Monday, September 26, 2011

Rollur frá Íslandi


Sjáið þið bara góssið sem ég fékk sent með þeim gamla (mínum ástkæra eiginmanni). Þökk sé þér Kristín Jóhannesdóttir, gotteríið kom skemmtilega á óvart og það fór um mig ólýsanlegur sæluhrollur þegar að ég fyllti túllan af Nóa Kroppi............ En nú er ekkert annað að gera í stöðunni en að setjast við prjónaskap, verst að um leið og ég hugsa um prjónaskrattana þá fæ ég vöðvabólgu, en ég segi henni stríð á hendur pfff.


Ég er að koma mér upp "myndavegg". Gengur ekkert voðalega hratt að kippa myndunum upp úr kassa og velja þær sem eiga að fara upp á vegg (það er svo erfitt að velja), en ég sé að ég þarf hugsanlega að bæta við svona myndahillum (þær eru snilld, fást í Ikea en ekki hvað). Og svo hef ég komist að því að það vantar almenninlega mynd af foreldrum mínum (á fermingarmynd af pabba) og tengdaforeldrum (á mynd af þeim mjög ungum). Svo ég mælist til þess að þau skelli sér í myndatöku og sendi mér eintak hið snarasta :)

Annars gengur lífið bara sinn vanagang hér á bæ, fyrir utan að það hefur rignt síðan heimasætan kom alveg sama hvað ég hef beðið hana (rigninguna ekki heimasætuna) um að hypja sig.

Við vorum að koma úr heimsókn frá heimilislækninum þurftum að láta hann útbúa tilvísun fyrir þann yngsta til BUP (barna og unglinga geðlæknir), en við erum búin að fá tíma á fimmtudaginn hjá þeim, sem heimilislækninum fannst merkilegt (svo við mætum bara með tilvísunina með okkur). Ég finn bæði fyrir kvíða og létti að vera að fara til BUP. Ég finn fyrir létti að vera að fá aðstoð fyrir drenginn okkar svo að hann geti tekist á við sitt svo það hamli honum ekki í daglegu lífi. Ég er líka kvíðin því mér finnst þetta einhvern veginn uppgjöf (veit samt að það er það ekki, ég er að reyna að gera það besta fyrir barnið), hrædd um að vera að setja á hann einhvern stimpil. Kvíði því að heyra hvað þau segja, en léttir að fá hjálp og leiðbeiningar. Æ, ég get ekki almenninlega lýst því hvaða tilfinningar bærast innra með mér varðandi þetta, hef samt ákveðið að ég ætla að taka á móti allri þeirri hjálp sem í boði er fegins hendi og full bjartsýni.

Heimasætan hefur verið í orlofi og safnað kröftum. Nú fer orlofsdögum hennar senn að ljúka og við að leggjast yfir atvinnuauglýsingar og skrá hana inn í atvinnumiðlanir, svo vonandi fær hún bara vinnu fljótlega.

Nú er komin tími á kaffibolla og smá Nóa kropp :) sendi ljúfar kveðjur til ykkar allra sem nennið að lesa og þið megið alveg skila kveðju til þeirra sem ekki nenna að lesa.

Thursday, September 15, 2011

Af stigvélum og fleiru


Splæsti á mig þessum dásemdarstigvélum. Ótrúlega sæt eitthvað. Þetta eru stigvél frá Ilse Jacobsen Hornbæk danskri kvinnu (http://www.ilsejacobsen.dk/). Ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum með Ilse Jacobsen búðina í Bergen. Hún framleiðir mjög fallegar regnkápur (og mig dreymdi náttúrulega um að fá mér regnkápu í stíl við stigvélin) en það var nánast ekkert úrval af þeim í búðinni.


Ég var ekki slæmum félagsskap í búðarrápinu því þessi unga kona kom með mér. Ég bauð henni upp á pizzu og henni fannst að við ættum að fá okkur stórt glas af gosi sem við og gerðum. Glösin sem við fengum voru næstum jafn stór og yngismærin, 800 ml glös takk fyrir. Pizzan smakkaðist vel en svona til gamans þá ætla ég að geta þess að hvorugri tókst að klára gosið sitt. Við skemmtum okkur bara vel við að skoða í búðir, máta skó og skoða mannlífið. Þegar við keyrðum heim seinnipartinn þá þakkaði ég enn og aftur fyrir það að hafa ekki tekið þá ákvörðun að vinna á sjúkrahúsi inn í Bergen, við lulluðum í langri bílaröð nánast alla leið út á Sotru. Var að keyra á c.a 10-15 km hraða svona á milli þess sem ég var stopp (við erum að tala um að hámarkshraðinn er 80 km á þessari leið). Þegar ég fer í mína vinnu á morgnana þá sé ég að ástandið er svipað snemma morguns nema þá er það umferðin frá Sotru til Bergen sem lullar í langri langri röð.

Að allt öðru, mig langar að segja frá því hvað ég er heppin með nýju vinnufélagana. Þær eru allar yndislegar þessar blessuðu konur sem ég er að vinna með og taka mér svo ákaflega vel. Þær eru eiginlega bara hver annarri yndislegri sem að vonum ég er alsæl með, gott að koma inn í svona vinalegt andrúmsloft. Þegar ein þeirra komst að því hvaða ferli ég væri að ganga í gegnum með Fáfnir Frey þá tók hún mig algjörlega upp á sína arma og sagðist eiga barn sem hún hefði þurft að fara með í gegnum kerfið. Hún lýsti ferlinu frá a-ö fyrir mér og ítrekaði svo að þegar allt væri komið í gegn að þá ætti ég rétt á ýmsu t.d umönnunarbótum, ég sagðist nú ekkert vera viss um að ég þyrfti að þiggja slíkt. En vinkonan sló hnefanum í borðið og sagði ekkert bull góða mín þú átt rétt á þessu og þiggur það, barnið er með ADHD og á t.d eftir að týna einhverju af fötunum sínum t.d. Svo sagði hún mér að þegar ég væri komin með alla pappíra í hendurnar þá skildu hún nú bara koma með mér og aðstoða mig við að sækja um þetta.

Hún er alveg frábær þessi kona, fyrst þegar ég hitti hana datt mér í hug þungarokkari (hárið minnir á Jon Bon Jovi). Hún er alltaf brosandi og gamla fólkið ljómar þegar það sér hana, samt er hún svona algjör töffari og orkubolti. Hennar aðaláhugamál er að veiða og þá erum við að tala um sjóstöng og hún fer beint af vakt út á sjó að veiða, við erum að tala um að hún er að veiða allt upp í tæplega 20 kg þorska á stöng :) Svo kemur hún oft með ferskan fisk með sér t.d á kvöldvaktina og gerir að honum og sprækustu íbúarnir fylgjast spenntir með og svo er gúmmulaðið eldað. Hún er búin að skipuleggja krabbaveislu á deildinni fljótlega og ég hlakka sko ekki lítið til, þá erum við ekki að tala um bara fyrir starfsfólkið heldur íbúana og jú það starfsfólk sem vill taka þátt, ég fæ alveg vatn í munninn við tilhugsunina.

Það er allt að þokast í rétta átt hjá Fáfni í skólanum. Það hefur liðið heil vika þar sem ekkert hefur verið hringt vegna einhverra vandræða :) Hann er alsæll með aðstoðarmanninn sem virðist hafa mjög gott lag á honum. Það er farin að laumast ein og ein lítil setning á norsku út úr honum svona alveg óvart. Aðstoðarmaðurinn hans segir okkur að Fáfnir skilji orðið ótrúlega mikið í norskunni. Aðstoðarmaðurinn kom hér í heimsókn um daginn, hann hafði lofað Fáfni því að hann ætlaði að koma og sjá uppáhaldstölvuleikinn hans. Mér varð nú að orði við hann að hann þyrfti nú að eiga frí líka ætti ekki að vera eyða sínum frítíma í okkur, en hann sagðist hafa lofað drengnum því að koma og það stæði hann við, fyrir utan að það væri gott að vita um hvað hann væri alltaf að tala ;) Svo væri líka bara gott að koma og hitta okkur aðeins og spjalla. Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þeim félögunum þar sem þeir sátu við eldhúsborðið og töluðu um leikinn, Fáfnir talaði á ensku (ótrúlegt að hlusta á það, hann hljómar eins og innfæddur ameríkani með hreim og öllu saman og orðaforðinn váá) og aðstoðarmaðurinn talaði norsku. Þeir virtust bara skilja hvorn annan nokkuð vel :) Aðstoðarmaðurinn tjáði okkur að þetta gengi alltaf betur og betur í skólanum. Árekstrum við hin börnin fækkaði, hann væri reyndar til staðar til að grípa inn í og leiðrétta misskilning, og að Fáfnir færi líka eftir þeim reglum sem hann setti og þegar vel gengi þá gerðu þeir eitthvað skemmtilegt. Hann sagði okkur líka að þeir væru þrír sem léku sér mikið saman í frímínútum allir úr innflytjendabekknum, Fáfnir, einn pólskur drengur og sá þriðji frá Tælandi. Enginn þeirra talar norsku og hinir tveir ekki ensku en þeim kæmi vel saman og allt gengi vel :)

Darri er núna á fyrstu körfuboltaæfingunni hér, verður spennandi að vita hvernig hann fílar það. Svo erum við að fara að leggja höfuðið í bleyti með Yrsu og reyna að finna einhverja vinnu fyrir hana, hún er búin að hafa það náðugt í næstum tvær vikur og það er nú alveg nóg :) Hún er spennt fyrir að athuga hvort einhverja vinnu sé að fá á leikskólunum hér í kring.

Jæja þetta er nú búinn að vera hinn sæmilegasti pistill held ég bara og komið mál að linni.
Kveð í bili og sendi knús í allar áttir.

Monday, September 5, 2011

Plukkfisk og matpakker

Mér finnst ákaflega skemmtilegt þegar það dúkkar upp eitthvað kunnuglegt hér og stundum kemur það skemmtilega á óvart. Ég verð samt að segja að mér finnst frekar leiðinlegt að hér hefur verið  lárétt rigning undanfarna daga, jafnvel þó hún sé kunnugleg.

Orðatiltæki og orð sem eru lík því sem við notum á íslensku finnst mér afskaplega gaman að heyra, þó svo að orðatiltækin séu í sjálfu sér ekkert séríslensk og kannski ekkert eðlilegra en að þau séu notuð á öðrum tungumálum, þá færist ósjálfrátt bros yfir andlitið og hugsunin já þetta get ég notað hér verður til. Það má nefna í þessu samhengi *léttara sagt en gert/ det er lettere sagt enn gjort* og að eitthvað sé svo dýrt *að það kosti hvítuna úr augunum/man ekki í augnablikinu hvernig það var orðað á norsku ( eitthvað á þessa leið samt betaler hviden ut av øynene)*. Svo má ekki gleyma hinu sívinsæla akkúrat/akkurat. Það eru reyndar alveg ótrúlega mörg orð lík en reyndar snýst merkingin stundum við þannig að ég hef lent í því að spurja hvort viðkomandi ætti að liggja undir rúminu (sengen) hahaha, það var mikið hlegið ég fattaði að sjálfsögðu mistökin um leið og ég hafði sleppt orðinu en svipurinn sem kom á samstarfskonu mína var óborganlegur. Það kemur oft fyrir að þegar mig vantar orð og fer í kringum það til að gera mig skiljanlega þá kemur í ljós að ég hefði bara átt að nota íslenska orðið ;) T.d þurfti ég að tjá mig um það í gær að einhver gnísti svo svakalega tönnum og mig vantaði sárlega orð yfir að gnísta, það kom svo í ljós að orðið sem mig vantaði var gnister. Norðmenn eru líka með mjög mörg tökuorð úr ensku, þ.e þau eru næstum eins og enska orðið bara örlítið búið að fella þau að norskunni.

Mér fannst líka vinalegt að sjá plukkfisk á matseðlinum í vinnunni í gær. Og hann bragðaðist eins og plokkfiskurinn heima, ég mátti til að smakka.

Tungumálin eru keimlík að mörgu leiti sem er bara þægilegt, og svo er það náttúrulega gamla góða danskan sem blandast oft inn í þegar ég er að tjá mig. En hún hjálpar svo sannarlega það er ekki hægt að segja annað. Það er framburðurinn sem vill snúast fyrir manni stundum. Ég hef verið spurð að því hvort ég sé dani (sem er líklega ekki skrítið þar sem ég sletti dönsku hægri, vinstri) og svo hefur Finnland nokkrum sinnum borið á góma. Nokkrar vilja meina að ég tali ekki norsku eins og íslendingur (kannski ég sé svona mikill finni í mér) enda hefur enginn giskað á að ég væri frá Íslandi. Svo er líka alltaf gaman að sjá hvernig fólk bregst við þegar það veit að ég flutti til Noregs í júlí, það spyr venjulega hvar ég hafi lært norsku ég geti ekki hafa lært það sem ég kann á tveimur mánuðum.

Ég þarf að játa að mér leiðast hinsvegar matpakker/nesti alveg óskaplega mikið. Hér eru útbúnir 5 matpakker þegar allir skulu mæta í skóla eða vinnu. Fáfnir Freyr þarf að fá með sér tvo nestispakka (og barnið borðar ekki neitt svo það er eilífur hausverkur) og svo er það einn á mann á restina af liðinu.

Það er tilhlökkun hjá öllum í dag yfir því að heimasætan mun mæta á svæðið. Þá verður fjölskyldan loksins öll saman á ný.

Bestu kveðjur yfir hafið og ég bið að heilsa öllum.

Thursday, September 1, 2011

Aðstoðarmaður

Þá hefur Fáfnir Freyr fengið sérlegan aðstoðarmann. Hann byrjaði í dag og mun vera honum innan handar í skólanum og á skóladagheimilinu. Hann mun eitthvað fylgja hinum börnunum líka þegar þau fara að fara inn í sína aðalbekki. Þetta er eldri maður mjög hress (allavega þegar við hittum hann í dag), vanur að vinna með börnum með sérstakar þarfir og hefur tekið eitthvað nám tengt því. Þeir smullu saman félagarnir og vona ég bara að það verði þannig áfram.

Aðstoðarmaðurinn kom svo með okkur í heimsókn á skóladagheimilið eftir skóla í dag og Fáfni leist ekkert mjög illa á sig (krossa fingur) og ætlar að fara þangað fyrir skóla á morgun þar sem aðstoðarmaðurinn tekur á móti honum. Nökkvi byrjar alltaf að vinna kl 7 og þegar ég er á morgunvakt þá byrja ég 7 eða hálf 8 en skólinn byrjar ekki fyrr en korter í 9 svo þetta er þjónusta sem við verðum að nýta okkur svo ég vona að þetta eigi eftir að ganga smurt.

Kennarar Fáfnis halda að norskan eigi eftir að koma fljótt hjá honum þar sem hann man orðin sem þau læra mjög vel og skilur slatta af því sem sagt er. Hann vill hins vegar ekkert ræða hér heima hvaða norsku orð hann hefur verið að læra hvern og einn dag. Hann er líka farinn að fara á bókasafnið í skólanum og fá lánaðan norskan Andrés Önd til að lesa svo þetta kemur allt hægt og sígandi. Sem betur fer talar aðstoðarmaðurinn ekki mikla ensku svo Fáfnir kemst ekki upp með að tala eingöngu ensku við hann, þarf allavega að hlusta á hann tala norsku :) Þeir deila líka áhugamáli sem er Andrés Önd sem er gott mál :)

Darri er í þessum skrifuðu orðum á golfmóti fyrir byrjendur, ég treysti mér ekki með þar sem ég er ekki búin að fara og prófa aðalvöllinn en það stendur allt til bóta.

Styttist óðum í að heimasætan komi til okkar, en það verður á þriðjudaginn og við teljum niður klukkustundirnar.

Á morgun verður jarðarför Jóhönnu mömmu hennar Unnar vinkonu minnar. Mér finnst það hálf skrítin tilhugsun að verða ekki þar og er búin að eiga í smá innri baráttu út af því. Mig langar svo mikið að vera þar og veita styrk en ég verð hjá þeim í huganum. Við vinkonurnar erum búnar að eiga góð kaffispjöll og núna bara síðast í morgun og hún veit að ég vildi ekkert frekar en að vera hjá henni.

Það er enn einu sinni að koma helgi, tíminn flýgur áfram eins og venjulega. Hér er ennþá hlýtt fór upp í 28 stig á svölunum hjá mér í gær og 25 stig í dag, mér finnst það bara notalegt. Ég er samt sem áður farin að hlakka til að sjá haustlitina hér í skóginum held að það verði ótrúlega fallegt.

Njótið helgarinnar, það ætla ég að gera.

Fáfnir Freyr og Tína vinkona hans
Í hjólhýsbyggð í Harðangursfirði
Fáfnir Freyr og Nökkvi fóru í gönguferð og sáu svona fallegan regnboga