Hefst formlega nýr kafli í lífi fjölskyldunnar, þegar ég og drengirnir fljúgum til Bergen til heimilisföðursins. Þó það megi segi að aðdragandinn sé búinn að vera 10 mánuðir. Fjölskyldan mun hins vegar ekki sameinast alveg fyrr en í haust þegar heimasætan hefur lokið sumarvinnunni í Nettó.
Júní hefur liðið hratt og verið nokkuð viðburðarríkur. Sumt sem hefur drifið á daga okkar hefur verið erfitt en annað skemmtilegt. En þannig er jú bara lífið.
Nökkvi kom til landsins þann 15.júní við tókum á móti honum hér í borginni og héldum með honum norður í land til að eyða nokkrum dögum með tengdaforeldrum mínum. Dagarnir á norðurlandi voru frekar kaldir vægast sagt. Við brunuðum svo heim á Höfn þann 18.júní til að hefja niðurpökkun og flokkun á okkar dóti. Þvílík og önnur eins vinna ja, hérna hér. Magnið af óþörfu dóti sem hefur sankast að okkur síðast liðin 16 ár er hreint ótrúlegt. Miklu var hent, annað gefið, eitthvað var selt og rest fór í flutningabíl, með aðstoð góðra vina, sem mætti seint að kvöldi þess 28.júní. Siðan var hafist handa við að þrífa slotið sem hefur eiginlega verið án stórþrifa síðustu fjögur árin vegna anna húsmóðurinnar. Við skulum segja að ég mæli sérstaklega með þvi að húsnæði sé þrifið oftar en á fjögurra ára fresti.
Nökkvi fór suður eldsnemma að morgni 30.júní til þess að koma bílnum á bílasölu og sama dag afhenti ég nýjum eigendum húsið sem við höfum búið í í 16 ár. Ég var alveg búin að búa mig undir að fara að gráta þegar ég rétti þeim lyklana en ég fann bara fyrir vissum létti enda fegin að törn síðustu daga væri búin. Nökkvi flaug svo út til Bergen 1.júlí með viðkomu í Kaupmannahöfn þar sem hann átti kaffiboð hjá vinkonu.
Humarhátíðarhelginni eyddi ég í faðmi foreldra minna og naut þess að eyða góðum tíma með þeim. Helgin var frekar blaut sökum rigningar og skemmtanir helgarinnar fóru að mestu framhjá mér, en eldri börnin nutu sín í gleðinni og sá yngsti í hoppuköstulum sem líktust meira sundlaugum.
Það kom mér á óvart að það reyndist mér ekki erfitt að kveðja vinina, hélt það yrði erfiðara. Tilfinningin var bara svona eins og ég væri að kveðja fyrir sumarfrí. Og mér líður svoldið þannig ennþá, finnst þetta allt frekar óraunverulegt eitthvað. Litlu systur og hennar dóttur var nú samt svoldið skrítið að kveðja þó við séum nokkuð vanar kveðjustundum.
Í morgun flugum við strákarnir hingað í borgina, fannst hálf skrítið að kveðja heimasætuna mína syfjuðu í morgun. Hún gaf sér nú varla tíma til að opna augun og sagði bara ég sé ykkur nú í haust ;) rétt opnaði annað augað á meðan við smelltum á hana kossi. Það var hinsvegar erfitt að kveðja foreldra mína á flugvellinum og nokkur tár laumuðust niður augnkrókana, ég viðurkenni það fúslega.
Eftir hádegið í dag hittum við hluta ættleggjar míns sem býr á Shetlandi, alltaf gaman að hitta þau og ekki verra að við fengum sjálfskipaðan einkabílstjóra á Leifsstöð í fyrramálið. Svo er okkur boðið í mat hjá
litla bróður Birninum og hans fjölskyldu í kvöld, það verður gott að sjá þau aðeins.
Á morgun hefst svo ævintýrið. Ég bæði hlakka til og kvíði fyrir. Ég á margs eftir að sakna, sérstaklega góðra vina og fjölskyldunnar. Ég er svo góðu vön að ég hef haft nánast ótakmarkaðan aðgang að foreldrum mínum hvenær sem mér hefur hentað og nánast kíkt í kaffi til þeirra daglega, það verður skrítið að vera svona langt frá þeim. En ég hef engar áhyggjur af því að vinskapur og tengsl muni rofna því við erum svo heppin að hafa tæknina með okkur í liði. Kaffisopi og spjall á skype hljómar ekkert illa :)
Ég hef hugsað mér að gera næsta kafla í lífssögu minni skemmtilegan, áhugaverðan og góðan.
Hafið það sem best og ég vona að þið fáið notið sumars, ég ætla að skella mér í sumarið ;)
5 comments:
Jæja dúlla þá er þessum kafla lokið og nýr og spennandi hefst. Vertu dugleg að skrifa hér og á feisinu svo ég geti fylgst með ykkur. Væri nú ekki vittlaust að senda á pabba linkinn svo hann geti líka lesið ;) Kveðja Hildur
Gott hjá þér eins og vant er frænka sæl,svei mér þá ég vatnaði músum.Ég óska ykkur góðrar ferðar og að ykkur gangi allt í haginn á nýjum slóðum. Hlakka til að fá að fylgjast með, Njótið lífsins. Bestu kveðjur Sæa.
Nýr kafli, ævintýri og reynsla. Gangi ykkur allt í haginn elskan mín...Ég hugsaði til ykkar þegar flugvélin flaug yfir hjúkrunarheimilinu í morgun en ég eins og þú held bara að þú sér að fara í smá frí...Ekki búin að átta mig á þessu ennþá...Hlakka til að heyra í ykkur frá Norge!!! Knús og kossar Ragga hj.systir...
æhj, ég vola nú bara, enda engin venjuleg grenjuskjóða eins og þú veist :)
Gangi þér vel elsku Íris, ég dáist að þér og ykkur, það eru ekki allir sem þora að rífa sig úr vananum og örygginu sem hann veitir. Ykkur á eftir að líða vel í Norge, þið verðið saman og saman eruði óstöðvandi :) Það er stutt heim og enn styttra á netið.
Hlakka til að heyra sögur af lífinu á nýjum stað.
Risaknús
Ég táraðist alveg við að lesa þetta!
Var svo óraunverulegt að kveðja ykkur þarna á Smárabrautinni..
Varð aðeins raunverulegra þegar ég keyrði framhjá húsinu ykkar og sá alla nýju bílana þar fyrir utan, maður fékk alveg kökk í hálsinn!
Maður reynir nú að koma og heimsækja ykkur!
Gangi ykkur rosalega vel með allt og hafið það gott!
Ykkar verður sárt saknað!
Love you!
Litla systir! :* :* :*
Post a Comment