Wednesday, October 9, 2013

Uppgefin

Ég virðist orðið bara skrifa hér inn þegar ég þarf að væla smá. En ég þarf einmitt að væla smá núna, kannski bara ágætt að geta skrifað sig frá þessu væli. Svo verðið þið bara að vega og meta hvort þið hafið áhuga á að lesa þetta væl eða ekki, ég varaði ykkur a.m.k við.

Síðan ég skrifaði hér inn síðast hefur leiðin eiginlega bara legið niður á við aftur. Kannski ekki alveg beint niður því ég átti yndislega daga á Íslandi með fjölskyldu og vinum, náði að hvíla mig vel og njóta samvistanna við fólkið mitt. Fóturinn sem hafði verið að plaga mig fyrir sumarfrí náði sér bara nokkuð vel á strik og hætti að angra mig mikið.

Þegar heim kom þá ákvað ég að ég væri frísk og gæti byrjað að stunda mína vinnu án þess að vera að hluta til í veikindaleyfi. Veit það ekki kannski var það bara meiri von og þrjóska en blákaldur veruleiki.
Því að eftir nokkrar vaktir þá var staðreyndin orðin sú að ég átti nánast enga orku í líkamsrækt og göngutúrarnir urðu alltaf styttri og færri. Ég lá eins og slitti hér eftir hverja vakt og leið alltaf eins og ég væri með flensu. Þetta vatt að sjálfsögðu upp á sig, því sama sem engin líkamsrækt þýddi verkir í vöðvana sem þýddi minni orka....svo slæmi hringurinn var byrjaður á ný.

Svo fór ég að fá verki í hæ.fót, í ökklan. Taldi í fyrstu að þetta væri sinaskeiðabólga eins og hefði hrjáð mig í þeim vinstri fyrir sumarfríið. Fór til læknisins sem taldi þetta líka sinaskeiðabólgu og sprautaði mig með kortísóni. Ég kvartaði um orkuleysið og hann taldi mig nú bara geta lagt mig eftir vinnu í smástund og komið mér svo í ræktina, með öðrum orðum "hættu þessu væli kerling". Sagði mér nú samt að vera heima á meðan fóturinn jafnaði sig.

Taldi mig orðna góða í fætinum eftir viku, en eftir 2 vaktir var hann aftur orðinn slæmur og verkurinn eitthvað öðruvísi, virtist meira vera svona eins og bein í bein væri að nuddast saman í ökklanum og ákaflega vont og þreytandi að ganga þannig í 7 tíma í vinnunni. Það fóru líka að koma fram önnur einkenni sem ég hef smá áhyggjur af (stundum er ekki gott að vita lítið um mikið) en ætla ekki að ræða um núna . Ég fór að velta því fyrir mér vegna þessara nýju einkenna hvort það væri kannski bara eitthvað allt annað en vefjagigt að plaga mig eða annað ofan á það. Svo það var ekki bara verkurinn sem nagaði úr mér orku heldur pínu áhyggjur líka.

Ég átti góðar samræður við mína yfirmenn, sem hvetja mig áfram og láta mig alls ekki finna fyrir því að ég sé ómögulegur starfskraftur. Þvert á móti, segjast þær bara vilja að ég nái heilsu og fái úr því skorið hvað sé að angra mig, segjast umfram allt vilja mig í vinnu séu ánægðar með mig og jeremías hvað er gott að heyra það. Mér var boðið að ræða málin við svokallaða heilsuþjónustu sem kommúnan er með, fagaðilar sem aðstoða starfsfólk kommúnunnar með ýmislegt heilsutengt. Ég þáði það með þökkum og hitti yndislegan hjúkrunarfræðing (hjúkrunarfræðingar eru snillingar) sem hjálpaði mér að kortleggja einkennin mín og líðan mína, koma smá skipulagi á hugsanir mínar og sagði mér að ég væri nú ekki alveg að tapa mér ;)

Eftir fund með þessum ágæta hjúkrunarfræðingi hitti ég lækninn minn og hafði meðferðis blað þar sem ég var búin að skrifa niður öll einkenni sem ég hefði áhyggjur af og það sem mér þætti ekki eðlilegt. Mikið einfaldara að fara með þetta niðurskrifað og rétta honum, þá var ekkert sem gleymdist. Hann tók þetta allt alvarlega og ákvað að taka aftur slatta af blóðrannsóknum ásamt nokkrum fleiri rannsóknum og myndatökum svona í það minnsta til að útiloka eða staðfesta einhvern grun. Ég er sátt við þetta og finnst hann loksins hafa hlustað virkilega á mig. Hann komst líka að því að blóðþrýstingurinn var upp úr öllu valdi, held að það hafi nú að hluta til verið stress en ég að fara í sólarhringsblóðþrýstingsmælingu til að meta þetta sem er bara gott mál (maður getur orðið veikari af því að fara til læknis hehehe). Að lokum skoðaði hann fótinn sem enn var með leiðindi og þetta virðist vera eitthvað annað en sinaskeiðabólga, spurning hvort þetta sé kölkun (enda konan orðin háöldruð) á að fara í segulómun til að ath það. Verkur í úlnliðum og fingrum hefur líka verið að ágerast. Það er nú líka jákvætt að nú nálgast tíminn hjá gigtarlækninum óðfluga.......ekki svo langt þangað til í mars.

Svo núna er ég búin að vera heima í eina viku á vottorði í von um að skána í fætinum, svo er ég í viku haustfríi núna. Fóturinn er ágætur ef ég er ekki mikið að nota hann, en versnar um leið og ég geng eitthvað að ráði :( Svo til þess að toppa þetta allt þá byrjaði ég með svipaða verki núna í dag í vi.fætinum aftur...svo ég er HÖLT Á BÁÐUM spurning hvor það geri mig óhalta þá tveir mínusar gera plús er það ekki....

Svo ég veit ekki hvert framhaldið er, á að mæta í vinnu á mánudag en er ekki viss um að geta það.... Er orðin svo leið á þessu leiðinda ástandi. Mig langar bara að geta unnið vinnuna mína og bara verið ég aftur.   Finnst eins og einhver ókunnug hafi yfirtekið líkama minn og ég vil bara losna við þessa mannesku mér finnst hún bara ekki skemmtileg og eiginlega bara frekar pirrandi sko......Langar til þess að eiga verkjalausan dag og langar fyrst og fremst í orku. Ótrúlegt hvað það tekur af manni mikla orku að vera orkulaus, já og verkir þó þeir séu ekki miklir, en eru þarna alltaf, þeir éta upp orku.

Svo núna er staðan sú að ég bíð eftir að verða kölluð inn í frekari rannsóknir, sem verður vonandi fljótlega. Já og er alsæl með að tíminn hjá gigtarlækninum nálgast hratt.

Ég reyni eins og ég get að vera jákvæð og held að mér takist það oftast, og lukkist ágætlega að taka Pollýönnu á þetta. Það er heldur ekki langt í fíflaskapinn og að sjá skondnu hliðarnar á málunum. Það hjálpar ótrúlega mikið :)

Jæja þá hef ég komið þessu væli frá mér. Þetta er allt í belg og biðu held ég en það var hreinsandi að losna við þetta á "blað"

Annars óska ég ykkur alls hins besta og munið að njóta haustsins.

6 comments:

Heiða Björk said...

En ömurlega glatað ástand! Vona að það fari að lagast bráðum. Stuðkveðjur til þín og gleðilegan fíflagang og sprell :)

Anonymous said...

Get bara sent þér góða strauma kv. Guðný Sv

Anonymous said...

Æi ekki gott ástand en vonandi finna þessir læknar eitthvað sem hægt er að lækna. Bataknús Hildur móðursystir

Anonymous said...

Elsku vinkona, það er bara nauðsynlegt að losna við þetta með því að væla einhvers staðar og það er gott hjá þér að fá útrás fyrir þetta hér. Ég sendi þér allar mínar bestu batakveðjur og risaknús yfir hafið því ég veit að þetta er sko allt annað en auðvelt. En það er nú gott að það er stutt í fíflaganginn og jákvæðnina hjá þér því það þíðir að þú er ennþá sú Íris sem ég þekki.
knús til þín mín kæra
kv.Anna María

Anonymous said...

Elsku stelpan mín, þú ert ekki að væla. Það vildi ég óska að þeir finni út hvað að er. Það er nefnilega svo miklu betra að þekkja óvininn, þá er ýmislegt hægt að gera. Misstu ekki móðinn og passaðu að sálin fari ekki fram úr sér með kærri kveðju frá okkur Bróa. Lofaðu okkur að fylgjast með þér.

Frú Sigurbjörg said...

Vildi að ég gæti sagt eitthvað sniðugt og skemmtilegt en æ, þetta er bara ekkert sniðugt né skemmtilegt. Bloggaðu bara eins og vindurinn mín kæra, sér í lagi ef það hjálpar þér á einhvern hátt. Svo er gott að vita að það er stutt í húmorinn líka, hann hefur sinn lækningamátt. Knús og kveðjur.