Enn og aftur eru þau að koma blessuð jólin. Það er einhver ákveðin tilfinning sem fyllir hjartað á aðventu og jólum. Kærleikur held ég þessi tilfinning heiti. Maður sér gleðina í því smáa, sem betur fer segi ég nú bara, og einhvern veginn þykir bara svo vænt um allt og alla. Það er líka ákveðinn söknuður sem treður sér þarna inn, söknuður eftir fólkinu mínu, jólunum hjá mömmu og pabba og samvera með ættingjum og vinum. Sennilega koma bernskujólin alltaf til með að fylgja manni, og það segir líklega margt um það að barnæskan hafi verið góð. Ekki allir svo heppnir að eiga og hafa átt góða barnæsku.
En að öðru, ástin í lífi mínu eiginmaðurinn hefur verið að spurja hvað mig langi í í jólagjöf. Ég hef hugsað fram og tilbaka en ekki dottið niður á neinn hlut sem mig langar í, ég á sem sagt allt sem ég þarf og vantar ekki neitt, og rétt er að gleðjast yfir því. Svo fann ég út hvað mig langaði í, en því miður getur hann ekki gefið mér það því draumurinn er stór.
Alltaf hugsar maður um sjálfan sig og kannski er það eigingjarnt, en mig langar alveg óskaplega mikið í einn verkjalausan dag. Orðið svo langt síðan ég hef átt einn slíkan. Samt er ég ekki með neina svakalega verki og veit að margur finnur MIKIÐ og þá meina ég MIKIÐ meira til en ég. En vá hvað það er lýjandi að finna alltaf til, þó það sé bara smá.
Svo langar mig líka í annað og tengist það vinnu minni, tengist því sem ég hef verið að fást við síðastliðin 22 ár. Það tengist sem sagt umönnun og hjúkrun aldraðra. Ég vildi óska þess að þeir sem stýra fjármagni heimsins, gerðu sér loksins ljóst hve þörfin er mikil í umönnun og hjúkrun aldraðra. Þessi hluti heilbrigðiskerfisins eins og svo margir fleiri er fjársveltur, já líka í ríku landi eins og ég bý í. Það þarf ekki peninga fyrir tækjum og tólum, heldur fjármagni til starfsmannahalds. Við þurfum fleira fólk.
Af hverju þarf fleira fólk spurja líklega margir. Ég segi við þurfum fé til að geta breytt stöðlum um grunnmönnun inn á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Hvers vegna, jú til að geta veitt þessu yndislega gamla fólki, sem hefur unnið baki brotnu öll sín bestu ár til þess að komandi kynslóðir gætu haft það aðeins betra, betru umönnun. Þá er ég ekki að tala um umönnun sem byggist eingöngu hjálp við athafnir daglegs lífs eða líkamlegar þarfir eins og að borða, þrífa sig, ganga og þess háttar, heldur að veita betri og innihaldsríkan hverdag. Ég er að tala um nærveru, snertingu, samveru gera eitthvað annað en bara sitja og horfa út í loftið og bíða eftir næsta matartíma. Í gegnum vinnuna mína, sem og nám mitt hef ég lært að nákvæmlega þetta er svo mikill þáttur, ef ekki mikilvægasti þátturinn í umönnun aldraðra. En því miður er ekki gert ráð fyrir þessum þætti í grunnmönnun inn á stofnunum. Það er bara gert ráð fyrir að það sé nóg fólk á vakt til þess að sinna því allra nauðsynlegasta, koma fólki á fætur, þrífa það, að það nærist, komist á wc nokkuð reglulega og fái svefn. Hljómar ekki vel en þetta er blákaldur veruleiki. Og er líklega þannig á fleiri stöðum.
Auðvitað er það ekki alltaf þannig að við höfum ekki tíma til neins annars en þess allra nauðsynlegasta. Sem betur fer gefst stundum tími til að setjast niður og halda í hönd á einhverjum sem virkilega þarf þess, eða fara í gönguferð með einhverjum í góðu veðri. En það gerist bara allt of sjaldan.
Stundum finnst mér ég alltaf vera að vinna öfugt við það sem ég hef lært, og ég þurfi að stinga þeirri vitneskju, að það sem alzheimer sjúklingur þarf frá mér er góður tími og nærvera, undir stól og reyna að hugsa ekki um hana.
Þegar Gunna á erfiðan dag, og hefur stórar áhyggjur af börnunum sínum (sem í hennar huga eru lítil) sem hún kemst bara engan vegin til og Jón sem telur sig hafa fengið það hlutverk hjá föður sínum að passa húsið, er ekki ánægður með að Stína gengur í hringi í stofunni og færir til hluti og bankar í borðið. Sigga er óskaplega leið og ráfar fram og tilbaka til að reyna að komast út, vegna þess að hún óskar þess eins að komast heim til foreldra sinna, því hún þekkir engan hér og er óörugg. Það er nefnilega þannig að þegar einn íbúinn verður órólegur þá smitar það oftast út frá sér. Þú hefur hreint og beint ekki tíma til að reyna að róa þau, setjast með þeim og halda í hönd, eða fara í gönguferð til að reyna að beina huganum annað. Þú hefur ekki tíma því að Pétur er svo veikur í dag og þarf að hafa stöðugt eftirlit, Guðrún þarf aðstoð á klósettið og lyfin þurfa að gefast á réttum tíma og Rúna og Siggi eiga eftir að fá hádegismatinn sinn og þau geta ekki borðað sjálf. Svo tókstu þér líka tíma til að sinna barnabarni Stínu sem hafði ekki séð ömmu sína í nokkra mánuði og varð fyrir verulegu sjokki þegar hann sá hvað Stínu hafði farið mikið aftur, hún gat ekki lengur tjáð sig með orðum eða skilið það sem sagt var við hana. Svo barnabarninu féllust hendur og bara grét, og þurfti smá hughreystingu. Svo fór líka svo langur tími í að koma Gunnu á fætur og í sturtuna því í dag skildi hún hreinlega ekki hvað við ætluðum að gera, meðtók ekki hvað við sögðum og varð hrædd.
Á svona dögum þá fer maður heim úr vinnunni og finnst maður ekki hafa gert starfi sínu nógu góð skil. Maður veit að maður hefði getað gert svo mikið, mikið betur ef maður bara hefði haft tíma, tíma sem hefði verið hægt að hafa ef það væri bara ein manneskja í viðbót á vaktinni. Þú ferð heim og veist upp á hár að allt sem þú hefur lært að sé gott að nota við svona aðstæður hefði virkað, en þú bara hefur ekki möguleika á að nota nema brotabrot af því vegna tímaskorts og vegna þess að grunnmönnunin er ekki nógu há. Þú veist að Stínu er að fara aftur við ýmsar athafnir daglegs lífs, eins og t.d að klæða sig sjálf eða greiða sér, af því þú hefur ekki tíma til að gefa þér góðan tíma með henni og leiðbeina þannig að þú gerir þetta allt fyrir hana því það er fljótlegra. Það bíða jú nokkrir í viðbót eftir því að komast á fætur og fá morgunmat. Það er ekki góð tilfinning að fara heim úr vinnunni vitandi að það hefði verið svo einfalt að hafa daginn öðruvísi og að gera daginn betri fyrir viðkomandi íbúa.
En ég elska vinnuna mína og þegar manni finnst vel hafa tekist til, íbúarnir hafa flestir átt góðan dag, þér tókst að draga úr vanlíðan konunnar sem var hrædd um börnin sín, þú hafðir tíma til að fara í gönguferð með Stínu sem ráfaði um í stofunni og færði alla hluti úr stað, og gast hjálpað henni að finna rónna og ég gat veitt sorgmæddum aðstandenda huggun og hughreystingu, þá er svo gott að vera til. Sem betur fer upplifi ég marga svona daga, en þeir mættu bara vera svo miklu, miklu fleiri, og það er sárt að vita að það er svo einfalt að fá það til.....en það þarf fjármagn til þess.
Svo ég óska mér betri grunnmönnunar á öll hjúkrunar- og dvalarheimili í heiminum :-) Gamla fólkið okkar á það nefnilega skilið!!!
Þetta var mín hugleiðing á aðventu. Legg ekki meira á ykkur bili ;)
Góðar stundir.
5 comments:
Góður pistill frænka kær. Já það má sko alveg hugsa miklu betur um gamla fólkið sem hefur þrælað og púlað allt sitt líf og lagt sitt af mörkum í þessu þjóðfélagi. Kær kveðja frá Hildi móðursystur
Eins og talað út úr mínu hjarta. Guja
Er þetta ekki blákaldur veruleikinn, Það er stórfurðulegt, að stjórnvöld hafi ekki áttað sig á þessu. Það þarf að hækka launin við fólk sem sinnir þessum mikilvægu störfum. Ekki endalaust að hygla þeim sem eiga nógan pening, þó þeir þykast bera svo mikla ábyrgð, sbr. bankastj. og þannig lið. Gamla fólkið, á betra skilið en þetta! Þarna liggur hin eina, sanna ábyrgð að hlúa að því! Guð gefi að svo verði!
Góð og réttmæt lesning. Gleðileg jól Íris mín til þín og þinna frá okkur Bróa
Sko Íris, jólin eru löngu liðin! kær í kotið frá okkur Bróa
Post a Comment