Monday, November 7, 2011

NorskurDraumur

Vaknaði hissa í morgun, mig hafði dreymt á norsku ekki lengi en draumurinn snérist um samtal. Man ekki um hvað var rætt man bara að það var á norsku. Þetta var eitthvað svo skrítið samt, held að þetta hafi vakið mig.

Það er svoldið langt síðan að ég upplifði það í vinnunni að ég var að telja á norsku og það fyrir sjálfa mig. Ég var að telja pillur og fór næstum að skellihlæja þegar ég fattaði að ég taldi á norsku. Sennilega setur maður sig í einhvern ákveðinn gír áður en maður stígur inn á vinnustaðinn, í síðustu viku þá tók ég eftir því að ég geri minna af því að hugsa setninguna sem ég ætla að segja á íslensku fyrst og koma henni yfir á norsku í huganum áður en ég segi hana, ég er farin að hugsa setningarnar á norsku og ef þær hljóma illa í hausnum á mér þá reyni ég að betrum bæta áður en ég sleppi þeim út fyrir varirnar, það gengur svona og svona. Í almennum samræðum svona um daginn og veginn við vinnufélagana vantar mig oft orð og þá þarf að tala í kringum hlutina til að skiljast, það verður til þess að það verður ekki eðlilegt "flæði" í samræðunum (vona að þið fattið hvað ég meina), stundum verður þetta meira svona eins og spurningar og svör á prófi og ég á það til að láta það pirra mig, en þetta kemur hægt og sígandi.

Ég er aðeins að venjast því að þurfa að tala norsku fyrir framan Nökkva og við hann. En við þurfum þess þegar við hittum fjölskylduráðgjafan, læknirinn, kennarana og aðstoðarmanninn. Fyrst fannst mér það alveg hreint fáránlegt og roðnaði og stamaði :) en þetta er að venjast, ég er allavega hætt að roðna ;)

Sendi góðar kveðjur út í alheiminn og kveð að norskum sið til að vera í stíl við pistilinn.

Ha de bra

4 comments:

Ameríkufari segir fréttir said...

Já! Ég skil alveg hvað þú ert að fara!!! Svo verðurðu farin að svara Nökkva og börnunum á norsku áður en þú veist af, heima við:)

Íris said...

Vona ekki Svanfríður, lenti reyndar í því þegar ég kom heim af kvöldvakt um daginn að byrja á því að segja við Nökkva er Fáfnir i seng!!! var ekki búin að kúpla mig út úr vinnugírnum þá :)

Anonymous said...

Þetta gengur hratt fyrir sig í tungumálinu :) Þú mátt samt ekki gleima ylhíra málinu okkar. Gangi ykkur áfram vel frænka sæl :) Knús frá móðursystur í Hafnarf

Anonymous said...

Það er víst engin hætta Íris mín að norskan verði ofaná. Ekki einu sinni hjá strákunum. Gott að heyra að lífið gengur vel, kveðja frá okkur Bróa.