Saturday, February 19, 2011

Kaffisopi hjá ömmu

Ég drakk kaffisopa með henni föðurömmu minni í dag, en ég reyni að gera það amk tvisvar í viku. Í dag sá ég miða á eldhúsborðinu hennar og á honum var vísa, vísa sem ég sá að hún hafði sjálf samið því þar kom fyrir setningin "komdu nú til löngu" en krakkarnir mínir og þá sérstaklega Fáfnir Freyr hafa kallað hana löngu (í stað langömmu). Amma mundi ekki hvenær hún hafði samið þetta en ég hef á tilfinningunni að það hafi verið nýlega og það gleður mig, því hún er með Alzheimer og mér finnst notalegt að vita að þessi eiginleiki er ekki horfinn.  Vísan er svona:

Komdu hérna krúttið mitt,
komdu nú til löngu.
Bjarta, hýra brosið þitt
bætir mína göngu.

Ég hef grun um að vísan sé samin til hennar Karítasar Diljár systurdóttur minnar, því hún amma ljómar þegar hún sér hana. Hún gleymir sér algjörlega við að fylgjast með henni. Hér er mynd af þeim saman sem ég fékk lánaða án leyfis af fb-síðu minnar ástkæru systur.


Ég hef verið svo heppin að geta umgengist hana föðurömmu mína að vild alveg frá því ég leit dagsins ljós. Hún aðstoðaði við að taka á móti mér í heiminn, en foreldrar mínir bjuggu á neðri hæðinni hjá ömmu og afa og þar fæddist ég og bjó fyrstu tvö ár ævi minnar. Í minningunni var ég oft hjá ömmu og afa sem barn, mamma vann á símanum á vöktum og pabbi var á sjó svo ég og síðar ég og bróðir minn höfum sjálfsagt verið þar í pössun oft. Ég á minningar um jólaföndur, bakstur, sláturgerð, grímubúningagerð með mömmu og ömmu, ásamt músasögum afa í hádeginu, hesthúsferðir, sveitaferðir, skautaferðir og svo margt fleira. Síðar á ævinni kynntist ég ömmu upp á nýtt, við Nökkvi hófum búskap okkar hér á Höfn á neðri hæðinni hjá ömmu og afa, og þar bjuggum við þegar hún Yrsa Líf fæddist og þar til hún var c.a 4 mánaða. Amma aðstoðaði mig mikið og það var gott að kíkja á efri hæðina í kaffisopa og spjall. Og það var líka ósjaldan sem afi gekk með litlu dömuna mína um gólf (en hún var frekar óvær) og söng fyrir hana. Þegar ég var svo ófrísk af Fáfni Frey þá mátti ég ekki vinna alla meðgönguna og þá notaði ég dagana oft í að kíkja til ömmu á Svalbarðið, og þá var margt spjallað. Þessi tími er mér ómetanlegur, og ég ylja mér oft við þessar minningar.

Ég man nú ekki nákvæmlega hvenær við uppgötvuðum að amma væri líklega með Alzheimer, sem svo var staðfest með greiningu. Sennilega eru að verða rúm fjögur ár síðan, já eða tæp. Henni hefur farið aftur og hún hefur breyst. Hún býr ennþá heima og það gengur vel ennþá. Sem betur fer líður henni vel og er alltaf glöð og brosandi, en oft fylgir það sjúkdómnum að fólk verður reitt og fær miklar ranghugmyndir en slíku hefur sem betur fer ekki borið á. Amma endurtekur sig mikið og segir manni sama hlutinn oft og mörgum sinnum á stuttum tíma, hún talar mikið um ákveðna hluti og staði frá því hún var ung. Það er ekki alltaf auðvelt að halda uppi samræðum við hana og hún man ekkert endilega eftir því að maður hafi litið við hjá henni eða hvað hún gerði þann daginn, en hún er alltaf í góðu skapi og ég þakka fyrir það. Ég á margar góðar minningar um ömmu og um það sem við höfum gert saman. Þó það sé stundum lýjandi að hlusta á sömu söguna og svara sömu spurningunum aftur og aftur á stuttum tíma, og jafnvel í hvert skipti sem maður kemur (ég væri að ljúga ef ég segði að það væri ekki lýjandi), og þó hún muni ekkert eftir því að hafa drukkið með mér kaffi og spjallað hálftíma eftir að ég er farin, þá mun ég halda áfram að kíkja í kaffibolla til hennar, því ég veit að það gefur henni mikið og hún nýtur þess á meðan heimsóknin varir. Það gefur mér líka mikið, ég er að flytja af landi brott í sumar, og það er ekki víst að hún muni eftir mér þegar ég heimsæki Ísland næst.

Það er vissulega erfitt að horfa upp á ástvin hverfa inn í Alzheimer-sjúkdóminn. Og ég veit að mörgum finnst erfitt að hitta sína nánustu þegar þeir þekkja ekki viðkomandi lengur, eða man ekki eftir komu þeirra. En það er alltaf hægt að hugga sig við það að heimsóknin, spjallið, snertingin skilar af sér á meðan hún varir þó hún lifi ekki í minningu þess veika.

Njótum hvers dags sem við eigum og hlúum að hvort öðru.

Laugardagur, hinn heilagi nammidagur




Smá fíflaskapur í okkur mæðginum, hressandi á laugardagsmorgni. Ég lofaði að skrifa ekki hér næst fyrr en leiðindapúkinn væri farinn úr mér. Held hann sé farinn í bili. Hér er nammidagurinn haldinn heilagur, ó, já. Sá yngsti á heimilinu sér til þess, mamman er send eftir gotteríi og svo slugsar hann á náttfötunum fram eftir degi og hefur það kósý.

Eitthvað er fólk feimið við commentakerfið hér inni. Þú skrifar commentið þitt og ekki verra að hafa nafn undir. Svo skrifar þú stafaruglið í dálkinn með hjólastólnum fyrir aftan (ég finn ekki út hvernig ég tek þann fídus út). Síðan hakar þú í Anonymus og ýtir á Puplish......

Eigið góðan laugardag.

Thursday, February 17, 2011

Nýtt útlit, dagur 7, grasekkja á ný


Vó ég verð nú bara hrædd við mig, er eitthvað svo grimm á þessari. Glóðuraugað eiginlega að hverfa, en það er ennþá smá bólga í þessu, ekki mikil samt. Skil ekkert í mér að hafa ekki látið snyrta aðeins umframhúð á augnlokunum. Þetta fer að slúta niður á kinn. Hægra augað er eins og það á að sér, en það vinstra fór í títtnefnda aðgerð.

Heimsókn bóndans lauk í dag. Ég var í verknámi á heilsugæslunni frá 8-15:30 (fékk reyndar að losna aðeins fyrr svo ég gæti kysst karlinn bless) fór svo á kvöldvakt 15:30- rúmlega 21 (og er með vaktsíman til morguns). Fékk símtal þegar ég var búin í vinnunni, og látin vita að það stendur til körfuboltaferðalag hjá þeim 7 næstum 8 ára. Bara til Keflavíkur frá 4-6.mars..................................ætla ekki að viðhafa nein orð um það..................

Væri til í að kaupa mér nokkra auka tíma í sólarhringinn (ætli það sé útsala einhvers staðar), væri líka til í að fjárfesta í gæfu,lukku og gleði fyrir fjölskyldu sem berst með kjafti og klóm fyrir sínu. Væri líka til í að á morgun væri útskriftardagur, get svo svarið það.

Mikið djö.... er ég leiðinleg í dag. Sé það núna, ætla að hætta núna svo ég drepi ykkur ekki úr leiðindum.
Lofa að ég verð í góðu skapi næst þegar ég skrifa hér inn.

Tuesday, February 15, 2011

Nýtt útlit, dagur 6


Jæja, saumarnir fá að fljúga í dag. Ragga hjúkkusystir fær að njóta þess heiðurs að plokka þá úr. Það verður ljúft að losna við þá, endarnir vilja stingast í augnlokið og valda óttalegum kláða en það er bannað að klóra......


Wonder Woman er komin í leitirnar, svo nú hlýtur allt að fara að gerast í verkefnavinnu og lestri. Mér þykir afskaplega vænt um þessa könnu sem var jólagjöf frá bróður mínum og mágkonu. Mér þykir ekki síður vænt um fallega drenginn sem laumaði sér á myndina með Wonder Woman, hann er gullmoli.

Nýtt útlit, dagur 5 og flugmiðar!


Augað er bara allt að koma til, ennþá smá litadýrð og það er nú ekki öll bólga farin enn. En á morgun fær hjúkkusystir mín að taka saumana úr augnlokinu, og það verður ljúft þeir pirra mig frekar mikið.

Nökkvi búinn að bóka flug á mig og börnin í smá heimsókn til Noregs. Páskafríið verður notað í það, verðum vikuna fyrir páska. Ég er reyndar búin að blikka tengdamóður mína og hún ætlar að vera sérleg fylgdarkona barnanna ef ég verð uppfyrir haus í lokaritgerðarvinnu.

Heilsugæsluverknámið leggst vel í mig. Margt að sjá og nóg að gera, það er svo frábært að fá að gera nóg og finna að manni sé treyst til þess, maður lærir mest á því að fá að gera hlutina sjálfur.

Það er ljúft að hafa bóndan hér heima. Hann er búinn að sinna bílskúrsmálum og er tekinn til við húsverk og barnauppeldi. Verst að gleðin er alveg að taka enda, hann fer suður á fimmtudag og út á föstudag. Þá tekur við hið skemmtilega púsl, því meðan ég er á Heilsugæslunni er ég þar 8-16 og þarf svo nokkrar kvöldvaktir á hjúkrunarheimilinu líka, en þetta reddast eins og allt.

Over and out

Sunday, February 13, 2011

Nýtt útlit, dagur 4


Eins og glöggir lesendur taka eftir þá allt í einu er það vinstra augað sem er huggulegt en ekki það hægra. Lífið kemur sífellt á óvart eins og ég hef áður sagt :). Málið er það að heimasætan hafði einhvern tíma notað tölvuna mína sem spegil þ.e vefmyndavélina, og breytti einhverjum stillingum þannig að hún speglaði myndirnar. En nú er búið að laga það og allt snýr rétt.
Bólgan minnkar og minnkar og litadýrðin tekur við. Þetta er allt á réttri leið.

Ég ætla ekki að rita hér meira í þetta skiptið þar sem ég er alveg hræðilega pirruð. Pirruð út í skólan minn og skipulag þar á bæ. ................. Ætla ekki að drepa ykkur með þeim orðum sem mig langar að láta um það falla.

Vona að helgin sé ykkur ljúf.

Saturday, February 12, 2011

Nýtt útlit, dagur 3


Þetta fer skánandi. Bólgan hjaðnar og ég get opnað augað, allavega til hálfs. Það eru íðilfagrir litir farnir að myndast á augnlokinu, þarf ekkert að hafa fyrir því að setja augnskugga á mig, sumir teldu það heppni. En það er alltaf spurning hvort mér tekst að ná fram sömu litasamsetningu á hinu augnlokinu.

Húsbóndinn er byrjaður á tiltekt í bílskúrnum, fannst hann nú samt snúast dálítið í hringi, þegar ég kíkti á hann áðan, eins og hann vissi ekki alveg hvar hann ætti að byrja. Ég öfunda hann ekki, þarna hefur safnast alls kyns góss (eða svo segir hann) síðast liðin 15 og 1/2 ár. Það hefur stundum verið lagst í tiltekt en mér hefur nú sjaldan fundist minnka magnið af dóti þarna inni. Þetta verður fróðlegt.

Hugur minn er þessa dagana sem og marga aðra hjá vinum sem standa í baráttu. Í augnablikinu stendur baráttan um það hvort móðir skuli dvelja með börnin sín í öðru landi á meðan forræðisdeila við fyrrverandi maka fer fram. Mann sem beitti hana ofbeldi, og hún hræðist ekkert meira en að þurfa að vera ein (án nánustu fjölskyldu og vina) í fjarlægu landi á meðan dæmt er í forræðismálinu. Faðirinn hefur farið fram á fullt forræði, þó hann hafi gengið út í bræðiskasti og skilið börnin eftir ásamt móður sinni í 2 vikur peningalaus. Honum var gert það skilt af dómara að greiða meðlag með börnunum sem hann neitar að gera og kemst upp með (mér finnst það ekki lýsa því að hann beri hag barnanna fyrir brjósti). Samt sem áður er dómur kveðinn upp um það að móðirin skuli fara með börnin í hans heimaland meðan forræðisdeilan fer fram. Nú er verið að áfrýja til hæstaréttar og það er hálf ömurlegt að horfa upp á hvernig óttinn getur litað líf fólks.

Lífið er ekki alltaf einfalt og getur tekið á sig margar óvæntar myndir

Vona að lífið fari um ykkur ljúfum höndum, verið góð hvort við annað og elskið náungan, það einfaldar svo margt.

Friday, February 11, 2011

Nýtt útlit, dagur 2


Var svo bjartsýn að ég hélt að bólgan myndi hjaðna í nótt. En mér varð nú ekki alveg að ósk minni. En þetta smá kemur. Er að spá í að líma lepp fyrir herlegheitin áður en ég fer í flug á eftir. Það er samt frábært að ég finni ekkert til í þessu, hjúkket. Svo ég er bara alsæl.


Verð nú að setja eina huggulega mynd líka

Thursday, February 10, 2011

Nýtt útlit



Þurfti í smá augnaðgerð, og er svona hugguleg á eftir. Sé það núna að kannski ég hefði átt að nota tækifærið og láta fjarlægja umfram húð á augnlokum í leiðinni. Annars kom það mér á óvart að ég þurfti að borga fyrir þessa aðgerð 28.000 kr og rúmlega það. Reiknaði alls ekki með því þar sem þetta var nú ekki lýtaaðgerð, heldur var verið að fjarlæga fyrirferð (hnúð) úr augntóftinni, eitthvað sem var ekki vitað hvað var og því talið betra að fjarlægja það. Læknirinn sagði mér að vera ekki að hafa áhyggjur þetta liti vel út og hann reiknaði með að þetta væri ekkert slæmt. Aðskotahluturinn er sendur í ræktun til að vera viss, ég fékk að sjá fyrirbærið og það leit ekki illa út, eins og meðalstór perla bara. Þegar ég leit í spegil eftir aðgerðina sá ég að það hefði verið sterkur leikur að taka með sér sólgleraugu til Reykjavíkur. Nökkva leið hálf kjánalega þegar hann fylgdi mér út í bíl eftir ósköpin, fannst fólk horfa undarlega á sig :)

Ég verð hugguleg á Heilsugæslunni eftir helgi, ætli fólki finnist asnalegt ef hjúkrunarneminn sé með sólgleraugu innandyra. Já ég er byrjuð í verknámi. Og það verknám er í heimabyggð sem er frábært. Verð á Heilsugæslunni í 3 vikur. Búin að vera einn dag og hann lofar virkilega góðu, held að þetta verði rosalega skemmtilegt verknámstímabil.

En akkúrat núna ætla ég að leggjast fyrir með kaldan bakstur á auga, og kannski bara sofna í smástund.

Sunday, February 6, 2011

Bjarni Fel

Það er eiginlega bara alveg bráðmerkilegt hvað ég líkist oft honum Bjarna Fel til augnabrúnanna. Ekki leiðum að líkjast svo sem, en þykir ekki sérlega huggulegt svona þar sem ég er kvenkyns. Mörgum þykir þetta útlit einkennilegt þar sem ég er þess heiðurs aðnjótandi að vera systir snyrtifræðings. Ætli það sé eitthvað svipað með fagfólkið í nánustu fjölskyldu og náttúruna í næsta nágrenni, maður gleymir oft á tíðum að njóta þeirra forréttinda að hafa ótakmarkaðan (hér um bil) aðgang að dásemdinni?

Kveð að sinni?

p.s ég á eftir að finna út hverjum ég líkist til fótleggjanna ;) get upplýst ykkur um það að mjög líklega er það karlmaður

Saturday, February 5, 2011

Þetta gengur ágætlega

Held ég sé að læra á þetta. Kannski það sé vegna þess að ég á að vera að lesa fræðigreinar :). Já við hjúkkusysturnar fjórar erum í lokaverkefnisvinnu (pælið í því). Núna er heimildasöfnun og lestur fræðigreina í hámarki. Ég þakka á hverjum degi fyrir internetið og gagnasöfnin sem þar er að finna. Það fer ekki lítill tími í leit að efni skal ég segja ykkur, og ég hugsa bæði með hryllingi og stolti til þessa fólks sem þurfti að hlaupa á milli bókasafna og skoða þúsundir tímaritna og bóka ásamt því að fá millisafnalán og ég veit bara ekki hvað, sem sagt þess fólks sem skrifaði lokaritgerðir fyrir tíma internetsins og gagnasafna.

Fræðigreinar eru kapítuli út af fyrir sig. Þær eru jú fræðandi og áhugavekjandi (oftast) en þær eru á svo yfirgengilega hátíðlegu og formlegu máli (að sjálfsögðu flestar á ensku) að það er erfitt að komast í gegnum þær og þó maður skilji efnið nógu vel til að finnast það áhugavert og skilji nokkurn veginn hvert er verið að fara og meina með efninu þá er ótrúlega erfitt að koma því yfir á íslensku, þetta þarf jú að vera rétt þýtt og ekki má merkingin breytast við þýðinguna. Hlakka til að geta farið að koma einhverju saman, sjá texta á blaði og fá það á tilfinninguna að lokaverkefnið sé að fæðast. Þegar það gerist þá verður restin auðveldari viðureignar.

Á dagskránni er líka verknám, síðasta verknámstímabilið. Byrja núna 9.feb á heilsugæslunni hér á Höfn (þvílíkur léttir að geta verið heima) og hlakka til. Verð þar í þrjár vikur og vinn tvö verkefni í tengslum við það. Það er líka eftir að fara í fjarnemaviku á Akureyri og suður að taka viðtöl í tengslum við lokaverkefnið. Og svo er það náttúrulega vinnan og börnin og allt þetta venjulega. Nóg að gera og mér ætti ekki að leiðast og tíminn flýgur (ótrúlega hratt).

Kveð í bili og ætla að sökkva mér í smá lestur og þýðingu áður en ég fer á kvöldvakt.

Friday, February 4, 2011

Prufa

Ætla að prófa þetta að gamni mínu. Sjáum hvort þetta er of flókið fyrir mig, ég get þá alltaf fengið þann sjö ára til að aðstoða mig.

Ákváðum hjónin að hætta með 123.is síðuna en mig langaði til að eiga blogg, kannski því mér finnst svo gaman að lesa blogg annarra. Svo er þetta sniðugur fréttamiðlari þegar við verðum flutt til útlanda.

Sjáum hvernig þetta gengur hjá frúnni ;)