Friday, March 9, 2012

Kaffi á "hraðbrautinni"

Kannski kominn tími á blogg. Var bent mjög kurteislega á það og þá gerir maður eitthvað í málinu, ekki satt.

Ég fór til tannlæknis í gær, sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Stóð í þeirri meiningu að ég væri bara að fara í smá tékk, svona til að athuga hvort kjafturinn á frúnni væri tilbúinn í það að fá krónu á úr sér genginn jaxl. Svo áður en ég fór inn hjá tannanum, þá sendi ég vinnufélaga smáskilaboð, til að athuga hvort hún vildi gefa mér kaffisopa eftir tékkið.

Það vildi nú ekki betur til en svo að þegar ég gapti fyrir tannlækninn, þá segir hún að nú byrjum við bara undirbúning fyrir krónuna. Ég átti ekki að finna til og fékk þvílíka deyfingu áður en hún hófst handa við að fjarlægja gamla fyllingu og spóla jaxlinn til. Ég er að segja ykkur það að tungan var dofin og öll vinstri hlið andlitsins eins og hún lagði sig, meira að segja eyrað. Fékk bráðabirgðakrónu sem er á stærð við jaxl í hesti (hef svolitlar áhyggjur af ektakrónunni sem er víst framleidd í útlöndum, vona bara að það sé ekki í Búlgaríu).

Þegar ég kom út frá tannsanum biðu skilaboð frá vinnufélaganum um að ég ætti að hringja, sem ég og gerði. Hún var á leiðinni út úr húsi ætlaði til Bergen á útsölumarkað og sagðist kippa mér með. Ég átti frekar erfitt um mál þar sem tungan og hálf neðri vörin voru undir áhrifum deyfilyfja. Svo það var einfaldast að segja bara já, og eins og við vitum þá slær kona ekki hendinni á móti því að komast á útsölumarkað.

Þegar ég var sest inn í bíl, búin að spenna beltið og við lagðar af stað, segir vinkonan ég kom með kaffi handa þér. Mikið rétt, hún var með kaffibrúsan og tvær könnur meðferðis. Á meðan hún kveikti sér í sígó, sagði hún helltu líka í könnu handa mér. Sem betur fer eru ekki slegin nein hraðamet á norskum hraðbrautum. Fannst þetta svoldið glæfralegt á köflum, þar sem hún reykti, drakk kaffi og skipti um gír. Komst að því að það er frekar erfitt að drekka kaffi, með dofna vör og tungu, akandi á norskri hraðbraut, jafnvel þó maður sé farþegi. Þetta var samt vel þess virði, við hlógum að vitleysunni og gerðum góð kaup á útsölumarkaðnum......

Góðar stundir.

4 comments:

Anonymous said...

Þú ert bara alltaf í ævintýrum Íris mín :) Vona að þú fáir samt skikkanlega tönn hahaha. Haltu áfram að blogga mín kæra, alltaf gaman að lesa :) Kær kveðja frá Guðlaugu móðursystur

Ameríkufari segir fréttir said...

Þú átt að taka mynd af þér þegar þú ert svona með slefuna út á kinn ;)

Anonymous said...

OMG...muahahahaha, Nú bjargaðir þú sko ALVEG deginum kæra frænka, er búin að grenja úr hlátri já upphátt.hahaha. Veðrið svo ógeðslegt að maður fór í fílu við að líta út.Það verður spennó að bíða eftir fréttum af áframhaldinu hehe.
Knús í þitt hús frá Sæu ömmusystur.

Anonymous said...

Það er sem ég hef alltaf sagt: það á ekki að borða kjúkling og spaghetti á keyrslu með kærri frá okkur Bróa