Maður er eiginlega orðlaus yfir þessum hörmungaratburðum í Osló og Utøya. Ríkissjónvarpið hefur nánast eingöngu verið með fréttatengdar útsendingar á sínum stöðvum frá því að þetta gerðist. Mér finnst þetta hálfóraunverulegt og upplifunin er eins og þetta hafi gerst í allt öðru landi en ég er stödd í. Það er óskiljanlegt að nokkur maður skuli geta framið svona voðaverk. Maður finnur óneitanlega fyrir því að fólk hér er slegið og það létust ungmenni héðan úr fylkinu (Hordaland) í skotárásinni.
Annars höfum við það fínt hér í sveitinni. Í lok síðustu viku var ég samt farin að finna að ég er upp í "sveit". Strætósamgöngur hingað til okkar eru frekar stopular og mér fannst ég svoldið innilokuð. Kannski af því að það tekur á að vera nánast eingöngu í samskiptum við 8 ára gamlan dreng sem er með ADHD og mótþróaröskun. Þið megið ekki misskilja mig, ég elska að vera svona mikið með honum en það getur líka verið ótrúlega lýjandi að vera með honum allan daginn, það er mjög krefjandi. Þá hefur stundum vantað að geta komist í annað umhverfi (með honum að sjálfsögðu) og fundið eitthvað nýtt að gera. Ég hef ekki alveg verið í stuði til að vakna rúmlega 6 á morgnana til að keyra Nökkva í vinnuna svo ég hafi "drossíuna". Mér er þess vegna engin vorkunn. Þetta stendur hins vegar allt til bóta, erum búin að sjá það að við verðum að vera með tvo bíla, allavega á meðan við búum í þessu hverfi þar sem samgöngur eru okkur ekki hliðhollar, svo við erum aðeins farin að skoða bílamál.
Annars líður mér vel hérna í hverfinu þó það sé aðeins úttúr. Þetta er ósköp rólegt og notalegt, það eina sem truflar kyrrðina eru þyrlurnar sem þjónusta olíuborpallana (held ég). En það fljúga ansi margar hér yfir á hverjum degi og byrja snemma á morgnana, þetta venst samt ótrúlega fljótt og ég er nánast hætt að taka eftir þeim.
Kennitölur eru komnar í hús. Nú bíð ég eftir að fá vottorð um starfsleyfi frá Landlækni (ótrúlegt að nýútgefið starfsleyfi dugi ekki) svo ég geti farið að sækja um norskt hjúkrunarleyfi. Ég bíð líka eftir að konan sem bauð mér að koma í atvinnuviðtal hafi samband aftur. Hún hafði samband í gegnum tölvupóst, ég sendi á hana til baka og bað hana um að ákveða fundartíma en ég bíð enn eftir svari. Mér skilst að ég geti alveg verið róleg það sé ekkert óeðlilegt við að það taki nokkrar vikur. Ef mér fer að leiðast biðin þá manna ég mig kannski upp í að hringja. Ég hlakka til að sjá hvernig heimili þetta er. Átta mig ekki alveg á hvort þetta sé dvalar- eða hjúkrunarheimili eða sambland af þessu tvennu. Mér skilst að það séu íbúðir þarna fyrir aldraða og svo eru deildir líka bæði heilabilunardeild og fyrir þá sem þjást af líkamlegum vandamálum (somatisk avdeling). Ég hélt fyrst að þetta væri hér rétt hjá en við nánari eftirgrennslan þá er þetta svona u.þ.b. 15-25 mín keyrsla. Á sama stað og Darri Snær þarf að sækja skóla. Svo er að gerjast í mér hvort að ég eigi að sækja um á sjúkrahúsi inn í Bergen, er ekki alveg viss. Mér líður alltaf vel með gamla fólkinu svo það er spurning.
Skelltum okkur með vinahjónum inn í Bergen í gær í túristaleik. Fórum í siglingu um hafnarsvæðið og það var mjög gaman. Eftir siglinguna fórum við á kaffihús og fylgdumst með mannlífinu. Fáfnir Freyr dundaði sér við að gefa smáfuglunum gulrótarköku á meðan við spjölluðum yfir kaffibolla. Honum fannst reyndar dúfurnar frekar ágengar og reyndi að reka þær í burtu :) ég var farin að hafa áhyggjur af því að mávarnir færu að reyna við fenginn líka. En þeir héldu sig sem betur í hæfilegri fjarlægð. Veðrið í Bergen í gær var fjölbreytt. Það var mjög hlýtt og sól, en við fengum líka svakalegan hitaskúr náðum að hlaupa í skjól. Svo rigndi af og til en það var svo hlýtt og blankalogn að maður blotnaði varla, má eiginlega segja að rigningin hafi verið "þurr". Fáfni Frey fannst mjög merkilegt að hann væri á stuttbuxum og stuttermabol úti í rigningu og nefndi það reglulega.
Á laugardaginn skelltum við okkur í keilu á Vestkanten. Þar er líka sundlaug (badeland) með rennibrautum og einhverju fleira skemmtilegu sem við þurfum að prófa við tækifæri.
Kærar kveðjur til ykkar allra þarna úti þar til næst.
p.s
Langar að þakka þeim sem kommentuðu við síðustu færslu. Það var sérstaklega gaman að lesa kveðjurnar frá ykkur.
7 comments:
Hæ hæ!
Það er mjög gaman að lesa það sem þú skrifar hérna Íris og þegar ég sé að það kemur ný færsla inn má ég ekki missa af. Gangi ykkur vel í öll því sem þið takið ykkur fyrir hendur, kveðja úr firðinum fagra - Alla Fanney.
Íris mín, þetta kemur allt með kalda vatninu. Ég var líka hissa á því að nú þar sem ég er að fara til Íslands þá þarf ég líka að sækja um starfsleyfi hjá Landlækni á Íslandi. En svona er þetta bara. Vona bara að þú finnir eitthvað fljótt svo þú getir farið að æfa þig í norskunni. Gangi ykkur allt í haginn. Bestu kveðjur frá Danaveldi.
Gaman að lesa færslurnar þínar :) Gangi ykkur sem allra best!
Hæ ;) Alltaf gaman að lesa hjá þér. Vona að þú farir að fá vottorðið svo þú getir sótt um vinnu ;) Kveðja Hildur
Alltaf jafn gaman að fylgjast með, kveðja og knús á ykkur. Sæa.
Gaman að fylgjast með ykkur í nýja landinu. Gangi ykkur allt í haginn :) Kv Tobba
Það eru svo hlý skrifin þín að ég róast niður við að lesa þau:) Það er gaman að fylgjast með ykkur og sjá hvernig fyrstu skrefin takast hjá ykkur og mér sýnist þau takast nokkuð vel:) Það verður gaman að sjá hvað þú munt taka þér fyrir hendur. Gangi ykkur áfram vel,Svanfríður.
Post a Comment