Sunday, November 27, 2011

1. sunnudagur í aðventu


Þá er aðventan formlega byrjuð. Ég er ekki komin í neitt sérlega mikið jólaskap, er þó búin að kaupa megnið af jólagjöfunum sem munu fara í ferðalag til Íslands, baka eina smákökusort og kaupa jólasteikina. Er ekkert farin að spá í jólakortaskrif, ætti kannski að reyna að koma mér í þann gírinn.

Þetta er sá tími ársins sem ég reikna með að við fjölskyldan munum finna fyrir slatta af heimþrá, kannski það sé þess vegna sem undirmeðvitundin kemur því þannig fyrir að ég er ekki að hugsa svo mikið um jólin. Hef ekki fundið hjá mér þörf til að setja jólalög í geislaspilaran, en það er nú bara nóvemer ennþá. ´

Í dag verður kveikt á jólatré Hornafjarðarbæjar, samkoma sem við höfum mætt á síðan byrjað var að gera þetta með pompi og prakt. Skrítið að vera ekki viðstödd nú, þetta hefur alltaf ýtt aðeins við jólagleðinni í hjartanu. Nökkvi og eldri börnin fóru á svona jólasamkomu inn í Bergen í gær, það var hávaðarok og grenjandi rigning og sá stutti vildi alls ekki með svo niðurstaðan varð sú að við tvö urðum eftir heima. Hersingin kom heim aftur blaut inn að beini, þrátt fyrir að vera útbúin í pollagalla og með regnhlíf að vopni, en þeim fannst gaman.

Hef planað að í þessari viku munum við draga fram jólaskrautið, koma jólaljósum í gluggana og kannski baka eitthvað, hlusta á jólalög og reyna að finna fyrir smá jólum í hjartanu. Skítt með það þó að heimþráin fylli hjartað í leiðinni og þó það falli nokkur tár (best að muna að kaupa slatta af tissjú), það verður bara að vera þannig og tilheyrir bara svona hátíðum að vera aðeins meyr.

Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur. Yndislegt að fylgjast með litla manninum blómstra og finna ró í huga og kropp til að dunda sér. Eldri drengurinn hefur verið að skrifa ritgerð á norsku sem gekk mjög, og í síðustu viku tók hann tvö próf í norsku (átti að skrifa texta um eitthvað) og segir það hafa gengið vel.

Það gengur illa að finna vinnu fyrir heimasætuna en hún sættist á að líklega væri gáfulegast að fara á norskunámskeið. Okkur var bent á svona námskeið fyrir nýbúa, hún fór og hitti þar ráðgjafa sem vildi frekar að hún hefði samband við framhaldsskólan til að athuga hvort þeir tækju við henni í innflytjendabekk þar, væri fín leið til að læra norskuna og þar væri hún innan um jafnaldra. Ráðgjafanum fannst daman ekki passa inn í þann hóp sem hún var með á námskeiði núna (miðaldra karlmenn frá Íran). Hún ætlaði að heyra í ráðgjafa við framhaldskólan og Yrsa átti að hafa samband á þriðjudag. Vona svo sannarlega að þeir vilji taka við henni þarna, en þetta snýst víst allt um einhverjar reglur. Hún hefur verið að sækja um ýmislegt en það ekki skilað neinu, í einni búð sem hún fór í var verslunarstjórinn nokkuð jákvæður og sagðist endilega vilja að hún kæmi og talaði við sig þegar hún væri búin að læra smávegis í málinu. Skiljanlega þá ráða menn frekar þá sem tala tungumálið.

Ég er að vinna þessa helgina á annarri deild en venjulega. Þar er einn þjónustuþeginn innflytjandi, hefur búið í landinu í tugi ára en virðist hafa gleymt norskunni og það þarf að tala við hann á ensku sem hann virðist skilja svona sæmilega. Þegar ég er í vinnunni þá stilli ég mig greinilega í einhvern norskan gír, og þegar ég þurfti að skipta úr norsku yfir í ensku lenti ég í vandræðum (samt tala ég og skil ensku bara alveg ágætlega), mér gekk virkilega illa að koma því yfir á ensku sem ég þurfti að segja við viðkomandi, ætli það sé af því að ég lærði ensku á íslensku eða hvað?  Heilinn er merkilegt fyrirbæri. 

Vona að þið finnið jólaskapið og jólagleðina í hjartanu í dag.
Ég sendi kærar kveðjur yfir hafið og heim.

5 comments:

Anonymous said...

Gaman að lesa eins og alltaf. Ég vona að nýabrumið verði til þess að heimþráin verði ekki eins mikil Íris mín. Gott að heyra hvað ungi maðurinn dafnar vel. Yrsa á líka ftir að pluma sig, þetta er allt svo nýtt. Knús á ykkur öll. Ps. Sennilega verður ofaná að við hættum að senda jólakort, flestir hættir því, þá færðu bara kveðju með rafrænum hætti ;) Kveðja frá Guðlaugu móðursystur

Anonymous said...

Hæ dúlla ;) Alltaf gaman að lesa frá þér bréfin. Frábært hvað allt gegnur vel, sérstaklega hjá þessum minnsta ;) Um að gera hjá Yrsu að reyna að komast inn í þennan skóla til að ná norskunni vel þá á henni eftir að ganga betur að fá vinnu.
Kveðja Hildur móðursystir ;))

Hrafnhildur Halldorsdottir said...

Takk fyrir pistilinn elsku Íris mín. Það er allt í lagi að verða meir á aðventunni, ég verð það líka alltaf og sakna þess að vera ekki nær fólkinu mínu á Hornafirði. Ég er viss um að jólin eiga eftir að verða yndisleg og það verður gaman að halda norsk jól í fyrsta sinn þó það verði kannski tregablandið. Það er frábært að heyra hvað drengjunum gegnur vel og ég vona að ganga upp hjá heimasætunni. Við söknum ykkar, Gleðilega aðventu:)

Ameríkufari segir fréttir said...

Gráttu,skældu,kjökraðu;vertu bara meyr.Þetta er ekki auðvelt en eins og þú segir réttilega sjálf, þá þarf hátíðin sjálf ekki að líða fyrir "Meyrnina". Meira að segja gætirðu upplifað jólina, innra með þér,öðruvísi þessi jólin heldur en þau sem á undan hafa farið því núna ertu einungis sameinuð Nökkva og krökkunum og einhvernveginn verður allt öðruvísi, þó ekki á verri háttinn, þegar maður kemst ekki heim. Ég vonandi geri mig skiljanlega.
En mér finnst frábært að lesa um hvað sá stutti virðist líða vel í eigin skinni. Skilaðu kveðju til hans. Yrsa vonandi finnur vinnu bráðlega og hún á örugglega eftir að ná málinu fljótt. Bræður hennar geta svo líklegast aðstoðað hana ef með þarf, krakkar eru svo fljótir að læra. Mér finnst þú standa þig vel og þið öll. Þú ert örugglega að læra ýmislegt um sjálfa þig sem þú taldir kannski að þú gætir ekki hér áður fyrr. Þú ert kjarnakona! Kærar kveðjur,Svanfríður.

Frú Sigurbjörg said...

Flottur aðventu"krans"! Njóttu nýrra tíma með meyrni og öllu öðru.