagsins 14. jan. Allt sem hér er ritað gerðist og er satt, þó það verði kannski aðeins skreytt með orðum. Þegar allir þessir hlutir áttu sér stað þá fannst mér þeir alls ekki fyndnir en ég er búin að hlæja að þeim eftir að pirringurinn rann af mér, svo ykkur er velkomið að hlæja hátt ef þið finnið hjá ykkur þörf til þess.

Ósköpin byrjuðu þegar kvöldmaturinn var eldaður. Í boði var heimabökuð pizza sem má segja að hafi verið eldbökuð, ég mæli ekkert sérstaklega með eldbakstir svona í heimahúsum allavega ekki í ofninum sennilega betra að nota eitthvað annað. En þetta atvikaðist þannig að þegar pizzan var tekin úr ofninum byrjaði bökunarpappírinn sem undir henni var að loga. Hann skíðlogaði og á meðan við hjónin reyndum að slökkva eldinn þá svifu mislogandi pappírsflyksur út um allt. Þetta fór allt vel en pizzan var bragðbætt með dassi af brunnum bökunarpappír. Hún bragðaðist bara sæmilega, þó ég segi sjálf frá.

Þegar líða fór á kvöldið fór hjúkrunarfræðingurinn að hafa áhyggjur af heimasætunni sem var búin að vera með magaverki frá því um morgunin. Ég fór að reyna að meta ástandið (líkamsmatið hjá IT kom sér vel). Einkennin sögðu mér að það væri möguleiki á því að daman væri með botnlangabólgu, ég var búin að horfa fram hjá þessum verkjum heimasætunnar allan daginn (svona eins og hjúkrunarfræðingar eiga til að gera þegar heimilisfólk þjáist af ýmsum kvillum). Þegar hér var komið taldi ég að réttast væri kannski að hafa samband við læknavaktina svona til vonar og vara. Þau vildu endilega fá að kíkja á dömuna þar sem þeim fannst að sjúkdómsgreining mín gæti verið rétt. Eftir skoðun á læknavaktinni vorum við sendar á Haukeland sjúkrahúsið til að meta ástandið enn frekar.

Ég taldi nú að það gæti nú ekki verið flókið að komast á þetta blessaða sjúkrahús, frúin tæknivædd með GPS tæki í bílnum (sem á það reyndar til að senda mann ótrúlegustu krókaleiðir). GPS-ið reyndist ágætlega framan af, tókum reyndar nokkrum sinnum ranga beygju og gerðum gelluna í tækinu alveg óða. Eftir akstur um þröngar einstefnugötur komum við að húsaþyrpingu sem við töldum að væri sjúkrahúsið, en við vorum nokkuð vissar á því að við værum nú ekki nálægt aðalinnganginum. Rúntuðum aðeins um en fundum aldrei neitt sem gat hugsanlega verið inngangur, hvað þá bílastæði. Mér fannst þetta reyndar allt frekar undarlegt, reiknaði með fleiri bílastæðum við svona stórt sjúkrahús. Allt í einu sáum við skilti sem á stóð Akut-mottak, við þangað. Til að komast inn á bílastæðið þurfti ég að hringja hjá vaktmanni sem sagði mér að ég þyrfti svo að færa bílinn um leið og ég gæti. Við hringdum bjöllu á Akut móttökunni og tók á móti okkur alúðlegur hjúkrunarfræðingur. Neibb við vorum ekki á réttum stað, þetta var barnadeildin. Þið þurfið að fara í aðalbygginguna, mér féllust hendur búin að keyra marga hringi þarna og sá engin skilti sem vísuðu á aðalbyggingu. Konu greyið sagði þá að við gætum farið bara í gegn hjá þeim, niður með lyftu og svo í þessa átt og beygja svo hérna, hélt hún......................eftir að hafa spáð og spekúlerað í smá stund ákvað hún að fylgja okkur. Við gengum allskonar krókaleiðir í gegnum kjallaran, heimasætan lét sig hafa að þramma þetta þó hún væri frekar þjökuð af verkjum.

Á réttan stað komumst við, þar sem daman var sett í rúm og skoðuð hátt og lágt og teknar blóðprufur og svona. Meðan við biðum eftir niðurstöðum blóðprufanna ákvað ég að núna væri líklega gott að fara og færa bílinn. Spurði hvert ég ætti að fara og fékk einhverja leiðalýsingu en var hleypt út um bakdyr, beint af deildinni í staðinn fyrir að fara í gegnum aðalbygginguna. Ég fann bílinn eftir smá labb og þá hófst nú leitin að aðalbyggingunni og bílastæðinu. Hring eftir hring keyrði frúin, orðin vægast sagt pirruð og pínu syfjuð. Sá eitthvað sem gat hugsanlega verið móttaka, lagði bílnum inn í minnsta og þrengsta bílastæðahús sem ég hef séð, þar voru eiginlega fleiri súlur/stöplar en bílastæði. Gekk að þessari móttöku sem mér fannst frekar lítil fyrir svona stórt sjúkrahús, enda var þetta sjúkrahótelið. Næturvörðurinn sagði að það væri í lagi að hafa bílinn þarna og vísaði mér veginn að aðalbyggingunni, labbar bara þarna inn á milli húsanna og þá ættir þú að finna skilti sem vísa veginn að aðalbyggingunni.

Á stað gekk ég í myrkrinu (ekkert verið að spandera í of mikla lýsingu þarna frekar en annars staðar) var búin að ganga í nokkra stund fram og til baka áður en ég fann skilti sem vísaði veginn að aðalbyggingunni. Kom að húsi þar sem var skilti fyrir ofan hurð og á skiltinu stóð aðalbygging. Mér fannst þetta frekar aumingjalegt eitthvað, engin móttaka fyrir innan dyrnar (sem voru læstar) en ég hringdi bjöllunni og vaktmaður svaraði í dyrasíman, ég náði rétt að segja ég er aðstandandi áður en hann ýtti á hnapp og dyrnar opnuðust. Ég gekk inn og fyrir framan mig var stigi, ég gekk upp hann og inn um dyr. Þá var ég stödd á miðjum gangi heila- og taugadeildarinnar, ég horfði aðeins í kringum mig og sá ekki hræðu, þannig að ég ákvað að gáfulegast væri bara að koma mér út. Fór sömu leið til baka en dyrnar út voru læstar og ég komst ekki út um þær.

Þá prófaði ég stigann niður. Endaði ofan í kjallara einhverjir leiðarvísar voru þar á veggjum svo ég hélt af stað, þeirri hugsun skaut upp að kannski yrði ég þarna að villast í marga klukkutíma og fyndi aldrei leiðina út. Þarna þvældist ég um ýmsa ranghala innan um sjúkrarúm og súrefniskúta og allskonar dót. Aldrei mætti ég einni einustu hræðu en ég átti alveg eins von á því að öryggisvörður mundi nú koma til þess að athuga hvað ég væri að veltast. Þegar mér var eiginlega hætt að standa á sama þá rambaði ég fyrir einhverja ótrúlega heppni á aðallyfturnar og komst aftur á Akút deildina eftir að hafa villst um sjúkrahússvæðið og kjallaran í klukkutíma.

Þegar hér var komið var búið að ákveða að heimasætan yrði flutt upp á deild og höfð þar til eftirlits, það var bara verið að bíða eftir móðurinni. Blóðprufurnar höfðu ekki sýnt neitt óeðlilegt en þau vildu hafa hana áfram og sjá hvernig málin þróuðust. Ég fylgdi dömunni upp á deild og fullvissaði mig um að hún yrði í góðum höndum, og mér var lofað að það yrði hringt í mig ef einhverjar breytingar yrðu á líðan hennar.

Þá var komið að því að koma sér út og finna bílinn minn aftur (á þessum tímapunkti var ég farin að sjá rúmið mitt í hyllingum enda klukkan að nálgast 4). Nú fór ég niður með lyftunni í móttökuna sem var risastór og þrjár útgönguleiðir um að velja. Rakst á öryggisvörð sem ég sagði hvar bílnum mínum væri lagt og spurði hvaða leið væri best að fara. Þegar ég kom út var ég stödd í risastóru bílastæðahúsi, nú var að finna leið út, sem ég fann fljótlega. Þegar ég kom út úr húsinu sá ég að ég var stödd við hliðina á húsinu sem ég hafði farið inn í fyrr um nóttina og talið að væri aðalbyggingin, greinilega gamli spítalinn. Ég fann bílinn minn fljótt og ætlaði nú aldeilis að drífa mig heim, þegar ég bakkaði út úr stæðinu var ég mjög upptekin af því að passa mig að bakka ekki á eina af þessum fáranlega mörgu súlum/stöplum sem þarna voru. Ég steingleymdi hins vegar súlunni sem var við hliðina á bílnum og skellti mér í smá súludans (mæli alls ekki með þannig dansi á bíl, og það er sennilega frekar ógáfulegt að keyra þegar athyglisgáfan er næstum sofnuð) hliðarspegillinn kom inn um rúðuna sem fór í mask og farþegahurðin beyglaðist. Þegar hér var komið sögu þá var skapið hjá frúnni orðið frekar tæpt og ég þó nokkur ljót orð fengu að fjúku út í algleymið.

Ég losaði bílinn af súlunni, steig út og skoðaði skemmdirnar, tróð speglingum sem dinglaði laus inn um brotnu rúðuna og ók af stað heim. Ég gerði mér grein fyrir því að þetta leit ekki vel út, það var eins og ég hefði brotist inn í bílinn og stolið honum, það hefði toppað ævintýri dagsins ef einhver árvökull vegfarandi hefði tilkynnt mig til lögreglunnar.

Mikið rosalega var ég fegin þegar ég var komin heim og gat skriðið upp í rúmið mitt.

Af sjúkrahúsdvöl dótturinnar er það að frétta að hún er komin heim, ennþá með botnlangan og virðist bara nokkuð frísk (sem betur fer).

Ég er ennþá hálf gáttuð á því hvað ég gat komist auðveldlega inn á spítalan (ekki um aðalinngang) án þess að gera almenninlega grein fyrir ferðum mínum, að ég tali nú ekki um að ég gat vafrað um kjallarann í lengri tíma óáreitt.

Ég á eftir að kanna hvað súludansinn muni kosta mig...........................

Á meðan á þessum ævintýrum stóð þá var mér ekki skemmt, en guð hvað ég er búin að hlæja mikið að þessum óförum mínum, verður sennilega fyndið þar til ég þarf að borga fyrir viðgerð á bílnum.

Ég get sem betur fer sagt svona í lokin að þetta er ekki alveg venjulegur dagur í mínu lífi, þó ég eigi það til að vera ótrúlega seinheppin ;)

Góðar stundir.