Sælt veri fólkið. Við tökum það ákaflega rólega á Þorláksmessu, yngsta barnið svaf til kl 10:30 takk fyrir. Móðurinni stóð ekki orðið á sama og var búin að athuga hvort drengurinn drægi andann. Jólin eru komin í hjartað og allt hér um bil löngu tilbúið svo við höfum það bara huggulegt í dag, jólatónlist fyllir húsið, hangikjötið kom loksins í morgun svo það verður hægt að búa til ekta jólalykt í kvöld :) Það á bara eftir að skipta á rúmum, setja upp jólatréð og skjótast smá í búð (nenni því nú samt eiginlega ekki).
Við tókum forskot á sæluna og borðuðum skötu í gærkvöldi ásamt tvennum vinahjónum og hundi. Hundurinn fékk reyndar ekki skötu en fékk að smá Royal búðing :) Áttum virkilega ánægjulega kvöldstund og þegar ég fór í bólið mátti ég minna sjálfa mig á að það væri ekki aðfangadagur daginn eftir, því jólastemmningin var komin yfir frúnna. Við erum vön að borða skötu hjá mömmu og pabba á Þorlák og það hefur venjulega verið upphafið að jólunum hjá okkur. Við gleymdum alveg að taka myndir af gúmmilaðinu og fólkinu. Það var bara tekin mynd af húsmóðurinni yfir pottunum og af borðinu :)
Skatan bragðaðist dásamlega, vantaði reyndar mömmurúgbrauð eða Hornafjarðarrúgbrauð með, og annað sem var á borðum bragðaðist líka dásamlega og allir borðuðu á sig gat.
Skötulyktin var til umræðu hér á heimilinu deginum áður, hvort allt myndi ekki anga eftir eldun þessa eðalgóðgætis, sérstaklega ef við fengjum ekki hangikjötið í tæka tíð, hvort það yrði þá skötulykt hér á jólunum. Sú hugmynd kom upp að banka upp á hjá nágrönnunum og segja að eldavélin væri biluð hjá okkur og spurja hvort við mættum sjóða fisk hjá þeim hehehehe. Við létum nú ekki verða af þessu enda treysti ég því ekki að við yrðum heil á eftir ;) Hins vegar lögðum við viskastykki vætt í ediki yfir pottinn og það snarvirkar.
Ég væri að ljúga ef ég segði að hugurinn hvarflaði ekki heim í fjörðinn fagra á þessum tíma. Það hefur samt verið minna um það að ég væri með kökkinn í hálsinum og tár á hvörmun en ég reiknaði með. Það hefur verið einn dagur (enn sem komið er) sem var sérlega erfiður og það helltist yfir mig þvílík viðkvæmni að meira að segja norsk jólalög sem ég hafði aldrei heyrt kölluðu fram tár. Mér fannst nú samt gott að finna þessa viðkvæmni því ég var farin að halda að ég væri ónæm. Það er líka gott að hugsa til fjölskyldunnar og vinanna, skoða myndir og láta hugan reika yfir góðar minningar.
Ég er ákaflega þakklát fyrir að eiga frí frá vinnu um jólin, það hefði nú eiginlega verið alveg ferlegt að halda jól á nýjum stað og vera svo að vinna í þokkabót. Ég fer að vinna á annan í jólum og vinn nokkra daga á milli hátíða. Á svo morgunvaktir bæði á gamlársdag og nýársdag.
Hér er rúmlega 7 stiga hiti í dag og smá rigningarúði. Ég græt það svo sem ekki að vera án snjósins. Mér finnst hann eiginlega frekar leiðinlegur, sérstaklega hér í öllum brekkubeygjunum upp í fjalli :) Það mætti samt alveg koma smá föl rétt fyrir klukkan 6 á aðfangadag er alltaf aðeins jólalegra að hafa hvíta jörð. Annars erum við ákveðin í því að eiga notaleg og ánægjuleg jól, þó svo það vanti snjó (erum nú alveg vön því) og ákveðnar hefðir sem hafa tilheyrt jólunum fram að þessu.
Kæru vinir og ættingjar nær og fjær!
Ég óska ykkur öllum gleði og friðar á jólum og farsældar og hamingju á nýju ári. Þakka góða vináttu, samveru og minningasköpun á liðnum árum.
4 comments:
God jul til ykkar líka.
Gleðileg jól kæru vinir. Gulla og Brói
Það er gott að vera tilfinningaríkur og meyr.
Gullfallegur pistill!
Post a Comment