Saturday, October 8, 2011

Virðist gera góða hluti

Fyrir rétt rúmri viku fórum við yngsti sonurinn til BUP (Barna og unglinga geðlækna og sálfræðiþjónusta). Á þeim fundi var ákveðið að drengurinn myndi prófa lyf sem gefið er við ADHD. Já við erum að tala um hið alræmda Ritalin. Það er byrjað mjög rólega 1/2 tafla á dag og svo smá aukið upp í 3 töflur á dag. Hefði náttúrulega verið lang þægilegast ef þetta væri bara 1x á dag en við byrjum á þessu og pælum í hinu síðar. Drengurinn var náttúrulega ekki mjög spenntur fyrir þessu og er ekki spenntur fyrir að taka töflur svo það eru smá serimóníur í kringum þetta.

Nú er hann búinn að vera að taka lyfið í viku og það gengur mjög vel. Ég hef ekki fundið neinar svakalegar breytingar hér heima nema hann hefur á þessari viku 2x skoðað dótið sitt (sem er varla hægt að segja að hafi gerst síðan við komum út). Hann hefur ekki leikið með það en aðeins spáð og spekúlerað í það og handfjatlað það. Jú kannski hef ég ekki þurft að standa í eins mörgum löngum samningaviðræðum, þær eru styttri. Í skólanum hafa þau hins vegar fundið nokkuð miklar breytingar til hins betra í seinni hluta vikunnar. Hann hefur tekið meiri þátt í því sem gerist í skólastofunni, leyst verkefni, svarað spurningum á norsku og er ekki eins hræddur við að mistakast. Það eru færri reiðiköst og hann verður ekki eins svakalega reiður og er fljótari að jafna sig á eftir. Hefur fengið krakkana með í leik og fleira. Svo þetta er allt mjög jákvætt ekki síst það að á fimmtudaginn þá sagði pilturinn við mig "mamma, nú er meðalið farið að hjálpa mér". Hann gat ekki útskýrt hvernig en hann virtist finna að honum gengi betur með ýmislegt, það var alla vega mjög góð tilfinning að heyra hann segja þetta, smá staðfesting á því að við séum að gera rétt.

Það kom mér á óvart þegar lyfið var sótt í apótekið að við þurftum ekki að borga krónu fyrir það, hvernig er þessu háttað á Íslandi?

Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur. Ég hef verið að vinna nokkuð mikið í september og það sem af er október, töluvert mikið meira en þessi föstu 25% sem ég hef. En það er nú bara jákvætt. Get alveg pínu stjórnað því hvaða daga ég vinn þegar ég tek svona extra-vaktir. Næstu viku er t.d haustfrí í skólunum og ég að vinna tvo daga í þeirri viku, fastar vaktir og svo get ég bara ráðið því hvort ég segi já ef ég verð beðin um að vinna aðra daga.

Heimasætan hefur ekki enn fundið sér vinnu, kannski ekki verið neitt svaka aktív við leitina. Hún sendi tvo tölvupósta á leikskóla og bíður eftir svari. Ég sá að auglýst var eftir fólki í búðina sem við verslum alltaf í en hún harðneitaði að sækja um, nennti ekki að vinna í búð núna.......Hefði viljað að hún skellti sér á þetta allavega tímabundið.

Það er farið að hausta og hefur vægast sagt rignt mikið undanfarinn mánuð, en það gerir ekkert til ég á svo flott stigvél :) Haustlitirnir eru að verða allsráðandi, og þeir eru svo fallegir. Þegar laufunum fór að fækka á trjánum þá uppgötvaði ég að ég sé út á sjó og það finnst mér nú ekki leiðinlegt. Hitastigið er ennþá svona um og yfir 10 gráðurnar, úlpurnar hafa ekki ennþá verið teknar fram, en regngallinn þess mun meira notaður ;)

Hafið það sem allra best rýjurnar mínar og njótið haustsins

5 comments:

Anonymous said...

Guð hvað það er gott að allt gengur vel með drenginn ykkar :) Gaman að frétta svona af ykkur. Takk fyrir min og stórt knús í hús

Bryndis H said...

alltaf gaman að fá góðar fréttir, Hafið það sem best

kv
Bryndís H

Anonymous said...

Það er vonandi að það gangi vel með lyfin. Ég á einn sem tekur lyf, en það er reyndar Concerta. Maður borgar nokkrar krónur, einhverjar 1500 krónur fyrir lyf sem í heild kosta um 50000 krónur. Þessi lyf gera mikið fyrir minn son - og hann lifir miklu skemmtilegra lífi en áður, stendur betur félagslega og námslega þó honum hafi alltaf gengið vel.
Varð bara að tjá mig um þetta. Hafið það sem allra best, kveðja Alla Fanney

Anonymous said...

Gott að heyra mín kæra að allt gengur betur með guttann. Hví skyldum við hafa samviskubit yfir að gera það sem okkur finnst vera rétt börnunum okkar til handa. Ritalín er ekki slæmt, en það er háskalegt fyrir þá sem misnota það, líkt og með blessað brennivínið: Við komum óorði á það en ekki öfugt. Gangi ykkur vel og mér líst vel á stígvélin þín. Þú manst líklega eftir mínum rauðu frá henni Ilse....flottast. Kær kveðja frá okkur Bróa.

Frú Sigurbjörg said...

Æ hvað ég get ýmyndað mér að það hafi verið gott að heyra peyjann segja þetta. Vonandi finnur heimasætann e-ð skemmtilegt til að starfa. Annars hef ég enga trú á öðru en þau plumi sig öll vel með svona stórfína mömmu í stórfínum stígvélum : )