Thursday, March 31, 2011

Vorið er komið

og grundirnar gróa, og ég get svo guðsvarið það að það þýðir að sumarið er alveg rétt handan við hornið. Þegar sumarið er komið þá útskrifast ég og fæ titilinn Hjúkrunarfræðingur! Ég stefni að því að verða rosalega flottur hjúkrunarfræðingur! En ég skal segja ykkur það að mikið djöfull (afsakið orðbragðið) verð ég fegin þegar við hjúkkusystur trítlum með lokaritgerðina á pósthúsið. Ég hef látið þau orð falla að þegar þessu námi lýkur þá ætli ég aldrei meir í skóla, en það borgar sig kannski ekki að vera yfirlýsingaglöð, ég hef víst sagt þetta einhvern tíma áður en ekki staðið við stóru orðin. Nei ég er ekki farin að spá í framhaldsnám ;) en svona ykkur að segja og bara okkar á milli, þá finnst mér sárameðferð mjög spennandi.

Í sumar, þegar ég verð orðin stór stelpa og hjúkrunarfræðingur að auki, þá mun ég líka flytja til útlanda. Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki vera kvíðin og hlakka bara til. Tilfinningin er svona kvíðatilhlökkunar-kokteill. Húsnæðismál eru komin á hreint og það létti nú aðeins á kvíðanum við það. Staðsetningin er ekki alveg sú sem ég óskaði mér og það vantar garðinn (sem er reyndar ágætt, þarf þá ekki að slá) og pallinn þar sem ég var búin að plana að sitja langtímum saman, með góða skáldsögu og sötra kaffi og stundum rautt eða hvítt, svo sá ég líka fyrir mér að sötra þar morgunkaffið með mínum heittelskaða (kannski eins gott að enginn sé pallurinn, hefði kannski óverdósað á kaffi). Það eru reyndar litlar svalir sem ættu að geta nýst í kósýstundir með kaffibolla, eiginmann og bók, en þá verða börnin að sætta sig við að geta ekki verið með í þessari athöfn (og kannski verða þau bara fegin).

Ég var úti að borða með samstarfskonum og þeim fannst eitthvað glatað að húsið væri ekki nógu stórt til að þær gætu heimsótt mig, og ekki einu sinni garður til að tjalda í. Ég sagði þeim að ef ég keypti mér hús í Noregi þá lofaði ég því að það stæði við hliðina á tjaldstæði. Það gæti verið grundvöllur fyrir þvi að skella bara á starfsmannaferð og hafa viðkomu hjá mér.

Ég á von á au-pair í næstu viku. Tengdamóðir mín bauðst til að koma og sinna börnum og búi svo ég gæti bara helt mér í verkefnavinnu af fullum krafti, haldið þið að það sé góðmennska. Það verður mjög notalegt og ég ætla að reyna að nýta tíman rosalega vel. Hún ætlar að vera til 15.apríl en þá ætlum við að keyra saman, hún, ég og krakkarnir til Reykjavíkur og þann 16.apríl ætlum ég og krakkarnir að fljúga til Noregs og dvelja hjá Nökkva í viku (já það er bara kæruleysi í gangi). Ég vona að krökkunum lítist vel á sig og flutningarnir verði meira spennandi þegar þau eru búin að sjá aðstæður, og sjá með eigin augum hvert þau eru að fara að flytja.

Njótið vorkomunnar

Tuesday, March 15, 2011

Góðan og blessaðan

Ég ætlaði að skrifa eitthvað skemmtilegt en ég er bara andlaus. Var búin að upphugsa fínan pistil en hann týndist í huga mér um leið og ég loggaði mig hér inn.

Ég er að leggja af stað á morgun í enn eitt ferðalagið. Á fimmtudag mun ég fá titilinn virðulegur rannsakandi!!! Mér finnst það ekki alveg vera ég, og er með smá kvíðahnút. Við hjúkkusystur erum að fara að taka viðtöl fyrir lokaverkefnið okkar, Leiðtogahlutverkið-viðhorf og sýn deildarstjóra á geðsviði Landspítala. Hef ekki mikla reynslu í svona rannsóknarviðtölum, en þetta er pínu spennandi samt. Við eyðum tveimur dögum í þessi viðtöl og svo verður haldið í höfuðstað norðulands, kíkt í skólan í viku eða svo.

Mér finnst rosalega leiðinlegt þessa dagana að vera grasekkja. Svo var ég ógift í nokkra daga og fannst það ekkert spes heldur. En þessir grasekkjudagar fara að taka enda bráðum og þá verður nú gaman.

Ég ætlaði að vera jákvæð í þessum pistli, eiginlega bara alveg rosalega jákvæð. Ég er heppinn og þakka fyrir það að ég á þrjú yndisleg börn, frábæran mann. Það eru ekki allir svo heppnir að eiga góðan maka. Ég á góða fjölskyldu og tengdafjölskyldu. Ég á marga góða vini, bæði gamla og nýja. Ég á ennþá mjög góða vinkonu frá æskuárunum (þá erum við að tala um fyrir skólaaldur takk fyrir). Ég held líka sambandi við vini frá unglingsárunum og svo hef ég eignast nýja vini á fullorðinsárum. Ég á þak yfir höfuðið (ennþá! skrifa undir kaupsamning á eftir) og ég get fætt mig og mína og klætt. Ég lét draum rætast og er að ljúka háskólanámi í vor. Ég vinn við það sem mér finnst skemmtilegast, á góðum vinnustað með góðu fólki (ég á eftir að sakna þeirra). Svo hef ég fengið tækifæri til að flytja í annað land, þó það krefjist þess að ég stígi vel út fyrir þægindaramman þá hlakka ég til að takast á við það. Ég og mitt fólk er heilsuhraust og við höfum sloppið við alvarlega heilsubresti. Já ég hef það bara rosalega gott og mun betra en margur annar.

Það er hollt að rifja það upp hvað maður hefur það gott, mæli með því. Við erum svo gjörn á að horfa á það neikvæða.

          Gullmolarnir mínir

Þessi er gull af manni. Ég tel mig ótrúlega heppna að hafa hann sem hluta af mínu lífi.


Listakonan mín sem elskar að syngja. Rík af réttlætiskennd. Mikil tilfinningavera. Svolítið fiðrildi en ákveðin og lífsglöð.


Uppistandarinn, mikill húmoristi. Músíkalskur. Ákaflega góðhjartaður. Skipuleggjandi félagsmálafrík og hugsuður.

Grallarinn minn. Bókaormur af guðsnáð. Skapmikill og ákveðinn. Á það til að fara svoldið fram úr sjálfum sér. Húmoristi, pínu nörd og orkubolti mikill.


Kveð að sinni vona að þið eigið góða daga.

Monday, March 7, 2011

Sumt er svo skrítið

Ætla að byrja á að segja að verkefnum hjúkkusystur minnar og sameiginlega verkefni okkar tókst að bjarga, hjúkket.

Aftur á móti þarf systir þessarar hjúkkusystur minnar að fara úr landi með börnin sín, aftur til ofbeldismannsins sem hún flúði frá. Dómskerfið/hæstiréttur segir það. Eflaust er dæmt eftir lögum, ég ætla ekkert að efast um það. En þar sem börnin voru búsett í Danmörku þegar forræðismál er sett af stað, þá þarf að klára málið þar. Málið snýst um börn og ofbeldi, og ég veit að þessi kona og fjölskylda hennar hafa óttast þetta mest af öllu að hún þurfi að fara aftur út með börnin. Fara og vera í nálægð við ofbeldismanninn, vera þar sem hún á enga að, vera nálægt manni sem hún er hrædd við og hún er hrædd við að hann geri börnunum mein. Þessi fjölskylda hefur barist með kjafti og klóm, reynt að fá þá í lið með sér sem einhverju ráða og gætu hugsanlega einhverju breytt, en komið að lokuðum dyrum á flestum stöðum ef ekki öllum.

Staðan er núna eins og þau hræddust mest að hún yrði. Ef konan fer ekki eftir dómnum þá má sækja börnin og færa þau í hendur ofbeldismannsins.

Miðvikudaginn 10.mars hafa krakkar hér á staðnum ákveðið að halda tónleika til styrktar þessari konu (það er nefnilega mjög dýrt að standa í svona málaferlum). Þessi ungmenni standa að þessum tónleikum algjörlega sjálf frá hugmynd að framkvæmd. Þetta er flott framtak hjá þeim og við megum svo sannarlega vera stolt af þeim. Ég hvet alla til að mæta.

Sunday, March 6, 2011

Raunveruleikinn

Vil byrja á því að segja hvað ég er stolt af ungunum mínum. Hlustaði á dóttur mín syngja í Nýheimum í föstudagshádegi. Og hún var flott þó heyrðist illa í henni það var míkrafónsvöntun á svæðinu, sem var synd því það heyrðist ekkert í þessum flottu krökkum sem voru að kynna vinnu sína í opnu vikunni. Á laugardaginn fór ég svo á Hótelið og hlustaði á eldri drenginn minn spila með Big Bandi og það var geðveikt. Rosalega flottur hópur á öllum aldri sem er í þessu bandi.

Annars að þessari raunveruleikapælingu. Var á símafundi með hjúkkusystrum mínum og lokaverkefnisleiðbeinandanum. Nú þarf að fara að spýta í lófana og reyna að koma einhverju á blað. Viðtöl hjá okkur við meðrannsakendur eftir 10 daga (já sæll) og ég er rétt að læra titilinn á rannsókninni okkar :-/ sem heitir Leiðtogahlutverkið - viðhorf og sýn deildarstjóra á geðsviði LSH. Það er ekki laust við að ég ofandi aðeins.

Annar raunveruleiki er sá að flutningar færast nær og nær. Nökkvi er á fullu að leita að húsnæði fyrir fjölskylduna, en allt sem hann skoðar selst eða leigist nánast um leið og hann gengur þaðan út (spurning um að fara að fá prósentur). Það er ekki laust við að ég ofandi aðeins.

Fræðsluverkefnið sem við stöllur vorum langt komnar með er í tölvu sem bilaði og neitar að kveikja á sér ásamt heilsugæsluverkefnum þessarar stöllu minnar............. Það er ekki laust við að ég ofandi aðeins.

Ég hef nú yfirleitt ekki litið á mig sem mjög stressaða týpu en ég held að ég sé að verða ein taugahrúga..........og samt er þetta óttalegur tittlingaskítur sem ég er að fá sjokk yfir (tittlingaskítur, hver fann upp þetta orð eiginlega?)

Farin að finna bréfpoka til að anda í áður en ég fell í yfirlið......................