Hæ!
Fimm ár síðan síðast..... Hvers vegna er ég mætt aftur? Eða sko, hvers vegna er ég að velta fyrir mér að mæta aftur? Því ég er ekki viss um að ég geri það. Er ennþá að hugsa, og þeir sem að þekkja mig vita að ég á það til að hugsa leeeeeeeeeeeengi og miiiiiiiikið.
Ástæðurnar fyrir því að ég er hér eru aðalega tvær:
1)
"Gömul" bloggvinkona hafði samband við mig og spurði hvort ég væri alveg hætt að blogga. Henni hefði fundist gaman að blogginu mínu. Svo þá fór ég að velta fyrir mér hvort ég ætti kannski að byrja aftur. En ég vissi svo sem ekki hvort ég hefði nokkuð áhugavert að segja...
2)
Hugsunin um blogg lá þarna í höfðinu á mér og meyrnaði. Ég og Tumi (ferfætlingurinn á heimilinu) vorum í gönguferð alein með sjálfum okkur (úti í marka... hvað í andsk.... er íslenska orðið yfir marka? Ég finn ekkert sem mér finnst passa, kannski út í móa? Finnst það samt ekki nógu gott), þegar ég stóð mig að því að tala við sjálfa mig á NORSKU. Já ég tala við sjálfa mig og það nokkuð oft. Mér brá, því ég á að tala við sjálfa mig á ÍSLENSKU! Ég meina íslendingur að tala við íslending tjáir sig á móðurmálinu!!!!
Eftir þessa upplifun hefur hugsunin um bloggið orðið áleitnari. Kannski bloggið gæti verið vettvangur til að viðhalda móðurmálinu. Ekki misskilja mig, ég tala íslensku á hverjum degi og ætla mér ekki að hætta því. En samræðurnar á ylhýra móðurmálinu eru oft frekar einhæfar. Við erum eiginlega bara orðin þrjú í heimili og íslenska vini okkar hittum við sjaldan. Samræðurnar snúast að mestu um hversdagslega hluti eins og hvað á að vera í matinn, heimilisstörf, skóla og vinnu. Við hjónin eigum alveg í djúpum samræðum svona öðru hvoru ;) , en hann ferðast mikið vegna vinnu og þá eru það bara ég og unglingurinn. Samræður okkar unglingsins minna meira á spurningakeppni þar sem ég er spyrillinn og hann svarar mæðulega með já og nei. Hann gefur eiginlega skýrt til kynna með líkamstjáningu að hann bara nenni alls ekki þessu blaðri, svo ég gefst fljótlega upp.
Undanfarið hef ég orðið vör við að ég þarf oft að hugsa mig um og leita að orðum þegar umræðurnar fara að snúast um eitthvað annað en þetta allra hverslagslegasta. Ég er ekki farin að gleyma íslenskunni alls ekki, en ég þarf bara stundum að leita að orðum sem ég nota sjaldan. Sennilega hugsa ég orðið meira á norsku enn ég geri mér grein fyrir.
Þá er ég allavega búin að blogga mitt fyrsta blogg eftir fimm ára hlé. Nú get ég velt þessu fyrir mér fram og tilbaka eins og mér einni er lagið. Á ég? Eða á ég ekki?
Njótið dagsins! Yfir og út :)
1 comment:
JáJáJá, þú hefur alltaf eitthvað markvert að segja! Engin spurning, því það sem þú hefur að segja er allt sem þitt líf er og það ER MARKVERT! Í alvöru :)
Post a Comment