Thursday, November 29, 2012

Það er nefnilega það

Mér hefur verið boðið í aðventukaffi til ungrar konu sem býr hér í litla hverfinu mínu. Hún fékk þá hugmynd að bjóða nokkrum konum í kaffi til sín, konum sem búa allar hér í litla hverfinu og eru aðeins málkunnugar. Henni fannst þetta sniðug leið til að kynnast aðeins betur. Ég hlakka til og finnst þetta ansi góð hugmynd hjá henni.

Ég og þessi unga kona vinnum á sama stað og höfum spjallað þó nokkuð í vinnunni. Ég veit að maðurinn hennar er ákaflega mikill áhugamaður um norræna goðafræði, víkinga og Ísland. Hún lærði gammel norsk eins og margir í skóla og þau lærðu m.a að syngja íslenskt lag. Nema hvað, að sjálfsögðu Á Sprengisandi, sem hún kallar ríðum, ríðum eins og margir íslendingar reyndar líka.

Þegar hún bauð í kaffið gerði hún það með því að stofna viðburð á fésbókinni. Þegar ég þáði boðið þá sagði hún í gamni að það væri við hæfi að ég kæmi með eitthvað íslenskt og við gætum sungið ríðum, ríðum. Ég skoðaði yfir hópinn sem boðið hafði verið og sá að þetta eru allt ungar konur, töluvert yngri en ég svo ég sagðist vera farin að hafa verulegar áhyggjur af því að ég væri gamla konan í Síldarvíkinni. Ef einhver spyrði hver er þessi Íris þá væri svarið æ, þessi gamla í Síldarvík.........

Hún sagði mér að hafa engar áhyggjur ég væri ekki þekkt sem gamla konan í Síldarvík heldur væri ég þekkt undir nafninu Ríðum,ríðum Íris..........

Þá fór ég fyrst að hafa áhyggjur..................................

Góðar stundir.

Monday, November 26, 2012

Þegar eggið kennir hænunni

Yngri sonurinn var að fara í afmæli og nennti ekki að skrifa sjálfur á kortið svo hann bað mig um það, sem ég og gerði. Þegar við vorum að keyra honum í veisluna var hann að handfjatla kortið og allt í einu gellur úr aftursætinu

"Mamma þér actually (hann slettir ensku barnið) tókst að skrifa þetta rétt!!"

Það var að sjálfsögðu ekki annað hægt en að springa úr hlátri :)

Hann er einstaklega duglegur og virkilega iðinn við að leiðrétta foreldra sína, þegar þeir skrifa, lesa eða tjá sig á norsku. Stundum er það pínlegt, oftast fyndið en það kemur líka fyrir að það sé pirrandi hehehe.

Pilturinn lærir að mestu svokallað bókmál í skólanum en það kemur fyrir að það slæðist einhver nýnorska með í lesmáli. Við hjónin, tölum að mestu bókmál en líklega þó einhverja blöndu af bókmáli, nýnorsku og stríl (sveitalúða málýska) annars hef ég ekki hugmynd um það ;) en ég hef þó fengið að heyra það öðru hvoru í vinnunni að það sé svo gaman að heyra mig tala nýnorsku, sem eru þá einhverjar setningar sem ég hef gripið á lofti og tileinkað mér.

Um daginn átti drengurinn að lesa heima. Þegar hann var búinn að lesa í smástund fyrir pabba sinn biður pabbi hans hann um að vanda sig og lesa betur, það skiljist nú bara ekki það sem hann sé að segja...það kom smáþögn og gott ef hann ranghvolfdi ekki augunum svo sagði hann "pabbi, þetta er nýnorska"..........................

Það er eiginlega bráðmerkilegt að fylgjast með því hvað tungumál liggja vel fyrir honum. Hann skiptir á milli íslensku, norsku og ensku eins og ekkert sé.
Kærasti heimasætunnar er að hálfu enskur, en fyrst þegar þeir hittust ræddi sá stutti við hann á norsku og það var ákaflega gaman að heyra hann tala áreynslulaust og án þess að þurfa að velta því fyrir sér hvað hann ætlaði að segja eða hvernig. Svo uppgötvaði stráksi að það var möguleiki að tala ensku við hann og þá notar hann tækifærið og talar eingöngu enskuna (með amerískum hreim og það miklum). Það gerir hann líka áreynslulaust og eins og hann hafi haft ensku sem annað tungumál frá fæðingu. Ótrúlegt að fylgjast með þessu.

Góðar stundir

Friday, November 23, 2012

Guð ber ábyrgð á mörgu

Yngri sonurinn sagði í einlægni frá því að hann hefði lent í smá útistöðum við bekkjarbróður í dag.

F: Ég lenti í smá slag við Ole i dag.

Í: Nú, hvað gerðist.

F: Hann skaut boltanum mínum að gamni sínu eitthvað lengst og þá varð ég svo reiður að ég sló hann. Þá  kom Benjamín og sagði að ég skildi sko passa mig því að Henrik væri sko sá eini sem hefði getað lamið Ole.

Í: Gerðist eitthvað meira, hvað gerði Ole.

Hann vildi greinilega ekki ræða það nánar.
F: Ég bað hann fyrirgefningar þegar frímínúturnar voru að verða búnar.

Í: Það var gott hjá þér að biðjast fyrirgefninga. En þú veist að maður lagar ekki neitt með því að lemja aðra og slást.

F (frekar hneykslaður): Mamma, hvað get ég að því gert þó að Guð láti mann verða svo reiðan að maður bara lemur. Það er sko Guð sem lætur mann gera svoleiðis.


Eins og oft áður varð móðirin kjaftstopp.

Góðar stundir.