Tuesday, May 7, 2013

Ráð frá mágkonu

Ákvað að fara eftir ráðum minnar góðu mágkonu Hrafnhildar og tala fallega við sjálfa mig. Svo ég settist niður og hugsaði um hvað ég væri búin að gera til að koma mér á réttan kjöl og ákvað að ég væri bara búin að vera ansi dugleg.

Svo hvað hef ég verið að gera. Jú ég er komin úr því að komast hreinlega ekki upp stigan heima hjá mér (þegar ég var sem "veikust") og í það að ganga 2-3 kílómetra 4-7 sinnum í viku og styrktarþjálfun 3 sinnum í viku!! Já og ég fer í vinnu sirka 2 daga í viku. Þetta er nú bara þó nokkuð til að vera stolt af og ánægð með. Ég er með yndislega unga konu sem sjúkraþjálfara og hún hefur hvatt mig og hjálpað mér mikið. Hún gerði fyrir mig prógramm með styrktaræfingum sem ég get líka gert heima, fer til hennar 1-2 sinnum í viku og en geri æfingarnar heima þess á milli til að þetta telji 3 skipti í viku.

Ég viðurkenni að ég hef ekki orku í mikið meira en þetta. Þannig að í augnablikinu fer lítið fyrir mömmunni, eiginkonunni og áhugamálaranum. Ég sé nú samt til þess að allir fái að borða ;)


Ég finn virkilega að styrktarþjálfunin skilar sínu og vöðvaverkirnir eru minni fyrir vikið. Það er hvatning til að gera æfingarnar og lýsir því kannski best að ég geri æfingarnar heima.

Að koma sér út í göngu hefur stundum verið fjáranum erfiðara, ekki akkúrat það sem manni langar að gera þegar maður finnur til í lærum, lendum, kálfum eða bara hreinlega undir ilinni. Stundum hefur hvert skref verið ansi erfitt. Þrjóskan, hundurinn og fallegt umhverfi hafa þó komið mér í gegnum þetta og ekki síst komið mér af stað. Því það er oft erfiðast að koma sér út um dyrnar.
En maður verður sko ekki svikinn af að ganga hér í
þessu fallega umhverfi. Það er sko bæði nærandi fyrir
sál og líkama. Það sem er best er að ég finn að þessar gönguferðir sem og styrktarþjálfunin eru hægt og sígandi að verða partur af rútínunni og ég er farin að upplifa þörfina fyrir nákvæmlega þetta, þá er allt á réttri leið held ég.

Held meira að segja að ég sé að verða tilbúin til að koma mér inn í líkamsræktarstöð og sjúkraþjálfinn ætlar að aðstoða mig með að útbúa prógramm fyrir mig með hliðsjón af styrktarþjálfun og því að léttast.




Svo jú ég er búin að vera helv.. dugleg. Þó svo tölurnar á vigtinni hafi ekki silast niður á við. Jafnvel þó ég komist ekki ennþá framhjá sælgætishillunum í búðinni án þess að freistast. Þó ég reyki rettu af áfergju eftir góðan göngutúr. Þetta kemur smátt og smátt með stuttum, hægum, ákveðnum skrefum, slatta af þrjósku og vilja til að ná heilsu og orku. Vilja til að eiga orku til að vera mamma, eiginkona, áhugamálari og bara ég sjálf. Vilja til að gera svo margt skemmtilegt.
Mesti stuðningurinn kemur frá mínum góða manni. Hann er kletturinn minn. Hann brosir bara þó að konan sé gjörsamlega orkulaus og eigi lítið til að gefa af sér, þó líf hennar snúist aðalega um það að koma sér út í göngutúr og mæta í vinnu. Hann hvetur mig áfram og síðast en ekki síst þá horfir hann þannig á mig að mér finnst ég æðisleg, og það er ekki svo lítið. Ég til mig lukkunnar pamfíl að hafa hann í lífi mínu.





Ég er bara búin að vera fjári dugleg og er ánægð með það.

Góðar stundir

1 comment:

Anonymous said...

Jæja mín kæra, þú hefur nóg á þinni könnu. Láttu þér ekki detta í huga að takast á við allt í einu. Það er ekki gott plan. Litlu skrefin stækka og svo fylgir hitt á eftir. Hann Nökkvi þinn er hér um bil bestastur....þekki nebblega annan góðan! Með hjartans kveðju í bæinn frá okkur Bróa.