Það er ýmislegt sem við fjölskyldan veltum fyrir okkur. Já, við erum dálítið að spá í því hvort við eigum að fjárfesta í eigin húsnæði í stað þess að setja gommu af peningum í leigu. Við erum líka orðin frekar leið á lélegum strætósamgöngum hingað upp á fjallið. Það er yndislegt að búa hér, friðsælt og notalegt en stundum (frekar oft) pirrar þetta samgönguleysi okkur enda vön því að skottast allt á hér um bil 5 mínútum.
Við höfum skoðað ótrúlegt magn af fasteignaauglýsingum og draumarnir farið á háflug. Við höfum rætt fram og tilbaka hvaða kröfur við setjum um staðsetningu og slíkt. Húsmóðirin væri alveg til í að búa aðeins "afsíðis" nema á þriðjudögum og fimmtudögum (þá eru skutldagar á íþróttaæfingar og námskeið). Í sumum hverfum hér er byggt svo þétt að það er hægt að teygja sig út um eldhúsgluggan og hræra í potti á eldavél nágrannans. Slíkt nábýli er ekki ofarlega á óskalista hjá okkur. Unglingana dreymir um betri strætósamgöngur og að það sé ekki mjög langt í mollið eða sjoppu :) Börnin þrjú eru líka sammála um að þau vilja öll stærsta herbergið í húsinu. Foreldrarnir mundu helst vilja finna húsnæði í hverfinu þar sem sá yngsti er í skóla (núna) svo hann þurfi ekki að skipta um skóla (við elskum skólan sem hann er í) en það er eiginlega ógjörningur þar sem það er svo dýrt hverfi.
Það er reyndar ekki úr miklu að moða í sjálfu sér, þar sem að íslensku peningarnir verða að engu hingað komnir þá getum við ekki keypt dýrt, svo möguleikarnir eru ekki miklir. Við gætum keypt stórt flott hús ef við værum tilbúin að búa út í rassgati en ekkert okkar er tilbúið til þess (nema húsmóðirin, alla daga nema þriðjudaga og fimmtudaga). Við erum tilbúin að sætta okkur við lítið pláss, en allir vilja samt hafa möguleika á sér herbergi (við Nökkvi sættum okkur ennþá við að vera í sama herbergi) og lítill garður væri draumur.
Við erum búin að gera tilboð þrisvar sinnum. Tvisvar í íbúð í raðhúsi og einu sinni í lítið einbýlishús. Tvisvar höfum við fengið klárt nei og skilaboð um að ekki sé litið við tilboðum undir ásettu verði (sem var pínu yfir okkar mörkum), og svona ykkur að segja þá hlakkar í mér þegar ég sé að þessar íbúðir eru ekki ennþá seldar.
Þegar við buðum í húsið lentum við í "slag". Í byrjun áttum við hæsta tilboðið og við vorum bjartsýn enda höfðum við möguleika á að fara yfir ásett verð ef það yrði "slagur". Slagurinn lýsir sér þannig að við byrjum á að leggja inn skriflegt tilboð og svo er látið vita með sms-um þegar einhver hækkar tilboð og þau gilda frá c.a 20 mín niður í 10 mín. Þá hringir maður inn og lætur vita hvort maður hækkar sig eða er hættur. Þetta var æsispennandi og næstum því magasársvaldandi, það fór svo að við urðum að draga okkur út úr slagnum. Húsið var selt 255.000 NOK yfir ásettu verði sem var 130.000 NOK yfir því sem við gátum boðið. Við urðum frekar svekkt en höfum nú alveg jafnað okkur :)
Svo við höldum áfram að skoða fasteignaauglýsingar (er eiginlega að verða aðal hobbýið) og láta okkur dreyma. Ég er reyndar búin að sjá eitt (sem þið getið skoðað hér HÉR) sem heillar mig. Það versta er að það er gamalt, sem er kannski ástæðan fyrir því að það heillar, og það þarf að gera rosalega mikið fyrir það. Þakið er m.a orðið þreytt og fleiri "stór" verkefni sem þarf að huga að. Þar sem við hjónin erum ekkert sérlega miklir smiðir, pípulagningamenn eða rafvirkjar þá er þetta kannski ekki mjög gáfulega fjárfesting. Ekki nema væri hægt að koma sér upp viðhöldum með þessa menntun. En það er margt sem heillar samt, staðsetningin, ekki hægt að hræra í potti nágrannans með því að teygja sig út um gluggan, góðar samgöngur, gömlu upprunalegu gólfin og margt fleira. En það er allt í lagi að láta sig dreyma ekki satt.
Þetta er meðal þess sem er efst í huga okkar þessa dagana. Já, eins og þið lesið eflaust á milli línanna í þessum pistli, þá höfum við hugsað okkur að dvelja lengur hér í Noregi. Að flytja heim er ekki plönunum alveg strax, okkur líður vel og höfum það afskaplega gott og langar að prófa að vera hér lengur.
Góðar stundir.
5 comments:
Voða spennandi allt saman. Þið finnið draumaeignina á réttum tíma og allt verður í himnalagi :) Gangi ykkur vel. Knús frá Guðlaugu móðursystur ;)
Þetta er voða flott hús en eins og þú segir þá sést alveg að það þarf að gera heilmikið. Þá er bara spurningin hvort þið nennið að standa í því eða bara finna annað. Voða spennó ;) Gott að vita að ykkur líður vel þarna. Kveðja Hildur móðursystir ;))
Reikna ekki með því að kaupa þetta hús :) held við nennum ekki í svona miklar framkvæmdir, en það er gaman að láta sig dreyma ;)
Það þarf sérstakan áhuga á að gera upp hús til þess að kaupa svona hús. Ég læt mig dreyma í 2 mínútur að fjárfesta í gömlu húsi með sál en svo heyri ég alltaf hamarshögg í fjarska og þá vakna ég ;)
Þið finnið eitthvað sem passar ykkur eins og flís við rass og kannski verður það á hjólum en þá geturðu komið ykkur í námunda við strætóa og skóla á þri og fim en svo rúllað ykkur í sveitina hina dagana, í friðinn og rónna:)
Ljúft er að láta sig dreyma,
það kostar jú alls ekki neitt.
Hvar ætlir þú nú eiga heima,
sjúkk,,ert' ekki orðin kófsveitt.
Þykir samt gaman að heyra að þið Nökkvi gerið ykkur ánægð með eitt og sama herbergið hehe. Þetta er yndislega fallegt hús,en Drottinn minn þú yrðir að hafa iðn.menn allt árið og ekki bara við húsið, sýnist það líka með lóðina. En alltaf gaman að spá og spökúlera.
Knús frá Sæu ömmusystir.
Post a Comment