Friday, December 30, 2011

Enn eitt árið að kveðja............

Er ekki við hæfi að líta yfir árið svona þegar því er rétt að ljúka

Fyrir það fyrsta þá finnst mér eins og 2011 hafi verið alveg einstaklega lengi að líða, allavega fyrrihluti þess. Kannski það hafi verið af því að ég gegndi mörgum hlutverkum fyrri hluta ársins. Ég var móðir og eiginlega faðir líka, námsmey í fullu námi sem þurfti að bregða sér af bæ endrum og eins til að stunda verknám í höfuðstaðnum og í höfuðstað norðurlands, ásamt því að sinna lokaritgerðarskrifum svo var frúin líka í c.a 40% vinnu sem hjúkrunarfræðingur og svo voru líka fyrirhugaðir flutningar okkar til annars lands ofarlega í huga. Mitt í þessu öllu þá átti yngsta barnið mitt erfitt í skólanum og á fleiri vígstöðvum og kom í ljós á vordögum að guttinn var með ADHD (athyglisbrest með ofvirkni). Tveimur tímum áður en ég fór í viðtal til að fá niðurstöður greiningar hans þá fékk ég að vita að móðuramma mín hefði látist þá um nóttina eftir stutt en erfið veikindi, sálfræðingurinn sem var með skilaviðtalið fékk dágóðan skammt af gráti blessaður.

Fyrri part ársins þá vissi ég nú bara stundum hreinlega ekki hvort ég var að koma eða fara, ég get svo svarið það. Ef ekki væri fyrir yndislega móður og tengdamóður þá hefði ég nú sennilega sprungið á limminu í miðju kafi, þær hjálpuðu mér mjög mikið og tengdamóðir mín elskuleg flutti nú bara til mín og sá um börn og buru á síðustu metrum lokaritgerðarskrifa. Og þessi elska dundaði sér við að pakka fullt af dóti niður í kassa fyrir mig í þokkabót.

Ég komst að því að mér finnst fjarbúð alveg afskaplega leiðinlegt fyrirbæri og það var eitt og annað sem kom upp á sem mér fannst ömurlegt að standa í ein. Ég komst líka að því að ég er sko miklu sterkari en ég hélt og ég skil bara hreinlega ekki enn af hverju ég gafst stundum ekki bara upp á öllu saman.

Að skila af sér lokaritgerðinni var ákaflega ljúf tilfinning, því fylgdi mikil gleði og ekki síst léttir. Fáfnir Freyr spurði mig hvort ég færi þá aldrei aftur í skóla, ég gat nú eiginlega ekki svarað honum 100% um það nema að það yrði að minnsta kosti ekki í bráð. Ég fór ekki í útskriftina mína (sé pínu eftir því) en ég átti bara ekki orku í það, var að vesenast með Darra hjá tanna í Reykjavík og fór vestur í jarðaförina hennar ömmu rétt fyrir útskrift. En að fá einkunnablaðið í hendurnar og pappíra um að nú væri ég útskrifuð sem hjúkrunarfræðingur með fyrstu einkunn var frábært, þetta gat ég þó það kostaði blóð, svita og tár. Námið var samt lang oftast skemmtilegt og ég kynntist líka frábærum konum í náminu og eignaðist nýja vini.

Svo var pakkað í flýti, húsið hreinsað hátt og lágt og afhent nýjum eigendum. Nökkvi flaug út á undan okkur og við reyndum að hafa gaman á afskaplega votri Humarhátið. Gott að vera í dekri hjá mömmu og pabba þessa síðustu daga á Íslandi. Út flugum svo við strákarnir þann 5 júlí og Yrsa kom svo til okkar tveimur mánuðum síðar.

Tíminn eftir að við fluttum hefur liðið hratt, enda nóg að gera og nóg að meðtaka. Allt hefur gengið frábærlega vel, eiginlega lyginni líkast. Við höfum upplifað svo margt jákvætt sem fjölskylda síðan við fluttum og líklega hefur það hjálpað til við aðlögunina. Það hefur komið mér mest á óvart að söknuðurinn eftir fjölskyldu og vinum er ekki óbærilegur eins og ég hræddist. Hann er til staðar en öðruvísi en ég hélt. Við höfum kynnst góðu fólki og ekki síst hvort öðru upp á nýtt.

Ég get sagt það nú að ég hræddist þessar miklu breytingar á högum okkar, og eiginlega hræddist ég þær mjög mikið. Ég er nefnilega vanaföst og það mjög, hef varla geta breytt heima hjá mér hvað þá meira og þarf alltaf að vita hvað gerist næst ;) Eiginlega þá var ég þess fullviss að ég mundi alltaf búa á Hornafirði og það stóð ekkert annað til. Svo ég hef nú komið sjálfri mér heldur betur á óvart með þessum flutningum ;) þetta er eitthvað svo ekki ég.

Hvað hefur svo þetta ár kennt mér?
- Fjarbúð er ekki fyrir mig, við hjónin fúnkerum betur saman en sundur.
- Ég er fjandanum sterkari.
- Ég get það sem ég ætla mér
- Breytingar eru bara alls ekki hættulegar og geta svo sannarlega getið af sér margt gott.
- Að brjóta upp vanan er ekki svo galið.

Kæru vinir ég óska ykkur gæfu, gleði og góðrar heilsu á nýju ári. Ég þakka kærlega fyrir frábæran vinskap og minningasköpun á liðnum árum.

Friday, December 23, 2011

Þorláksmessu-notalegheit

Sælt veri fólkið. Við tökum það ákaflega rólega á Þorláksmessu, yngsta barnið svaf til kl 10:30 takk fyrir. Móðurinni stóð ekki orðið á sama og var búin að athuga hvort drengurinn drægi andann. Jólin eru komin í hjartað og allt hér um bil löngu tilbúið svo við höfum það bara huggulegt í dag, jólatónlist fyllir húsið, hangikjötið kom loksins í morgun svo það verður hægt að búa til ekta jólalykt í kvöld :) Það á bara eftir að skipta á rúmum, setja upp jólatréð og skjótast smá í búð (nenni því nú samt eiginlega ekki).

Við tókum forskot á sæluna og borðuðum skötu í gærkvöldi ásamt tvennum vinahjónum og hundi. Hundurinn fékk reyndar ekki skötu en fékk að smá Royal búðing :) Áttum virkilega ánægjulega kvöldstund og þegar ég fór í bólið mátti ég minna sjálfa mig á að það væri ekki aðfangadagur daginn eftir, því jólastemmningin var komin yfir frúnna. Við erum vön að borða skötu hjá mömmu og pabba á Þorlák og það hefur venjulega verið upphafið að jólunum hjá okkur. Við gleymdum alveg að taka myndir af gúmmilaðinu og fólkinu. Það var bara tekin mynd af húsmóðurinni yfir pottunum og af borðinu :)
Skatan bragðaðist dásamlega, vantaði reyndar mömmurúgbrauð eða Hornafjarðarrúgbrauð með, og annað sem var á borðum bragðaðist líka dásamlega og allir borðuðu á sig gat.
Skötulyktin var til umræðu hér á heimilinu deginum áður, hvort allt myndi ekki anga eftir eldun þessa eðalgóðgætis, sérstaklega ef við fengjum ekki hangikjötið í tæka tíð, hvort það yrði þá skötulykt hér á jólunum. Sú hugmynd kom upp að banka upp á hjá nágrönnunum og segja að eldavélin væri biluð hjá okkur og spurja hvort við mættum sjóða fisk hjá þeim hehehehe. Við létum nú ekki verða af þessu enda treysti ég því ekki að við yrðum heil á eftir ;) Hins vegar lögðum við viskastykki vætt í ediki yfir pottinn og það snarvirkar.

Ég væri að ljúga ef ég segði að hugurinn hvarflaði ekki heim í fjörðinn fagra á þessum tíma. Það hefur samt verið minna um það að ég væri með kökkinn í hálsinum og tár á hvörmun en ég reiknaði með. Það hefur verið einn dagur (enn sem komið er) sem var sérlega erfiður og það helltist yfir mig þvílík viðkvæmni að meira að segja norsk jólalög sem ég hafði aldrei heyrt kölluðu fram tár. Mér fannst nú samt gott að finna þessa viðkvæmni því ég var farin að halda að ég væri ónæm. Það er líka gott að hugsa til fjölskyldunnar og vinanna, skoða myndir og láta hugan reika yfir góðar minningar.

Ég er ákaflega þakklát fyrir að eiga frí frá vinnu um jólin, það hefði nú eiginlega verið alveg ferlegt að halda jól á nýjum stað og vera svo að vinna í þokkabót. Ég fer að vinna á annan í jólum og vinn nokkra daga á milli hátíða. Á svo morgunvaktir bæði á gamlársdag og nýársdag.Hér er rúmlega 7 stiga hiti í dag og smá rigningarúði. Ég græt það svo sem ekki að vera án snjósins. Mér finnst hann eiginlega frekar leiðinlegur, sérstaklega hér í öllum brekkubeygjunum upp í fjalli :) Það mætti samt alveg koma smá föl rétt fyrir klukkan 6 á aðfangadag er alltaf aðeins jólalegra að hafa hvíta jörð. Annars erum við ákveðin í því að eiga notaleg og ánægjuleg jól, þó svo það vanti snjó (erum nú alveg vön því) og ákveðnar hefðir sem hafa tilheyrt jólunum fram að þessu.Kæru vinir og ættingjar nær og fjær!
Ég óska ykkur öllum gleði og friðar á jólum og farsældar og hamingju á nýju ári. Þakka góða vináttu, samveru og minningasköpun á liðnum árum.

Sunday, December 4, 2011

Jólin, jólin, jólin koma brátt.

Ég var búin að ákveða að þetta blogg yrði myndablogg. En ég hef ekki tekið neinar myndir svo kannski næsta blogg verði myndablogg.

Hér svífur andi jólanna yfir vötnum. Ég held að við hugsum öll heim til fjölskyldu og vina á einn eða annan máta núna á aðventunni. Yngri drengurinn uppgötvaði um daginn að norski jólasveinninn á ekki 12 bræður, og hann er ekkert fyrir það að veltast um byggðir landsins löngu fyrir jól til að setja smotterí í skó norskra barna. Honum var bent á að íslensku jólasveinarnir væru svo fjölhæfir og kraftmiklir að kannski leggðu þeir leið sína um allan heim og færðu íslenskum börnum eitthvað í skóinn, hann róaðist nú aðeins við það (held samt að hann sé næstum því hættur að trúa á þann skeggjaða).

Eldri börnin tala mest um að nú verði engin purusteik hjá ömmu og afa á jóladag, og þeirra helstu áhyggjur eru að móður þeirra takist ekki að láta puruna lukkast :) eru mikið búin að spurja hvort ég ætli ekki að æfa mig neitt í að elda purusteik. Ég hef ekki hugsað mér að taka neina æfingu í purugerð, læt bara á það reyna á jóladag hvort það tekst eða ekki.

Við hjónin vöknuðum upp við vondan draum þegar við áttuðum okkur á að nú yrði engin skata á þorlák, en við lifum það af. Kannski við prófum bara Lutefisk sem tengist jólahefðinni hér, spurning hvort hann sé nógu úldinn fyrir okkar smekk, mér skilst að hann lykti allavega illa.

Það er svo margt sem tengist jólunum í hugum okkar, að það verður skrítið að gera þetta allt öðru vísi þetta árið. Kaffi hjá mömmu og pabba seint á aðfangadagskvöld hefur verið hluti af okkar jólahefð, Purusteikin á jóladag ásamt stórfjölskyldunni á Hornafirði, áramótin hjá mömmu og pabba og að horfa á brennuna frá gömlu mjólkurstöðinni og nú síðustu árin höfum við alltaf hitt sama fólkið þar og sumir hafa skálað í koníaki (ég áttaði mig bara á því nú um daginn að það var orðið partur af áramótunum að hitta Bessý, Magga og börn þar).

Jólin í ár verða öðruvísi, en við ætlum að njóta þeirra saman þó söknuður eigi eflaust eftir að lita þennan tíma eitthvað aðeins. Er að spá í að kaupa stórt púsluspil, og svo getum við púslað og spilað til skiptis. Það er líka planið að hitta kunningja (íslendinga sem verða líka hér um jólin).

Norðmenn eru ekki eins ákafir í jólaskreytingum utandyra og við íslendingar, en það er nú einn og einn Öddi hér líka ;) Það er að verða jólalegt hér þó snjórinn sé ekki farinn að láta sjá sig en mér skilst að það gæti breyst í dag.

Ég er búin að vera á aðventukvöldi í vinnunni (með íbúunum) þar sem borðaður var jólamatur og jólasöngvar sungnir. Við vorum í íslenskri jólamessu í gær, hún var hátíðleg og að heyra ó, helga nótt fyllir alltaf hjartað af jólum (samt öðruvísi en þegar sterkar hornfirskar karlmannsraddir syngja það) svo var jólaball á eftir. Í vikunni verður samvera hjá innflutningsbekknum hans Fáfnis Freys og er foreldrum, ömmum, öfum og systkinum boðið, allir eiga að koma með eitthvað matarkyns frá sínu heimalandi og krakkarnir munu verða með skemmtiatriði, við erum mjög spennt fyrir þessu. Svo skilst mér að við hjónin eigum eftir að fara á jólahlaðborð með vinnunni hans Nökkva.

Annars er aðalmálið á dagskrá núna að heimasætan læri norsku. Hún er að fara í viðtal í skólan hans Fáfnis í dag og mun að öllum líkindum verða aðstoðarmanneskja þar í desember. Við ákváðum að ath hvort þeim litist ekki vel á að fá sjálfboðaliða til að hjálpa til í skólastarfinu fram til jóla og það var svona vel tekið í það. Það er byrjunin og svo er hún aðeins að melta það hvort hún haldi áfram í atvinnuleit eða fari í skóla eftir áramótin.

Vona að þið séuð að njóta aðventunnar í stresslausum huggulegheitum ásamt vinum og ættingjum.
Bestu kveðjur til allra þarna úti.

Sunday, November 27, 2011

1. sunnudagur í aðventu


Þá er aðventan formlega byrjuð. Ég er ekki komin í neitt sérlega mikið jólaskap, er þó búin að kaupa megnið af jólagjöfunum sem munu fara í ferðalag til Íslands, baka eina smákökusort og kaupa jólasteikina. Er ekkert farin að spá í jólakortaskrif, ætti kannski að reyna að koma mér í þann gírinn.

Þetta er sá tími ársins sem ég reikna með að við fjölskyldan munum finna fyrir slatta af heimþrá, kannski það sé þess vegna sem undirmeðvitundin kemur því þannig fyrir að ég er ekki að hugsa svo mikið um jólin. Hef ekki fundið hjá mér þörf til að setja jólalög í geislaspilaran, en það er nú bara nóvemer ennþá. ´

Í dag verður kveikt á jólatré Hornafjarðarbæjar, samkoma sem við höfum mætt á síðan byrjað var að gera þetta með pompi og prakt. Skrítið að vera ekki viðstödd nú, þetta hefur alltaf ýtt aðeins við jólagleðinni í hjartanu. Nökkvi og eldri börnin fóru á svona jólasamkomu inn í Bergen í gær, það var hávaðarok og grenjandi rigning og sá stutti vildi alls ekki með svo niðurstaðan varð sú að við tvö urðum eftir heima. Hersingin kom heim aftur blaut inn að beini, þrátt fyrir að vera útbúin í pollagalla og með regnhlíf að vopni, en þeim fannst gaman.

Hef planað að í þessari viku munum við draga fram jólaskrautið, koma jólaljósum í gluggana og kannski baka eitthvað, hlusta á jólalög og reyna að finna fyrir smá jólum í hjartanu. Skítt með það þó að heimþráin fylli hjartað í leiðinni og þó það falli nokkur tár (best að muna að kaupa slatta af tissjú), það verður bara að vera þannig og tilheyrir bara svona hátíðum að vera aðeins meyr.

Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur. Yndislegt að fylgjast með litla manninum blómstra og finna ró í huga og kropp til að dunda sér. Eldri drengurinn hefur verið að skrifa ritgerð á norsku sem gekk mjög, og í síðustu viku tók hann tvö próf í norsku (átti að skrifa texta um eitthvað) og segir það hafa gengið vel.

Það gengur illa að finna vinnu fyrir heimasætuna en hún sættist á að líklega væri gáfulegast að fara á norskunámskeið. Okkur var bent á svona námskeið fyrir nýbúa, hún fór og hitti þar ráðgjafa sem vildi frekar að hún hefði samband við framhaldsskólan til að athuga hvort þeir tækju við henni í innflytjendabekk þar, væri fín leið til að læra norskuna og þar væri hún innan um jafnaldra. Ráðgjafanum fannst daman ekki passa inn í þann hóp sem hún var með á námskeiði núna (miðaldra karlmenn frá Íran). Hún ætlaði að heyra í ráðgjafa við framhaldskólan og Yrsa átti að hafa samband á þriðjudag. Vona svo sannarlega að þeir vilji taka við henni þarna, en þetta snýst víst allt um einhverjar reglur. Hún hefur verið að sækja um ýmislegt en það ekki skilað neinu, í einni búð sem hún fór í var verslunarstjórinn nokkuð jákvæður og sagðist endilega vilja að hún kæmi og talaði við sig þegar hún væri búin að læra smávegis í málinu. Skiljanlega þá ráða menn frekar þá sem tala tungumálið.

Ég er að vinna þessa helgina á annarri deild en venjulega. Þar er einn þjónustuþeginn innflytjandi, hefur búið í landinu í tugi ára en virðist hafa gleymt norskunni og það þarf að tala við hann á ensku sem hann virðist skilja svona sæmilega. Þegar ég er í vinnunni þá stilli ég mig greinilega í einhvern norskan gír, og þegar ég þurfti að skipta úr norsku yfir í ensku lenti ég í vandræðum (samt tala ég og skil ensku bara alveg ágætlega), mér gekk virkilega illa að koma því yfir á ensku sem ég þurfti að segja við viðkomandi, ætli það sé af því að ég lærði ensku á íslensku eða hvað?  Heilinn er merkilegt fyrirbæri. 

Vona að þið finnið jólaskapið og jólagleðina í hjartanu í dag.
Ég sendi kærar kveðjur yfir hafið og heim.

Monday, November 14, 2011

Löngun

Plómutré og eplatré. Hljómar það ekki dásamlega, staðsett í garði nálægt sjó. Öldugljáfur, sólsetur og bátkæna sem siglir hjá.......................................

Monday, November 7, 2011

NorskurDraumur

Vaknaði hissa í morgun, mig hafði dreymt á norsku ekki lengi en draumurinn snérist um samtal. Man ekki um hvað var rætt man bara að það var á norsku. Þetta var eitthvað svo skrítið samt, held að þetta hafi vakið mig.

Það er svoldið langt síðan að ég upplifði það í vinnunni að ég var að telja á norsku og það fyrir sjálfa mig. Ég var að telja pillur og fór næstum að skellihlæja þegar ég fattaði að ég taldi á norsku. Sennilega setur maður sig í einhvern ákveðinn gír áður en maður stígur inn á vinnustaðinn, í síðustu viku þá tók ég eftir því að ég geri minna af því að hugsa setninguna sem ég ætla að segja á íslensku fyrst og koma henni yfir á norsku í huganum áður en ég segi hana, ég er farin að hugsa setningarnar á norsku og ef þær hljóma illa í hausnum á mér þá reyni ég að betrum bæta áður en ég sleppi þeim út fyrir varirnar, það gengur svona og svona. Í almennum samræðum svona um daginn og veginn við vinnufélagana vantar mig oft orð og þá þarf að tala í kringum hlutina til að skiljast, það verður til þess að það verður ekki eðlilegt "flæði" í samræðunum (vona að þið fattið hvað ég meina), stundum verður þetta meira svona eins og spurningar og svör á prófi og ég á það til að láta það pirra mig, en þetta kemur hægt og sígandi.

Ég er aðeins að venjast því að þurfa að tala norsku fyrir framan Nökkva og við hann. En við þurfum þess þegar við hittum fjölskylduráðgjafan, læknirinn, kennarana og aðstoðarmanninn. Fyrst fannst mér það alveg hreint fáránlegt og roðnaði og stamaði :) en þetta er að venjast, ég er allavega hætt að roðna ;)

Sendi góðar kveðjur út í alheiminn og kveð að norskum sið til að vera í stíl við pistilinn.

Ha de bra

Thursday, November 3, 2011

Að fylgjast með deginum vakna


Mér finnst fátt yndislegra (í þurrviðri og logni) að sitja á svölunum, á náttfötunum sveipuð íslenskri lopapeysu, með kaffibollan og bíííp (lesist sígó) og upplifa daginn vakna. Fylgjast með myrkrinu breytast í dagsbirtu og litla hverfinu vakna til lífsins. Kyrrðin hérna á fjallinu er svo mikil að hljóðin magnast upp (ef þið skiljið hvað ég meina) maður heyrir næstum því nágrannan geispa þegar hann klöngrast syfjaður inn í bílinn sinn. Hlátur barnanna á leið í strætó, hljómar fallega með fuglasöngnum og lágvært spjall hundaeigandanna við þá ferfættu á leiðinni niður götuna er eitthvað svo vinalegt.

Þegar laufin falla af trjánum breytist umhverfið ótrúlega mikið. Ég sé sjóinn sem mér finnst yndislegt og ef ég sé bátkænu sigla hjá er toppnum náð. Ég er að uppgötva hús hér og þar sem ég hafði ekki hugmynd um, þar sem þó stóðu falin inn á milli trjánna.

Vá hvað þessi smápistill er háfleygur eitthvað. En ég læt hann standa svona.

Læt fylgja með eina mynd svona til gamans af draugnum sem var að veltast hér á HrekkjavökunniPlan dagsins er að eiga yndislegan dag vona að það verði þannig hjá ykkur líka.Monday, October 31, 2011

Du har ringt feil

Fyrst eftir að við fengum símanúmer var hringt reglulega til að panta pizzu, og ég komst að því að við vorum með fyrrverandi símanúmer Kleppestopizza. Og ef maður googlaði þessum pizzustað þá kom upp símanúmerið okkar. Ég var meira að segja búin að finna nýja símanúmerið þeirra til að geta hjálpað svöngu fólki sem var frekar pirrað yfir að geta ekki fengið pizzu hjá mér. Pizzuelskendur hafa gefist upp á mér og eru greinilega búnir að læra nýja símanúmerið þeirra.

Nú hringir hinsvegar a.m.k einu sinni á dag (og stundum tvisvar) í okkur eldri kona. Hún kynnir sig aldrei eða heilsar heldur skellir fram spurningum eins og "er du våken" sem útleggst ertu vakandi (og það gerist jafnvel um miðnættið) eða "kan du kjøre meg som snarast til apoteken" sem útleggst getur þú keyrt mér sem fyrst í apótekið. Þegar ég segi henni að hún hafi hringt í vitlaust númer þá verður hún alltaf jafn hissa og skilur bara ekkert í því hvernig hún gat hringt í vitlaust númer. Samtölin verða alltaf lengri og lengri. Ég finn nú aðeins til með þessari konu svona stundum en get líka orðið frekar pirruð þegar hún hringir um miðnættið og spyr hvort ég sé vakandi..uuuu já, því þú vaktir mig (segi það nú samt ekki við hana).

Það fyndna í þessu er að síðan Nökkvi fékk norska gsm-númerið sitt þá hringir reglulega í hann eldri kona og spyr um Maríu :) Þegar hún hefur ekki hringt lengi þá fer hann að velta því fyrir sér hvort ekki sé allt í lagi með þá gömlu.........

Thursday, October 20, 2011

Allar þjóðir heimsins, ja eða kannski ekki allar

Líf okkar er mjög fjölþjóðlegt þessa dagana það er ekki hægt að segja annað. En mér finnst það svoldið skemmtilegt.

Í bekknum hans Fáfnis eru börn frá 7 þjóðum. Íslandi, Tælandi, Filippseyjum, Litháen, Eistlandi, Póllandi og Íran. Í nóvember fjölgar í bekknum en þá koma 3 börn frá Sómalíu í bekkinn.

Er ekki alveg með á hreinu fjölda þjóða í Darra bekk en man þó að þar eru krakkar frá, Tælandi, Filippseyjum, Pakistan, Póllandi, Litháen og Eistlandi að mig minnir og svo Íslendingurinn hann ;)

Á vinnustað húsmóðurinnar vinnur fólk frá mörgum þjóðum ég man ekki allar en mér skildist að þegar ég byrjaði þá væru þjóðirnar orðnar 12. Ég man eftir Danmörku, Tælandi, Íran eða Írak, Þýskalandi, Kananda, Svíþjóð, Filippseyjum og Póllandi og að sjálfsögðu fagra Íslendingnum mér :)

Með húsbóndanum vinnu maður frá Víetnam.

Heimilislæknirinn okkar er frá Indlandi. Læknirinn hans Fáfnis er frá Danmörku og tannlæknirinn sem ég var hjá í dag er held ég Arabi.

Gaman að þessu.

Monday, October 17, 2011

Haustfrí og handleiðsla

Í síðustu viku var haustfrí í skólum Hordaland-fylkis. Drengirnir á heimilinu voru hæstánægðir með fríið og fannst ljúft að þurfa ekki að vakna eldsnemma samt sem áður fer það ekkert vel í þann yngri þegar rútínan ruglast, en við áttum nú samt nokkuð fína viku. Það er verið að gera breytingar á netaverkstæðinu svo pabbinn er búinn að vera í fríi líka. Mamman tók af því tilfefni nokkrar aukavaktir en við gerðum líka skemmtilega hluti saman. Fórum meðal annars í Sædýrasafnið og Vil vita og allir skemmtu sér vel.


Í Sædýrasafninu snérist málið aðalega um að finna svör við spurningum sem voru faldar á víð og dreif um safnið. Hér er áttum við bara eftir að finna eina spurningu og vorum að skoða kort af safninu til að reyna að finna hvar hún gæti hugsanlega verið.
 

Heimasætan náði svona gasalega skemmtilegri mynd af móður sinni sem er sennilega á þessu augnabliki alveg yfirkeyrð af talanda þriggja málglaðra barna sem tala hvert ofan í annað :)


Önnur skemmtileg af húsmóðurinni sem er þarna að missa sig í að spila Tetris í Vita vil ;)
Sem sagt búin að vera fín vika. Það er líka gaman að upplifa þetta með yngsta guttanum nú og finna hvað lyfið er að hjálpa honum, hann var jú spenntur og svoldið á yfirsnúning en það var ekki sífelldur grátur og hann gerði helling, var ekki bara eins og þeytispjald út um allt og náði ekki að festa sig við neitt. Held að hann hafi notið þess betur og við nutum þess ennþá betur að vera með honum, enginn kvíðahnútur vegna hræðslu við að lenda í óviðráðanlegum aðstæðum.

Við fórum líka í heimsókn nr 2 til BUP í vikunni til að ræða hvernig gengi með lyfið. Það var ótrúlegt að sjá hvernig pilturinn sat núna næstum alveg rólegur með okkur (og bað ekki um að fara heim á 2 mín fresti) og læknirinn var ánægður með árangurinn. Sálfræðingurinn sagði hins vegar ekki margt hann er einn af þeim sem virðast hverfa inn í sig og leit út fyrir að vera mjög mikið til baka og vera að farast úr feimni. En á þessum fundi var kona sem er fjölskylduráðgjafi og hún bauð fram aðstoð sína, því við höfðum sagt á fyrri fundi að við vildum gjarnan fá smá aðstoð með hvernig væri best að vinna með drengnum okkar og hvernig væri best að bregðast við aðstæðum, fá smá handleiðsu í hvernig maður hjálpar barni með ADHD að takast á við lífið. Okkur hjónum er boðið að hitta þessa konu 1x í viku nú fram að jólum, þar sem hún ætlar að fara með okkur í gegnum ýmislegt sem við eigum að geta nýtt okkur. Skipulag, umbunarkerfi, hvernig best er að bregðast við erfiðum aðstæðum og fleira. Ég er svo glöð og ánægð með þetta að ég er alveg að springa, hef lent í svipuðum aðstæðum áður og fannst ég alltaf vera að biðja um aðstoð og spurja hvað get ég gert til þess að hjálpa barninu mínu en ekkert gerðist. Mig langaði bara að knúsa þetta fólk í klessu ég get svo svarið það, þetta hefur allt gengið svo hratt og vel fyrir sig og okkur er fært allt á silfufati þurfum varla að biðja um neitt :) Ég hlakka virkilega mikið til að hitta þessa konu núna í vikunni. Held að okkur óskipulögðu hjónunum veiti ekki af smá handleiðslu þar sem barnið þarf sko skipulag og mikla rútínu.

Heimasætan er ekki enn komin með vinnu en er búin að senda umsókn á fleiri leikskóla, erum að vonast eftir svari frá einum í þessari viku, þar sem umsóknarfrestur rann út á föstudag. Krossa putta og vona að hún fái þetta.

Annars er bara allt gott að frétta, lífið gæti bara eiginlega ekki verið betra held ég svei mér þá. Ég er alltaf að reyna að koma mér í gírinn með að fara að gera eitthvað í áhugamálunum mínum, saumaskap, prjónaskap og myndlist. Hausinn er fullur af hugmyndum, svo fullur að stundum finnst mér hann vera að springa, ég bara kem mér ekki að verki. Saumaði mér reyndar vinnuflík (scrubs) um daginn, því mig vantaði nauðsynlega eitthvað með vösum. Fékk sængurver á spottprís og sneið og saumaði upp úr því þessa fínu vinnuflík á einni kvöldstund. Langar að gera mér fleiri, svo langar mig að sauma mér peysu/tuniku, og kannski sauma ég kjól eða pils á hana systurdóttur mína úr afgangnum af sængurverinu.

Þetta er orðið hið sæmilegasta blogg og ætli ég hætti ekki núna svona svo þú lesandi góður farir ekki að hrjóta.

Kærar kveðjur út í haustið ég ætla að fá mér kaffibolla, kveikja á kerti og halda áfram að hugsa um allt sem mig langar að búa til.


Saturday, October 8, 2011

Virðist gera góða hluti

Fyrir rétt rúmri viku fórum við yngsti sonurinn til BUP (Barna og unglinga geðlækna og sálfræðiþjónusta). Á þeim fundi var ákveðið að drengurinn myndi prófa lyf sem gefið er við ADHD. Já við erum að tala um hið alræmda Ritalin. Það er byrjað mjög rólega 1/2 tafla á dag og svo smá aukið upp í 3 töflur á dag. Hefði náttúrulega verið lang þægilegast ef þetta væri bara 1x á dag en við byrjum á þessu og pælum í hinu síðar. Drengurinn var náttúrulega ekki mjög spenntur fyrir þessu og er ekki spenntur fyrir að taka töflur svo það eru smá serimóníur í kringum þetta.

Nú er hann búinn að vera að taka lyfið í viku og það gengur mjög vel. Ég hef ekki fundið neinar svakalegar breytingar hér heima nema hann hefur á þessari viku 2x skoðað dótið sitt (sem er varla hægt að segja að hafi gerst síðan við komum út). Hann hefur ekki leikið með það en aðeins spáð og spekúlerað í það og handfjatlað það. Jú kannski hef ég ekki þurft að standa í eins mörgum löngum samningaviðræðum, þær eru styttri. Í skólanum hafa þau hins vegar fundið nokkuð miklar breytingar til hins betra í seinni hluta vikunnar. Hann hefur tekið meiri þátt í því sem gerist í skólastofunni, leyst verkefni, svarað spurningum á norsku og er ekki eins hræddur við að mistakast. Það eru færri reiðiköst og hann verður ekki eins svakalega reiður og er fljótari að jafna sig á eftir. Hefur fengið krakkana með í leik og fleira. Svo þetta er allt mjög jákvætt ekki síst það að á fimmtudaginn þá sagði pilturinn við mig "mamma, nú er meðalið farið að hjálpa mér". Hann gat ekki útskýrt hvernig en hann virtist finna að honum gengi betur með ýmislegt, það var alla vega mjög góð tilfinning að heyra hann segja þetta, smá staðfesting á því að við séum að gera rétt.

Það kom mér á óvart þegar lyfið var sótt í apótekið að við þurftum ekki að borga krónu fyrir það, hvernig er þessu háttað á Íslandi?

Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur. Ég hef verið að vinna nokkuð mikið í september og það sem af er október, töluvert mikið meira en þessi föstu 25% sem ég hef. En það er nú bara jákvætt. Get alveg pínu stjórnað því hvaða daga ég vinn þegar ég tek svona extra-vaktir. Næstu viku er t.d haustfrí í skólunum og ég að vinna tvo daga í þeirri viku, fastar vaktir og svo get ég bara ráðið því hvort ég segi já ef ég verð beðin um að vinna aðra daga.

Heimasætan hefur ekki enn fundið sér vinnu, kannski ekki verið neitt svaka aktív við leitina. Hún sendi tvo tölvupósta á leikskóla og bíður eftir svari. Ég sá að auglýst var eftir fólki í búðina sem við verslum alltaf í en hún harðneitaði að sækja um, nennti ekki að vinna í búð núna.......Hefði viljað að hún skellti sér á þetta allavega tímabundið.

Það er farið að hausta og hefur vægast sagt rignt mikið undanfarinn mánuð, en það gerir ekkert til ég á svo flott stigvél :) Haustlitirnir eru að verða allsráðandi, og þeir eru svo fallegir. Þegar laufunum fór að fækka á trjánum þá uppgötvaði ég að ég sé út á sjó og það finnst mér nú ekki leiðinlegt. Hitastigið er ennþá svona um og yfir 10 gráðurnar, úlpurnar hafa ekki ennþá verið teknar fram, en regngallinn þess mun meira notaður ;)

Hafið það sem allra best rýjurnar mínar og njótið haustsins

Monday, September 26, 2011

Rollur frá Íslandi


Sjáið þið bara góssið sem ég fékk sent með þeim gamla (mínum ástkæra eiginmanni). Þökk sé þér Kristín Jóhannesdóttir, gotteríið kom skemmtilega á óvart og það fór um mig ólýsanlegur sæluhrollur þegar að ég fyllti túllan af Nóa Kroppi............ En nú er ekkert annað að gera í stöðunni en að setjast við prjónaskap, verst að um leið og ég hugsa um prjónaskrattana þá fæ ég vöðvabólgu, en ég segi henni stríð á hendur pfff.


Ég er að koma mér upp "myndavegg". Gengur ekkert voðalega hratt að kippa myndunum upp úr kassa og velja þær sem eiga að fara upp á vegg (það er svo erfitt að velja), en ég sé að ég þarf hugsanlega að bæta við svona myndahillum (þær eru snilld, fást í Ikea en ekki hvað). Og svo hef ég komist að því að það vantar almenninlega mynd af foreldrum mínum (á fermingarmynd af pabba) og tengdaforeldrum (á mynd af þeim mjög ungum). Svo ég mælist til þess að þau skelli sér í myndatöku og sendi mér eintak hið snarasta :)

Annars gengur lífið bara sinn vanagang hér á bæ, fyrir utan að það hefur rignt síðan heimasætan kom alveg sama hvað ég hef beðið hana (rigninguna ekki heimasætuna) um að hypja sig.

Við vorum að koma úr heimsókn frá heimilislækninum þurftum að láta hann útbúa tilvísun fyrir þann yngsta til BUP (barna og unglinga geðlæknir), en við erum búin að fá tíma á fimmtudaginn hjá þeim, sem heimilislækninum fannst merkilegt (svo við mætum bara með tilvísunina með okkur). Ég finn bæði fyrir kvíða og létti að vera að fara til BUP. Ég finn fyrir létti að vera að fá aðstoð fyrir drenginn okkar svo að hann geti tekist á við sitt svo það hamli honum ekki í daglegu lífi. Ég er líka kvíðin því mér finnst þetta einhvern veginn uppgjöf (veit samt að það er það ekki, ég er að reyna að gera það besta fyrir barnið), hrædd um að vera að setja á hann einhvern stimpil. Kvíði því að heyra hvað þau segja, en léttir að fá hjálp og leiðbeiningar. Æ, ég get ekki almenninlega lýst því hvaða tilfinningar bærast innra með mér varðandi þetta, hef samt ákveðið að ég ætla að taka á móti allri þeirri hjálp sem í boði er fegins hendi og full bjartsýni.

Heimasætan hefur verið í orlofi og safnað kröftum. Nú fer orlofsdögum hennar senn að ljúka og við að leggjast yfir atvinnuauglýsingar og skrá hana inn í atvinnumiðlanir, svo vonandi fær hún bara vinnu fljótlega.

Nú er komin tími á kaffibolla og smá Nóa kropp :) sendi ljúfar kveðjur til ykkar allra sem nennið að lesa og þið megið alveg skila kveðju til þeirra sem ekki nenna að lesa.

Thursday, September 15, 2011

Af stigvélum og fleiru


Splæsti á mig þessum dásemdarstigvélum. Ótrúlega sæt eitthvað. Þetta eru stigvél frá Ilse Jacobsen Hornbæk danskri kvinnu (http://www.ilsejacobsen.dk/). Ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum með Ilse Jacobsen búðina í Bergen. Hún framleiðir mjög fallegar regnkápur (og mig dreymdi náttúrulega um að fá mér regnkápu í stíl við stigvélin) en það var nánast ekkert úrval af þeim í búðinni.


Ég var ekki slæmum félagsskap í búðarrápinu því þessi unga kona kom með mér. Ég bauð henni upp á pizzu og henni fannst að við ættum að fá okkur stórt glas af gosi sem við og gerðum. Glösin sem við fengum voru næstum jafn stór og yngismærin, 800 ml glös takk fyrir. Pizzan smakkaðist vel en svona til gamans þá ætla ég að geta þess að hvorugri tókst að klára gosið sitt. Við skemmtum okkur bara vel við að skoða í búðir, máta skó og skoða mannlífið. Þegar við keyrðum heim seinnipartinn þá þakkaði ég enn og aftur fyrir það að hafa ekki tekið þá ákvörðun að vinna á sjúkrahúsi inn í Bergen, við lulluðum í langri bílaröð nánast alla leið út á Sotru. Var að keyra á c.a 10-15 km hraða svona á milli þess sem ég var stopp (við erum að tala um að hámarkshraðinn er 80 km á þessari leið). Þegar ég fer í mína vinnu á morgnana þá sé ég að ástandið er svipað snemma morguns nema þá er það umferðin frá Sotru til Bergen sem lullar í langri langri röð.

Að allt öðru, mig langar að segja frá því hvað ég er heppin með nýju vinnufélagana. Þær eru allar yndislegar þessar blessuðu konur sem ég er að vinna með og taka mér svo ákaflega vel. Þær eru eiginlega bara hver annarri yndislegri sem að vonum ég er alsæl með, gott að koma inn í svona vinalegt andrúmsloft. Þegar ein þeirra komst að því hvaða ferli ég væri að ganga í gegnum með Fáfnir Frey þá tók hún mig algjörlega upp á sína arma og sagðist eiga barn sem hún hefði þurft að fara með í gegnum kerfið. Hún lýsti ferlinu frá a-ö fyrir mér og ítrekaði svo að þegar allt væri komið í gegn að þá ætti ég rétt á ýmsu t.d umönnunarbótum, ég sagðist nú ekkert vera viss um að ég þyrfti að þiggja slíkt. En vinkonan sló hnefanum í borðið og sagði ekkert bull góða mín þú átt rétt á þessu og þiggur það, barnið er með ADHD og á t.d eftir að týna einhverju af fötunum sínum t.d. Svo sagði hún mér að þegar ég væri komin með alla pappíra í hendurnar þá skildu hún nú bara koma með mér og aðstoða mig við að sækja um þetta.

Hún er alveg frábær þessi kona, fyrst þegar ég hitti hana datt mér í hug þungarokkari (hárið minnir á Jon Bon Jovi). Hún er alltaf brosandi og gamla fólkið ljómar þegar það sér hana, samt er hún svona algjör töffari og orkubolti. Hennar aðaláhugamál er að veiða og þá erum við að tala um sjóstöng og hún fer beint af vakt út á sjó að veiða, við erum að tala um að hún er að veiða allt upp í tæplega 20 kg þorska á stöng :) Svo kemur hún oft með ferskan fisk með sér t.d á kvöldvaktina og gerir að honum og sprækustu íbúarnir fylgjast spenntir með og svo er gúmmulaðið eldað. Hún er búin að skipuleggja krabbaveislu á deildinni fljótlega og ég hlakka sko ekki lítið til, þá erum við ekki að tala um bara fyrir starfsfólkið heldur íbúana og jú það starfsfólk sem vill taka þátt, ég fæ alveg vatn í munninn við tilhugsunina.

Það er allt að þokast í rétta átt hjá Fáfni í skólanum. Það hefur liðið heil vika þar sem ekkert hefur verið hringt vegna einhverra vandræða :) Hann er alsæll með aðstoðarmanninn sem virðist hafa mjög gott lag á honum. Það er farin að laumast ein og ein lítil setning á norsku út úr honum svona alveg óvart. Aðstoðarmaðurinn hans segir okkur að Fáfnir skilji orðið ótrúlega mikið í norskunni. Aðstoðarmaðurinn kom hér í heimsókn um daginn, hann hafði lofað Fáfni því að hann ætlaði að koma og sjá uppáhaldstölvuleikinn hans. Mér varð nú að orði við hann að hann þyrfti nú að eiga frí líka ætti ekki að vera eyða sínum frítíma í okkur, en hann sagðist hafa lofað drengnum því að koma og það stæði hann við, fyrir utan að það væri gott að vita um hvað hann væri alltaf að tala ;) Svo væri líka bara gott að koma og hitta okkur aðeins og spjalla. Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þeim félögunum þar sem þeir sátu við eldhúsborðið og töluðu um leikinn, Fáfnir talaði á ensku (ótrúlegt að hlusta á það, hann hljómar eins og innfæddur ameríkani með hreim og öllu saman og orðaforðinn váá) og aðstoðarmaðurinn talaði norsku. Þeir virtust bara skilja hvorn annan nokkuð vel :) Aðstoðarmaðurinn tjáði okkur að þetta gengi alltaf betur og betur í skólanum. Árekstrum við hin börnin fækkaði, hann væri reyndar til staðar til að grípa inn í og leiðrétta misskilning, og að Fáfnir færi líka eftir þeim reglum sem hann setti og þegar vel gengi þá gerðu þeir eitthvað skemmtilegt. Hann sagði okkur líka að þeir væru þrír sem léku sér mikið saman í frímínútum allir úr innflytjendabekknum, Fáfnir, einn pólskur drengur og sá þriðji frá Tælandi. Enginn þeirra talar norsku og hinir tveir ekki ensku en þeim kæmi vel saman og allt gengi vel :)

Darri er núna á fyrstu körfuboltaæfingunni hér, verður spennandi að vita hvernig hann fílar það. Svo erum við að fara að leggja höfuðið í bleyti með Yrsu og reyna að finna einhverja vinnu fyrir hana, hún er búin að hafa það náðugt í næstum tvær vikur og það er nú alveg nóg :) Hún er spennt fyrir að athuga hvort einhverja vinnu sé að fá á leikskólunum hér í kring.

Jæja þetta er nú búinn að vera hinn sæmilegasti pistill held ég bara og komið mál að linni.
Kveð í bili og sendi knús í allar áttir.

Monday, September 5, 2011

Plukkfisk og matpakker

Mér finnst ákaflega skemmtilegt þegar það dúkkar upp eitthvað kunnuglegt hér og stundum kemur það skemmtilega á óvart. Ég verð samt að segja að mér finnst frekar leiðinlegt að hér hefur verið  lárétt rigning undanfarna daga, jafnvel þó hún sé kunnugleg.

Orðatiltæki og orð sem eru lík því sem við notum á íslensku finnst mér afskaplega gaman að heyra, þó svo að orðatiltækin séu í sjálfu sér ekkert séríslensk og kannski ekkert eðlilegra en að þau séu notuð á öðrum tungumálum, þá færist ósjálfrátt bros yfir andlitið og hugsunin já þetta get ég notað hér verður til. Það má nefna í þessu samhengi *léttara sagt en gert/ det er lettere sagt enn gjort* og að eitthvað sé svo dýrt *að það kosti hvítuna úr augunum/man ekki í augnablikinu hvernig það var orðað á norsku ( eitthvað á þessa leið samt betaler hviden ut av øynene)*. Svo má ekki gleyma hinu sívinsæla akkúrat/akkurat. Það eru reyndar alveg ótrúlega mörg orð lík en reyndar snýst merkingin stundum við þannig að ég hef lent í því að spurja hvort viðkomandi ætti að liggja undir rúminu (sengen) hahaha, það var mikið hlegið ég fattaði að sjálfsögðu mistökin um leið og ég hafði sleppt orðinu en svipurinn sem kom á samstarfskonu mína var óborganlegur. Það kemur oft fyrir að þegar mig vantar orð og fer í kringum það til að gera mig skiljanlega þá kemur í ljós að ég hefði bara átt að nota íslenska orðið ;) T.d þurfti ég að tjá mig um það í gær að einhver gnísti svo svakalega tönnum og mig vantaði sárlega orð yfir að gnísta, það kom svo í ljós að orðið sem mig vantaði var gnister. Norðmenn eru líka með mjög mörg tökuorð úr ensku, þ.e þau eru næstum eins og enska orðið bara örlítið búið að fella þau að norskunni.

Mér fannst líka vinalegt að sjá plukkfisk á matseðlinum í vinnunni í gær. Og hann bragðaðist eins og plokkfiskurinn heima, ég mátti til að smakka.

Tungumálin eru keimlík að mörgu leiti sem er bara þægilegt, og svo er það náttúrulega gamla góða danskan sem blandast oft inn í þegar ég er að tjá mig. En hún hjálpar svo sannarlega það er ekki hægt að segja annað. Það er framburðurinn sem vill snúast fyrir manni stundum. Ég hef verið spurð að því hvort ég sé dani (sem er líklega ekki skrítið þar sem ég sletti dönsku hægri, vinstri) og svo hefur Finnland nokkrum sinnum borið á góma. Nokkrar vilja meina að ég tali ekki norsku eins og íslendingur (kannski ég sé svona mikill finni í mér) enda hefur enginn giskað á að ég væri frá Íslandi. Svo er líka alltaf gaman að sjá hvernig fólk bregst við þegar það veit að ég flutti til Noregs í júlí, það spyr venjulega hvar ég hafi lært norsku ég geti ekki hafa lært það sem ég kann á tveimur mánuðum.

Ég þarf að játa að mér leiðast hinsvegar matpakker/nesti alveg óskaplega mikið. Hér eru útbúnir 5 matpakker þegar allir skulu mæta í skóla eða vinnu. Fáfnir Freyr þarf að fá með sér tvo nestispakka (og barnið borðar ekki neitt svo það er eilífur hausverkur) og svo er það einn á mann á restina af liðinu.

Það er tilhlökkun hjá öllum í dag yfir því að heimasætan mun mæta á svæðið. Þá verður fjölskyldan loksins öll saman á ný.

Bestu kveðjur yfir hafið og ég bið að heilsa öllum.

Thursday, September 1, 2011

Aðstoðarmaður

Þá hefur Fáfnir Freyr fengið sérlegan aðstoðarmann. Hann byrjaði í dag og mun vera honum innan handar í skólanum og á skóladagheimilinu. Hann mun eitthvað fylgja hinum börnunum líka þegar þau fara að fara inn í sína aðalbekki. Þetta er eldri maður mjög hress (allavega þegar við hittum hann í dag), vanur að vinna með börnum með sérstakar þarfir og hefur tekið eitthvað nám tengt því. Þeir smullu saman félagarnir og vona ég bara að það verði þannig áfram.

Aðstoðarmaðurinn kom svo með okkur í heimsókn á skóladagheimilið eftir skóla í dag og Fáfni leist ekkert mjög illa á sig (krossa fingur) og ætlar að fara þangað fyrir skóla á morgun þar sem aðstoðarmaðurinn tekur á móti honum. Nökkvi byrjar alltaf að vinna kl 7 og þegar ég er á morgunvakt þá byrja ég 7 eða hálf 8 en skólinn byrjar ekki fyrr en korter í 9 svo þetta er þjónusta sem við verðum að nýta okkur svo ég vona að þetta eigi eftir að ganga smurt.

Kennarar Fáfnis halda að norskan eigi eftir að koma fljótt hjá honum þar sem hann man orðin sem þau læra mjög vel og skilur slatta af því sem sagt er. Hann vill hins vegar ekkert ræða hér heima hvaða norsku orð hann hefur verið að læra hvern og einn dag. Hann er líka farinn að fara á bókasafnið í skólanum og fá lánaðan norskan Andrés Önd til að lesa svo þetta kemur allt hægt og sígandi. Sem betur fer talar aðstoðarmaðurinn ekki mikla ensku svo Fáfnir kemst ekki upp með að tala eingöngu ensku við hann, þarf allavega að hlusta á hann tala norsku :) Þeir deila líka áhugamáli sem er Andrés Önd sem er gott mál :)

Darri er í þessum skrifuðu orðum á golfmóti fyrir byrjendur, ég treysti mér ekki með þar sem ég er ekki búin að fara og prófa aðalvöllinn en það stendur allt til bóta.

Styttist óðum í að heimasætan komi til okkar, en það verður á þriðjudaginn og við teljum niður klukkustundirnar.

Á morgun verður jarðarför Jóhönnu mömmu hennar Unnar vinkonu minnar. Mér finnst það hálf skrítin tilhugsun að verða ekki þar og er búin að eiga í smá innri baráttu út af því. Mig langar svo mikið að vera þar og veita styrk en ég verð hjá þeim í huganum. Við vinkonurnar erum búnar að eiga góð kaffispjöll og núna bara síðast í morgun og hún veit að ég vildi ekkert frekar en að vera hjá henni.

Það er enn einu sinni að koma helgi, tíminn flýgur áfram eins og venjulega. Hér er ennþá hlýtt fór upp í 28 stig á svölunum hjá mér í gær og 25 stig í dag, mér finnst það bara notalegt. Ég er samt sem áður farin að hlakka til að sjá haustlitina hér í skóginum held að það verði ótrúlega fallegt.

Njótið helgarinnar, það ætla ég að gera.

Fáfnir Freyr og Tína vinkona hans
Í hjólhýsbyggð í Harðangursfirði
Fáfnir Freyr og Nökkvi fóru í gönguferð og sáu svona fallegan regnboga

Thursday, August 25, 2011

Er ekki tími til kominn að tengja (blogga)

Það hefur verið nóg að gera hjá fjölskyldunni síðan ég bloggaði síðast, svo ég hef bara ekki gefið mér tíma í fréttapistil en nú er komið að því gott fólk.

Strákarnir eru byrjaðir í skólanum. Vorum boðuð á fund í skólan hjá Darra tveimur dögum áður en hann átti að byrja. Þar hittum við kennarana og fengum kynningu á því sem í vændum var ásamt kynnisferð um skólann. Þetta var mjög gott og fínt fyrir Darra að vera búinn að sjá framan í kennarana og skoða skólann fyrir fyrsta skóladag, minnkaði aðeins kvíðann. Hann er í innflytjendabekk ásamt 12 (að mig minnir) öðrum innflytjendum á aldrinum 13-16 ára, þarna eru krakkar frá Póllandi, Tælandi, Filippseyjum, Litháen og Afganistan. Hann fær hins vegar að vera með 10.bekknum eftir getu og það er svona ennþá verið að finna út hversu mikið hann getur verið með þeim, vonandi verður það bara sem mest. Honum líst bara ágætlega á sig að mestu leyti. Finnst reyndar eins og hann sé aftur kominn í 1.bekk þegar hann er í norskutímum og þarf að þylja: Jeg hetter... og er 15 år. Hann er heldur ekki alveg sáttur við hvað hann þarf að sitja lengi í skólataxanum sem sækir krakka hist og her um kommunúna. Taxinn sækir hann kl 7:30 en skólinn byrjar 8:45. Það er líka erfitt að spjalla við hina krakkana í innflytjendabekknum þar sem fæst tala norsku og meirihlutinn talar ekki heldur ensku. Held að Darri minn hafi séð hvað hann var vel settur með sína enskukunnátu sem er þó hægt að bjarga sér á ef mögulega þarf og það kemur sér líka vel að hafa lært dönsku í tvo vetur. Krakkarnir í 10.bekknum hans eru líka farin að spjalla aðeins við hann m.a var hann spurður að því í gær hvort hann ætlaði að koma með þeim í skólaferðalag til Íslands í vor :) Það væri nú bara gaman ef það stendur til boða. Svo ég held að þetta eigi bara eftir að þróast vel og í rétta átt.

Skólinn byrjaði ekki svona vel hjá þeim yngri. Við vorum aldrei boðuð á svona kynningarfund heldur var hringt í mig og mér sagt að skólinn byrjaði hjá honum daginn eftir og það kæmi Taxi að sækja hann. Ég spurði hvort ekki ætti að vera nein kynning fyrir hann en fékk þau svör að það yrði talað við okkur síðar. Við hjónin vorum nú ekki alveg sátt við þetta og fengum hnút í magan, veltum því fyrir okkur hvort þetta væri það sem koma skildi á þessum bæ. Ég afþakkaði Taxann og sagðist ekki senda barnið eitt fyrsta daginn, hann talaði jú ekki norsku og allt væri ókunnugt. Sem betur fer tóku á móti okkur yndislegir kennarar og allir voru almenninlegir og allir af vilja gerðir til að gera vel.

Ég fékk að spjalla við annan kennarann hans sem hafði ekki fengið gögn í hendurnar frá ráðhúsinu um að Fáfnir Freyr hefði greinst með ADHD, mótþróaröskun og fleira nú í vor. Hún setti málið strax í farveg og við erum búin að hitta hana þrisvar sinnum til að fara yfir málin og hún hjálpaði okkur að sækja um aðstoð til PPT-teymis. En það er teymi sem heldur utan um börn sem þurfa aðstoð og metur hvaða aðstoð þarf (þarf að gerast svo skólinn fái mannafla til verksins). Skólastjórinn talaði líka við okkur og það eru allir af vilja gerðir til að láta þetta allt ganga upp. Það getur tekið tíma til að komast að hjá PPT en þau ætla að gera allt sem þau geta til að flýta ferlinu því það kom strax í ljós að hann þarf einhverja aðstoð, á í erfiðleikum með einbeitingu og að sitja kjurr og fylgja fyrirmælum þegar fer að líða á morguninn, fer að gera allt annað en hann á að vera að gera. Ég er svo glöð með viðbrögðin sem ég hef fengið að ég grét næstum af gleði. Og allir tilbúnir að finna út hvernig best sé að taka á málum svo hann fái notið sín án þess að trufla aðra í bekknum. Við þurftum að skrifa lýsingu á hans vandamálum til að láta fylgja með umsókninni til PPT og það var erfitt. Manni finnst jú að maður eigi að verja barnið sitt og langar að draga úr öllum neikvæðum hliðum svo það var erfitt að vera 100% samkvæmur sjálfum sér þó maður vissi að það væri best fyrir hann. En sem betur fer fékk ég líka að skrifa um hans jákvæðu hliðar svo það gerði verkið auðveldara.

Fáfnir Freyr er ánægður í skólanum og finnst æðislegt að fá að fara með skólataxa í og úr skóla. Erum í samningaviðræðum við hann um að vera á skóladagheimili fyrir skóla og það gengur ekkert rosalega vel en þannig verður það að vera þar sem ég þarf stundum að vera mætt klukkan 7.30 í vinnu og Nökkvi mætir alltaf klukkuna 7 en skólinn hefst ekki fyrr en 8:45. Fáfnir er líka í innflytjendabekk þau verða 7 þar og þar eru börn frá Tælandi, Litháen, Filippseyjum og frá Póllandi. Þau eru reyndar bara fjögur ennþá en það bætast þrjú við fljótlega. Hann fær svo að vera eitthvað með 3.bekk t.d í verklegum greinum. Kennararnir eru alveg rasandi (eins og við foreldrarnir) yfir enskukunnáttu barnsins. Annar kennarinn hans er enskukennari að mennt og hún á bara ekki til orð yfir þessu, langar mest að setja hann í ensku með 7.bekk og nýta hann til að hjálpa 7.bekknum í að æfa sig í að tala ensku :) En ég er nú ekkert viss um að það muni verða.

Síðan ég skrifaði síðast erum við búin að fara í partý með kórfélögum Nökkva og það var rosalega gaman, þó svo að verðið fyrir Taxann heim eftir fjörið hafi næstum spillt gleðinni (lærðum að við fáum okkur ekki bæði í glas næst). Við líka búin að fara rúnt inn í Harðangursfjörðinn og kíktum þar í kaffi til íslenskra hjóna sem eiga "sumarbústað" í svona hjólahýsabyggð þar. Það var ákaflega gaman að fara þetta og fallegt í Harðangursfirðinum og við erum ákveðinn í að keyra lengra inn í fjörðinn næst.

Við Darri Snær erum búin að vera á golfnámskeiði og höfum nú fengið græna kortið (golfkortið) og megum því spila á öllum golfvöllum. Inni í námskeiðsgjaldinu var félagsgjald í golfklúbbinn hér út árið svo nú er bara að vera duglegur að mæta á völlinn. Það er mikið og fjölbreytt starf í klúbbnum og mikið lagt upp úr félagsskapnum og því að vera saman. Það eru kvennakvöld og herrakvöld einu sinni í viku og eru þá lítil mót. Svo eru byrjendamót hálfsmánaðarlega, einnig er það í boði einu sinni í viku að byrjandi getur bókað sig á völlinn og óskað eftir því að hafa Fadder(leiðbeinanda) með sér. Það er öflugt unglingastarf í golfklúbbnum og Darri Snær er búin að skrá sig í það. Hópurinn fær klukkutíma á viku með golfkennara sem er bara frábært.

Ég var í þessum skrifuðu orðum að fá vaktir fyrir septembermánuð og var það slatti af vöktum eiginlega fleiri en ég vildi, maður kann ekki við að neita mörgum vöktum svona í upphafi. Ég er enn að taka vaktir sem vantar á (extravaktir) en í október verð ég komin í fasta 25% helgarstöðu sem er þá þriðja hver helgi og svo mun ég taka vaktir sem vantar á og get þá stjórnað því aðeins hvað ég tek margar. Ég vonast svo til þess að fá fleiri prósentur fast, þar sem það er jú betra að vera nokkuð viss um hvað maður vinnur mikið. Ég hef samt ekki áhyggjur af því að fá fáar extra vaktir því það vantar jú alltaf eitthvað.

Ég hef ekki fundið fyrir heimþrá síðan ég flutti (enda búið að vera nóg að gera), þó svo ég sakni að sjálfsögðu ættingja, vina og stelpuskottsins míns. En ég fann fyrir því í fyrradag hvað það getur verið erfitt að vera langt í burtu. Besta vinkona mín (frá 4 ára aldri) missti mömmu sína eftir erfið veikindi nú á þriðjudaginn og mikið langaði mig til þess að geta verið nær henni. Hefði langað að fara til hennar og styðja hana og aðstoða á þessum erfiðu tímum, en fjarlægðin gerir fjöllin blá og langt og dýrt til Íslands. Við erum búnar að eiga gott spjall í gegnum síma og erum vanar að styðja hvor aðra þannig, því við höfum ekki búið í sama landshlutanum lengi. En mikið ofboðslega langaði mig til að fara og umvefja hana og leyfa henni að gráta í fangi mínu og rifja upp minningar. En svona er víst lífið, maður veit aldrei á hverju maður á von og getur ekki verið á mörgum stöðum í einu.

Strákarnir sakna að sjálfsögðu vina sinna en þetta hefur samt allt gengið mun betur með þá heldur en ég þorði að vona. Fáfnir Freyr talar svo sem ekki mikið um sína vini en einn daginn tók hann mynd úr stofunni af henni Karítas Diljá (systurdóttir mín 2.ára) og stillti henni upp inni í sínu herbergi. Svo skrifaði hann á blað sem hann setti við hliðina á myndinni -ég elska Karítas- . Darri Snær spjallar við sína vini daglega með aðstoð tölvunnar, svo hann heldur sambandinu við þá, sem er gott. Hann er svo kominn í unglingaklúbbinn í golfinu og ætlar að prófa að mæta á körfuboltaæfingar svo ég held að honum eigi ekki eftir að leiðast. Við ætlum líka að finna einhverja íþrótt fyrir Fáfni Frey, körfubolti hefur aðeins komist til tals en það kemur í ljós.

Það styttist óðum í að Yrsa Líf komi til okkar og öllum er farið að hlakka til. Hún kemur þann 6.september.

Jæja þetta er nú aldeilis orðið langur pistill. Kaffibollinn er löngu orðinn tómur og líklega kominn tími á að fara að gera eitthvað af viti.

Hafið það gott þar til næst.

Friday, August 12, 2011

Nóg að gera

Ævinlega blessuð og sæl!!!
Það er ekki hægt að segja annað en ég hafi haft nóg að gera síðan síðast. Eins og áður hefur verið minnst á þá er ég allt í einu farin að vinna. Mikið fyrr en ég bjóst við, það mikið fyrr að ég hef ekki ennþá fengið norskt hjúkrunarleyfi og ekki var ég nógu vel gefin til að vera búin að fá norskt sjúkraliðaleyfi. Og hvað þýðir þetta, jú ég er aftur orðin starfsstúlka eða ófaglærð eða hvað sem þið viljið kalla það. Mér finnst það svo sem ekkert leiðinlegt ég elska að annast um fólk svo það skiptir ekki máli nákvæmlega hvað ég geri og á þessum vinnustað eru hjúkrunarfræðingarnir mikið í almennri umönnun.

Biðin eftir hinu norska hjúkrunarleyfi mun taka allt að 6 vikum takk fyrir. Svo þarf ég að fá vottorð hjá fyrrverandi vinnuveitendum um að ég hafi unnið þar og hvaða stöðu ég gengdi og í hvað langan tíma (sem er mjög skiljanlegt en ekki hafði aulinn ég rænu á að láta útbúa það áður en ég flutti). Svo þarf ég að láta þýða þessi vottorð yfir á norsku að kröfu launaskrifstofunnar. Þessa pappíra (vottorðin + norska hjú.leyfið) ásamt fæðingarvottorðum barna minna vilja þeir fá svo þeir geti reiknað út hvað þeir vilja borga mér...... þannig að þar til leyfið er klárt fæ ég bara laun eins og starfsstúlka en fæ svo leiðréttingu á launin þegar þetta kemur allt í hús (skilst mér hihihi).

Mér líst alltaf betur og betur á mig á nýja vinnustaðnum og hef komið sjálfri mér verulega á óvart með hvað mér gengur vel að tjá mig á "norsku" (þeir skilja mig allavega) og að skilja norskuna. Ég viðurkenni samt vel að ég er alveg búin á því þegar ég kem heim. Samstarfsfólkið er líka alveg gáttað hvað mér gengur vel að tala málið og trúa því varla að ég hafi bara komið hingað í byrjun júlí. Ein samstarfskona tjáði mér í dag að ég talaði alls ekki með íslenskum hreim en hún gat samt ekki sagt hvaða hreim ég talaði með þá (veit ekki hvort ég á að líta á þetta sem hrós eða ekki).

Ég hef nú ekki bara verið að vinna þó vinnan hafi átt meira en hug minn allan undanfarið. Við hjónin reynum að halda uppi skemmtidagskrá fyrir drengina svo þeim leiðist nú ekki mikið. Fáfnir Freyr hefur ekki viljað leika meira við nágrannadrenginn (því er nú verr og miður) og gengur illa að fá hann til að gera nokkurn skapaðan hlut nema með mútum (ég er að verða ferlega fær í mútustarfsemi), hann vill helst bara vera í tölvu og geðið er eftir því. Við höfum nú samt gert ýmislegt farið í skoðunarferðir hér um eyjuna, hjólað, týnt ber, farið í skoðunarferðir inn í Bergen og aðeins út í sveit. Einnig erum við búin að prófa keilu og í sama húsi er stór sundlaug með allskonar rennibrautum sem á eftir að prófa (það kostar hálfan handlegg og tvö nýru). Svo förum við reglulega á golfvöllinn. Það er meira farið með Darra Snæ í golf en Fáfnir Freyr hefur líka komið með og það hefur gengið fínt. Núna erum við mæðgin ég og Darri Snær á golfnámskeiði sem er eiginlega skilda að fara á til að hafa aðgang að aðalvellinum.

Við höfum fengið fyrsta ættingjann í heimsókn og það var yndislegt. Pétur systursonur ömmu (býr á Shetlandi) er hér í Bergen í þriggja daga ferð ásamt konu sinni og við eyddum með þeim degi í Bergen sem endaði svo í smá heimsókn hingað til okkar.

Strákarnir byrja í skólanum á fimmtudag í næstu viku (18.ágúst) svo nú fer að komast rútína á liðið. Eigum von á að verða boðuð á fund og skoðunarferð um skólana eftir helgi. Fáfnir Freyr hlakkar mjög mikið til að byrja í skólanum en sá eldri gefur ekki mörg svör þegar hann er spurður.

Veðrið hefur verið yndislegt og ég kann bara vel við hlýjuna, sólina og jafnvel rigninguna (hún er lóðrétt).

Bestu kveðjur til ykkar allra og munið að vera góð hvort við annað.

Friday, August 5, 2011

Nýja vinnan

Er á hjúkrunarheimili sem er í sirka 15+ aksturfjarlægð frá heimilinu. Heimilið var opnað 2004 og er svona "modern" hjúkrunarheimili eins og stýran orðaði það. Kommúnan rekur þjónustuna en húsið er í eigu einhvers félags. Íbúarnir eru 40 talsins en þeir leigja sitt herbergi, sem er lítil studíóíbúð, af eigendunum hússins. En skilyrði fyrir því að að geta leigt svona íbúð er að einstaklingurinn þurfi umönnun/þjónustu allan sólarhringinn. Kommúnan rekur svo þjónustuna sem veitt er. Heimilið skiptist í 4 deildir. Tvær heilabilunardeildir og tvær almennar. Inn á hverri deild eru 10 svona litlar "íbúðir". Sameiginleg setustofa og borðstofa ásamt eldhúsi og nokkurs konar lyfjaherbergi eða vakt.

Hver "íbúð" er ekki stór en þar smá eldhússkot með skápum og hægt að hafa lítinn ísskáp og kaffikönnu t.d., svo er sæmilegt pláss fyrir rúm og sófasett eða borðstofuborð og stóla, eða hvað sem fólk vill. Svo er nokkuð stórt baðherbergi í hverri íbúð, með sturtu og plássi fyrir þvottavél og þurrkara og þurrkgrind. Svo er útgangur í hverri íbúð út á litla verönd.

Hver og einn leigir sína íbúð og er með sitt dót í henni, ásamt sængum, koddum, rúmfötum, handklæðum og slíku. Þvottavél og þurrkari er í eigu íbúans og er hans þvottur þveginn í hans þvottavél í hans eigin íbúð. Einnig sér hann sér sjálfur (eða ættingjar) um að þær hreinlætisvörur sem hann þarf séu til. Einnig sér hann eða ættingjar um að kaupa sín lyf (sem eru svo niðurgreidd eða eitthvað þess háttar af tryggingum) en starfsfólk sér um að skammta og gefa þau, nema íbúinn geti og vilji sjálfur sjá um það. Þegar viðkomandi getur ekki lengur verið í eigin rúmi þá fær hann sjúkrarúm hjá heimilinu en öll hjálpartæki eins og lyftarar, hjólastólar, göngugrindur, baðborð, loftdýnur og fleira er fengið að láni hjá hjálpartækjabanka. Mér skilst að tryggingakerfið borgi leiguna fyrir viðkomandi.

Viðkomandi er þjónustaður eins og hann sé heima hjá sér. Mat fær hann á heimilinu og borðar annað hvort í sameiginlegu rými eða inni hjá sér. Það er eldað í eldhúsinu á hverri deild  í hádeginu á laugardögum (minnir mig) aðra daga kemur hádegismaturinn frá öðru hjúkrunarheimili í kommúnunni (þar sem er mjög stórt eldhús). Morgunmatur, kvöldmatur og kaffi er tekið til í eldhúsi deildarinnar en það er í opnu rými ásamt borð- og setustofu.

Auðvitað eru matartímar á nokkuð ákveðnum tímum en tíminn er nokkuð rúmur, t.d er gert ráð fyrir að morgunmatur sé frá sirka átta, hálfníu til kl 10:15. Það er ekkert verið að eltast mikið við klukkuna þannig lagað og fólk er ekki vakið til þess að vera búið að borða á ákveðnum tímum eða miðað við að allir séu klæddir fyrir klukkan eitthvað ákveðið. Fólk er aðstoðað á fætur þegar það vaknar. Ég er búin að vera á annarri heilabilunardeildinni og þar er mikil áhersla lögð á rólegheit og að gera hlutina þegar fólkið er tilbúið til þess en ekki þegar starfsfólkinu hentar. Baðdagar eru nokkuð skipulagðir en samt eru þeir ekkert heilagir ef viðkomandi langar, þarf eða er tilbúin á öðrum degi þá er það bara þannig.

Á morgunvaktinni eru 3 og stundum 4 starfsmenn á hverri deild (á 10 einstaklinga) á kvöldin eru það tveir og hálfur starfsmaður á hverri deild, þ.e tveir fastir og einn sem skiptist á milli tveggja deilda. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn.

Í húsinu er líka dagdeild og ýmsar uppákomur reglulega í sameiginlegu rými fyrir allar deildir og það er farið í allskonar ferðir með þá sem það geta ásamt dagdeildinni. Einnig er í húsinu hárgreiðslukona, sjúkra- og iðjuþjálfi ásamt fótsnyrtikonu. Í kringum húsið er frábær garður þar sem er góð aðstaða fyrir gönguferðir og útiveru.

Mér líst mjög vel á þetta og andrúmsloftið er mjög jákvætt og gott, allavega á deildinni sem ég hef verið á núna í aðlögun. Hlakka bara til að takast á við þetta.

Kærar kveðjur og munið eftir kertaljósinu nú þegar farið er að dimma.

Sunday, July 31, 2011

Undirbúningur hafinn


Fór á fætur kl 6:30 (sem er mjög ókristilegur tími) til þess að skutla bóndanum í vinnuna. Gerði þetta líka á föstudaginn (spurning hvort það eigi að hafa áhyggjur af frúnni). Svo á meðan drengirnir (aðalega sá yngri) sofa þá nýti ég tímann til að fá mér kaffibolla í þögninni og undirbúa mig fyrir starfsviðtalið sem verður núna á miðvikudaginn. Planið er að geta tjáð mig eins mikið og mögulegt er á norsku því ég ætla að reyna að heilla konuna upp úr skónum. Ekki geri ég það með því að framvísa norsku hjúkrunarleyfi því ég er að bíða eftir vottorði um starfsleyfi frá íslenska Landlæknisembættinu svo ég geti sent inn gögn hér og þá líða nokkrar vikur þar til ég fæ norska leyfið í hendurnar (tómt vesen), spurning hvort konan geti ráðið mig þar sem þetta er ekki komið í lag. Búin að blóta því að hafa ekki haft vaðið fyrir neðan mig og sótt um norskt sjúkraliðaleyfi fyrir löngu þá hefði ég getað byrjað þannig. Alltaf gott að vera vitur eftir á. Sjáum til hvernig þetta gengur og vonandi næ ég að heilla stýruna upp úr skónum ;)

Annars er allt fínt að frétta af okkur og við höfum það ljómandi gott. Fáfnir Freyr lék við nágrannadrenginn um daginn en þeir hafa ekki smollið saman aftur eru báðir eitthvað smá feimnir, en það kemur vonandi. Í þessum tveimur húsum sem standa hér hlið við hlið eru samtals 9 börn á aldrinum tveggja til tíu eða ellefu ára og svo eru það unglingarnir mínir tveir, sem sagt 11 börn svo það er mikið fjör hér og ætti að vera hægt að leika. Svo vonandi fer Fáfnir að hrista af sér feimnina og taka þátt í fjörinu.

Þegar ég skutlaði Nökkva í vinnuna í morgun sá ég að það er að færast líf í skólanna. Starfsfólkið er að týnast til vinnu eftir sumarfrí. Skólarnir byrja svo þann 18.ágúst svo alvaran fer að taka við af sluksinu. Erum búin að fara og kíkja á skóla strákanna svona að utan og skoða skólalóðina í skólanum hans Fáfnis, okkur fannst hún flott. Við förum svo í viðtöl og heimsóknir þangað einhverjum dögum áður en fyrsti skóladagur hefst.

Darri Snær er að spá í að skella sér á námskeið hjá golfklúbbnum til þess að fá græna kortið (leyfi til að spila á aðal vellinum), ég er enn að melta það hvort ég eigi að skella mér með honum. Ég hafði litla trú á því að ég ætti eitthvað erindi á aðal völlinn, þar sem ég hef ekkert spilað og er nýbyrjuð að æfa mig, en mér gekk svo fjári vel á æfingavellinum í gær (var bara tveimur höggum yfir Nökkva og fjórum yfir Darra) að ég held bara að ég spái alvarlega í að skella mér með drengnum. Við getum þá stutt hvort annað í að reyna að skilja innihald námskeiðsins.

Kveð í bili, hafið það sem allra best.

Monday, July 25, 2011

Hvað skal segja?

Maður er eiginlega orðlaus yfir þessum hörmungaratburðum í Osló og Utøya. Ríkissjónvarpið hefur nánast eingöngu verið með fréttatengdar útsendingar á sínum stöðvum frá því að þetta gerðist. Mér finnst þetta hálfóraunverulegt og upplifunin er eins og þetta hafi gerst í allt öðru landi en ég er stödd í. Það er óskiljanlegt að nokkur maður skuli geta framið svona voðaverk. Maður finnur óneitanlega fyrir því að fólk hér er slegið og það létust ungmenni héðan úr fylkinu (Hordaland) í skotárásinni.

Annars höfum við það fínt hér í sveitinni. Í lok síðustu viku var ég samt farin að finna að ég er upp í "sveit". Strætósamgöngur hingað til okkar eru frekar stopular og mér fannst ég svoldið innilokuð. Kannski af því að það tekur á að vera nánast eingöngu í samskiptum við 8 ára gamlan dreng sem er með ADHD og mótþróaröskun. Þið megið ekki misskilja mig, ég elska að vera svona mikið með honum en það getur líka verið ótrúlega lýjandi að vera með honum allan daginn, það er mjög krefjandi. Þá hefur stundum vantað að geta komist í annað umhverfi (með honum að sjálfsögðu) og fundið eitthvað nýtt að gera. Ég hef ekki alveg verið í stuði til að vakna rúmlega 6 á morgnana til að keyra Nökkva í vinnuna svo ég hafi "drossíuna". Mér er þess vegna engin vorkunn. Þetta stendur hins vegar allt til bóta, erum búin að sjá það að við verðum að vera með tvo bíla, allavega á meðan við búum í þessu hverfi þar sem samgöngur eru okkur ekki hliðhollar, svo við erum aðeins farin að skoða bílamál.

Annars líður mér vel hérna í hverfinu þó það sé aðeins úttúr. Þetta er ósköp rólegt og notalegt, það eina sem truflar kyrrðina eru þyrlurnar sem þjónusta olíuborpallana (held ég). En það fljúga ansi margar hér yfir á hverjum degi og byrja snemma á morgnana, þetta venst samt ótrúlega fljótt og ég er nánast hætt að taka eftir þeim.

Kennitölur eru komnar í hús. Nú bíð ég eftir að fá vottorð um starfsleyfi frá Landlækni (ótrúlegt að nýútgefið starfsleyfi dugi ekki) svo ég geti farið að sækja um norskt hjúkrunarleyfi. Ég bíð líka eftir að konan sem bauð mér að koma í atvinnuviðtal hafi samband aftur. Hún hafði samband í gegnum tölvupóst, ég sendi á hana til baka og bað hana um að ákveða fundartíma en ég bíð enn eftir svari. Mér skilst að ég geti alveg verið róleg það sé ekkert óeðlilegt við að það taki nokkrar vikur. Ef mér fer að leiðast biðin þá manna ég mig kannski upp í að hringja. Ég hlakka til að sjá hvernig heimili þetta er. Átta mig ekki alveg á hvort þetta sé dvalar- eða hjúkrunarheimili eða sambland af þessu tvennu. Mér skilst að það séu íbúðir þarna fyrir aldraða og svo eru deildir líka bæði heilabilunardeild og fyrir þá sem þjást af líkamlegum vandamálum (somatisk avdeling). Ég hélt fyrst að þetta væri hér rétt hjá en við nánari eftirgrennslan þá er þetta svona u.þ.b. 15-25 mín keyrsla. Á sama stað og Darri Snær þarf að sækja skóla. Svo er að gerjast í mér hvort að ég eigi að sækja um á sjúkrahúsi inn í Bergen, er ekki alveg viss. Mér líður alltaf vel með gamla fólkinu svo það er spurning.

Skelltum okkur með vinahjónum inn í Bergen í gær í túristaleik. Fórum í siglingu um hafnarsvæðið og það var mjög gaman. Eftir siglinguna fórum við á kaffihús og fylgdumst með mannlífinu. Fáfnir Freyr dundaði sér við að gefa smáfuglunum gulrótarköku á meðan við spjölluðum yfir kaffibolla. Honum fannst reyndar dúfurnar frekar ágengar og reyndi að reka þær í burtu :) ég var farin að hafa áhyggjur af því að mávarnir færu að reyna við fenginn líka. En þeir héldu sig sem betur í hæfilegri fjarlægð. Veðrið í Bergen í gær var fjölbreytt. Það var mjög hlýtt og sól, en við fengum líka svakalegan hitaskúr náðum að hlaupa í skjól. Svo rigndi af og til en það var svo hlýtt og blankalogn að maður blotnaði varla, má eiginlega segja að rigningin hafi verið "þurr". Fáfni Frey fannst mjög merkilegt að hann væri á stuttbuxum og stuttermabol úti í rigningu og nefndi það reglulega.

Á laugardaginn skelltum við okkur í keilu á Vestkanten. Þar er líka sundlaug (badeland) með rennibrautum og einhverju fleira skemmtilegu sem við þurfum að prófa við tækifæri.

Kærar kveðjur til ykkar allra þarna úti þar til næst.

p.s
Langar að þakka þeim sem kommentuðu við síðustu færslu. Það var sérstaklega gaman að lesa kveðjurnar frá ykkur.

Wednesday, July 20, 2011

Af hverju eru bangsar svona mikilvægir fyrir börn?

Spurði Fáfnir Freyr pabba sinn að þegar þeir voru að pakka niður dótinu hans fyrir flutninginn. Þessi spurning er alveg efni í heimspekilega umræðu. Við höfum aðeins velt þessu fyrir okkur en ekki komist að neinu algildu svari. Ástæðurnar eru sjálfsagt jafn margar og börn heimsins, en skemmtileg pæling samt.

Við höfum það bara notalegt hér og dundum okkur við að skemmta hvort öðru. Ég held að allar fjölskyldur hefðu gott af því að flytja í svona bláókunnugt umhverfi. Við höfum allavega eytt meiri tíma saman við allskonar iðju þessar tvær vikur heldur en allt síðasta ár (kannski ýkjur og þó). Áður voru allir að bardúsa sitt með sínum vinum hver í sínu horni en núna höfum við bara hvort annað og höfum verið að gera margt skemmtilegt saman. Skrítið samt að það þurfi flutning milli landa til þess, kannski hefur þetta verið eitthvað öðruvísi hjá okkur en öðrum en ég held samt að það sé það sama uppi á teningnum í þessum efnum hjá mörgum.

Þó að mér finnist þessi tími og samvera yndisleg þá var það líka alveg kærkomið að fá gesti í gær og spjalla við fullorðið fólk, maður hefur líka ákveðna þörf fyrir það. Hingað til okkar komu íslensk hjón sem búa hérna rétt hjá okkur og Nökkvi hefur verið í sambandi við. Hjón sem pikkuðu í okkur þegar við vorum í mollinu, í heimsókn minni hér í september, og spurðu hvort þau hefðu heyrt rétt að við værum íslendingar. Þannig byrjaði sá kunningsskapur.

Eiginmaður minn hefur þó nokkuð dásamað hvað umferðin hér gengur smurt og það sé enginn æsingur í mönnum. Mér hefur nú samt tekist að láta flauta á mig þrisvar sinnum á þessum tveimur vikum. Spurning hvort ég sé algjör ökuníðingur eða misheppnaður bílstjóri...........................tölum ekki meira um það ;)

Nú er ég að yfirfara gögnin og panta ný svo ég geti sótt um starfsleyfi hér. Ég hélt að leyfið frá landlækni myndi duga en mér er sagt að það sé vissara að fá frá landlækni vottorð um starfsleyfi (það er hægt að gera hlutina ótrúlega flókna). Þegar ég er komin með það í hendurnar þá get ég farið að senda inn þessa umsókn svo nú er spurning um að fara að svipast um eftir vinnu. Annars er ég ekkert stressuð og nýt þess að vera í fríi og hafa það náðugt með strákunum mínum. Hafði alveg orðið þörf á smá fríi ég finn það, gott að geta hugsað um ekki neitt eða þannig og vaknað inn í dag þar sem ekkert mjög aðkallandi bíður eftir manni.

Við höfum það sem sagt bara fínt og allir eru nokkuð jákvæðir, þó ég finni að þetta sé erfitt fyrir suma, en það var líka búist við því. Nú vantar bara heimasætuna til að fullkomna þetta, finnst hálf skrítið að hafa hana ekki hér hjá okkur.

Hafið það sem best rýjurnar mínar þar til næst.

P.s
Verið ófeimin að kommenta, forvitninni í mér finnst gaman að vita hverjir líta hér við. Svo yljar það að fá smá kveðju að heiman.

Sunday, July 17, 2011

Myndablogg

Þessi tvö áttu 17 ára brúðkaupsafmæli í gær

Ég fór í gönguferð með þessum myndarpiltum í blíðunni í gær


Þarna hægra megin sést vegurinn upp í Ebbesvikfjellet sem er hverfið okkar

Á leið niður í Ebbesvik


Ebbesvik


Það er körfuboltaspjald á leikvellinum í Ebbesvik

Þar var líka bolti svo það var tilvalið að skjóta á nokkrar körfur

Í Ebbesvikinni eru bæði sumarhús og íbúðarhús, já og slatti af bátum

Væri ekki amalegt að eiga einn svona til að sigla um firðina

Jafnvel væri alveg nóg að eiga einn svona

Sjórinn var eins og spegill í kyrrðinni

Það eru rafmagnslínur þvers og kruss

Feðgar á leið heim

Strætóskýlið sem Darri Snær mun dvelja í langdvölum í vetur

Sumir gengu berfættir heim og ef vel er að gáð má sjá svartar tær

Þeim eldri fannst sniðugra að stökkva yfir girðinguna heldur en að hanga á henni

Gatan í hverfinu okkar er frekar mjó og bugðótt


Sést glitta í húsið okkar fyrir miðri mynd (þetta gráa)

Og hér búum við

Ein blómamynd í lokin. Fannst þetta svo fallega dóppótt inn í bikarnum/bjöllunni.


Wednesday, July 13, 2011

Ef ég er ekki ég hver er ég þá?

Ja, maður spyr sig. Þið veltið því væntanlega fyrir ykkur hvers vegna ég (ef ég er ég) spyr svo einkennilega.

Hefst þá sagan:
Nökkvi þurfti að fá staðfestingu á hjúskap okkar hjóna fyrir skattinn hér í landi en eins og einhverjir muna kannski þá tókst skattinum heima að afgifta okkur og afbarna Nökkva á síðasta skattframtali svo væntanlega hafa réttar upplýsingar ekki skilað sér hingað.

Sem sagt þurfti hann að skila inn staðfestingu á hjúskap okkar og vottorði um búsetu mína og barnanna á síðasta ári. Ég hafði samband við Þjóðskrá og talaði þar við elskulega konu sem var öll af vilja gerð til að aðstoða mig og sagði þetta lítið mál og skildi alveg út á hvað þetta gekk, hún mundi bara útbúa þetta og senda okkur í snarhasti. Í dag kom svo póstur frá Þjóðskrá (fyrr en ég reiknaði með) með báðum þessum vottorðum. Eiginmaðurinn opnaði umslagið og skoðaði innihaldið jú, jú þarna var staðfesting á hjúskap hans við Íris Gísladóttir fædda 7.sept 1972 (ég tel það vera mig) en við lestur næsta vottorðs runnu á hann tvær grímur þar var vottað að frá því hann flutti út og til áramóta 2010 hefði Íris Gísladóttir fædd 11.júlí 1963 búið í Hlíðartúni 4, Hornafirði, Íslandi ásamt börnum sínum Yrsu Líf, Darra Snæ og Fáfni Frey Nökkvabörnum. hmmmmm. Jáhá hann spurði náttúrulega hvor Írisin ég væri og hvort ég hefði villt á mér heimildir og ef ég væri þessi sem væri fædd 1972 hvers vegna hin hefði búið með börnum okkar, ég kannast ekkert við þessa konu og hélt að ég hefði búið með börnum mínum á þessum tíma........

Ég hringdi nú í Þjóðskrá til að láta leiðrétta þennan misskilning því vottorðið hafði náttúrulega litla þýðingu fyrir okkur með ranga konu í aðalhlutverki. Ég spjallaði aftur við þessa elskulegu konu sem baðst innilegrar afsökunar og ætlaði að redda þessu hið snarasta og senda mér í tölvupósti og þá með rétta konu í aðalhlutverki. Elskulega konan stóð við orð sín og ég fékk nýtt vottorð með réttri konu, en nú vantaði eitt barnið í vottorðið (ég er ekki að djóka). Ég hlakka rosalega mikið tíl að sjá hvort þetta komi rétt á morgun eða hvort það sé kannski aukabarn á vottorðinu ;)

Við erum búin að hlæja mikið yfir þessum skemmtilegu póstum frá Þjóðskránni. Það þarf svo lítið til að gleðja okkur ;)

Annars höfum við átt yndislegan dag sem innihélt sól, sull, golf og vöfflur. Erum sólbrunnin, sælleg og að sjálfsögðu sæt.

Við erum alveg sérstaklega dugleg að gleyma að hafa myndavél með í för og bara yfirleitt á lofti, en ég lofa að reyna að muna oftar eftir henni og setja inn eina og eina mynd svona af og til.

Kærar kveðjur til allra.

P.s
Vantar ykkur nokkuð mánan? Ég get svo svarið það að Hornafjarðarmáninn glotti til mín áðan.

Sunday, July 10, 2011

"Bara" húsmóðir

Svei mér þá að ég var búin að gleyma því að það er fullt starf að vera "bara" húsmóðir. Það er alveg nóg að gera hjá mér þó svo að ég sé ekkert að missa mig í því að rífa upp úr kössum og einn unga vanti í hreiðrið. Mér finnst líka heimilisstörfin mun skemmtilegri þegar ég þarf ekki að vera í kapphlaupi við tíma sem ég á ekki til og kannski eru þau líka skemmtileg af því ég hef sinnt þeim frekar illa í langan tíma. Mamma ég bý meira að segja um rúmið mitt á hverjum degi ;) og bútasaumsteppið sem ég saumaði tekur sig mun betur út á rúminu en á stól (samt var það mjög fallegt á stól).

Þó ég njóti þess að dúlla mér hér heima við "bara" heimilisstörf þá veit ég vel að það líður að því að mig fari að klæja í puttana og langi að komast í vinnu. Svo sennilega fer ég að horfa í kringum mig fljótlega. Hjúkrunarleyfið mitt er á leiðinni frá Íslandi og þegar það kemur í hús get ég farið að sækja um leyfi hér. Við erum búin að fara og skrá mig og strákana inn í landið en vegna sumarlokana og sumarleyfa mun taka 5 vikur að fá kennitölur. Held samt að ég geti alveg farið að sækja um vinnu þó hana vanti. Svo er það stóra spurningin hvort það eigi að fara í gegnum ráðningarskrifstofu eða hafa bara samband beint við viðkomandi stofnun, er heldur ekki alveg viss hvort mig langar að starfa á hjúkrunarheimili eða sjúkrahúsi, er ennþá að melta það.

Kössunum fækkar hér óðum og það er að verða komin heimilisbragur á þetta hjá okkur, ég er samt ennþá að upplifa mig bara í sumarfríi þó svo að dótið okkar sé hér. Mér líður samt mjög vel hérna og þetta hverfi er virkilega notalegt. Strákarnir plumma sig ágætlega og ekkert að kvarta eða að tala um heimþrá (ennþá), við njótum þess bara að vera saman en við söknum óneitanlega heimasætunnar.

Fórum öll saman á æfingasvæði golfvallarins í dag og æfðum sveifluna og púttin. Mig hefur lengi langað að prófa golfið en aldrei gefið mér tíma, hef fengið smá tilsögn og fundist þetta spennandi. Mamma var svo elskuleg að lána mér gamla settið sitt til að hafa með hér út til að prófa. Nökkvi er búinn að vera að spila golf hér, skellti sér á námskeið. Darri er áhugasamur og Fáfni finnst gaman að fá að koma með svo þetta gæti bara orðið fínt fjölskyldusporti.

Kveð að sinni, heyrumst síðar.

Friday, July 8, 2011

Sól, ofnæmi og fleira.

Sælt veri fólkið. Fyrstu dagarnir hér hafa liðið við upp-pökkun og flokkun (það gengur hægt en örugglega) á meðan heimilisfaðirinn dvelur á sínum vinnustað. Það er skemmst frá því að segja að búslóðin komst óskemmd á leiðarenda nema stofuborðið mitt sem er frekar illa rispað (eitthvað datt flutningsaðilum í hug að endurraða í bílinn með þessum afleiðingum).

Nökkvi kemur heim úr vinnu milli klukkan þrjú og hálffjögur og þá höfum við fundið okkur eitthvað skemmtilegt til dundurs. Hér er búið að vera dásamlegt veður síðan við komum, sól og hitastigið farið vel yfir 20 gráðurnar. Darra Snæ ofbauð þegar hann steig út í fyrradag og uppgötvaði að það var mikið heitara úti en inni :) honum fannst það eitthvað órökrétt.

Annan daginn hér (miðvikudag) var ákveðið að fara eitthvað til að leyfa yngri prinsinum að dýfa öngli í vatn eða sjó. Hann hafði ekki talað um annað síðan við lentum minnugur þess að foreldrarnir (hálf ofan í kassa við niðurpökkun og ákaflega uppteknin) höfðu lofað veiðiferð í Noregi því það hentaði betur þá en í miðri niðurpökkun. Sólarvörn var skellt á liðið og haldið af stað léttklædd og brosandi. Við fundum okkur fínan stað (á svona útivistar- og sullsvæði) og prinsinn æfði köstin og gekk vel þó engin fiskur biti á. Allt í einu komu þrumur (bölvaður hávaði í þeim) og svo kom skúr ég varð svoldið hrædd um að þetta endaði með blautbolakeppni húsmóðurinnar (við vorum jú léttklædd) en það slapp, stytti upp jafn hratt og það byrjaði. Þrumurnar héldu samt áfram og svartir skýjabakkar hrönnuðust upp svo við pökkuðum saman og rétt náðum inn í bíl áður en ósköpin dundu yfir. Það rigndi svo hressilega að það sást varla út úr augum (heima hefði maður sagt að það sæist ekki á milli stika) og rúðuþurrkurnar höfðu eiginlega ekki undan á mesta hraða.

Þennan sama dag ákvað frúin að prófa nýja hjólið sitt. Svo þegar kvölda tók og hitastigið lækkaði aðeins bauð ég þeim sem verða vildu í hjólatúr. Með í för voru yngri sonurinn og eiginmaðurinn. Það gekk fínt fyrri hluta leiðarinnar og fákurinn minn nýi rann ljúflega niður Ebbesviksfjellet (við búum þar) sem er nú ekkert mjög bratt þó að nafnið gefi það til kynna. Við hjóluðum  dágóðan spotta og kynntum drengnum reglurnar um hvar á veginum hann mætti hjóla því það er jú engin gangstétt og vegurinn í mjórra lagi. Heimleiðin gekk sæmilega framan af þó svo að frúnni væri farið að hitna svoldið því prinsinum finnst jú skemmtilegra að hjóla hratt (er ekki vön því að vera í hraðakeppnum í svona hita) en það er skemst frá því að segja að mér gekk ekki vel að hjóla upp Ebbesviksfjellet (þó það sé ekki mjög bratt) og fákurinn var teymdur upp erfiðustu brekkurnar. Þegar heim var komið var liðið sent í sturtu og húsmóðirin skipaði fyrir (eins og henni er einni lagið) og hleypti öðrum á undan sér í sturturnar (hér eru tvær sturtur svo það tók fljótt af). Svo þegar komið var að mér kófsveittri konunni (eftir hjólatúrinn) þá vildi nú ekki betur til en svo að það var farið að flæða upp úr niðurföllunum á neðri hæðinni (í þvottahúsi og baðherbergi). Það sama var að gerast í hinni íbúðinni svo það var líklega stífla í frárennslinu og frúin (þessi sveitta) gat gleymt því að fara í sturtu og mátti reyna að bleyta þvottapoka mjög hratt til að strúkja af sér mesta svitan, óskemmtilegur andskoti. Nágrannarnir (í næstu íbúð) tóku að sér að redda pípara og stíflulosun daginn eftir.

Morguninn (í gær) eftir hafði vatnið sem var ofan niðurfalls lekið niður svo ég stalst í sturtu enda frekar klístruð og ókræsileg, það varð til þess að það flæddi aftur upp úr niðurföllunum á baðherberginu og þvottahúsinu (ekki mikið samt bara smá), sturtan var samt ákaflega hressandi og ein af þeim bestu sem ég hef farið í. Hún var nógu hressandi til að ég gat haldið áfram við þá iðju að týna dót leigusalans úr eldhússkápunum og koma mínu fyrir og ganga frá dóti úr baðherbergiskassanum (þurfti bara að passa mig á pollinum). Þegar yngri sonurinn vaknaði þennan morgun var hann rauðflekkóttur á handleggjum, hálsi, bringu og eyrum, ásamt því að vera hálf óhuggulegur í framan rauður og þrútinn. Eftir að hjúkkumamman var búin að skoða hann hátt og lágt var niðurstaðan sú að hann væri með ofnæmi fyrir sólarvörninni sem hún nánast baðaði hann upp úr deginum áður. Eftir því sem líða tók á daginn fór útlitið skánandi svo nú hefst leitin mikla að sólarvörn sem barnið þolir.

Plan dagsins (eftir að vinnudegi bóndans lauk) var að fara á skattstofuna og skrá mig og strákana inn í landið og sækja um kennitölur, en þar sem hún lokaði snemma var því frestað um einn dag og ákveðið að sinna þörfum eldri drengsins í staðinn. Þær þarfir voru að fara í ákveðna golfbúð inni í Bergen til að ath með golfsett sem átti að vera afmælisgjöf frá okkur foreldrunum og ömmu og afa á Smárabrautinni. Við náðum í golfbúðina rétt fyrir lokun, fengum fína þjónustu og versluðum þetta fína sett á nokkrum mínútum (sem var Darra að skapi því hann þolir ekki búðir). Það gekk illa að koma golfsettinu í bílinn það komst hvergi fyrir fyrr en búið var að rífa það úr kassanum, svo afgreiðslumaðurinn fékk að eiga hann. Næst lá leiðin í Ikea þar sem verslaður skildi einn Jonas (skrifborð sem Darri hafði augastað á) við nánari skoðun á Jonasi komumst við á því að við kæmum honum ekki með nokkru móti í bílinn svo planið er að fara og sækja hann á pallbíl á morgun (laugardag), við gátum hinsvegar verslað ýmislegt smálegt sem okkur vanhagaði um og m.a. er komin upp þessi fína sorpflokkunarstöð í eldhúsinu.

Fáfnir Freyr sá ýmislegt spennandi í Ikea sem honum langaði í og dundaði sér við að skrifa niður hina ýmsu hluti á blað ásamt verði og voru teknar nokkrar rökræður um hvað hann þyrfti sérstaklega að eignast og hvað ekki. Hann hreifst af nokkrum skrifborðum og dýrindis skrifborðsstólum og ekki síst tölvunum sem voru staðsettar á þessum borðum. Rökræður um tölvueign voru nokkuð áberandi og nokkuð skrautlegar á köflum. Komst að því að ferð í Ikea með barn með ADHD og mótþróaröskun þarfnast líklega aðeins meiri andlegs undirbúnings sérstaklega fyrir barnið já og foreldranna líka, þetta var svoldið snúið á köflum en hafðist allt og prinsinn var nokkuð sáttur í lokin (sennilega ísinn sem hann fékk við útganginn). Ég krosslegg bara putta og vona að hann sé búinn að gleyma öllum hlutunum sem hann skrifaði niður á blaðið sem er reyndar ekki mjög líklegt við nánari umhugsun (krakkinn er minnugri en fíll).

Tankbíllinn mætti um það leiti sem við komum heim til að losa stífluna í lögninni svo nú get ég sturtað mig að vild. Ekki veitir af fyrir húsfrúnna á meðan hún aðlagast þessum hita ;)

Dagurinn í dag er helgaður skattstofunni hér á staðnum því hún er víst að fara í sumarfrí í þrjár vikur takk fyrir. Og svo erum við boðin í grillpartý í kvöld til einnar af þessum einhleypu sem eru með eiginmanninum í kór.

Það var rigning þegar ég vaknaði í morgun en nú er sólin farin að skína sem mér finnst ekkert slæmt, vona bara að yngri prinsinn brenni ekki. Gleymdi að setja nýju sólarvörnina á smáblett áður en hann fór að sofa svona til að finna út hvort hann þolir hana áður en ég baða hann upp úr henni.

Bestu kveðjur til ykkar allra, ég ætla á svalirnar með kaffibollan og kanna hitan á sólinni.