Sunday, May 22, 2011

10 mínútna frægð

Við hjúkkusystur héldum til Akureyrar þann 19.maí og með í för voru tveir eldhressir makar. Tilgangur ferðar okkar var að vera á kynningardegi lokaverkefna hjúkrunarfræðinema þann 20.maí. Við vorum svo sem ekkert yfir okkur spenntar þannig lagað að keyra norður fyrir þær 10 mínútur sem okkur var úthlutað í okkar kynningu, 5 mínútur í kynninguna sjálfa og 5 mínútur í umræður. Svo var veðurspáin að hrella okkur í ofan á lag, vetur konungur mættur á norðurlandið til þess að stríða okkur aðeins.

Við æfðum okkur aðeins í fyrirlestrarsalnum á fimmtudagskvöldinu og skelltum okkur svo út að borða á bautan. Að því loknu fórum við tvær hjúkkusystur ásamt einum maka (sem stóð sig vel í að leika tveggjahjúkkumaka) á Græna hattinn á tónleika með Gylfa Ægis, Megasi og Rúnari Þór. Það er skemmst frá því að segja að þeir voru frábærir og mikið var hlegið.

Fyrirlestradagurinn rann upp og veðurguðirnir buðu upp á hríð. Við vinkonurnar tókum okkur vel út í snjónum í sumarsparisandölunum. Kynningin okkar gekk ljómandi vel og dagurinn var bara hinn skemmtilegasti, gaman að heyra um verkefni bekkjarsystrana og þetta var allt mjög hátíðlegt.Stoltar hjúkkusystur

Búnar að halda kynninguna og gleðin leynir sér ekki

Hjúkkusystur með afkvæmið


Eftir að kynningardegi lauk var brunað af stað heim. Ekki komumst við nú langt þar sem það snjóaði og snjóaði og vegagerðin ráðlagði okkur að reyna ekki að fara lengra en að Mývatni þar sem þeir væru hættir að reyna að halda veginum opnum. Það kom að því að við yrðum veðurteptar, ekki seinna vænna. Á þessum ferðum okkar til Akureyrar síðastliðin fjögur ár þá höfum við alltaf komist leiðar okkar án teljandi vandræða þó veðrið hafi ekki alltaf leikið við okkur. Við fengum gistingu á Mývatni í íbúð hjá svona líka hressum gaur sem reddaði okkur algjörlega, mælum með Lúdent-gistingu ef einhver þarf á slíku að halda á ferð um Mývatn.

Heim komumst við á laugardag og gekk ferðin vel þrátt fyrir vetrarfæri þar til við vorum komin yfir Öxi.


Hittum þessa jólahesta rétt austan við Egilsstaði, en jólasveinninn var hvergi sjáanlegur.

Þá er námi mínu í hjúkrunarfræði við Háskólan á Akureyri lokið. Útskriftin fer fram þann 11.júní og þá fáum við loksins skirteinið í hendurnar, ég hef reyndar ekki ákveðið mig ennþá hvort ég ætla að mæta í útskriftina finnst það óttalegt vesen eitthvað.

Fáfnir Freyr hefur beðið mig um að fá mér vinnu næst, ekki meiri skóla. Hann stakk meira að segja upp á því að ég gerðist götusópari. Með fullri virðingu fyrir því starfi þá var það nú ekki hugmyndin að vinna við það eftir fjögura ára háskólanám, en gott að hafa það í bakhöndinni ef mig langar í tilbreytingu.

Það er hálf skrítin en notaleg tilfinning samt að hugsa til þess að þetta nám sé búið, engin verkefni, engin próf, eða heimanám sem bíður eftir manni. Nú er bara að byrja að pakka á fullu og að sjálfsögðu henda einhverjum slatta (djöfull safnast upp mikið af drasli hjá manni), svo vinn ég eitthvað smávegis líka. Ég og strákarnir munum fljúga út þann 5.júlí. Nökkvi kemur heim þann 21.júní og flýgur út aðeins á undan okkur (mikið rosalega hlakka ég til að hitta hann). Heimasætan ætlar hins vegar að vinna í Nettó eitthvað fram í ágúst og koma þá til okkar.

Hafið það sem best rýjurnar mínar.

2 comments:

Heiða Björk said...

Jibbý!! Til hamingju með að vera búin með þetta.. það tókst!!
Þið takið ykkur vel út :)

Ameríkufari segir fréttir said...

Þetta er svo glæsilegt hjá þér og til HAMINGJU:) Þið eruð allar svo geislandi af gleði á myndunum að maður brosir með ykkur.
Fáfnir Freyr búinn að fá uppí kok ha? ;) Gangi ykkur vel í öllu því sem framundan er en njótið þess mest að verða heil fjölskylda á nýjan leik.