Monday, September 5, 2011

Plukkfisk og matpakker

Mér finnst ákaflega skemmtilegt þegar það dúkkar upp eitthvað kunnuglegt hér og stundum kemur það skemmtilega á óvart. Ég verð samt að segja að mér finnst frekar leiðinlegt að hér hefur verið  lárétt rigning undanfarna daga, jafnvel þó hún sé kunnugleg.

Orðatiltæki og orð sem eru lík því sem við notum á íslensku finnst mér afskaplega gaman að heyra, þó svo að orðatiltækin séu í sjálfu sér ekkert séríslensk og kannski ekkert eðlilegra en að þau séu notuð á öðrum tungumálum, þá færist ósjálfrátt bros yfir andlitið og hugsunin já þetta get ég notað hér verður til. Það má nefna í þessu samhengi *léttara sagt en gert/ det er lettere sagt enn gjort* og að eitthvað sé svo dýrt *að það kosti hvítuna úr augunum/man ekki í augnablikinu hvernig það var orðað á norsku ( eitthvað á þessa leið samt betaler hviden ut av øynene)*. Svo má ekki gleyma hinu sívinsæla akkúrat/akkurat. Það eru reyndar alveg ótrúlega mörg orð lík en reyndar snýst merkingin stundum við þannig að ég hef lent í því að spurja hvort viðkomandi ætti að liggja undir rúminu (sengen) hahaha, það var mikið hlegið ég fattaði að sjálfsögðu mistökin um leið og ég hafði sleppt orðinu en svipurinn sem kom á samstarfskonu mína var óborganlegur. Það kemur oft fyrir að þegar mig vantar orð og fer í kringum það til að gera mig skiljanlega þá kemur í ljós að ég hefði bara átt að nota íslenska orðið ;) T.d þurfti ég að tjá mig um það í gær að einhver gnísti svo svakalega tönnum og mig vantaði sárlega orð yfir að gnísta, það kom svo í ljós að orðið sem mig vantaði var gnister. Norðmenn eru líka með mjög mörg tökuorð úr ensku, þ.e þau eru næstum eins og enska orðið bara örlítið búið að fella þau að norskunni.

Mér fannst líka vinalegt að sjá plukkfisk á matseðlinum í vinnunni í gær. Og hann bragðaðist eins og plokkfiskurinn heima, ég mátti til að smakka.

Tungumálin eru keimlík að mörgu leiti sem er bara þægilegt, og svo er það náttúrulega gamla góða danskan sem blandast oft inn í þegar ég er að tjá mig. En hún hjálpar svo sannarlega það er ekki hægt að segja annað. Það er framburðurinn sem vill snúast fyrir manni stundum. Ég hef verið spurð að því hvort ég sé dani (sem er líklega ekki skrítið þar sem ég sletti dönsku hægri, vinstri) og svo hefur Finnland nokkrum sinnum borið á góma. Nokkrar vilja meina að ég tali ekki norsku eins og íslendingur (kannski ég sé svona mikill finni í mér) enda hefur enginn giskað á að ég væri frá Íslandi. Svo er líka alltaf gaman að sjá hvernig fólk bregst við þegar það veit að ég flutti til Noregs í júlí, það spyr venjulega hvar ég hafi lært norsku ég geti ekki hafa lært það sem ég kann á tveimur mánuðum.

Ég þarf að játa að mér leiðast hinsvegar matpakker/nesti alveg óskaplega mikið. Hér eru útbúnir 5 matpakker þegar allir skulu mæta í skóla eða vinnu. Fáfnir Freyr þarf að fá með sér tvo nestispakka (og barnið borðar ekki neitt svo það er eilífur hausverkur) og svo er það einn á mann á restina af liðinu.

Það er tilhlökkun hjá öllum í dag yfir því að heimasætan mun mæta á svæðið. Þá verður fjölskyldan loksins öll saman á ný.

Bestu kveðjur yfir hafið og ég bið að heilsa öllum.

2 comments:

Egga-la said...

Eitt ráð. Learn to love.... matpakkagerð. Á ekkert eftir að minnka. Norðmenn ELSKA matpakkana sína.(Er voða glöð yfir að vinna á stað með kaffihúsi og kantinu!)

Anonymous said...

Gaman að heyra að þið plumið ykkur vel, því svona breytingar eru ekki auðveldar. Kærust í kotið frá okkur Bróa