Thursday, March 31, 2011

Vorið er komið

og grundirnar gróa, og ég get svo guðsvarið það að það þýðir að sumarið er alveg rétt handan við hornið. Þegar sumarið er komið þá útskrifast ég og fæ titilinn Hjúkrunarfræðingur! Ég stefni að því að verða rosalega flottur hjúkrunarfræðingur! En ég skal segja ykkur það að mikið djöfull (afsakið orðbragðið) verð ég fegin þegar við hjúkkusystur trítlum með lokaritgerðina á pósthúsið. Ég hef látið þau orð falla að þegar þessu námi lýkur þá ætli ég aldrei meir í skóla, en það borgar sig kannski ekki að vera yfirlýsingaglöð, ég hef víst sagt þetta einhvern tíma áður en ekki staðið við stóru orðin. Nei ég er ekki farin að spá í framhaldsnám ;) en svona ykkur að segja og bara okkar á milli, þá finnst mér sárameðferð mjög spennandi.

Í sumar, þegar ég verð orðin stór stelpa og hjúkrunarfræðingur að auki, þá mun ég líka flytja til útlanda. Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki vera kvíðin og hlakka bara til. Tilfinningin er svona kvíðatilhlökkunar-kokteill. Húsnæðismál eru komin á hreint og það létti nú aðeins á kvíðanum við það. Staðsetningin er ekki alveg sú sem ég óskaði mér og það vantar garðinn (sem er reyndar ágætt, þarf þá ekki að slá) og pallinn þar sem ég var búin að plana að sitja langtímum saman, með góða skáldsögu og sötra kaffi og stundum rautt eða hvítt, svo sá ég líka fyrir mér að sötra þar morgunkaffið með mínum heittelskaða (kannski eins gott að enginn sé pallurinn, hefði kannski óverdósað á kaffi). Það eru reyndar litlar svalir sem ættu að geta nýst í kósýstundir með kaffibolla, eiginmann og bók, en þá verða börnin að sætta sig við að geta ekki verið með í þessari athöfn (og kannski verða þau bara fegin).

Ég var úti að borða með samstarfskonum og þeim fannst eitthvað glatað að húsið væri ekki nógu stórt til að þær gætu heimsótt mig, og ekki einu sinni garður til að tjalda í. Ég sagði þeim að ef ég keypti mér hús í Noregi þá lofaði ég því að það stæði við hliðina á tjaldstæði. Það gæti verið grundvöllur fyrir þvi að skella bara á starfsmannaferð og hafa viðkomu hjá mér.

Ég á von á au-pair í næstu viku. Tengdamóðir mín bauðst til að koma og sinna börnum og búi svo ég gæti bara helt mér í verkefnavinnu af fullum krafti, haldið þið að það sé góðmennska. Það verður mjög notalegt og ég ætla að reyna að nýta tíman rosalega vel. Hún ætlar að vera til 15.apríl en þá ætlum við að keyra saman, hún, ég og krakkarnir til Reykjavíkur og þann 16.apríl ætlum ég og krakkarnir að fljúga til Noregs og dvelja hjá Nökkva í viku (já það er bara kæruleysi í gangi). Ég vona að krökkunum lítist vel á sig og flutningarnir verði meira spennandi þegar þau eru búin að sjá aðstæður, og sjá með eigin augum hvert þau eru að fara að flytja.

Njótið vorkomunnar

4 comments:

Ameríkufari segir fréttir said...

Ég get sagt þér að næst þegar ég þarf á hjúkrunarfræðing að halda,þá pant þig:) Þetta er frábært og ég trúi vel að þig hlakki til að ljúka þessu námi. Til hamingju með húsnæðið og ég skal lofa þér einu að húsið er alveg nógu stórt fyrir gesti. Við búum í 73 fermetrum og það er alveg nóg húsrúm fyrir gesti því á meðan hjartalagið er gott þá er nægt húsrúm:) Og þið eruð með hjartalagið í lagi!

Anonymous said...

Róleg, kaupa hús í Noregi....Ristaða brauðið stóð í mér og ég hellti heitu kaffi yfir hendina á mér...En mér finnst þetta kostur að húsið sé ekki nógu stórt fyrir gesti því annars er hætt við því að þið mynduð sitja uppi með allskonar flækinga!!!! En það er líka bara kósí að liggja í flatsæng á stofugólfinu! En ég vona að ferðin verði ánægjuleg og krakkarnir verði ánægðir það er fyrir mestu....Og ef ég þarf hjúkrunarfræðing þá ætla ég líka að panta þig eins og Svanfríður....Kveðja Ragnheiður rosa hjúkka....

Anonymous said...

Húsið er sko alveg nógu stórt til að taka á móti gestum, bara ekki starfsmannaferð HSSA :) Vona að þú hafir munað að kæla hendina og hafir náð að hósta upp brauðinu.

kv Íris sjálf

Hrafnhildur Halldórsdóttir said...

Til hamingju með nýja heimilið og mér líst rosa vel á þennan skreppitúr til noregs, þú kemur endurnærð til baka. Þú verður frábær hjúkrunarfræðingur, hefur allt sem til þarf, hjartað á réttum stað og eldklár!