Drengurinn fæddist á fæðingarheimili Skjólgarðs á Höfn í Hornafirði. En fæðingarheimilið var í kjallaranum á hjúkrunarheimilinu sem var vinnustaður minn. Þegar ég mætti til vinnu þennan morgun þá vissi ég að það voru merkilegir hlutir að gerast í kjallaranum. Móðuramma Gísla Tjörva var líka í vinnu á sama stað þennan morgunn og ég hef það á tilfinningunni að það hafi ekki endilega verið svo mikið gagn af okkur tveim þennan morguninn. Spennan var mikil og ferðirnar í kjallaran, til að kanna stöðu mála, ófáar.
Mér fannst ég heppin að geta gefið tilvonandi foreldrum faðmlag og sagt við þau hvetjandi orð áður en aðalátökin hæfust. Þetta var svoldið merkileg upplifun, að reyna að vinna vinnuna mína á meðan ég vissi af bróður mínum og mágkonu þarna í kjallaranum (nánast undir fótum mínum) að upplifa stærstu stund lífs síns. Ég hafði sjálf eignast mitt fyrsta barn 9 mánuðum áður og fæðingin gekk frekar brösulega, ekki síst fyrir stelpuskottið mitt (sem ég fékk ekki að halda á í fyrsta sinn fyrr en daginn eftir að hún kom í heiminn) svo kannski voru tilfinningarnar sem ég upplifði þarna miklu sterkari fyrir vikið.
Ég var með fiðrildi í maganum, ég hafði svolitlar áhyggjur af gangi mála í kjallaranum, var allt í lagi, gekk allt vel. En mest var ég þó að fara á límingunum af spenningi og tilhlökkun. Það var erfitt að vera með hugan við vinnuna, vægast sagt. Ég hugsa stundum um það á þessum degi, hvað aumingja tilvonandi amman sem var að vinna með mér gekk í gegnum þennan morgunn fyrir 19 árum, hún hefur líklega verið töluvert stressaðri en ég yfir þessu og spenningurinn enn meiri.
Svo kom að því að við fengum að vita að drengur væri fæddur í kjallaranum. Ég held að ég hafi nú leyft ömmunni að kíkja á drenginn og nýbökuðu foreldrana fyrst ;) En allavega man ég að ég stóð í herbergi fyrir framan fæðingarstofuna spennt að fá að sjá hann, þegar nýbakaður faðirinn, litli bróðir minn sem ekki hafði náð 18 ára aldri, kom fram og við féllumst í faðma. Án allra orða fann ég fyrir spennufalli hans og léttinum í faðmlaginu og gleðinni og hamingjunni í tárunum sem trilluðu niður kinnar hans. Ég gat ekki heldur haldið aftur af tárunum, tilfinningarnar sem fylltu herbergið voru sterkar.
Svo fékk ég að sjá litla fallega undrið sem lá í fangi nýbakaðrar móður. Hann var yndislegur, eins og við mátti búast. Það var svo dásamlegt að fá að upplifa það nákvæmlega svona að verða föðursystir. Fá að upplifa allar þessar sterku og dásamlegu tilfinningar sem tengjast fæðingu barns svona beint í æð. Fá að taka utan um nýbakaða foreldra í tilfinningarússíbananum. Ég kem líklega aldrei til með að gleyma þessum degi, man hann svo ótrúlega vel.
Innilega til hamingju með daginn Gísli Tjörvi, Bjössi og Hrafnhildur.
Við systkinin þrjú með barnahópinn okkar. Yndisleg öll þessi börn og ákaflega vel heppnuð eintök hvert og eitt. |
1 comment:
Mikið er þetta falleg saga, haltu svona dásemdardegi sem lengts í hugskotinu.
Post a Comment