Thursday, May 16, 2013

Setti lækninn út af laginu, næstum því!

Jæja nú var komið að mér að setja lækninn út af laginu. Var búin að setja mér það markmið að láta hann ekki tala mig í kaf í dag blessaðan.

Fann það út eftir síðasta tíma að líklega hefði ég aldrei sagt honum almenninlega hvernig gengi. Hvað ég gerði nákvæmlega hjá sjúkraþjálfanum og hver árangurinn væri í raun og veru, þó helvítis vigtin segði eitthvað annað enda markmið mitt að losna við verkina eins og hægt var og ná upp orku til að koma mér í vinnu. Og hitt má koma á eftir, þ.e að létta mig og hætta að reykja, það er jú hluti af því að ná almenninlegri heilsu að takast á við það. En Róm var ekki byggð á einum degi.

Svo ég hlammaði mér niður í stólinn hjá honum bauð góðan dag og tilkynnti honum að þar sem ég hefði farið frá honum síðast með þá tilfinningu að honum finndist ég ekki gera nóg í mínum málum og þess vegna vildi ég að hann hlustaði á mig núna. Ég ætlaði að segja honum nákvæmlega hvað ég væri búin að gera og hvaða árangri ég væri búin að ná þó vigtin sigi ekki niður á við ennþá. Hann varð pínu hvumsa svo ég sagði að ég reiknaði ekki með því að hann hefði bara ætlað að vera leiðinlegur þetta væri partur af vinnunni hans en nú vildi ég bara fá að tjá mig almenninlega, því mér finndist ég bara búin að vera fjandi dugleg.

Að sjálfsögðu gat manngreyið ekki annað en hlustað á mig eftir þessa ræðu :) Og þegar ég sagði honum hvar nákvæmlega ég væri stödd í þjálfuninni og ferlinu þá varð hann nú bara hissa og ánægður með mig karlanginn.

Ég gerði hann nú samt ekki alveg kjaftstopp því hann sendi mig út með miða með nafni á bók um lágkolvetnafæði. Hann rétti mér miðann og sagði þú ÁTT að kaupa þessa bók!! Ætli sé ekki best að ég hlýði því þó ég sé ekki endilega mjög spennt fyrir því, en það er eflaust margt gott þar sem vert er að tileinka sér í betri matarvenjum.

Ég hlýðna stúlkan fór í bókabúðina og athugaði með bókina sem var ekki til. En ég lét panta hana fyrir mig.

Er ánægð með sjálfa mig, ég stóð með sjálfri mér. Og það er eitthvað svo gott að segja nákvæmlega frá því hvar ég er stödd í þjálfuninni, það gerir það eitthvað svo áþreifanlegt að ég er búin að gera góða hluti þar.

Góðar stundir

Wednesday, May 15, 2013

Girði mig í brók

Kvaddi sjúkraþjálfaran minn í morgunn. Síðasti tíminn hjá henni búinn og komið að því að ég haldi út í heiminn (lesist líkamsræktarstöðvar), girði mig í brók og standi á eigin fótum. Það verður erfiðara að halda sér við efnið þegar enginn stendur við hliðina á manni og hvetur mann áfram. En ég SKAL, GET og VIL. 

Ég fæ með mér nokkurs konar tilvísun frá sjúkraþjálfanum. Þar sem hún segir hvað ég er að fást við og hvert takmarkið er. Svo mér skilst að ég fái smá stuðning þarna í byrjun.

Tók mig til og mældi ummál hinna ýmsu líkamshluta ásamt því að stíga á minn erkióvin vigtina. Nú ætla ég að vera dugleg að fylgjast með sjálfri mér ;) 

Góðar stundir

Thursday, May 9, 2013

Minnistæður dagur fyrir 19 árum

9.maí 1994 er mér ákaflega minnistæður. Þann dag eignaðist ég bróðurson. Ég hef eignast 4 systkinabörn eftir það og þau eru öll með tölu kríli (sum ekki svo mikil kríli enn) sem mér þykir ákaflega vænt um og fæðingardagar þeirra allra eru minnisstæðir. Án þess að ég vilji gera upp á milli þeirra þá varð dagurinn fyrir 19 árum þegar hann Gísli Tjörvi fæddist mér alveg sérstaklega minnistæður. Líklega vegna þess að ég var stödd í sama húsi og hann fæddist í og fékk að sjá hann alveg splunkunýjan. Hér um bil jafn nýjan og börnin mín voru þegar ég leit þau augum í fyrsta sinn (vegna þess að ég þurfti alltaf að vera með smá vesen í mínum fæðingum en það er önnur saga). 

Drengurinn fæddist á fæðingarheimili Skjólgarðs á Höfn í Hornafirði. En fæðingarheimilið var í kjallaranum á hjúkrunarheimilinu sem var vinnustaður minn. Þegar ég mætti til vinnu þennan morgun þá vissi ég að það voru merkilegir hlutir að gerast í kjallaranum. Móðuramma Gísla Tjörva var líka í vinnu á sama stað þennan morgunn og ég hef það á tilfinningunni að það hafi ekki endilega verið svo mikið gagn af okkur tveim þennan morguninn. Spennan var mikil og ferðirnar í kjallaran,  til að kanna stöðu mála, ófáar.

Mér fannst ég heppin að geta gefið tilvonandi foreldrum faðmlag og sagt við þau hvetjandi orð áður en aðalátökin hæfust. Þetta var svoldið merkileg upplifun, að reyna að vinna vinnuna mína á meðan ég vissi af bróður mínum og mágkonu þarna í kjallaranum (nánast undir fótum mínum) að upplifa stærstu stund lífs síns. Ég hafði sjálf eignast mitt fyrsta barn 9 mánuðum áður og fæðingin gekk frekar brösulega, ekki síst fyrir stelpuskottið mitt (sem ég fékk ekki að halda á í fyrsta sinn fyrr en daginn eftir að hún kom í heiminn) svo kannski voru tilfinningarnar sem ég upplifði þarna miklu sterkari fyrir vikið. 

Ég var með fiðrildi í maganum, ég hafði svolitlar áhyggjur af gangi mála í kjallaranum, var allt í lagi, gekk allt vel. En mest var ég þó að fara á límingunum af spenningi og tilhlökkun. Það var erfitt að vera með hugan við vinnuna, vægast sagt. Ég hugsa stundum um það á þessum degi, hvað aumingja tilvonandi amman sem var að vinna með mér gekk í gegnum þennan morgunn fyrir 19 árum, hún hefur líklega verið töluvert stressaðri en ég yfir þessu og spenningurinn enn meiri.

Svo kom að því að við fengum að vita að drengur væri fæddur í kjallaranum. Ég held að ég hafi nú leyft ömmunni að kíkja á drenginn og nýbökuðu foreldrana fyrst ;) En allavega man ég að ég stóð í herbergi fyrir framan fæðingarstofuna spennt að fá að sjá hann, þegar nýbakaður faðirinn, litli bróðir minn sem ekki hafði náð 18 ára aldri, kom fram og við féllumst í faðma. Án allra orða fann ég fyrir spennufalli hans og léttinum í faðmlaginu og gleðinni og hamingjunni í tárunum sem trilluðu niður kinnar hans. Ég gat ekki heldur haldið aftur af tárunum, tilfinningarnar sem fylltu herbergið voru sterkar. 

Svo fékk ég að sjá litla fallega undrið sem lá í fangi nýbakaðrar móður. Hann var yndislegur, eins og við mátti búast. Það var svo dásamlegt að fá að upplifa það nákvæmlega svona að verða föðursystir. Fá að upplifa allar þessar sterku og dásamlegu tilfinningar sem tengjast fæðingu barns svona beint í æð. Fá að taka utan um nýbakaða foreldra í tilfinningarússíbananum. Ég kem líklega aldrei til með að gleyma þessum degi, man hann svo ótrúlega vel.

Innilega til hamingju með daginn Gísli Tjörvi, Bjössi og Hrafnhildur.

Við systkinin þrjú með barnahópinn okkar. Yndisleg öll þessi börn
og ákaflega vel heppnuð eintök hvert og eitt. 

Tuesday, May 7, 2013

Ráð frá mágkonu

Ákvað að fara eftir ráðum minnar góðu mágkonu Hrafnhildar og tala fallega við sjálfa mig. Svo ég settist niður og hugsaði um hvað ég væri búin að gera til að koma mér á réttan kjöl og ákvað að ég væri bara búin að vera ansi dugleg.

Svo hvað hef ég verið að gera. Jú ég er komin úr því að komast hreinlega ekki upp stigan heima hjá mér (þegar ég var sem "veikust") og í það að ganga 2-3 kílómetra 4-7 sinnum í viku og styrktarþjálfun 3 sinnum í viku!! Já og ég fer í vinnu sirka 2 daga í viku. Þetta er nú bara þó nokkuð til að vera stolt af og ánægð með. Ég er með yndislega unga konu sem sjúkraþjálfara og hún hefur hvatt mig og hjálpað mér mikið. Hún gerði fyrir mig prógramm með styrktaræfingum sem ég get líka gert heima, fer til hennar 1-2 sinnum í viku og en geri æfingarnar heima þess á milli til að þetta telji 3 skipti í viku.

Ég viðurkenni að ég hef ekki orku í mikið meira en þetta. Þannig að í augnablikinu fer lítið fyrir mömmunni, eiginkonunni og áhugamálaranum. Ég sé nú samt til þess að allir fái að borða ;)


Ég finn virkilega að styrktarþjálfunin skilar sínu og vöðvaverkirnir eru minni fyrir vikið. Það er hvatning til að gera æfingarnar og lýsir því kannski best að ég geri æfingarnar heima.

Að koma sér út í göngu hefur stundum verið fjáranum erfiðara, ekki akkúrat það sem manni langar að gera þegar maður finnur til í lærum, lendum, kálfum eða bara hreinlega undir ilinni. Stundum hefur hvert skref verið ansi erfitt. Þrjóskan, hundurinn og fallegt umhverfi hafa þó komið mér í gegnum þetta og ekki síst komið mér af stað. Því það er oft erfiðast að koma sér út um dyrnar.
En maður verður sko ekki svikinn af að ganga hér í
þessu fallega umhverfi. Það er sko bæði nærandi fyrir
sál og líkama. Það sem er best er að ég finn að þessar gönguferðir sem og styrktarþjálfunin eru hægt og sígandi að verða partur af rútínunni og ég er farin að upplifa þörfina fyrir nákvæmlega þetta, þá er allt á réttri leið held ég.

Held meira að segja að ég sé að verða tilbúin til að koma mér inn í líkamsræktarstöð og sjúkraþjálfinn ætlar að aðstoða mig með að útbúa prógramm fyrir mig með hliðsjón af styrktarþjálfun og því að léttast.
Svo jú ég er búin að vera helv.. dugleg. Þó svo tölurnar á vigtinni hafi ekki silast niður á við. Jafnvel þó ég komist ekki ennþá framhjá sælgætishillunum í búðinni án þess að freistast. Þó ég reyki rettu af áfergju eftir góðan göngutúr. Þetta kemur smátt og smátt með stuttum, hægum, ákveðnum skrefum, slatta af þrjósku og vilja til að ná heilsu og orku. Vilja til að eiga orku til að vera mamma, eiginkona, áhugamálari og bara ég sjálf. Vilja til að gera svo margt skemmtilegt.
Mesti stuðningurinn kemur frá mínum góða manni. Hann er kletturinn minn. Hann brosir bara þó að konan sé gjörsamlega orkulaus og eigi lítið til að gefa af sér, þó líf hennar snúist aðalega um það að koma sér út í göngutúr og mæta í vinnu. Hann hvetur mig áfram og síðast en ekki síst þá horfir hann þannig á mig að mér finnst ég æðisleg, og það er ekki svo lítið. Ég til mig lukkunnar pamfíl að hafa hann í lífi mínu.

Ég er bara búin að vera fjári dugleg og er ánægð með það.

Góðar stundir

Monday, May 6, 2013

Plan um að hafa plön

Ég hef þurft að hitta heimilislækninn minn alltof oft undanfarið. Svo oft að ég er næstum orðin leið á honum blessuðum. Hann er reyndar dálítið kómískur karakter svo ég get nú alltaf glott út í annað eftir að hafa verið hjá honum.

Málið er að ég er enn að vinna mig upp úr veikindunum/áfallinu/kastinu (eða hvað maður á að kalla þetta leiðinda ástand), er ennþá ekki farin að vinna mín 70%. Vinn c.a 40% og er á læknisvottorði hin 30%. Vegna þessa þarf ég að hitta lækninn reglulega, sem er vel, til þess að endurmeta stöðuna. En það felst vanalega í því að ég segi honum hvernig gengur í sjúkraþjálfun og vinnunni, já og bara hvernig gengur að takast á við hverdaginn. Ég vil nú reyna að fá fram hans mat á stöðunni líka, hvað hann telji að sé gott að gera í stöðunni og hvort ég eigi að prófa að vinna meira eða hvort það sé vitleysa. Hann hinsvegar hefur stuttan tíma til að ræða málin (15-20 mín á sjúkling) svo honum finnst ágætt (eða næstum því ágætt) að ég segi honum hvað ég haldi að ég geti í sambandi við vinnuna. Þjálfun er víst mikilvæg og nánast eina meðferðin við vefjagigt (ef ég er með vefjagigt) svo skilaboðin sem ég fæ frá sjúkraþjálfanum og lækninum eru þau að ég þarf að eiga orku afgangs fyrir þjálfunina (ég finn vel að þjálfunin er að gera mjög mikið fyrir mig). Svo doktornum finnst ágætt ef ég segi bara hvað mér finnst. Undanfarið hefur hann átt það til að skella á mig erfiðum spurningum svona rétt í lok tímans, spurningum sem setja mig pínu út af laginu stundum.

Núna síðast henti hann mér á vigtina, rétt í lok tímans og því er nú andskotans ver og miður að hún hafði ekki sigið niður á við um gramm síðan í janúar helvísk. Svo spurði hann hvaða plön hefur þú varðandi það að léttast. Ég hinn týpíski átfíkill, var næstum stokkinn á hann í þeim eina tilgangi að lúskra á honum allhressilega. Andskotinn var að manninum, mín einu plön undanfarið hafa verið að stunda þjálfunina hjá sjúkrþjálfanum og gera æfingarnar heima sem hún hefur kennt mér, ásamt því að fara í göngutúra (nánast á hverjum degi) og koma mér í það ástand að geta mætt í vinnu sómasamlega. Já, og vera mamma og eiginkona og allt það. Svo þó að ég viti að ég þarf að léttast um tugi kílóa (og hefði þurft þess fyrir löngu síðan) og að það mun bara bæta ástand mitt þá hef ég ekki akkúrat verið að hugsa um það nákvæmlega núna.

Í stað þess að segja nákvæmlega þetta við aumingja lækninn (sem ég veit að bara vill vel) þá muldraði ég ofan í bringuna á mér að ég vissi að ég þyrfti að gera eitthvað og ég vissi líka vel hvað.......Mér láðist hinsvegar að segja manninum að ég væri gasalega ánægð með sjálfa mig ef plön mín um að komast fram hjá nammihillunni í búðinni án þess að fylla körfuna af gotteríi (sem ég æti svo flýti áður en ég kæmi heim svo ég þyrfti ekki að gefa með mér) gengju eftir.

Týpísk ég að geta ekki staðið með sjálfri mér og sagt að ég væri bara það mikill fíkill að nákvæmlega núna væri nóg fyrir mig að takast á við það að koma þjálfun og hreyfingu inn í rútínuna mína og þegar það væri orðið sjálfsagt fyrir mig gæti ég tekist á við hitt. Nei, nei, muldraði bara ég veit, ég veit. Svo svona til að toppa daginn þá hélt hann áfram að vinna vinnuna sína og fór að ræða reykingar og hvaða plön ég hafði varðandi þær.....................Nei hættu nú alveg hugsaði ég og blótaði í huganum, þurfti hann nú endilega að vinna vinnuna sína extra vel í dag. Hann bauð mér aðstoð sína í að hætta en sagði í leiðinni þú verður að vera tilbúin og upplögð. Svo í staðinn fyrir að segja mig langar að verða frísk, léttast og hætta að reykja en ég bara get ekki tekist á við það allt í einu, því þá gefst ég upp og tekst ekkert af þessu. Þá sagði ég, má ég hugsa málið þar til við hittumst næst.....

Manngreyið var bara að vinna sína vinnu, nákvæmlega eins og hann á að gera (var einmitt búin að vera að velta því fyrir mér af hverju hann væri ekkert búinn að spurja út í reykingar). Ég strunsaði hinsvegar fúl út frá honum og vildi bara vera látin í friði með mína vankanta og lesti. Týpískur fíkill jamm,jamm.

Ég hef hugsað mikið og veit að ég get ekki tekist á við þetta allt á einu bretti. Ég þarf að byrja á einu í einu og ná nokkuð góðum tökum á því áður en ég helli mér í það næsta. Ég dauðskammast mín líka fyrir það að vera REYKJANDI HJÚKRUNARFRÆÐINGUR Í YFIRVIGT, það er eitthvað sem bara passar ekki.

Svo nú hef ég ákveðið að vera með plön um plön þegar ég mæti hjá honum næst.

Fyrsta mál á dagskrá er að koma þjálfuninni/hreyfingunni í góða rútínu, er á góðri leið með það. Er með æðislega sjúkraþjálfara sem hefur leiðbeint mér vel og núna þegar ég tel mig tilbúna að fara að þjálfa í líkamsræktarstöð þá hefur hún boðist til að fara með mér fyrsta daginn og koma mér af stað. Ætlar að leiðbeina mér með æfingarnar sem ég nota núna, þ.e búa til prógramm fyrir mig með það í huga að léttast líka ekki bara styrkjast.

Annað mál á dagskrá. Er sem sagt að takast á við mataræðið eða aðalega sykur og sætindafíkn. Mataræðið er í sjálfu sér ekki svo slæmt. Þarf aðeins að taka til í narti og þessari sykurfíkn. Og vonandi þegar þjálfun og það leggst saman að byrja að léttast.

Þriðja mál á dagskrá, þegar annað er komið nokkuð vel í gang (vonandi í haust) verður að þyggja aðstoðina frá mínum velviljaða heimilislækni (sem vinnur vinnuna sína) við að hætta að reykja.

Fjórða mál á dagskrá var eiginlega að verða hávaxin en sá fram á að það gæti orðið andsk.. erfitt og tímafrekt svo ég felli þau plön út af dagskrá.

Mér finnst þessi plön mín um að hafa plön bara hljóma nokkuð vel og þessi plön um plön líta sæmilega út á prenti. Svo var partur af plönunum að gaspra þessu út yfir alheim sem væri kannski ákveðið aðhald í að standa við plönuð plön.

Góðar stundir.
Bestu kveðjur frá reykjandi hjúkrunarfræðingi í yfirvigt, sem stefnir á að verða "bara" hjúkrunarfræðingur í fyllingu tímans.