Thursday, March 29, 2012

Er íslendingur hér

Ég hef eignast aðdáanda. Hann er kominn yfir nírætt blessaður en þegar hann veit af mér í vinnu þá vill hann fá íslendinginn til sín. Hann var svo yfir sig ánægður þegar hann vissi að ég væri frá Íslandi og hann þarf mikið að spjalla um Ísland. Mér finnst það ekki leiðinlegt heldur.

Hann segir mér sögur. Hann var á bát við strendur Íslands sem ungur maður. Hann veiddi síld, skilst mér og þeir lönduðu oft á Íslandi. Hann hafði komið til Vestmannaeyja, Siglufjarðar, Seyðisfjarðar og Akureyrar. Þetta voru staðirnir sem hann nefndi en hann segist hafa komið víða við. Augun ljóma þegar hann segir frá. Hann fór m.a á ball á Akureyri, ætlaði í bíó en endaði á dansleik og dansaði við margar fallegar íslenskar stúlkur. Hann segist hafa orðið ástfanginn á Íslandi og átt stúlku (kærustu) þar, en þegar komið var að því að halda á ný til Noregs þá vildi hún ekki fara með honum. Fannst það alltof langt. Í dag hefði það ekki þótt tiltökumál að bregða sér á milli landa til að elta ástina. Svo endar hann yfirleitt samtöl okkar á því að spurja hvort við eigum ekki bara að skella okkur saman til Íslands :) Hann mundi glaður koma með mér.

Síðast þegar við spjölluðum þá talaði hann um að hann hefði séð eldgos á Íslandi. Þeir hefðu verið á sjó og séð það frá hafi. Hann nefndi Vestmannaeyjar í þessu samhengi en ég fæ það ekki til að stemma við það að hann hafi verið mjög ungur þegar hann var að fiska við Ísland. Næst þegar við hittumst þá ræðum við þetta betur.

Gaman að heyra þessar sögur. En ég hef hitt annan eldri mann, sem stundum er gestkomandi á hjúkrunarheimilinu, sem hefur fiskað við Ísland. Þeir hafa eflaust margir verið á Íslandsmiðum á sínum yngri árum.

Góðar stundir

Friday, March 23, 2012

Fallegur dagur/myndablogg

Þurfti að bregða mér af bæ. Það var ansi erfitt að yfirgefa sólina á svölunum en ég lét mig hafa það. Tók myndavélina með svona að gamni mínu. Langaði til að sýna ykkur hvernig umhverfið er hér hjá mér í útlandinu. Það var nú ekki alltaf létt að finna bílastæði svo púströrið fékk aðeins að finna fyrir því, einu sinni enn, er greinilega ekki mjög flink á svona vambsíða bíla :)


Góðar stundir

Saturday, March 17, 2012

Hljóð

Ætli það sé hægt að vera með ofnæmi fyrir hávaða eða hinum ýmsu hljóðum. Ég hef allavega takmarkað þol gagnvart hinum ýmsu hljóðum. Mér finnst t.d afskaplega gott að hlusta á þögnina og geri það mun oftar en að hlusta á útvarp. Samt hef ég mjög gaman af tónlist en get ekki haft hana hátt stilta nema ég sé í alveg sérstöku skapi. Ískur, smelli, bank (síendurtekið) o.fl. getur gert mig alveg bilaða, væri líklega hægt að pína mig til frásagnar um ýmislegt með því að framkvæma slík hljóð í nokkrar sekúndur....

Núna situr betri helmingurinn ásamt börnunum inni í eldhúsi að spila Íslandópólý. Ég var með í upphafi en varð að gefast upp. Eftir annasaman (órólegan) dag í vinnunni höndluðu eyrun ekki talandan í mínum yndislegu börnum, sem virðast hafa erft talandan frá móður sinni ;) Þau eiga það til að tala dálítið mikið og helst öll í einu og það frekar hátt :) (líklega til að yfirgnæfa hvort annað) oftast hef ég lúmskt gaman af því, og hef það í sjálfu sér núna líka, á meðan ég sit í öðru herbergi :) Já ég veit, ég eiginlega skammast mín, en ég reyndi.

Góðar stundir

P.s
Það er bannað að nota þessar upplýsingar gegn mér!

Monday, March 12, 2012

Ég féll

Þetta var ást við fyrstu sýn

Ég rakst á þá alveg óvart og varð að máta

Þegar ég sá verðmiðann, 250 NOK, var ekki aftur snúið og ég tók þá með mér heim.

Hvað er eiginlega málið með konur og skó?

Góðar stundir.

Sunday, March 11, 2012

Draumur um hús

Það er ýmislegt sem við fjölskyldan veltum fyrir okkur. Já, við erum dálítið að spá í því hvort við eigum að fjárfesta í eigin húsnæði í stað þess að setja gommu af peningum í leigu. Við erum líka orðin frekar leið á lélegum strætósamgöngum hingað upp á fjallið. Það er yndislegt að búa hér, friðsælt og notalegt en stundum (frekar oft) pirrar þetta samgönguleysi okkur enda vön því að skottast allt á hér um bil 5 mínútum.

Við höfum skoðað ótrúlegt magn af fasteignaauglýsingum og draumarnir farið á háflug. Við höfum rætt fram og tilbaka hvaða kröfur við setjum um staðsetningu og slíkt. Húsmóðirin væri alveg til í að búa aðeins "afsíðis" nema á þriðjudögum og fimmtudögum (þá eru skutldagar á íþróttaæfingar og námskeið). Í sumum hverfum hér er byggt svo þétt að það er hægt að teygja sig út um eldhúsgluggan og hræra í potti á eldavél nágrannans. Slíkt nábýli er ekki ofarlega á óskalista hjá okkur. Unglingana dreymir um betri strætósamgöngur og að það sé ekki mjög langt í mollið eða sjoppu :) Börnin þrjú eru líka sammála um að þau vilja öll stærsta herbergið í húsinu. Foreldrarnir mundu helst vilja finna húsnæði í hverfinu þar sem sá yngsti er í skóla (núna) svo hann þurfi ekki að skipta um skóla (við elskum skólan sem hann er í) en það er eiginlega ógjörningur þar sem það er svo dýrt hverfi.

Það er reyndar ekki úr miklu að moða í sjálfu sér, þar sem að íslensku peningarnir verða að engu hingað komnir þá getum við ekki keypt dýrt, svo möguleikarnir eru ekki miklir. Við gætum keypt stórt flott hús ef við værum tilbúin að búa út í rassgati en ekkert okkar er tilbúið til þess (nema húsmóðirin, alla daga nema þriðjudaga og fimmtudaga). Við erum tilbúin að sætta okkur við lítið pláss, en allir vilja samt hafa möguleika á sér herbergi (við Nökkvi sættum okkur ennþá við að vera í sama herbergi) og lítill garður væri draumur.

Við erum búin að gera tilboð þrisvar sinnum. Tvisvar í íbúð í raðhúsi og einu sinni í lítið einbýlishús. Tvisvar höfum við fengið klárt nei og skilaboð um að ekki sé litið við tilboðum undir ásettu verði (sem var pínu yfir okkar mörkum), og svona ykkur að segja þá hlakkar í mér þegar ég sé að þessar íbúðir eru ekki ennþá seldar.

Þegar við buðum í húsið lentum við í "slag". Í byrjun áttum við hæsta tilboðið og við vorum bjartsýn enda höfðum við möguleika á að fara yfir ásett verð ef það yrði "slagur". Slagurinn lýsir sér þannig að við byrjum á að leggja inn skriflegt tilboð og svo er látið vita með sms-um þegar einhver hækkar tilboð og þau gilda frá c.a 20 mín niður í 10 mín. Þá hringir maður inn og lætur vita hvort maður hækkar sig eða er hættur. Þetta var æsispennandi og næstum því magasársvaldandi, það fór svo að við urðum að draga okkur út úr slagnum. Húsið var selt 255.000 NOK yfir ásettu verði sem var 130.000 NOK yfir því sem við gátum boðið. Við urðum frekar svekkt en höfum nú alveg jafnað okkur :)

Svo við höldum áfram að skoða fasteignaauglýsingar (er eiginlega að verða aðal hobbýið) og láta okkur dreyma. Ég er reyndar búin að sjá eitt (sem þið getið skoðað hér HÉR) sem heillar mig. Það versta er að það er gamalt, sem er kannski ástæðan fyrir því að það heillar, og það þarf að gera rosalega mikið fyrir það. Þakið er m.a orðið þreytt og fleiri "stór" verkefni sem þarf að huga að. Þar sem við hjónin erum ekkert sérlega miklir smiðir, pípulagningamenn eða rafvirkjar þá er þetta kannski ekki mjög gáfulega fjárfesting. Ekki nema væri hægt að koma sér upp viðhöldum með þessa menntun. En það er margt sem heillar samt, staðsetningin, ekki hægt að hræra í potti nágrannans með því að teygja sig út um gluggan, góðar samgöngur, gömlu upprunalegu gólfin og margt fleira. En það er allt í lagi að láta sig dreyma ekki satt.

Þetta er meðal þess sem er efst í huga okkar þessa dagana. Já, eins og þið lesið eflaust á milli línanna í þessum pistli, þá höfum við hugsað okkur að dvelja lengur hér í Noregi. Að flytja heim er ekki plönunum alveg strax, okkur líður vel og höfum það afskaplega gott og langar að prófa að vera hér lengur.

Góðar stundir.

Friday, March 9, 2012

Kaffi á "hraðbrautinni"

Kannski kominn tími á blogg. Var bent mjög kurteislega á það og þá gerir maður eitthvað í málinu, ekki satt.

Ég fór til tannlæknis í gær, sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Stóð í þeirri meiningu að ég væri bara að fara í smá tékk, svona til að athuga hvort kjafturinn á frúnni væri tilbúinn í það að fá krónu á úr sér genginn jaxl. Svo áður en ég fór inn hjá tannanum, þá sendi ég vinnufélaga smáskilaboð, til að athuga hvort hún vildi gefa mér kaffisopa eftir tékkið.

Það vildi nú ekki betur til en svo að þegar ég gapti fyrir tannlækninn, þá segir hún að nú byrjum við bara undirbúning fyrir krónuna. Ég átti ekki að finna til og fékk þvílíka deyfingu áður en hún hófst handa við að fjarlægja gamla fyllingu og spóla jaxlinn til. Ég er að segja ykkur það að tungan var dofin og öll vinstri hlið andlitsins eins og hún lagði sig, meira að segja eyrað. Fékk bráðabirgðakrónu sem er á stærð við jaxl í hesti (hef svolitlar áhyggjur af ektakrónunni sem er víst framleidd í útlöndum, vona bara að það sé ekki í Búlgaríu).

Þegar ég kom út frá tannsanum biðu skilaboð frá vinnufélaganum um að ég ætti að hringja, sem ég og gerði. Hún var á leiðinni út úr húsi ætlaði til Bergen á útsölumarkað og sagðist kippa mér með. Ég átti frekar erfitt um mál þar sem tungan og hálf neðri vörin voru undir áhrifum deyfilyfja. Svo það var einfaldast að segja bara já, og eins og við vitum þá slær kona ekki hendinni á móti því að komast á útsölumarkað.

Þegar ég var sest inn í bíl, búin að spenna beltið og við lagðar af stað, segir vinkonan ég kom með kaffi handa þér. Mikið rétt, hún var með kaffibrúsan og tvær könnur meðferðis. Á meðan hún kveikti sér í sígó, sagði hún helltu líka í könnu handa mér. Sem betur fer eru ekki slegin nein hraðamet á norskum hraðbrautum. Fannst þetta svoldið glæfralegt á köflum, þar sem hún reykti, drakk kaffi og skipti um gír. Komst að því að það er frekar erfitt að drekka kaffi, með dofna vör og tungu, akandi á norskri hraðbraut, jafnvel þó maður sé farþegi. Þetta var samt vel þess virði, við hlógum að vitleysunni og gerðum góð kaup á útsölumarkaðnum......

Góðar stundir.