Sunday, July 31, 2011

Undirbúningur hafinn


Fór á fætur kl 6:30 (sem er mjög ókristilegur tími) til þess að skutla bóndanum í vinnuna. Gerði þetta líka á föstudaginn (spurning hvort það eigi að hafa áhyggjur af frúnni). Svo á meðan drengirnir (aðalega sá yngri) sofa þá nýti ég tímann til að fá mér kaffibolla í þögninni og undirbúa mig fyrir starfsviðtalið sem verður núna á miðvikudaginn. Planið er að geta tjáð mig eins mikið og mögulegt er á norsku því ég ætla að reyna að heilla konuna upp úr skónum. Ekki geri ég það með því að framvísa norsku hjúkrunarleyfi því ég er að bíða eftir vottorði um starfsleyfi frá íslenska Landlæknisembættinu svo ég geti sent inn gögn hér og þá líða nokkrar vikur þar til ég fæ norska leyfið í hendurnar (tómt vesen), spurning hvort konan geti ráðið mig þar sem þetta er ekki komið í lag. Búin að blóta því að hafa ekki haft vaðið fyrir neðan mig og sótt um norskt sjúkraliðaleyfi fyrir löngu þá hefði ég getað byrjað þannig. Alltaf gott að vera vitur eftir á. Sjáum til hvernig þetta gengur og vonandi næ ég að heilla stýruna upp úr skónum ;)

Annars er allt fínt að frétta af okkur og við höfum það ljómandi gott. Fáfnir Freyr lék við nágrannadrenginn um daginn en þeir hafa ekki smollið saman aftur eru báðir eitthvað smá feimnir, en það kemur vonandi. Í þessum tveimur húsum sem standa hér hlið við hlið eru samtals 9 börn á aldrinum tveggja til tíu eða ellefu ára og svo eru það unglingarnir mínir tveir, sem sagt 11 börn svo það er mikið fjör hér og ætti að vera hægt að leika. Svo vonandi fer Fáfnir að hrista af sér feimnina og taka þátt í fjörinu.

Þegar ég skutlaði Nökkva í vinnuna í morgun sá ég að það er að færast líf í skólanna. Starfsfólkið er að týnast til vinnu eftir sumarfrí. Skólarnir byrja svo þann 18.ágúst svo alvaran fer að taka við af sluksinu. Erum búin að fara og kíkja á skóla strákanna svona að utan og skoða skólalóðina í skólanum hans Fáfnis, okkur fannst hún flott. Við förum svo í viðtöl og heimsóknir þangað einhverjum dögum áður en fyrsti skóladagur hefst.

Darri Snær er að spá í að skella sér á námskeið hjá golfklúbbnum til þess að fá græna kortið (leyfi til að spila á aðal vellinum), ég er enn að melta það hvort ég eigi að skella mér með honum. Ég hafði litla trú á því að ég ætti eitthvað erindi á aðal völlinn, þar sem ég hef ekkert spilað og er nýbyrjuð að æfa mig, en mér gekk svo fjári vel á æfingavellinum í gær (var bara tveimur höggum yfir Nökkva og fjórum yfir Darra) að ég held bara að ég spái alvarlega í að skella mér með drengnum. Við getum þá stutt hvort annað í að reyna að skilja innihald námskeiðsins.

Kveð í bili, hafið það sem allra best.

Monday, July 25, 2011

Hvað skal segja?

Maður er eiginlega orðlaus yfir þessum hörmungaratburðum í Osló og Utøya. Ríkissjónvarpið hefur nánast eingöngu verið með fréttatengdar útsendingar á sínum stöðvum frá því að þetta gerðist. Mér finnst þetta hálfóraunverulegt og upplifunin er eins og þetta hafi gerst í allt öðru landi en ég er stödd í. Það er óskiljanlegt að nokkur maður skuli geta framið svona voðaverk. Maður finnur óneitanlega fyrir því að fólk hér er slegið og það létust ungmenni héðan úr fylkinu (Hordaland) í skotárásinni.

Annars höfum við það fínt hér í sveitinni. Í lok síðustu viku var ég samt farin að finna að ég er upp í "sveit". Strætósamgöngur hingað til okkar eru frekar stopular og mér fannst ég svoldið innilokuð. Kannski af því að það tekur á að vera nánast eingöngu í samskiptum við 8 ára gamlan dreng sem er með ADHD og mótþróaröskun. Þið megið ekki misskilja mig, ég elska að vera svona mikið með honum en það getur líka verið ótrúlega lýjandi að vera með honum allan daginn, það er mjög krefjandi. Þá hefur stundum vantað að geta komist í annað umhverfi (með honum að sjálfsögðu) og fundið eitthvað nýtt að gera. Ég hef ekki alveg verið í stuði til að vakna rúmlega 6 á morgnana til að keyra Nökkva í vinnuna svo ég hafi "drossíuna". Mér er þess vegna engin vorkunn. Þetta stendur hins vegar allt til bóta, erum búin að sjá það að við verðum að vera með tvo bíla, allavega á meðan við búum í þessu hverfi þar sem samgöngur eru okkur ekki hliðhollar, svo við erum aðeins farin að skoða bílamál.

Annars líður mér vel hérna í hverfinu þó það sé aðeins úttúr. Þetta er ósköp rólegt og notalegt, það eina sem truflar kyrrðina eru þyrlurnar sem þjónusta olíuborpallana (held ég). En það fljúga ansi margar hér yfir á hverjum degi og byrja snemma á morgnana, þetta venst samt ótrúlega fljótt og ég er nánast hætt að taka eftir þeim.

Kennitölur eru komnar í hús. Nú bíð ég eftir að fá vottorð um starfsleyfi frá Landlækni (ótrúlegt að nýútgefið starfsleyfi dugi ekki) svo ég geti farið að sækja um norskt hjúkrunarleyfi. Ég bíð líka eftir að konan sem bauð mér að koma í atvinnuviðtal hafi samband aftur. Hún hafði samband í gegnum tölvupóst, ég sendi á hana til baka og bað hana um að ákveða fundartíma en ég bíð enn eftir svari. Mér skilst að ég geti alveg verið róleg það sé ekkert óeðlilegt við að það taki nokkrar vikur. Ef mér fer að leiðast biðin þá manna ég mig kannski upp í að hringja. Ég hlakka til að sjá hvernig heimili þetta er. Átta mig ekki alveg á hvort þetta sé dvalar- eða hjúkrunarheimili eða sambland af þessu tvennu. Mér skilst að það séu íbúðir þarna fyrir aldraða og svo eru deildir líka bæði heilabilunardeild og fyrir þá sem þjást af líkamlegum vandamálum (somatisk avdeling). Ég hélt fyrst að þetta væri hér rétt hjá en við nánari eftirgrennslan þá er þetta svona u.þ.b. 15-25 mín keyrsla. Á sama stað og Darri Snær þarf að sækja skóla. Svo er að gerjast í mér hvort að ég eigi að sækja um á sjúkrahúsi inn í Bergen, er ekki alveg viss. Mér líður alltaf vel með gamla fólkinu svo það er spurning.

Skelltum okkur með vinahjónum inn í Bergen í gær í túristaleik. Fórum í siglingu um hafnarsvæðið og það var mjög gaman. Eftir siglinguna fórum við á kaffihús og fylgdumst með mannlífinu. Fáfnir Freyr dundaði sér við að gefa smáfuglunum gulrótarköku á meðan við spjölluðum yfir kaffibolla. Honum fannst reyndar dúfurnar frekar ágengar og reyndi að reka þær í burtu :) ég var farin að hafa áhyggjur af því að mávarnir færu að reyna við fenginn líka. En þeir héldu sig sem betur í hæfilegri fjarlægð. Veðrið í Bergen í gær var fjölbreytt. Það var mjög hlýtt og sól, en við fengum líka svakalegan hitaskúr náðum að hlaupa í skjól. Svo rigndi af og til en það var svo hlýtt og blankalogn að maður blotnaði varla, má eiginlega segja að rigningin hafi verið "þurr". Fáfni Frey fannst mjög merkilegt að hann væri á stuttbuxum og stuttermabol úti í rigningu og nefndi það reglulega.

Á laugardaginn skelltum við okkur í keilu á Vestkanten. Þar er líka sundlaug (badeland) með rennibrautum og einhverju fleira skemmtilegu sem við þurfum að prófa við tækifæri.

Kærar kveðjur til ykkar allra þarna úti þar til næst.

p.s
Langar að þakka þeim sem kommentuðu við síðustu færslu. Það var sérstaklega gaman að lesa kveðjurnar frá ykkur.

Wednesday, July 20, 2011

Af hverju eru bangsar svona mikilvægir fyrir börn?

Spurði Fáfnir Freyr pabba sinn að þegar þeir voru að pakka niður dótinu hans fyrir flutninginn. Þessi spurning er alveg efni í heimspekilega umræðu. Við höfum aðeins velt þessu fyrir okkur en ekki komist að neinu algildu svari. Ástæðurnar eru sjálfsagt jafn margar og börn heimsins, en skemmtileg pæling samt.

Við höfum það bara notalegt hér og dundum okkur við að skemmta hvort öðru. Ég held að allar fjölskyldur hefðu gott af því að flytja í svona bláókunnugt umhverfi. Við höfum allavega eytt meiri tíma saman við allskonar iðju þessar tvær vikur heldur en allt síðasta ár (kannski ýkjur og þó). Áður voru allir að bardúsa sitt með sínum vinum hver í sínu horni en núna höfum við bara hvort annað og höfum verið að gera margt skemmtilegt saman. Skrítið samt að það þurfi flutning milli landa til þess, kannski hefur þetta verið eitthvað öðruvísi hjá okkur en öðrum en ég held samt að það sé það sama uppi á teningnum í þessum efnum hjá mörgum.

Þó að mér finnist þessi tími og samvera yndisleg þá var það líka alveg kærkomið að fá gesti í gær og spjalla við fullorðið fólk, maður hefur líka ákveðna þörf fyrir það. Hingað til okkar komu íslensk hjón sem búa hérna rétt hjá okkur og Nökkvi hefur verið í sambandi við. Hjón sem pikkuðu í okkur þegar við vorum í mollinu, í heimsókn minni hér í september, og spurðu hvort þau hefðu heyrt rétt að við værum íslendingar. Þannig byrjaði sá kunningsskapur.

Eiginmaður minn hefur þó nokkuð dásamað hvað umferðin hér gengur smurt og það sé enginn æsingur í mönnum. Mér hefur nú samt tekist að láta flauta á mig þrisvar sinnum á þessum tveimur vikum. Spurning hvort ég sé algjör ökuníðingur eða misheppnaður bílstjóri...........................tölum ekki meira um það ;)

Nú er ég að yfirfara gögnin og panta ný svo ég geti sótt um starfsleyfi hér. Ég hélt að leyfið frá landlækni myndi duga en mér er sagt að það sé vissara að fá frá landlækni vottorð um starfsleyfi (það er hægt að gera hlutina ótrúlega flókna). Þegar ég er komin með það í hendurnar þá get ég farið að senda inn þessa umsókn svo nú er spurning um að fara að svipast um eftir vinnu. Annars er ég ekkert stressuð og nýt þess að vera í fríi og hafa það náðugt með strákunum mínum. Hafði alveg orðið þörf á smá fríi ég finn það, gott að geta hugsað um ekki neitt eða þannig og vaknað inn í dag þar sem ekkert mjög aðkallandi bíður eftir manni.

Við höfum það sem sagt bara fínt og allir eru nokkuð jákvæðir, þó ég finni að þetta sé erfitt fyrir suma, en það var líka búist við því. Nú vantar bara heimasætuna til að fullkomna þetta, finnst hálf skrítið að hafa hana ekki hér hjá okkur.

Hafið það sem best rýjurnar mínar þar til næst.

P.s
Verið ófeimin að kommenta, forvitninni í mér finnst gaman að vita hverjir líta hér við. Svo yljar það að fá smá kveðju að heiman.

Sunday, July 17, 2011

Myndablogg

Þessi tvö áttu 17 ára brúðkaupsafmæli í gær

Ég fór í gönguferð með þessum myndarpiltum í blíðunni í gær


Þarna hægra megin sést vegurinn upp í Ebbesvikfjellet sem er hverfið okkar

Á leið niður í Ebbesvik


Ebbesvik


Það er körfuboltaspjald á leikvellinum í Ebbesvik

Þar var líka bolti svo það var tilvalið að skjóta á nokkrar körfur

Í Ebbesvikinni eru bæði sumarhús og íbúðarhús, já og slatti af bátum

Væri ekki amalegt að eiga einn svona til að sigla um firðina

Jafnvel væri alveg nóg að eiga einn svona

Sjórinn var eins og spegill í kyrrðinni

Það eru rafmagnslínur þvers og kruss

Feðgar á leið heim

Strætóskýlið sem Darri Snær mun dvelja í langdvölum í vetur

Sumir gengu berfættir heim og ef vel er að gáð má sjá svartar tær

Þeim eldri fannst sniðugra að stökkva yfir girðinguna heldur en að hanga á henni

Gatan í hverfinu okkar er frekar mjó og bugðótt


Sést glitta í húsið okkar fyrir miðri mynd (þetta gráa)

Og hér búum við

Ein blómamynd í lokin. Fannst þetta svo fallega dóppótt inn í bikarnum/bjöllunni.


Wednesday, July 13, 2011

Ef ég er ekki ég hver er ég þá?

Ja, maður spyr sig. Þið veltið því væntanlega fyrir ykkur hvers vegna ég (ef ég er ég) spyr svo einkennilega.

Hefst þá sagan:
Nökkvi þurfti að fá staðfestingu á hjúskap okkar hjóna fyrir skattinn hér í landi en eins og einhverjir muna kannski þá tókst skattinum heima að afgifta okkur og afbarna Nökkva á síðasta skattframtali svo væntanlega hafa réttar upplýsingar ekki skilað sér hingað.

Sem sagt þurfti hann að skila inn staðfestingu á hjúskap okkar og vottorði um búsetu mína og barnanna á síðasta ári. Ég hafði samband við Þjóðskrá og talaði þar við elskulega konu sem var öll af vilja gerð til að aðstoða mig og sagði þetta lítið mál og skildi alveg út á hvað þetta gekk, hún mundi bara útbúa þetta og senda okkur í snarhasti. Í dag kom svo póstur frá Þjóðskrá (fyrr en ég reiknaði með) með báðum þessum vottorðum. Eiginmaðurinn opnaði umslagið og skoðaði innihaldið jú, jú þarna var staðfesting á hjúskap hans við Íris Gísladóttir fædda 7.sept 1972 (ég tel það vera mig) en við lestur næsta vottorðs runnu á hann tvær grímur þar var vottað að frá því hann flutti út og til áramóta 2010 hefði Íris Gísladóttir fædd 11.júlí 1963 búið í Hlíðartúni 4, Hornafirði, Íslandi ásamt börnum sínum Yrsu Líf, Darra Snæ og Fáfni Frey Nökkvabörnum. hmmmmm. Jáhá hann spurði náttúrulega hvor Írisin ég væri og hvort ég hefði villt á mér heimildir og ef ég væri þessi sem væri fædd 1972 hvers vegna hin hefði búið með börnum okkar, ég kannast ekkert við þessa konu og hélt að ég hefði búið með börnum mínum á þessum tíma........

Ég hringdi nú í Þjóðskrá til að láta leiðrétta þennan misskilning því vottorðið hafði náttúrulega litla þýðingu fyrir okkur með ranga konu í aðalhlutverki. Ég spjallaði aftur við þessa elskulegu konu sem baðst innilegrar afsökunar og ætlaði að redda þessu hið snarasta og senda mér í tölvupósti og þá með rétta konu í aðalhlutverki. Elskulega konan stóð við orð sín og ég fékk nýtt vottorð með réttri konu, en nú vantaði eitt barnið í vottorðið (ég er ekki að djóka). Ég hlakka rosalega mikið tíl að sjá hvort þetta komi rétt á morgun eða hvort það sé kannski aukabarn á vottorðinu ;)

Við erum búin að hlæja mikið yfir þessum skemmtilegu póstum frá Þjóðskránni. Það þarf svo lítið til að gleðja okkur ;)

Annars höfum við átt yndislegan dag sem innihélt sól, sull, golf og vöfflur. Erum sólbrunnin, sælleg og að sjálfsögðu sæt.

Við erum alveg sérstaklega dugleg að gleyma að hafa myndavél með í för og bara yfirleitt á lofti, en ég lofa að reyna að muna oftar eftir henni og setja inn eina og eina mynd svona af og til.

Kærar kveðjur til allra.

P.s
Vantar ykkur nokkuð mánan? Ég get svo svarið það að Hornafjarðarmáninn glotti til mín áðan.

Sunday, July 10, 2011

"Bara" húsmóðir

Svei mér þá að ég var búin að gleyma því að það er fullt starf að vera "bara" húsmóðir. Það er alveg nóg að gera hjá mér þó svo að ég sé ekkert að missa mig í því að rífa upp úr kössum og einn unga vanti í hreiðrið. Mér finnst líka heimilisstörfin mun skemmtilegri þegar ég þarf ekki að vera í kapphlaupi við tíma sem ég á ekki til og kannski eru þau líka skemmtileg af því ég hef sinnt þeim frekar illa í langan tíma. Mamma ég bý meira að segja um rúmið mitt á hverjum degi ;) og bútasaumsteppið sem ég saumaði tekur sig mun betur út á rúminu en á stól (samt var það mjög fallegt á stól).

Þó ég njóti þess að dúlla mér hér heima við "bara" heimilisstörf þá veit ég vel að það líður að því að mig fari að klæja í puttana og langi að komast í vinnu. Svo sennilega fer ég að horfa í kringum mig fljótlega. Hjúkrunarleyfið mitt er á leiðinni frá Íslandi og þegar það kemur í hús get ég farið að sækja um leyfi hér. Við erum búin að fara og skrá mig og strákana inn í landið en vegna sumarlokana og sumarleyfa mun taka 5 vikur að fá kennitölur. Held samt að ég geti alveg farið að sækja um vinnu þó hana vanti. Svo er það stóra spurningin hvort það eigi að fara í gegnum ráðningarskrifstofu eða hafa bara samband beint við viðkomandi stofnun, er heldur ekki alveg viss hvort mig langar að starfa á hjúkrunarheimili eða sjúkrahúsi, er ennþá að melta það.

Kössunum fækkar hér óðum og það er að verða komin heimilisbragur á þetta hjá okkur, ég er samt ennþá að upplifa mig bara í sumarfríi þó svo að dótið okkar sé hér. Mér líður samt mjög vel hérna og þetta hverfi er virkilega notalegt. Strákarnir plumma sig ágætlega og ekkert að kvarta eða að tala um heimþrá (ennþá), við njótum þess bara að vera saman en við söknum óneitanlega heimasætunnar.

Fórum öll saman á æfingasvæði golfvallarins í dag og æfðum sveifluna og púttin. Mig hefur lengi langað að prófa golfið en aldrei gefið mér tíma, hef fengið smá tilsögn og fundist þetta spennandi. Mamma var svo elskuleg að lána mér gamla settið sitt til að hafa með hér út til að prófa. Nökkvi er búinn að vera að spila golf hér, skellti sér á námskeið. Darri er áhugasamur og Fáfni finnst gaman að fá að koma með svo þetta gæti bara orðið fínt fjölskyldusporti.

Kveð að sinni, heyrumst síðar.

Friday, July 8, 2011

Sól, ofnæmi og fleira.

Sælt veri fólkið. Fyrstu dagarnir hér hafa liðið við upp-pökkun og flokkun (það gengur hægt en örugglega) á meðan heimilisfaðirinn dvelur á sínum vinnustað. Það er skemmst frá því að segja að búslóðin komst óskemmd á leiðarenda nema stofuborðið mitt sem er frekar illa rispað (eitthvað datt flutningsaðilum í hug að endurraða í bílinn með þessum afleiðingum).

Nökkvi kemur heim úr vinnu milli klukkan þrjú og hálffjögur og þá höfum við fundið okkur eitthvað skemmtilegt til dundurs. Hér er búið að vera dásamlegt veður síðan við komum, sól og hitastigið farið vel yfir 20 gráðurnar. Darra Snæ ofbauð þegar hann steig út í fyrradag og uppgötvaði að það var mikið heitara úti en inni :) honum fannst það eitthvað órökrétt.

Annan daginn hér (miðvikudag) var ákveðið að fara eitthvað til að leyfa yngri prinsinum að dýfa öngli í vatn eða sjó. Hann hafði ekki talað um annað síðan við lentum minnugur þess að foreldrarnir (hálf ofan í kassa við niðurpökkun og ákaflega uppteknin) höfðu lofað veiðiferð í Noregi því það hentaði betur þá en í miðri niðurpökkun. Sólarvörn var skellt á liðið og haldið af stað léttklædd og brosandi. Við fundum okkur fínan stað (á svona útivistar- og sullsvæði) og prinsinn æfði köstin og gekk vel þó engin fiskur biti á. Allt í einu komu þrumur (bölvaður hávaði í þeim) og svo kom skúr ég varð svoldið hrædd um að þetta endaði með blautbolakeppni húsmóðurinnar (við vorum jú léttklædd) en það slapp, stytti upp jafn hratt og það byrjaði. Þrumurnar héldu samt áfram og svartir skýjabakkar hrönnuðust upp svo við pökkuðum saman og rétt náðum inn í bíl áður en ósköpin dundu yfir. Það rigndi svo hressilega að það sást varla út úr augum (heima hefði maður sagt að það sæist ekki á milli stika) og rúðuþurrkurnar höfðu eiginlega ekki undan á mesta hraða.

Þennan sama dag ákvað frúin að prófa nýja hjólið sitt. Svo þegar kvölda tók og hitastigið lækkaði aðeins bauð ég þeim sem verða vildu í hjólatúr. Með í för voru yngri sonurinn og eiginmaðurinn. Það gekk fínt fyrri hluta leiðarinnar og fákurinn minn nýi rann ljúflega niður Ebbesviksfjellet (við búum þar) sem er nú ekkert mjög bratt þó að nafnið gefi það til kynna. Við hjóluðum  dágóðan spotta og kynntum drengnum reglurnar um hvar á veginum hann mætti hjóla því það er jú engin gangstétt og vegurinn í mjórra lagi. Heimleiðin gekk sæmilega framan af þó svo að frúnni væri farið að hitna svoldið því prinsinum finnst jú skemmtilegra að hjóla hratt (er ekki vön því að vera í hraðakeppnum í svona hita) en það er skemst frá því að segja að mér gekk ekki vel að hjóla upp Ebbesviksfjellet (þó það sé ekki mjög bratt) og fákurinn var teymdur upp erfiðustu brekkurnar. Þegar heim var komið var liðið sent í sturtu og húsmóðirin skipaði fyrir (eins og henni er einni lagið) og hleypti öðrum á undan sér í sturturnar (hér eru tvær sturtur svo það tók fljótt af). Svo þegar komið var að mér kófsveittri konunni (eftir hjólatúrinn) þá vildi nú ekki betur til en svo að það var farið að flæða upp úr niðurföllunum á neðri hæðinni (í þvottahúsi og baðherbergi). Það sama var að gerast í hinni íbúðinni svo það var líklega stífla í frárennslinu og frúin (þessi sveitta) gat gleymt því að fara í sturtu og mátti reyna að bleyta þvottapoka mjög hratt til að strúkja af sér mesta svitan, óskemmtilegur andskoti. Nágrannarnir (í næstu íbúð) tóku að sér að redda pípara og stíflulosun daginn eftir.

Morguninn (í gær) eftir hafði vatnið sem var ofan niðurfalls lekið niður svo ég stalst í sturtu enda frekar klístruð og ókræsileg, það varð til þess að það flæddi aftur upp úr niðurföllunum á baðherberginu og þvottahúsinu (ekki mikið samt bara smá), sturtan var samt ákaflega hressandi og ein af þeim bestu sem ég hef farið í. Hún var nógu hressandi til að ég gat haldið áfram við þá iðju að týna dót leigusalans úr eldhússkápunum og koma mínu fyrir og ganga frá dóti úr baðherbergiskassanum (þurfti bara að passa mig á pollinum). Þegar yngri sonurinn vaknaði þennan morgun var hann rauðflekkóttur á handleggjum, hálsi, bringu og eyrum, ásamt því að vera hálf óhuggulegur í framan rauður og þrútinn. Eftir að hjúkkumamman var búin að skoða hann hátt og lágt var niðurstaðan sú að hann væri með ofnæmi fyrir sólarvörninni sem hún nánast baðaði hann upp úr deginum áður. Eftir því sem líða tók á daginn fór útlitið skánandi svo nú hefst leitin mikla að sólarvörn sem barnið þolir.

Plan dagsins (eftir að vinnudegi bóndans lauk) var að fara á skattstofuna og skrá mig og strákana inn í landið og sækja um kennitölur, en þar sem hún lokaði snemma var því frestað um einn dag og ákveðið að sinna þörfum eldri drengsins í staðinn. Þær þarfir voru að fara í ákveðna golfbúð inni í Bergen til að ath með golfsett sem átti að vera afmælisgjöf frá okkur foreldrunum og ömmu og afa á Smárabrautinni. Við náðum í golfbúðina rétt fyrir lokun, fengum fína þjónustu og versluðum þetta fína sett á nokkrum mínútum (sem var Darra að skapi því hann þolir ekki búðir). Það gekk illa að koma golfsettinu í bílinn það komst hvergi fyrir fyrr en búið var að rífa það úr kassanum, svo afgreiðslumaðurinn fékk að eiga hann. Næst lá leiðin í Ikea þar sem verslaður skildi einn Jonas (skrifborð sem Darri hafði augastað á) við nánari skoðun á Jonasi komumst við á því að við kæmum honum ekki með nokkru móti í bílinn svo planið er að fara og sækja hann á pallbíl á morgun (laugardag), við gátum hinsvegar verslað ýmislegt smálegt sem okkur vanhagaði um og m.a. er komin upp þessi fína sorpflokkunarstöð í eldhúsinu.

Fáfnir Freyr sá ýmislegt spennandi í Ikea sem honum langaði í og dundaði sér við að skrifa niður hina ýmsu hluti á blað ásamt verði og voru teknar nokkrar rökræður um hvað hann þyrfti sérstaklega að eignast og hvað ekki. Hann hreifst af nokkrum skrifborðum og dýrindis skrifborðsstólum og ekki síst tölvunum sem voru staðsettar á þessum borðum. Rökræður um tölvueign voru nokkuð áberandi og nokkuð skrautlegar á köflum. Komst að því að ferð í Ikea með barn með ADHD og mótþróaröskun þarfnast líklega aðeins meiri andlegs undirbúnings sérstaklega fyrir barnið já og foreldranna líka, þetta var svoldið snúið á köflum en hafðist allt og prinsinn var nokkuð sáttur í lokin (sennilega ísinn sem hann fékk við útganginn). Ég krosslegg bara putta og vona að hann sé búinn að gleyma öllum hlutunum sem hann skrifaði niður á blaðið sem er reyndar ekki mjög líklegt við nánari umhugsun (krakkinn er minnugri en fíll).

Tankbíllinn mætti um það leiti sem við komum heim til að losa stífluna í lögninni svo nú get ég sturtað mig að vild. Ekki veitir af fyrir húsfrúnna á meðan hún aðlagast þessum hita ;)

Dagurinn í dag er helgaður skattstofunni hér á staðnum því hún er víst að fara í sumarfrí í þrjár vikur takk fyrir. Og svo erum við boðin í grillpartý í kvöld til einnar af þessum einhleypu sem eru með eiginmanninum í kór.

Það var rigning þegar ég vaknaði í morgun en nú er sólin farin að skína sem mér finnst ekkert slæmt, vona bara að yngri prinsinn brenni ekki. Gleymdi að setja nýju sólarvörnina á smáblett áður en hann fór að sofa svona til að finna út hvort hann þolir hana áður en ég baða hann upp úr henni.

Bestu kveðjur til ykkar allra, ég ætla á svalirnar með kaffibollan og kanna hitan á sólinni.

Monday, July 4, 2011

Á morgun

Hefst formlega nýr kafli í lífi fjölskyldunnar, þegar ég og drengirnir fljúgum til Bergen til heimilisföðursins. Þó það megi segi að aðdragandinn sé búinn að vera 10 mánuðir. Fjölskyldan mun hins vegar ekki sameinast alveg fyrr en í haust þegar heimasætan hefur lokið sumarvinnunni í Nettó.

Júní hefur liðið hratt og verið nokkuð viðburðarríkur. Sumt sem hefur drifið á daga okkar hefur verið erfitt en annað skemmtilegt. En þannig er jú bara lífið.

Nökkvi kom til landsins þann 15.júní við tókum á móti honum hér í borginni og héldum með honum norður í land til að eyða nokkrum dögum með tengdaforeldrum mínum. Dagarnir á norðurlandi voru frekar kaldir vægast sagt. Við brunuðum svo heim á Höfn þann 18.júní til að hefja niðurpökkun og flokkun á okkar dóti. Þvílík og önnur eins vinna ja, hérna hér. Magnið af óþörfu dóti sem hefur sankast að okkur síðast liðin 16 ár er hreint ótrúlegt. Miklu var hent, annað gefið, eitthvað var selt og rest fór í flutningabíl, með aðstoð góðra vina, sem mætti seint að kvöldi þess 28.júní. Siðan var hafist handa við að þrífa slotið sem hefur eiginlega verið án stórþrifa síðustu fjögur árin vegna anna húsmóðurinnar. Við skulum segja að ég mæli sérstaklega með þvi að húsnæði sé þrifið oftar en á fjögurra ára fresti.

Nökkvi fór suður eldsnemma að morgni 30.júní til þess að koma bílnum á bílasölu og sama dag afhenti ég nýjum eigendum húsið sem við höfum búið í í 16 ár. Ég var alveg búin að búa mig undir að fara að gráta þegar ég rétti þeim lyklana en ég fann bara fyrir vissum létti enda fegin að törn síðustu daga væri búin. Nökkvi flaug svo út til Bergen 1.júlí með viðkomu í Kaupmannahöfn þar sem hann átti kaffiboð hjá vinkonu.

Humarhátíðarhelginni eyddi ég í faðmi foreldra minna og naut þess að eyða góðum tíma með þeim. Helgin var frekar blaut sökum rigningar og skemmtanir helgarinnar fóru að mestu framhjá mér, en eldri börnin nutu sín í gleðinni og sá yngsti í hoppuköstulum sem líktust meira sundlaugum.

Það kom mér á óvart að það reyndist mér ekki erfitt að kveðja vinina, hélt það yrði erfiðara. Tilfinningin var bara svona eins og ég væri að kveðja fyrir sumarfrí. Og mér líður svoldið þannig ennþá, finnst þetta allt frekar óraunverulegt eitthvað. Litlu systur og hennar dóttur var nú samt svoldið skrítið að kveðja þó við séum nokkuð vanar kveðjustundum.

Í morgun flugum við strákarnir hingað í borgina, fannst hálf skrítið að kveðja heimasætuna mína syfjuðu í morgun. Hún gaf sér nú varla tíma til að opna augun og sagði bara ég sé ykkur nú í haust ;) rétt opnaði annað augað á meðan við smelltum á hana kossi. Það var hinsvegar erfitt að kveðja foreldra mína á flugvellinum og nokkur tár laumuðust niður augnkrókana, ég viðurkenni það fúslega.

Eftir hádegið í dag hittum við hluta ættleggjar míns sem býr á Shetlandi, alltaf gaman að hitta þau og ekki verra að við fengum sjálfskipaðan einkabílstjóra á Leifsstöð í fyrramálið. Svo er okkur boðið í mat hjá
litla bróður Birninum og hans fjölskyldu í kvöld, það verður gott að sjá þau aðeins.

Á morgun hefst svo ævintýrið. Ég bæði hlakka til og kvíði fyrir. Ég á margs eftir að sakna, sérstaklega góðra vina og fjölskyldunnar. Ég er svo góðu vön að ég hef haft nánast ótakmarkaðan aðgang að foreldrum mínum hvenær sem mér hefur hentað og nánast kíkt í kaffi til þeirra daglega, það verður skrítið að vera svona langt frá þeim. En ég hef engar áhyggjur af því að vinskapur og tengsl muni rofna því við erum svo heppin að hafa tæknina með okkur í liði. Kaffisopi og spjall á skype hljómar ekkert illa :)

Ég hef hugsað mér að gera næsta kafla í lífssögu minni skemmtilegan, áhugaverðan og góðan.

Hafið það sem best og ég vona að þið fáið notið sumars, ég ætla að skella mér í sumarið ;)