Thursday, August 25, 2011

Er ekki tími til kominn að tengja (blogga)

Það hefur verið nóg að gera hjá fjölskyldunni síðan ég bloggaði síðast, svo ég hef bara ekki gefið mér tíma í fréttapistil en nú er komið að því gott fólk.

Strákarnir eru byrjaðir í skólanum. Vorum boðuð á fund í skólan hjá Darra tveimur dögum áður en hann átti að byrja. Þar hittum við kennarana og fengum kynningu á því sem í vændum var ásamt kynnisferð um skólann. Þetta var mjög gott og fínt fyrir Darra að vera búinn að sjá framan í kennarana og skoða skólann fyrir fyrsta skóladag, minnkaði aðeins kvíðann. Hann er í innflytjendabekk ásamt 12 (að mig minnir) öðrum innflytjendum á aldrinum 13-16 ára, þarna eru krakkar frá Póllandi, Tælandi, Filippseyjum, Litháen og Afganistan. Hann fær hins vegar að vera með 10.bekknum eftir getu og það er svona ennþá verið að finna út hversu mikið hann getur verið með þeim, vonandi verður það bara sem mest. Honum líst bara ágætlega á sig að mestu leyti. Finnst reyndar eins og hann sé aftur kominn í 1.bekk þegar hann er í norskutímum og þarf að þylja: Jeg hetter... og er 15 år. Hann er heldur ekki alveg sáttur við hvað hann þarf að sitja lengi í skólataxanum sem sækir krakka hist og her um kommunúna. Taxinn sækir hann kl 7:30 en skólinn byrjar 8:45. Það er líka erfitt að spjalla við hina krakkana í innflytjendabekknum þar sem fæst tala norsku og meirihlutinn talar ekki heldur ensku. Held að Darri minn hafi séð hvað hann var vel settur með sína enskukunnátu sem er þó hægt að bjarga sér á ef mögulega þarf og það kemur sér líka vel að hafa lært dönsku í tvo vetur. Krakkarnir í 10.bekknum hans eru líka farin að spjalla aðeins við hann m.a var hann spurður að því í gær hvort hann ætlaði að koma með þeim í skólaferðalag til Íslands í vor :) Það væri nú bara gaman ef það stendur til boða. Svo ég held að þetta eigi bara eftir að þróast vel og í rétta átt.

Skólinn byrjaði ekki svona vel hjá þeim yngri. Við vorum aldrei boðuð á svona kynningarfund heldur var hringt í mig og mér sagt að skólinn byrjaði hjá honum daginn eftir og það kæmi Taxi að sækja hann. Ég spurði hvort ekki ætti að vera nein kynning fyrir hann en fékk þau svör að það yrði talað við okkur síðar. Við hjónin vorum nú ekki alveg sátt við þetta og fengum hnút í magan, veltum því fyrir okkur hvort þetta væri það sem koma skildi á þessum bæ. Ég afþakkaði Taxann og sagðist ekki senda barnið eitt fyrsta daginn, hann talaði jú ekki norsku og allt væri ókunnugt. Sem betur fer tóku á móti okkur yndislegir kennarar og allir voru almenninlegir og allir af vilja gerðir til að gera vel.

Ég fékk að spjalla við annan kennarann hans sem hafði ekki fengið gögn í hendurnar frá ráðhúsinu um að Fáfnir Freyr hefði greinst með ADHD, mótþróaröskun og fleira nú í vor. Hún setti málið strax í farveg og við erum búin að hitta hana þrisvar sinnum til að fara yfir málin og hún hjálpaði okkur að sækja um aðstoð til PPT-teymis. En það er teymi sem heldur utan um börn sem þurfa aðstoð og metur hvaða aðstoð þarf (þarf að gerast svo skólinn fái mannafla til verksins). Skólastjórinn talaði líka við okkur og það eru allir af vilja gerðir til að láta þetta allt ganga upp. Það getur tekið tíma til að komast að hjá PPT en þau ætla að gera allt sem þau geta til að flýta ferlinu því það kom strax í ljós að hann þarf einhverja aðstoð, á í erfiðleikum með einbeitingu og að sitja kjurr og fylgja fyrirmælum þegar fer að líða á morguninn, fer að gera allt annað en hann á að vera að gera. Ég er svo glöð með viðbrögðin sem ég hef fengið að ég grét næstum af gleði. Og allir tilbúnir að finna út hvernig best sé að taka á málum svo hann fái notið sín án þess að trufla aðra í bekknum. Við þurftum að skrifa lýsingu á hans vandamálum til að láta fylgja með umsókninni til PPT og það var erfitt. Manni finnst jú að maður eigi að verja barnið sitt og langar að draga úr öllum neikvæðum hliðum svo það var erfitt að vera 100% samkvæmur sjálfum sér þó maður vissi að það væri best fyrir hann. En sem betur fer fékk ég líka að skrifa um hans jákvæðu hliðar svo það gerði verkið auðveldara.

Fáfnir Freyr er ánægður í skólanum og finnst æðislegt að fá að fara með skólataxa í og úr skóla. Erum í samningaviðræðum við hann um að vera á skóladagheimili fyrir skóla og það gengur ekkert rosalega vel en þannig verður það að vera þar sem ég þarf stundum að vera mætt klukkan 7.30 í vinnu og Nökkvi mætir alltaf klukkuna 7 en skólinn hefst ekki fyrr en 8:45. Fáfnir er líka í innflytjendabekk þau verða 7 þar og þar eru börn frá Tælandi, Litháen, Filippseyjum og frá Póllandi. Þau eru reyndar bara fjögur ennþá en það bætast þrjú við fljótlega. Hann fær svo að vera eitthvað með 3.bekk t.d í verklegum greinum. Kennararnir eru alveg rasandi (eins og við foreldrarnir) yfir enskukunnáttu barnsins. Annar kennarinn hans er enskukennari að mennt og hún á bara ekki til orð yfir þessu, langar mest að setja hann í ensku með 7.bekk og nýta hann til að hjálpa 7.bekknum í að æfa sig í að tala ensku :) En ég er nú ekkert viss um að það muni verða.

Síðan ég skrifaði síðast erum við búin að fara í partý með kórfélögum Nökkva og það var rosalega gaman, þó svo að verðið fyrir Taxann heim eftir fjörið hafi næstum spillt gleðinni (lærðum að við fáum okkur ekki bæði í glas næst). Við líka búin að fara rúnt inn í Harðangursfjörðinn og kíktum þar í kaffi til íslenskra hjóna sem eiga "sumarbústað" í svona hjólahýsabyggð þar. Það var ákaflega gaman að fara þetta og fallegt í Harðangursfirðinum og við erum ákveðinn í að keyra lengra inn í fjörðinn næst.

Við Darri Snær erum búin að vera á golfnámskeiði og höfum nú fengið græna kortið (golfkortið) og megum því spila á öllum golfvöllum. Inni í námskeiðsgjaldinu var félagsgjald í golfklúbbinn hér út árið svo nú er bara að vera duglegur að mæta á völlinn. Það er mikið og fjölbreytt starf í klúbbnum og mikið lagt upp úr félagsskapnum og því að vera saman. Það eru kvennakvöld og herrakvöld einu sinni í viku og eru þá lítil mót. Svo eru byrjendamót hálfsmánaðarlega, einnig er það í boði einu sinni í viku að byrjandi getur bókað sig á völlinn og óskað eftir því að hafa Fadder(leiðbeinanda) með sér. Það er öflugt unglingastarf í golfklúbbnum og Darri Snær er búin að skrá sig í það. Hópurinn fær klukkutíma á viku með golfkennara sem er bara frábært.

Ég var í þessum skrifuðu orðum að fá vaktir fyrir septembermánuð og var það slatti af vöktum eiginlega fleiri en ég vildi, maður kann ekki við að neita mörgum vöktum svona í upphafi. Ég er enn að taka vaktir sem vantar á (extravaktir) en í október verð ég komin í fasta 25% helgarstöðu sem er þá þriðja hver helgi og svo mun ég taka vaktir sem vantar á og get þá stjórnað því aðeins hvað ég tek margar. Ég vonast svo til þess að fá fleiri prósentur fast, þar sem það er jú betra að vera nokkuð viss um hvað maður vinnur mikið. Ég hef samt ekki áhyggjur af því að fá fáar extra vaktir því það vantar jú alltaf eitthvað.

Ég hef ekki fundið fyrir heimþrá síðan ég flutti (enda búið að vera nóg að gera), þó svo ég sakni að sjálfsögðu ættingja, vina og stelpuskottsins míns. En ég fann fyrir því í fyrradag hvað það getur verið erfitt að vera langt í burtu. Besta vinkona mín (frá 4 ára aldri) missti mömmu sína eftir erfið veikindi nú á þriðjudaginn og mikið langaði mig til þess að geta verið nær henni. Hefði langað að fara til hennar og styðja hana og aðstoða á þessum erfiðu tímum, en fjarlægðin gerir fjöllin blá og langt og dýrt til Íslands. Við erum búnar að eiga gott spjall í gegnum síma og erum vanar að styðja hvor aðra þannig, því við höfum ekki búið í sama landshlutanum lengi. En mikið ofboðslega langaði mig til að fara og umvefja hana og leyfa henni að gráta í fangi mínu og rifja upp minningar. En svona er víst lífið, maður veit aldrei á hverju maður á von og getur ekki verið á mörgum stöðum í einu.

Strákarnir sakna að sjálfsögðu vina sinna en þetta hefur samt allt gengið mun betur með þá heldur en ég þorði að vona. Fáfnir Freyr talar svo sem ekki mikið um sína vini en einn daginn tók hann mynd úr stofunni af henni Karítas Diljá (systurdóttir mín 2.ára) og stillti henni upp inni í sínu herbergi. Svo skrifaði hann á blað sem hann setti við hliðina á myndinni -ég elska Karítas- . Darri Snær spjallar við sína vini daglega með aðstoð tölvunnar, svo hann heldur sambandinu við þá, sem er gott. Hann er svo kominn í unglingaklúbbinn í golfinu og ætlar að prófa að mæta á körfuboltaæfingar svo ég held að honum eigi ekki eftir að leiðast. Við ætlum líka að finna einhverja íþrótt fyrir Fáfni Frey, körfubolti hefur aðeins komist til tals en það kemur í ljós.

Það styttist óðum í að Yrsa Líf komi til okkar og öllum er farið að hlakka til. Hún kemur þann 6.september.

Jæja þetta er nú aldeilis orðið langur pistill. Kaffibollinn er löngu orðinn tómur og líklega kominn tími á að fara að gera eitthvað af viti.

Hafið það gott þar til næst.

Friday, August 12, 2011

Nóg að gera

Ævinlega blessuð og sæl!!!
Það er ekki hægt að segja annað en ég hafi haft nóg að gera síðan síðast. Eins og áður hefur verið minnst á þá er ég allt í einu farin að vinna. Mikið fyrr en ég bjóst við, það mikið fyrr að ég hef ekki ennþá fengið norskt hjúkrunarleyfi og ekki var ég nógu vel gefin til að vera búin að fá norskt sjúkraliðaleyfi. Og hvað þýðir þetta, jú ég er aftur orðin starfsstúlka eða ófaglærð eða hvað sem þið viljið kalla það. Mér finnst það svo sem ekkert leiðinlegt ég elska að annast um fólk svo það skiptir ekki máli nákvæmlega hvað ég geri og á þessum vinnustað eru hjúkrunarfræðingarnir mikið í almennri umönnun.

Biðin eftir hinu norska hjúkrunarleyfi mun taka allt að 6 vikum takk fyrir. Svo þarf ég að fá vottorð hjá fyrrverandi vinnuveitendum um að ég hafi unnið þar og hvaða stöðu ég gengdi og í hvað langan tíma (sem er mjög skiljanlegt en ekki hafði aulinn ég rænu á að láta útbúa það áður en ég flutti). Svo þarf ég að láta þýða þessi vottorð yfir á norsku að kröfu launaskrifstofunnar. Þessa pappíra (vottorðin + norska hjú.leyfið) ásamt fæðingarvottorðum barna minna vilja þeir fá svo þeir geti reiknað út hvað þeir vilja borga mér...... þannig að þar til leyfið er klárt fæ ég bara laun eins og starfsstúlka en fæ svo leiðréttingu á launin þegar þetta kemur allt í hús (skilst mér hihihi).

Mér líst alltaf betur og betur á mig á nýja vinnustaðnum og hef komið sjálfri mér verulega á óvart með hvað mér gengur vel að tjá mig á "norsku" (þeir skilja mig allavega) og að skilja norskuna. Ég viðurkenni samt vel að ég er alveg búin á því þegar ég kem heim. Samstarfsfólkið er líka alveg gáttað hvað mér gengur vel að tala málið og trúa því varla að ég hafi bara komið hingað í byrjun júlí. Ein samstarfskona tjáði mér í dag að ég talaði alls ekki með íslenskum hreim en hún gat samt ekki sagt hvaða hreim ég talaði með þá (veit ekki hvort ég á að líta á þetta sem hrós eða ekki).

Ég hef nú ekki bara verið að vinna þó vinnan hafi átt meira en hug minn allan undanfarið. Við hjónin reynum að halda uppi skemmtidagskrá fyrir drengina svo þeim leiðist nú ekki mikið. Fáfnir Freyr hefur ekki viljað leika meira við nágrannadrenginn (því er nú verr og miður) og gengur illa að fá hann til að gera nokkurn skapaðan hlut nema með mútum (ég er að verða ferlega fær í mútustarfsemi), hann vill helst bara vera í tölvu og geðið er eftir því. Við höfum nú samt gert ýmislegt farið í skoðunarferðir hér um eyjuna, hjólað, týnt ber, farið í skoðunarferðir inn í Bergen og aðeins út í sveit. Einnig erum við búin að prófa keilu og í sama húsi er stór sundlaug með allskonar rennibrautum sem á eftir að prófa (það kostar hálfan handlegg og tvö nýru). Svo förum við reglulega á golfvöllinn. Það er meira farið með Darra Snæ í golf en Fáfnir Freyr hefur líka komið með og það hefur gengið fínt. Núna erum við mæðgin ég og Darri Snær á golfnámskeiði sem er eiginlega skilda að fara á til að hafa aðgang að aðalvellinum.

Við höfum fengið fyrsta ættingjann í heimsókn og það var yndislegt. Pétur systursonur ömmu (býr á Shetlandi) er hér í Bergen í þriggja daga ferð ásamt konu sinni og við eyddum með þeim degi í Bergen sem endaði svo í smá heimsókn hingað til okkar.

Strákarnir byrja í skólanum á fimmtudag í næstu viku (18.ágúst) svo nú fer að komast rútína á liðið. Eigum von á að verða boðuð á fund og skoðunarferð um skólana eftir helgi. Fáfnir Freyr hlakkar mjög mikið til að byrja í skólanum en sá eldri gefur ekki mörg svör þegar hann er spurður.

Veðrið hefur verið yndislegt og ég kann bara vel við hlýjuna, sólina og jafnvel rigninguna (hún er lóðrétt).

Bestu kveðjur til ykkar allra og munið að vera góð hvort við annað.

Friday, August 5, 2011

Nýja vinnan

Er á hjúkrunarheimili sem er í sirka 15+ aksturfjarlægð frá heimilinu. Heimilið var opnað 2004 og er svona "modern" hjúkrunarheimili eins og stýran orðaði það. Kommúnan rekur þjónustuna en húsið er í eigu einhvers félags. Íbúarnir eru 40 talsins en þeir leigja sitt herbergi, sem er lítil studíóíbúð, af eigendunum hússins. En skilyrði fyrir því að að geta leigt svona íbúð er að einstaklingurinn þurfi umönnun/þjónustu allan sólarhringinn. Kommúnan rekur svo þjónustuna sem veitt er. Heimilið skiptist í 4 deildir. Tvær heilabilunardeildir og tvær almennar. Inn á hverri deild eru 10 svona litlar "íbúðir". Sameiginleg setustofa og borðstofa ásamt eldhúsi og nokkurs konar lyfjaherbergi eða vakt.

Hver "íbúð" er ekki stór en þar smá eldhússkot með skápum og hægt að hafa lítinn ísskáp og kaffikönnu t.d., svo er sæmilegt pláss fyrir rúm og sófasett eða borðstofuborð og stóla, eða hvað sem fólk vill. Svo er nokkuð stórt baðherbergi í hverri íbúð, með sturtu og plássi fyrir þvottavél og þurrkara og þurrkgrind. Svo er útgangur í hverri íbúð út á litla verönd.

Hver og einn leigir sína íbúð og er með sitt dót í henni, ásamt sængum, koddum, rúmfötum, handklæðum og slíku. Þvottavél og þurrkari er í eigu íbúans og er hans þvottur þveginn í hans þvottavél í hans eigin íbúð. Einnig sér hann sér sjálfur (eða ættingjar) um að þær hreinlætisvörur sem hann þarf séu til. Einnig sér hann eða ættingjar um að kaupa sín lyf (sem eru svo niðurgreidd eða eitthvað þess háttar af tryggingum) en starfsfólk sér um að skammta og gefa þau, nema íbúinn geti og vilji sjálfur sjá um það. Þegar viðkomandi getur ekki lengur verið í eigin rúmi þá fær hann sjúkrarúm hjá heimilinu en öll hjálpartæki eins og lyftarar, hjólastólar, göngugrindur, baðborð, loftdýnur og fleira er fengið að láni hjá hjálpartækjabanka. Mér skilst að tryggingakerfið borgi leiguna fyrir viðkomandi.

Viðkomandi er þjónustaður eins og hann sé heima hjá sér. Mat fær hann á heimilinu og borðar annað hvort í sameiginlegu rými eða inni hjá sér. Það er eldað í eldhúsinu á hverri deild  í hádeginu á laugardögum (minnir mig) aðra daga kemur hádegismaturinn frá öðru hjúkrunarheimili í kommúnunni (þar sem er mjög stórt eldhús). Morgunmatur, kvöldmatur og kaffi er tekið til í eldhúsi deildarinnar en það er í opnu rými ásamt borð- og setustofu.

Auðvitað eru matartímar á nokkuð ákveðnum tímum en tíminn er nokkuð rúmur, t.d er gert ráð fyrir að morgunmatur sé frá sirka átta, hálfníu til kl 10:15. Það er ekkert verið að eltast mikið við klukkuna þannig lagað og fólk er ekki vakið til þess að vera búið að borða á ákveðnum tímum eða miðað við að allir séu klæddir fyrir klukkan eitthvað ákveðið. Fólk er aðstoðað á fætur þegar það vaknar. Ég er búin að vera á annarri heilabilunardeildinni og þar er mikil áhersla lögð á rólegheit og að gera hlutina þegar fólkið er tilbúið til þess en ekki þegar starfsfólkinu hentar. Baðdagar eru nokkuð skipulagðir en samt eru þeir ekkert heilagir ef viðkomandi langar, þarf eða er tilbúin á öðrum degi þá er það bara þannig.

Á morgunvaktinni eru 3 og stundum 4 starfsmenn á hverri deild (á 10 einstaklinga) á kvöldin eru það tveir og hálfur starfsmaður á hverri deild, þ.e tveir fastir og einn sem skiptist á milli tveggja deilda. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn.

Í húsinu er líka dagdeild og ýmsar uppákomur reglulega í sameiginlegu rými fyrir allar deildir og það er farið í allskonar ferðir með þá sem það geta ásamt dagdeildinni. Einnig er í húsinu hárgreiðslukona, sjúkra- og iðjuþjálfi ásamt fótsnyrtikonu. Í kringum húsið er frábær garður þar sem er góð aðstaða fyrir gönguferðir og útiveru.

Mér líst mjög vel á þetta og andrúmsloftið er mjög jákvætt og gott, allavega á deildinni sem ég hef verið á núna í aðlögun. Hlakka bara til að takast á við þetta.

Kærar kveðjur og munið eftir kertaljósinu nú þegar farið er að dimma.