(Mynd: Ævar Guðmundsson, Ólsaramyndir 2 á facebook)
Eftir að ég fullorðnaðist fækkaði því miður samverustundunum og ég hætti að koma til Ólafsvíkur á hverju sumri. Samt héldum við ágætis sambandi. Ég kom nokkrum sinnum til hennar og afa með mín börn, þau voru þá flutt í Vallholtið og ekki laust við að ég saknaði lyktarinnar úr búrinu á Ennisbrautinni. En snúðana mína fékk ég og ekki klikkaði kvöldkaffið, það var engin hætta á því að maður yrði svangur í hennar húsum.
Það eru forréttindi að ná því að eiga afa og ömmu þegar maður hefur náð fullorðinsaldri, það eru ekki allir sem upplifa það. Það er ákaflega gaman að kynnast ömmum og öfum upp á nýtt þegar maður er orðin fullorðin, áherslurnar eru þá orðnar nokkuð aðrar. Við Sissa amma gátum spjallað margt og ég virkilega naut þess að eiga innihaldsríkar samræður við hana um allt og ekkert yfir kaffibolla og bakkelsi að sjálfsögðu.
Amma var ekki mikið í því að vera með tilfinningarnar upp á borðinu en hún má eiga það að hún hrósaði mér alltaf fyrir að drífa mig aftur í nám og hún sagði mér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að hún væri svo stolt af mér, og það var mér mikils virði.
Amma hafði dillandi hlátur og það hafa dætur hennar líka og þegar allur hópurinn var saman komin þá var oft mikið hlegið og ekki á lágu nótunum. Ég hugsa að hláturinn hafi endurómað um alla Ólafsvíkina þegar því var að skipta. Mér finnst eiginlega fátt yndislegra en þessi hláturkór þeirra mæðgna og ég vona að systurnar hlæi örlítið hærra hver og ein til að fylla upp í skarðið hennar ömmu.
Lúlli afi og Sissa amma á góðri stund
Takk fyrir samfylgdina elsku Sissa amma, ég var heppin að fá að kynnast þér.