Saturday, July 13, 2013

Smá svona.......

Langt síðan ég skrifaði hér síðast.....

Ég hef verið nokkuð dugleg í gönguferðum, ræktinni og tiltekt í mataræðinu (á samt ennþá erfitt með að standast sykursætar freistingar). Orkan mín er samt ekki ennþá komin í það form sem ég óska mér en, þetta potast. Finnst ég samt næstum þurfa fleiri daga í vikuna til að hvílast.....Hljómar einkennilega.. en ég virðist þurfa að hvíla mig fyrir vinnu, eftir vinnu, fyrir ræktina og eftir ræktina svo ef ég á að framkvæma allt sem ég óska mér á einni viku þá þarf ég fleiri hvíldardag í vikuna hehehe. En þetta smá potast, orkan er á uppleið ég finn það og ég virðist nokkurn vegin hafa stjórn á vöðvaverkjunum, finn aðeins fyrir þeim öðru hvoru en þá meira svona "þreytuverkir" ekki þessir slæmu verkir sem ég upplifði í byrjun árs.

Vigtin hefur sigið örlítið niður á við, í kjölfar aukinnar hreyfingar og smá tiltektar í mataræðinu. Ekki hefur hún þó sigið mikið en ég skrifa það á uppbyggingu vöðva ;) Ákvað að fylgjast með sentimetraminkunn líka í þetta sinn svona ef að vigtin væri treg (það er nefnilega svo niðurbrjótandi) og það hafa fokið nokkrir sentimetrar. Fannst ég samt ekkert hafa minnkað þannig lagað, þegar ég fór til að versla mér föt nú um daginn. Það kom mér því skemmtilega á óvart að ég hafði amk minnkað um eitt fatanúmer :)

Var næstum komin að því takmarki að vinna fulla prósentu í vinnunni og farin að gleðjast yfir því að sumarfríið mitt væri alveg að skella á, þegar það kom óvænt bakslag í reikninginn. Eins og einhverjir hafa lesið á fésbókinni þá vaknaði ég í gærmorgun með svona heiftarlega sinaskeiðabólgu í vinstri fæti. Ég átti erfitt með að stíga í fótinn og að reyna að hreyfa tærnar var hreint helvíti. Fékk tíma hjá lækninum mínum sem var fljótur að finna út hvað væri að plaga mig, sprautaði kortísóni í sinina og skipaði mér heim að hvíla mig (sjáið bara þarf fleiri hvíldardaga) og bannaði mér að fara í vinnu, svo "sumarfríið" mitt byrjaði alveg óvart viku fyrr, vinnuveitendum mínum til mikillar ó-gleði. Átti að vinna um helgina sem er virkileg krísuhelgi á vinnustaðnum þar sem gekk erfiðlega að manna vaktir og þurfti að fá inn óvant fólk frá afleysingarþjónustu. Svo ég fann ansi mikið til í samviskunni þegar ég tilkynnti ástand mitt, 600 mg íbúfen sló samt smá á samviskuverkinn en minna á sinaverkinn.

Í dag er staðan sú að ég finn minna til í fætinum og get stigið í hann án þess að kippast öll til af sársauka, hef góðan stuðning af hækju svona til vonar og vara, svo læknirinn virðist hafa hitt á réttan stað með sprautuna blessaður. Ef ekki þá þarf ég að fá aðra eftir 10 daga, en ég held í vonina um að þess þurfi ekki. Finnst verst að geta ekki sinnt gönguferðum og styrktarþjálfun í einhvern tíma, því ef ég kemst ekki reglulega í ræktina þá byrja vöðvaverkirnir að læðast að mér :(  Vona að ég þurfi ekki að halda mig frá því of lengi.

Ég hef upplifað það í þessum "veikindum" mínum að það er full vinna að byggja sig upp ef vel á að vera. Væri alveg til í smá lottóvinning, svona um það bil árslaun kannski. Þá tæki ég mér frí frá vinnunni og tæki mér ár í að "laga" mig. Einbeita mér að: styrktar- og þolþjálfun, taka mataræðið algjörlega í gegn, léttast heilan helling og hætta að reykja. Hver veit, kannski rætist óskin...................

Annars er allt gott að frétta af liðinu mínu. Unglingurinn lenti á Íslandi í gær og ætlar að dvelja þar ásamt vini sínum í 10 daga. Heimasætan er að vinna hjá pabba sínum, splæsir, saumar og festir korka eins og herforingi. Í lok næstu viku ætlar hún að skella sér til Englands með kærastanum og tengdaforeldrunum. Sá yngsti dundar sér hér heima og finnst fúlt að fá ekki að vaka allan sólarhringinn þar sem hann er í sumarfríi. Hann er búinn að eignast vin hér í hverfinu, einn sem er nýfluttur hingað og er ári eldri en hann. Þeir leika mikið saman svo það er frábært, verst að þeir eru báðir haldnir sömu tölvuveirunni.

Heimasætan og unglingurinn komust bæði inn í skólana "sína" næsta vetur. En hér er það ekki sjálfgefið að komast áfram 2.veturinn í sama framhaldsskóla, einkunnirnar skipta máli (ert sem betur fer öruggur áfram í sama skólan af 2.ári yfir á 3.ár). Svo þau og foreldrarnir eru alsæl. Unglingurinn heldur áfram á almennri braut og heimasætan fer úr öryggi innflytjendabekksins í venjulegan bekk. Hún valdi sér braut sem heitir Design og handverk, held að það komi til með að eiga vel við hana.

Njótið sumarsins og verið góð hvort við annað.

Ég get, vil og skal :)