Svei mér þá að ég var búin að gleyma því að það er fullt starf að vera "bara" húsmóðir. Það er alveg nóg að gera hjá mér þó svo að ég sé ekkert að missa mig í því að rífa upp úr kössum og einn unga vanti í hreiðrið. Mér finnst líka heimilisstörfin mun skemmtilegri þegar ég þarf ekki að vera í kapphlaupi við tíma sem ég á ekki til og kannski eru þau líka skemmtileg af því ég hef sinnt þeim frekar illa í langan tíma. Mamma ég bý meira að segja um rúmið mitt á hverjum degi ;) og bútasaumsteppið sem ég saumaði tekur sig mun betur út á rúminu en á stól (samt var það mjög fallegt á stól).
Þó ég njóti þess að dúlla mér hér heima við "bara" heimilisstörf þá veit ég vel að það líður að því að mig fari að klæja í puttana og langi að komast í vinnu. Svo sennilega fer ég að horfa í kringum mig fljótlega. Hjúkrunarleyfið mitt er á leiðinni frá Íslandi og þegar það kemur í hús get ég farið að sækja um leyfi hér. Við erum búin að fara og skrá mig og strákana inn í landið en vegna sumarlokana og sumarleyfa mun taka 5 vikur að fá kennitölur. Held samt að ég geti alveg farið að sækja um vinnu þó hana vanti. Svo er það stóra spurningin hvort það eigi að fara í gegnum ráðningarskrifstofu eða hafa bara samband beint við viðkomandi stofnun, er heldur ekki alveg viss hvort mig langar að starfa á hjúkrunarheimili eða sjúkrahúsi, er ennþá að melta það.
Kössunum fækkar hér óðum og það er að verða komin heimilisbragur á þetta hjá okkur, ég er samt ennþá að upplifa mig bara í sumarfríi þó svo að dótið okkar sé hér. Mér líður samt mjög vel hérna og þetta hverfi er virkilega notalegt. Strákarnir plumma sig ágætlega og ekkert að kvarta eða að tala um heimþrá (ennþá), við njótum þess bara að vera saman en við söknum óneitanlega heimasætunnar.
Fórum öll saman á æfingasvæði golfvallarins í dag og æfðum sveifluna og púttin. Mig hefur lengi langað að prófa golfið en aldrei gefið mér tíma, hef fengið smá tilsögn og fundist þetta spennandi. Mamma var svo elskuleg að lána mér gamla settið sitt til að hafa með hér út til að prófa. Nökkvi er búinn að vera að spila golf hér, skellti sér á námskeið. Darri er áhugasamur og Fáfni finnst gaman að fá að koma með svo þetta gæti bara orðið fínt fjölskyldusporti.
Kveð að sinni, heyrumst síðar.
4 comments:
Gott að heyra að allt gengur vel :)
Knúsaðu strákana þína krúttið mitt.
Gott að heyra að allt gengur vel. Góður þessi um rúmið og rúmteppið ;)) Kveðja Hildur
Gott að heyra frá þér Íris mín og að sjá að allt gangi þetta nú vel. Hafið það gott:)
Eins og vant er gaman að lesa "og gott að heyra" að allt er í orden og góðum gír. Verð samt að segja þér að mér finnst rúmteppi koma voða vel út a stól hehe. Knús og kveðjur á ykkur öll. Sæa.
Post a Comment