Monday, May 30, 2011

Sissa amma

Sissa amma mín kvaddi þennan heim þann 30.maí 2011. Einhvern vegin átti maður ekki von á þessu, hún amma hafði alltaf verið hraust og hress. Maður er aldrei tilbúin þegar ástvinur kveður þannig er það bara og mun sennilega alltaf verða.


(Mynd: Ævar Guðmundsson, Ólsaramyndir 2 á facebook)

Sissa amma var ákaflega falleg kona. Hún var alltaf svo fín og vel til höfð á mjög svo látlausan hátt, hún var svona "akkúrat" manneskja í einu og öllu og kom vel fyrir. Þegar ég var lítil fannst mér alltaf mjög merkilegt og gaman að fylgjast með henni leggja á sér hárið með krulluburstanum og setja á sig varalit, mér fannst hún alltaf svo fín og það var alltaf góð lykt af henni líka. Við hittumst ekki oft á ári þar sem hún og afi bjuggu í Ólafsvík en við á Höfn og kannski fannst mér hún amma ennþá merkilegri fyrir vikið. Í minningunni var alltaf mikið af kaffibrauði hjá ömmu og afa, kannski ekki skrítið þar sem afi er bakari. Það var gott að koma inn í eldhús hjá ömmu eftir að hafa verið úti að leika, og fá súkkulaðisnúð og mjólk. Þá sátum við frændsystkinin ég og Steinar oftar en ekki við útdraganlega skurðarbrettið í eldhúsinu og tókum vel til matar okkar. Ég man ennþá lyktina sem var í búrinu á Ennisbrautinni og mikið fannst mér hún góð og búrið ótrúlega merkilegur staður. Svo var líka alltaf kvöldkaffi hjá ömmu, það var eiginlega bara regla. Þegar ég var lítil stelpa þá var ennþá mjólkurbúð í Ólafsvík og mér fannst ákaflega gaman að fara með ömmu í mjólkurbúðina, kannski af því að mér tókst alltaf að sníkja út úr henni íspinna. Amma og afi fóru oft til útlanda, þegar ég var lítil þótti þetta ekki jafn sjálfsagður hlutur og það er í dag. Alltaf færðu þau mér eitthvað þegar þau komu heim úr þessum ferðum og það þóttu þvílíkar gersemar. Sumt á ég ennþá og man eftir ótrúlega mörgu sem þau færðu mér. Ég man eftir dúkku sem gat grátið, hálsmenum, hringum og fötum. Þetta þótti allt hvað öðru merkilegra enda frá útlöndum komið.

Eftir að ég fullorðnaðist fækkaði því miður samverustundunum og ég hætti að koma til Ólafsvíkur á hverju sumri. Samt héldum við ágætis sambandi. Ég kom nokkrum sinnum til hennar og afa með mín börn, þau voru þá flutt í Vallholtið og ekki laust við að ég saknaði lyktarinnar úr búrinu á Ennisbrautinni. En snúðana mína fékk ég og ekki klikkaði kvöldkaffið, það var engin hætta á því að maður yrði svangur í hennar húsum.

Það eru forréttindi að ná því að eiga afa og ömmu þegar maður hefur náð fullorðinsaldri, það eru ekki allir sem upplifa það. Það er ákaflega gaman að kynnast ömmum og öfum upp á nýtt þegar maður er orðin fullorðin, áherslurnar eru þá orðnar nokkuð aðrar. Við Sissa amma gátum spjallað margt og ég virkilega naut þess að eiga innihaldsríkar samræður við hana um allt og ekkert yfir kaffibolla og bakkelsi að sjálfsögðu.

Amma var ekki mikið í því að vera með tilfinningarnar upp á borðinu en hún má eiga það að hún hrósaði mér alltaf fyrir að drífa mig aftur í nám og hún sagði mér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að hún væri svo stolt af mér, og það var mér mikils virði.

Amma hafði dillandi hlátur og það hafa dætur hennar líka og þegar allur hópurinn var saman komin þá var oft mikið hlegið og ekki á lágu nótunum. Ég hugsa að hláturinn hafi endurómað um alla Ólafsvíkina þegar því var að skipta. Mér finnst eiginlega fátt yndislegra en þessi hláturkór þeirra mæðgna og ég vona að systurnar hlæi örlítið hærra hver og ein til að fylla upp í skarðið hennar ömmu.


Lúlli afi og Sissa amma á góðri stund

Takk fyrir samfylgdina elsku Sissa amma, ég var heppin að fá að kynnast þér.

7 comments:

Arna Ósk said...

Já hún Sissa amma ykkar var mjög eftirminnilega kona:)
Við hér á Bakkanum vottum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur.

lulli frændi said...

æðisleg há þér íris, :) knús

björn bróðir said...

fallega skrifað um hana fallegu ömmu okkar

Anonymous said...

Elsku Íris mín, þetta eru falleg orð hjá þér. Takk fyrir ;) Kveðja Hildur

Anonymous said...

Elsku Iris og þið öll.
Þakka hlýleg orð og ekki síst það að þið hafið metið Sissu að verðleikum. Hún var vissulega góð kona sem gaf okkur einstaka afkomendur, sem nú syrgja góða mömmu, ömmu og langömmu. Ykkur og tengdafólkinu þakka ég stuðninginn. Guð blessi ykkur öll.
Lúlli afi.

Íris said...

Takk afi minn. Við eigum ábyggilega öll ljúfar minningar um góða konu. Ég er þakklát fyrir að eiga góðar minningar og hafa átt yndislega tíma með ykkur báðum. Það eru ekki allir svo heppnir að hafa kynnst ömmum sínum og öfum, ég er fegin að ég er ein af þessum heppnu.

Frú Sigurbjörg said...

Samúðarkveðja.