Jæja nú var komið að mér að setja lækninn út af laginu. Var búin að setja mér það markmið að láta hann ekki tala mig í kaf í dag blessaðan.
Fann það út eftir síðasta tíma að líklega hefði ég aldrei sagt honum almenninlega hvernig gengi. Hvað ég gerði nákvæmlega hjá sjúkraþjálfanum og hver árangurinn væri í raun og veru, þó helvítis vigtin segði eitthvað annað enda markmið mitt að losna við verkina eins og hægt var og ná upp orku til að koma mér í vinnu. Og hitt má koma á eftir, þ.e að létta mig og hætta að reykja, það er jú hluti af því að ná almenninlegri heilsu að takast á við það. En Róm var ekki byggð á einum degi.
Svo ég hlammaði mér niður í stólinn hjá honum bauð góðan dag og tilkynnti honum að þar sem ég hefði farið frá honum síðast með þá tilfinningu að honum finndist ég ekki gera nóg í mínum málum og þess vegna vildi ég að hann hlustaði á mig núna. Ég ætlaði að segja honum nákvæmlega hvað ég væri búin að gera og hvaða árangri ég væri búin að ná þó vigtin sigi ekki niður á við ennþá. Hann varð pínu hvumsa svo ég sagði að ég reiknaði ekki með því að hann hefði bara ætlað að vera leiðinlegur þetta væri partur af vinnunni hans en nú vildi ég bara fá að tjá mig almenninlega, því mér finndist ég bara búin að vera fjandi dugleg.
Að sjálfsögðu gat manngreyið ekki annað en hlustað á mig eftir þessa ræðu :) Og þegar ég sagði honum hvar nákvæmlega ég væri stödd í þjálfuninni og ferlinu þá varð hann nú bara hissa og ánægður með mig karlanginn.
Ég gerði hann nú samt ekki alveg kjaftstopp því hann sendi mig út með miða með nafni á bók um lágkolvetnafæði. Hann rétti mér miðann og sagði þú ÁTT að kaupa þessa bók!! Ætli sé ekki best að ég hlýði því þó ég sé ekki endilega mjög spennt fyrir því, en það er eflaust margt gott þar sem vert er að tileinka sér í betri matarvenjum.
Ég hlýðna stúlkan fór í bókabúðina og athugaði með bókina sem var ekki til. En ég lét panta hana fyrir mig.
Er ánægð með sjálfa mig, ég stóð með sjálfri mér. Og það er eitthvað svo gott að segja nákvæmlega frá því hvar ég er stödd í þjálfuninni, það gerir það eitthvað svo áþreifanlegt að ég er búin að gera góða hluti þar.
Góðar stundir
1 comment:
Heyr heyr mín kæra. Láttu samt engan plata þig með mataræðið. Allan mat, en minna af honum, og ég er ekki að plata með kærri frá okkur Bróa.
Post a Comment