Friday, December 30, 2011

Enn eitt árið að kveðja............

Er ekki við hæfi að líta yfir árið svona þegar því er rétt að ljúka

Fyrir það fyrsta þá finnst mér eins og 2011 hafi verið alveg einstaklega lengi að líða, allavega fyrrihluti þess. Kannski það hafi verið af því að ég gegndi mörgum hlutverkum fyrri hluta ársins. Ég var móðir og eiginlega faðir líka, námsmey í fullu námi sem þurfti að bregða sér af bæ endrum og eins til að stunda verknám í höfuðstaðnum og í höfuðstað norðurlands, ásamt því að sinna lokaritgerðarskrifum svo var frúin líka í c.a 40% vinnu sem hjúkrunarfræðingur og svo voru líka fyrirhugaðir flutningar okkar til annars lands ofarlega í huga. Mitt í þessu öllu þá átti yngsta barnið mitt erfitt í skólanum og á fleiri vígstöðvum og kom í ljós á vordögum að guttinn var með ADHD (athyglisbrest með ofvirkni). Tveimur tímum áður en ég fór í viðtal til að fá niðurstöður greiningar hans þá fékk ég að vita að móðuramma mín hefði látist þá um nóttina eftir stutt en erfið veikindi, sálfræðingurinn sem var með skilaviðtalið fékk dágóðan skammt af gráti blessaður.

Fyrri part ársins þá vissi ég nú bara stundum hreinlega ekki hvort ég var að koma eða fara, ég get svo svarið það. Ef ekki væri fyrir yndislega móður og tengdamóður þá hefði ég nú sennilega sprungið á limminu í miðju kafi, þær hjálpuðu mér mjög mikið og tengdamóðir mín elskuleg flutti nú bara til mín og sá um börn og buru á síðustu metrum lokaritgerðarskrifa. Og þessi elska dundaði sér við að pakka fullt af dóti niður í kassa fyrir mig í þokkabót.

Ég komst að því að mér finnst fjarbúð alveg afskaplega leiðinlegt fyrirbæri og það var eitt og annað sem kom upp á sem mér fannst ömurlegt að standa í ein. Ég komst líka að því að ég er sko miklu sterkari en ég hélt og ég skil bara hreinlega ekki enn af hverju ég gafst stundum ekki bara upp á öllu saman.

Að skila af sér lokaritgerðinni var ákaflega ljúf tilfinning, því fylgdi mikil gleði og ekki síst léttir. Fáfnir Freyr spurði mig hvort ég færi þá aldrei aftur í skóla, ég gat nú eiginlega ekki svarað honum 100% um það nema að það yrði að minnsta kosti ekki í bráð. Ég fór ekki í útskriftina mína (sé pínu eftir því) en ég átti bara ekki orku í það, var að vesenast með Darra hjá tanna í Reykjavík og fór vestur í jarðaförina hennar ömmu rétt fyrir útskrift. En að fá einkunnablaðið í hendurnar og pappíra um að nú væri ég útskrifuð sem hjúkrunarfræðingur með fyrstu einkunn var frábært, þetta gat ég þó það kostaði blóð, svita og tár. Námið var samt lang oftast skemmtilegt og ég kynntist líka frábærum konum í náminu og eignaðist nýja vini.

Svo var pakkað í flýti, húsið hreinsað hátt og lágt og afhent nýjum eigendum. Nökkvi flaug út á undan okkur og við reyndum að hafa gaman á afskaplega votri Humarhátið. Gott að vera í dekri hjá mömmu og pabba þessa síðustu daga á Íslandi. Út flugum svo við strákarnir þann 5 júlí og Yrsa kom svo til okkar tveimur mánuðum síðar.

Tíminn eftir að við fluttum hefur liðið hratt, enda nóg að gera og nóg að meðtaka. Allt hefur gengið frábærlega vel, eiginlega lyginni líkast. Við höfum upplifað svo margt jákvætt sem fjölskylda síðan við fluttum og líklega hefur það hjálpað til við aðlögunina. Það hefur komið mér mest á óvart að söknuðurinn eftir fjölskyldu og vinum er ekki óbærilegur eins og ég hræddist. Hann er til staðar en öðruvísi en ég hélt. Við höfum kynnst góðu fólki og ekki síst hvort öðru upp á nýtt.

Ég get sagt það nú að ég hræddist þessar miklu breytingar á högum okkar, og eiginlega hræddist ég þær mjög mikið. Ég er nefnilega vanaföst og það mjög, hef varla geta breytt heima hjá mér hvað þá meira og þarf alltaf að vita hvað gerist næst ;) Eiginlega þá var ég þess fullviss að ég mundi alltaf búa á Hornafirði og það stóð ekkert annað til. Svo ég hef nú komið sjálfri mér heldur betur á óvart með þessum flutningum ;) þetta er eitthvað svo ekki ég.

Hvað hefur svo þetta ár kennt mér?
- Fjarbúð er ekki fyrir mig, við hjónin fúnkerum betur saman en sundur.
- Ég er fjandanum sterkari.
- Ég get það sem ég ætla mér
- Breytingar eru bara alls ekki hættulegar og geta svo sannarlega getið af sér margt gott.
- Að brjóta upp vanan er ekki svo galið.

Kæru vinir ég óska ykkur gæfu, gleði og góðrar heilsu á nýju ári. Ég þakka kærlega fyrir frábæran vinskap og minningasköpun á liðnum árum.

10 comments:

Anonymous said...

þú ert bara frábær, Gleðilegt nýár til ykkar allra og hafið það sem best í nýja landinu
Kveðjur Guðný Svavarsd

Anonymous said...

Þú ert dugleg Íris mín, kjarnorkukona!! Og mikið rétt, maður veit ekki neitt ef maður prufar ekki neitt. Þú gerðir þetta allt rækilega og þú munt uppskera rækilega :) Gangi ykkur allt í haginn á nýu ári. Knús í hús

Anonymous said...

Frábær lesning eins og vant er hjá þér duglega frænkan mín. Bestu óskir um gæfuríkt nýtt ár til ykkar alra.
Kveðja Sæa.

Ameríkufari segir fréttir said...

Þetta var yndisleg lesning elsku valkyrja. Þú ert það nefnilega. Alger valkyrja og mennirnir þínir, víkingar. Gaman að lesa um lífið ykkar og ég hlakka til að halda því áfram. Gleðilegt ár elsku ísl-norska fjölskylda. Kv. Svanfríður.

Anonymous said...

Já þú ert kjarnorku-kona frænka sæl. Alltaf gaman að lesa þessa pisla. Vona að nýja árið verði frábært hjá ykkur og takk fyrir allt gamalt og gott á liðnum árum. Við sjáumst nú vonandi á næstunni ;) Jólaknús í hús til ykkar allra Kv Hildur

Egga-la said...

Það er alltaf gott að upplifa smá, þá veit maður að maður er lifandi!! Gleðilegt ár.

Frú Sigurbjörg said...

Ég gleðst yfir að hafa fengið að kynnast þér og fylgjast með öllum þínum lífsveiflum í rafheimum á árinu sem senn líður. Hlakka líka til að eiga með þér raf-leið á komandi ári.

Anonymous said...

"Sjáðu tindinn? þarna fór ég". Til hamingju með þetta allt saman mín kæra, og gleðilegt nýtt ár frá okkur Bróa

Anonymous said...

já það er gott að reyna eitthvað nýtt og finna að maður er lifandi og getur það sem maður ætlar sér. Hef sagt það áður og segi það aftur, ég er stolt af þér.

Hrafnhildur

Anonymous said...

Þú ert yndi :)