Tuesday, April 17, 2012

Eyjan

Eins og líklega flestir vita þá höfum við fjárfest í húsnæði. Þetta er íbúð í parhúsi á eyju hér vestar. Jú, jú það er brúað. Það má kannski lýsa staðsetningunni eitthvað á þessa leið.

Bergen- Litla Sotra- Bildøy- Stóra Sotra- Langøy- og svo Algrøy (skilst að það séu 180 km til Shetlands frá Algrøy)

En Algrøy er einmitt eyjan sem við munum búa á. Á eyjunni er lítið en áhugavert samfélag. Mér skilst að það séu rétt rúmlega 90 hús á eyjunni og íbúarnir rúmlega 300. Já, við erum að tala um að flytja í sveitina.

Það verður lengra fyrir Nökkva að keyra í vinnuna en styttra fyrir mig. Það verður aðeins lengra að skreppa í mollið (en við lifum það af), en það eru matvörubúðir í nágreninu. Það mun verða eitthvað lengra fyrir unglingana að sækja skóla frá nýja staðnum en héðan af fjallinu. En Darri mun geta setið í með pabba sínum á morgnana og Yrsa fengið far hluta leiðarinnar með honum.

Það er grunnskóli á eyjunni, svona ekta sveitaskóli. Það eru á milli 20 og 30 nemendur í skólanum. Því miður er barátta um skólan, en kommúnan vill spara og fækka skólum. Kommúnan vill leggja niður alla litlu skólana, enda sjálfsagt óhagstæðar rekstrareiningar, en íbúarnir á Algrøy berjast á móti. Það er spurning hvað þeim tekst að halda lengi í skólan og maður heyrir á umræðunni að það er ekki mikil bjartsýni með það.

Í ljósi þessa og þeirra aðstæðna sem yngri sonurinn hefur verið í þá tókum við foreldrarnir ásamt kennurum hans og aðstoðarmanni þá ákvörðun að hann fengi að byrja næsta skólaár í þeim skóla sem hann er í núna. Svona til að demba ekki á hann miklum breytingum í einu þ.e að flytja, fara úr innflytjendabekk í almennan bekk og fara í nýjan skóla (sem verður svo kannski lagður niður á næsta eða þar næsta ári). Hann er farinn að finna ákveðið öryggi meðal jafnaldranna í skólanum og í skólaumhverfinu svo við töldum að þetta yrði best svona og fara svo að spá í flutning milli skóla síðar á skólaárinu. Ætlum að vinna í því að hann kynnist krökkum á eyjunni í gegnum félagsstarf og svona svo flutningur milli skóla verði auðveldari.

Það virðist vera mikil samheldni meðal íbúanna á Algrøy. Þar er íbúafélag sem stendur fyrir ýmsum viðburðum. Einu sinni í viku hittast konurnar (þær sem vilja) í "saumaklúbb", karlarnir (sem hafa áhuga) hittast einu sinni í viku og spila fótbolta og það er leikfimi fyrir alla íbúa (sem áhuga hafa) eyjarinnar einu sinni í viku. Mér finnst þetta spennandi og ætti þetta að auðvelda okkur að kynnast fólki og mynda tengsl. Það er líka a.m.k einu sinni á ári Bygdafest sem mér virðist vera eitthvað álíka og þorrablót, þar sem er komið saman og borðaður góður matur, gert góðlátlegt grín að náunganum og dansað.

Það er eitt sem veldur mér smá áhyggjum en það er það að meirihluti íbúanna ber eftirnafnið Algrøy, þannig að við íslendingarnir sem höfum ekki einu sinni fjölskyldunafn verðum eins og skrattinn úr sauðaleggnum þarna :)

Íbúðina fáum við ekki afhenta fyrr en 11.júlí, daginn eftir að við komum úr Íslandsferðinni.

Það styttist óðfluga í komu foreldra minna, en þau ætla að dvelja hjá okkur í viku. Er búin að koma því svo fyrir að ég verð í fríi og get því haft ofan af fyrir þeim allan tíman. Okkur hlakkar alveg rosalega mikið til að fá þau í heimsókn og sína þeim lífið okkar hér.

Góðar stundir.

Tuesday, April 10, 2012

Jáhá heitir þú það í dag!!

Gömul kona: Íris.....heitir þú það í dag (í vinnunni er ég með nælu með nafninu mínu á)
Ég: Já það heiti ég nú alla daga
Gömul kona: Íris... merkilegt, aldrei heyrt það fyrr.
Ég: Ég kem frá Íslandi svo þess vegna hefur þú líklega ekki heyrt nafnið mitt áður.
Gömul kona: Ertu íslendingur?
Ég: Já það er ég
Gömul kona: Skellihlær og hristir höfuðið, lítur á samstarfskonu mína og segir, þessi segist vera íslendingur, stórfurðulegt alveg og svo er hún klædd eins og norðmaður.................................

Mikið finnst mér alltaf gaman í vinnunni, hver dagur er einstakur.