Wednesday, October 31, 2012

Allt er þegar þrennt er

Jæja þá er ég búin að fagna fertugasta afmælisdeginum mínum í þriðja sinn, og þá er hægt að fara að einbeita sér að því að ná fimmtugsaldri :)

Það var kökuveisla í vinnunni í dag til þessa að fagna stórafmælum starfsfólks (síðasta hálfa árið). En þetta er gert tvisvar á ári hjá okkur. Kökurnar og kaffið er í boði hússins (stofnunarinnar).

Við vorum leystar út með gjöfum og fallegum orðum. Fékk gjöf frá starfsfólkinu, en líkt og á HSSA þá söfnum við í gjafasjóð til að nota þegar tilefni er til.

Svo fengum við blómvendi frá yfirmönnunum og skrifstofudömunni, með hverjum vendi fylgdi kort og deildarstjórinn las upp úr kortunum okkar þegar hún afhenti vöndinn. Ég varð nú eiginlega bara hrærð yfir fallegum orðum og þykir voða vænt um þau.

Svona hljóðaði kveðjan á norsku:
Ein fin sommardag kom det ein frisk vind fra vest!!
Med det fulgte det godt humør, stor engasjement og kompetanse.
Heldigvis så stoppa vinden på Kvednatunet, der ville den vere.!!
Du deler raust av dine egenskaper til alle!!

Svona hljómar hún nokkurn veginn á íslensku:
Einn fallegan sumardag kom frískur andvari/vindur úr vestri!!
Með honum fylgdi gamansemi/gott geðslag, mikill áhugi og færni.
Sem betur fer stoppaði andvarinn/vindurinn hér við Kvednatunet, og ákvað að vera hér.
Þú deilir ríkulega af eiginleikum þínum til allra (gefur af þér).

Ekki skrítið að maður verði hrærður og felli næstum tár. Það er gott að finna að maður er vel metin sem starfsmaður og vinnufélagi.

Góðar stundir.

Monday, October 22, 2012

Framhaldsmont

Afsakið allt montið. Ég bara get ekki annað en sagt ykkur framhaldið af sögunni um gott gengi litla barnsins míns (sem er ekki svo lítið lengur).

 
 
Ég vissi bara að hann var alltaf með allt rétt í þessum stafsetninga/upplestraræfingum af því að hann kemur með þetta heim og ég kvitta fyrir því að hafa séð það. Í dag vorum við í foreldraviðtali og litli límheilinn okkar er sko að standa sig alveg fáránlega (afsakið orðalagið) vel.
 
Þegar við komum inn þá byrjaði kennarinn á þvi að segja að við ættum sko alveg ótrúlega kláran strák með mikla áherslu á ótrúlega, hann væri svo snöggur að læra og tileinka sér nýja hluti að hún væri eiginlega bara heilluð.
 
Ég sagðist nú svo sem alveg vita það að hann væri klár og snöggur að læra. En þegar hún fór að fara yfir námsefnið þá get ég ekki annað sagt en að guttinn kom sannarlega á óvart.
 
Hún byrjaði á því að segja okkur frá því hvað hann væri að standa sig vel með stafsetninga/upplestraræfingarnar, það væri ekki nóg með að hann væri alltaf með allt rétt heldur væri hann sá EINI í bekknum sem væri það, það var ekki laust við að hakan á foreldrunum hreinlega sigi niður á bringu og hjartað stækkaði aðeins af stolti.
 
Hún sagðist nú eiginlega líka bara verða að segja okkur frá prófi sem hann tók í vor með bekknum (en hann var aðeins með þeim í vor og þau vildu að hann tæki nokkurs konar samræmt próf með þeim). Þetta var einhverskonar lesskilnings próf (á norsku að sjálfsögðu). Þau höfðu ákveðinn tíma til að leysa hverja blaðsíðu. Þau lásu m.a texta og svöruðu spurningum, áttu að para saman samheiti og deila upp orðum (nokkur orð skrifuð í einu orði t.d slåpåostskap, svo áttu þau að setja strik til að aðskilja orðin). Snillingurinn minn náði nú ekki alveg að klára allt á hverri blaðsíðu en hann var með flest rétt af öllum í bekknum. Þegar hér var komið þá var móðirin nú bara við það að fara að gráta af stolti og monti. Kennarinn sagðist hafa þurft að fara amk 2 sinnum yfir prófið hans því hún hefði nú bara ekki trúað þessu, drengurinn talaði á þessum tíma eingöngu ensku við kennarana og starfsfólk skólans. Þegar hann tók þetta próf var hann búinn að læra norsku í 7 eða 8 mánuði. Hún sagði það væri ótrúlegt að barnið skildi t.d fá svona mikið rétt út úr því að finna samheiti og að deila orðunum upp því hann ætti í raun ekki að hafa heyrt eða séð sum orðin. Þetta á nú eiginlega bara ekki að vera hægt sagði hún, að hann sé flinkari á þessu sviði en börnin sem hafa norsku að móðurmáli.
 
Hann er að standa sig glimrandi vel í stærðfræði líka, var með allt rétt á prófi, einnig í öðrum fögum. Hann segir sjálfur að sér finnist erfiðast í samfélagsfræði og náttúrufræði, og hún sagði að honum gengi aðeins verr í þeim fögum en öðrum en það væri líka ekkert skrítið þar sem væri mikið af svona sértækum þungum orðum sem hann kannski heyrði ekki dagsdaglega.
 
Honum gengur rosalega vel félagslega sagði hún og að hann væri bara allt annað barn en í fyrravetur. Hann væri greinilega orðinn öruggur og svo væri kannski líka meiri rútína á honum í vetur þar sem hann væri ekki að flakka á milli tveggja bekkja (innflutningsbekksins og norska bekkjarins). Þannig að hann er svona nokkurn veginn með það á hreinu hvernig dagurinn verður og það hentar honum best.
 
Eldri börnin eru líka að standa sig frábærlega og gengur vel. Ég er sko ekki síður stolt af þeim.
 
Vá hvað ég er montin og stolt af stráknum.


Wednesday, October 17, 2012

Mont-blogg




Ég bara má til að monta mig af þessum snilling. Hann byrjaði í venjulegum 4.bekk í haust og stendur sig eins og hetja þessi elska. Hann hefur svo sem alltaf átt auðvelt með að læra og það er enginn breyting þar á.

Mér finnst svo gaman að því hvað honum gengur vel í norskunni svona almennt og sem dæmi þá fær hann með sér texta heim 1x í viku sem hann skrifar upp í skriftarbókina sína. Á föstudögum er svo æfing í stafsetningu, þ.e kennarinn les upp áður nefndan texta og þau skrifa hann upp. Litli snillinn minn er alltaf með þetta kórrétt, stafsetninguna og punktar, kommur og gæsalappir á réttum stöðum.

Jebb mamman er montin og stolt :)

Góðar stundir.

Wednesday, October 10, 2012

Fertug og alltaf í stuð :)

Það hefur ýmislegt á daga mína drifið síðan síðast. Ég er eiginlega bara að verða ferlega löt að blogga. Enda hafa sennilega flestir frétt af ævintýrum frúnnar á fésbókinni. Þannig að það er eflaust spurning hvort er betra fésið eða bloggið.

  • Rasteplassen er hittingur Algrøy kvenna 1x mánuði yfir vetrartíman. Erum búnar að hittast 2x fyrsta skiptið var skipti-fatamarkaður og seinna skiptið var snyrtivörukynning. Bæði kvöldin voru vel heppnuð og gaman að hittast svona, góð leið fyrir þá nýfluttu til að kynnast frúnum á eynni.
  • Ég varð fertug og hélt upp á það með hangikjötsveislu og fjöri ásamt söngfuglunum í sönghópnum og mökum. Mjög skemmtilegt kvöld.
  • Fengum heimsókn frá Íslandi sem var yndislegt. Eyddum tímanum í spjall og skoðunarferðir vítt og breitt um svæðið. Vorum óheppin með veður en það kom ekki að sök því félagsskapurinn var góður og við létum veðrið ekki trufla okkur mikið.
  • Keyptum okkur splunku, splunkunýjan bíl....jebb ég veit erum klikk. Algjör draumur.
  • Hélt upp á afmælið mitt aftur. Vorum 3 sem áttum stórafmæli fyrstu vikuna í sept og fannst ástæða til að fagna því með vinnufélögunum. Borðin svignuðu af kræsingum og boðið var upp á skemmtiatriði frá afmælisbörnunum. Við sungum íslenskt lag. Og svo lékum við drama í einum þætti þar sem gert var góðlátlegt grín af vinnufélögum. Þetta vakti mikla lukku. Svo var skálað og hlegið langt fram á nótt.
  • Sönghópurinn er kominn á fullt skrið með æfingar.
  • Haustfagnaður hjá Íslendingafélaginu í Bergen. Mikið fjör.
  • Eiginmaðurinn var 48 ára
  • Heimasætan kynnti okkur fyrir kærastanum
  • Fórum í skemmtilegt fimmtugsafmælis-partý hjá söngfélaga
  • Skellti mér á æfingu hjá Byggðakór Algrøy. Mjög áhugavert. Blandaður kór svo ég er að spá í að draga karlinn með mér næst.
  • Svo er ég búin að fá meiri vinnu. Fer í 70% stöðu frá og með 10.des.

Það er nóg að gera og ekkert hægt að láta sér leiðast. Krakkarnir eru ánægðir í skólunum sínum og blómstra. Heimasætan hefur bara aldrei verið svona ánægð í skóla, er að hluta til með innflutningsbekk, er í ensku með norskum bekk og fær svo að vera með design og handverk bekknum 3x í viku og það er hún að fíla í botn. Eldri drengurinn eyddi helginni með bekkjarfélaga á stóru LANi í Bergen. Skildist að það hefður verið tæplega 1000 þátttakendur. Hann var alsæll eftir helgina en frekar syfjaður ;)
Sem sagt allt gott að frétta af okkur og við sitjum ekki aðgerðarlaus, þvert á móti.

Góðar stundir