Thursday, September 1, 2011

Aðstoðarmaður

Þá hefur Fáfnir Freyr fengið sérlegan aðstoðarmann. Hann byrjaði í dag og mun vera honum innan handar í skólanum og á skóladagheimilinu. Hann mun eitthvað fylgja hinum börnunum líka þegar þau fara að fara inn í sína aðalbekki. Þetta er eldri maður mjög hress (allavega þegar við hittum hann í dag), vanur að vinna með börnum með sérstakar þarfir og hefur tekið eitthvað nám tengt því. Þeir smullu saman félagarnir og vona ég bara að það verði þannig áfram.

Aðstoðarmaðurinn kom svo með okkur í heimsókn á skóladagheimilið eftir skóla í dag og Fáfni leist ekkert mjög illa á sig (krossa fingur) og ætlar að fara þangað fyrir skóla á morgun þar sem aðstoðarmaðurinn tekur á móti honum. Nökkvi byrjar alltaf að vinna kl 7 og þegar ég er á morgunvakt þá byrja ég 7 eða hálf 8 en skólinn byrjar ekki fyrr en korter í 9 svo þetta er þjónusta sem við verðum að nýta okkur svo ég vona að þetta eigi eftir að ganga smurt.

Kennarar Fáfnis halda að norskan eigi eftir að koma fljótt hjá honum þar sem hann man orðin sem þau læra mjög vel og skilur slatta af því sem sagt er. Hann vill hins vegar ekkert ræða hér heima hvaða norsku orð hann hefur verið að læra hvern og einn dag. Hann er líka farinn að fara á bókasafnið í skólanum og fá lánaðan norskan Andrés Önd til að lesa svo þetta kemur allt hægt og sígandi. Sem betur fer talar aðstoðarmaðurinn ekki mikla ensku svo Fáfnir kemst ekki upp með að tala eingöngu ensku við hann, þarf allavega að hlusta á hann tala norsku :) Þeir deila líka áhugamáli sem er Andrés Önd sem er gott mál :)

Darri er í þessum skrifuðu orðum á golfmóti fyrir byrjendur, ég treysti mér ekki með þar sem ég er ekki búin að fara og prófa aðalvöllinn en það stendur allt til bóta.

Styttist óðum í að heimasætan komi til okkar, en það verður á þriðjudaginn og við teljum niður klukkustundirnar.

Á morgun verður jarðarför Jóhönnu mömmu hennar Unnar vinkonu minnar. Mér finnst það hálf skrítin tilhugsun að verða ekki þar og er búin að eiga í smá innri baráttu út af því. Mig langar svo mikið að vera þar og veita styrk en ég verð hjá þeim í huganum. Við vinkonurnar erum búnar að eiga góð kaffispjöll og núna bara síðast í morgun og hún veit að ég vildi ekkert frekar en að vera hjá henni.

Það er enn einu sinni að koma helgi, tíminn flýgur áfram eins og venjulega. Hér er ennþá hlýtt fór upp í 28 stig á svölunum hjá mér í gær og 25 stig í dag, mér finnst það bara notalegt. Ég er samt sem áður farin að hlakka til að sjá haustlitina hér í skóginum held að það verði ótrúlega fallegt.

Njótið helgarinnar, það ætla ég að gera.

Fáfnir Freyr og Tína vinkona hans
Í hjólhýsbyggð í Harðangursfirði
Fáfnir Freyr og Nökkvi fóru í gönguferð og sáu svona fallegan regnboga

4 comments:

Anonymous said...

Kvitt, kvitt gæskan mín. Gaman að lesa fréttirnar eins og alltaf :) Kær kveðja

Anonymous said...

Elsku Íris,
Gott að heyra að allt gengur vel. Risa knús og koss og allt til ykkar allra :)
kv
Kolla

Anonymous said...

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt Íris, þú ert góður penni! Og gott að allt gengur vel hjá ykkur....Fáfnir verður farinn að tala norsku áður en þið snúið ykkur við!
kveðja Alla Fanney

Anonymous said...

Hæ hæ, stráksi verður búin að slá ykkur við í norskunni áður en þið vitið af..Kveðja til ykkar allra Sæa.