Saturday, February 19, 2011

Kaffisopi hjá ömmu

Ég drakk kaffisopa með henni föðurömmu minni í dag, en ég reyni að gera það amk tvisvar í viku. Í dag sá ég miða á eldhúsborðinu hennar og á honum var vísa, vísa sem ég sá að hún hafði sjálf samið því þar kom fyrir setningin "komdu nú til löngu" en krakkarnir mínir og þá sérstaklega Fáfnir Freyr hafa kallað hana löngu (í stað langömmu). Amma mundi ekki hvenær hún hafði samið þetta en ég hef á tilfinningunni að það hafi verið nýlega og það gleður mig, því hún er með Alzheimer og mér finnst notalegt að vita að þessi eiginleiki er ekki horfinn.  Vísan er svona:

Komdu hérna krúttið mitt,
komdu nú til löngu.
Bjarta, hýra brosið þitt
bætir mína göngu.

Ég hef grun um að vísan sé samin til hennar Karítasar Diljár systurdóttur minnar, því hún amma ljómar þegar hún sér hana. Hún gleymir sér algjörlega við að fylgjast með henni. Hér er mynd af þeim saman sem ég fékk lánaða án leyfis af fb-síðu minnar ástkæru systur.


Ég hef verið svo heppin að geta umgengist hana föðurömmu mína að vild alveg frá því ég leit dagsins ljós. Hún aðstoðaði við að taka á móti mér í heiminn, en foreldrar mínir bjuggu á neðri hæðinni hjá ömmu og afa og þar fæddist ég og bjó fyrstu tvö ár ævi minnar. Í minningunni var ég oft hjá ömmu og afa sem barn, mamma vann á símanum á vöktum og pabbi var á sjó svo ég og síðar ég og bróðir minn höfum sjálfsagt verið þar í pössun oft. Ég á minningar um jólaföndur, bakstur, sláturgerð, grímubúningagerð með mömmu og ömmu, ásamt músasögum afa í hádeginu, hesthúsferðir, sveitaferðir, skautaferðir og svo margt fleira. Síðar á ævinni kynntist ég ömmu upp á nýtt, við Nökkvi hófum búskap okkar hér á Höfn á neðri hæðinni hjá ömmu og afa, og þar bjuggum við þegar hún Yrsa Líf fæddist og þar til hún var c.a 4 mánaða. Amma aðstoðaði mig mikið og það var gott að kíkja á efri hæðina í kaffisopa og spjall. Og það var líka ósjaldan sem afi gekk með litlu dömuna mína um gólf (en hún var frekar óvær) og söng fyrir hana. Þegar ég var svo ófrísk af Fáfni Frey þá mátti ég ekki vinna alla meðgönguna og þá notaði ég dagana oft í að kíkja til ömmu á Svalbarðið, og þá var margt spjallað. Þessi tími er mér ómetanlegur, og ég ylja mér oft við þessar minningar.

Ég man nú ekki nákvæmlega hvenær við uppgötvuðum að amma væri líklega með Alzheimer, sem svo var staðfest með greiningu. Sennilega eru að verða rúm fjögur ár síðan, já eða tæp. Henni hefur farið aftur og hún hefur breyst. Hún býr ennþá heima og það gengur vel ennþá. Sem betur fer líður henni vel og er alltaf glöð og brosandi, en oft fylgir það sjúkdómnum að fólk verður reitt og fær miklar ranghugmyndir en slíku hefur sem betur fer ekki borið á. Amma endurtekur sig mikið og segir manni sama hlutinn oft og mörgum sinnum á stuttum tíma, hún talar mikið um ákveðna hluti og staði frá því hún var ung. Það er ekki alltaf auðvelt að halda uppi samræðum við hana og hún man ekkert endilega eftir því að maður hafi litið við hjá henni eða hvað hún gerði þann daginn, en hún er alltaf í góðu skapi og ég þakka fyrir það. Ég á margar góðar minningar um ömmu og um það sem við höfum gert saman. Þó það sé stundum lýjandi að hlusta á sömu söguna og svara sömu spurningunum aftur og aftur á stuttum tíma, og jafnvel í hvert skipti sem maður kemur (ég væri að ljúga ef ég segði að það væri ekki lýjandi), og þó hún muni ekkert eftir því að hafa drukkið með mér kaffi og spjallað hálftíma eftir að ég er farin, þá mun ég halda áfram að kíkja í kaffibolla til hennar, því ég veit að það gefur henni mikið og hún nýtur þess á meðan heimsóknin varir. Það gefur mér líka mikið, ég er að flytja af landi brott í sumar, og það er ekki víst að hún muni eftir mér þegar ég heimsæki Ísland næst.

Það er vissulega erfitt að horfa upp á ástvin hverfa inn í Alzheimer-sjúkdóminn. Og ég veit að mörgum finnst erfitt að hitta sína nánustu þegar þeir þekkja ekki viðkomandi lengur, eða man ekki eftir komu þeirra. En það er alltaf hægt að hugga sig við það að heimsóknin, spjallið, snertingin skilar af sér á meðan hún varir þó hún lifi ekki í minningu þess veika.

Njótum hvers dags sem við eigum og hlúum að hvort öðru.

6 comments:

Ameríkufari segir fréttir said...

Mikið óskaplega er þessi pistill hlýr og falleg myndin af þeim ömmu mægðinum. Ég fékk nú bara tár í augun...njóttu tímans Íris mín.

Anonymous said...

Fallegur pistill og svo sannur, kv Guja

Anonymous said...

Falleg orð um fallega konu. Vann með ömmu þinni í nokkur ár og við urðum miklar vinkonur. Hún er yndisleg kona. Hitti einmitt á hana síðast þegar ég var fyrir austan. Knúsaðu hana næst þegar þú kíkir í kaffi.
AnnaBogga

Anonymous said...

Falleg færsla hjá þér gullið mitt...Mjög falleg vísa hjá ömmu þinni og gaman fyrir ykkur að eiga hana....Amma þín er algjört yndi og yndislegt að sjá hvað hún á gott fólk að.....Kveðja Ragga hjúkkusyss

Frú Sigurbjörg said...

Móðurafi minn var með Alzheimer og mér finnst fallegt það sem þú skrifar, sérstaklega um að gefast ekki upp á heimsóknum þó viðkomandi þekki mann ekki lengur, því viðveran síðar meir skilar sér til okkar sem eftir sitjum. Annars er fjársóður að eiga góða ömmu og góðan afa.

Anonymous said...

Mikið er þetta fallega skrifað Íris mín! Hún amma þín er yndisleg kona, við þekktumst vel og hún var alltaf svo góð við mig - ekki síst þegar ég var að ganga í gegnum erfiðleika í mínu lífi fyrir 19 árum síðan.Þá var ekki slæmt að hafa hana í kringum sig.
Vísan er fjársjóður - og ef til eru margar slíkar skulið þið endilega varðveita þær. Það er ekki víst að þær verði til staðar alltaf...því þar er ekki víst að hún haldi þeim til haga sjálfþ
Knús til þin mín kæra, kveðja Alla Fanney