Ætla að byrja á að segja að verkefnum hjúkkusystur minnar og sameiginlega verkefni okkar tókst að bjarga, hjúkket.
Aftur á móti þarf systir þessarar hjúkkusystur minnar að fara úr landi með börnin sín, aftur til ofbeldismannsins sem hún flúði frá. Dómskerfið/hæstiréttur segir það. Eflaust er dæmt eftir lögum, ég ætla ekkert að efast um það. En þar sem börnin voru búsett í Danmörku þegar forræðismál er sett af stað, þá þarf að klára málið þar. Málið snýst um börn og ofbeldi, og ég veit að þessi kona og fjölskylda hennar hafa óttast þetta mest af öllu að hún þurfi að fara aftur út með börnin. Fara og vera í nálægð við ofbeldismanninn, vera þar sem hún á enga að, vera nálægt manni sem hún er hrædd við og hún er hrædd við að hann geri börnunum mein. Þessi fjölskylda hefur barist með kjafti og klóm, reynt að fá þá í lið með sér sem einhverju ráða og gætu hugsanlega einhverju breytt, en komið að lokuðum dyrum á flestum stöðum ef ekki öllum.
Staðan er núna eins og þau hræddust mest að hún yrði. Ef konan fer ekki eftir dómnum þá má sækja börnin og færa þau í hendur ofbeldismannsins.
Miðvikudaginn 10.mars hafa krakkar hér á staðnum ákveðið að halda tónleika til styrktar þessari konu (það er nefnilega mjög dýrt að standa í svona málaferlum). Þessi ungmenni standa að þessum tónleikum algjörlega sjálf frá hugmynd að framkvæmd. Þetta er flott framtak hjá þeim og við megum svo sannarlega vera stolt af þeim. Ég hvet alla til að mæta.
No comments:
Post a Comment