Friday, July 8, 2011

Sól, ofnæmi og fleira.

Sælt veri fólkið. Fyrstu dagarnir hér hafa liðið við upp-pökkun og flokkun (það gengur hægt en örugglega) á meðan heimilisfaðirinn dvelur á sínum vinnustað. Það er skemmst frá því að segja að búslóðin komst óskemmd á leiðarenda nema stofuborðið mitt sem er frekar illa rispað (eitthvað datt flutningsaðilum í hug að endurraða í bílinn með þessum afleiðingum).

Nökkvi kemur heim úr vinnu milli klukkan þrjú og hálffjögur og þá höfum við fundið okkur eitthvað skemmtilegt til dundurs. Hér er búið að vera dásamlegt veður síðan við komum, sól og hitastigið farið vel yfir 20 gráðurnar. Darra Snæ ofbauð þegar hann steig út í fyrradag og uppgötvaði að það var mikið heitara úti en inni :) honum fannst það eitthvað órökrétt.

Annan daginn hér (miðvikudag) var ákveðið að fara eitthvað til að leyfa yngri prinsinum að dýfa öngli í vatn eða sjó. Hann hafði ekki talað um annað síðan við lentum minnugur þess að foreldrarnir (hálf ofan í kassa við niðurpökkun og ákaflega uppteknin) höfðu lofað veiðiferð í Noregi því það hentaði betur þá en í miðri niðurpökkun. Sólarvörn var skellt á liðið og haldið af stað léttklædd og brosandi. Við fundum okkur fínan stað (á svona útivistar- og sullsvæði) og prinsinn æfði köstin og gekk vel þó engin fiskur biti á. Allt í einu komu þrumur (bölvaður hávaði í þeim) og svo kom skúr ég varð svoldið hrædd um að þetta endaði með blautbolakeppni húsmóðurinnar (við vorum jú léttklædd) en það slapp, stytti upp jafn hratt og það byrjaði. Þrumurnar héldu samt áfram og svartir skýjabakkar hrönnuðust upp svo við pökkuðum saman og rétt náðum inn í bíl áður en ósköpin dundu yfir. Það rigndi svo hressilega að það sást varla út úr augum (heima hefði maður sagt að það sæist ekki á milli stika) og rúðuþurrkurnar höfðu eiginlega ekki undan á mesta hraða.

Þennan sama dag ákvað frúin að prófa nýja hjólið sitt. Svo þegar kvölda tók og hitastigið lækkaði aðeins bauð ég þeim sem verða vildu í hjólatúr. Með í för voru yngri sonurinn og eiginmaðurinn. Það gekk fínt fyrri hluta leiðarinnar og fákurinn minn nýi rann ljúflega niður Ebbesviksfjellet (við búum þar) sem er nú ekkert mjög bratt þó að nafnið gefi það til kynna. Við hjóluðum  dágóðan spotta og kynntum drengnum reglurnar um hvar á veginum hann mætti hjóla því það er jú engin gangstétt og vegurinn í mjórra lagi. Heimleiðin gekk sæmilega framan af þó svo að frúnni væri farið að hitna svoldið því prinsinum finnst jú skemmtilegra að hjóla hratt (er ekki vön því að vera í hraðakeppnum í svona hita) en það er skemst frá því að segja að mér gekk ekki vel að hjóla upp Ebbesviksfjellet (þó það sé ekki mjög bratt) og fákurinn var teymdur upp erfiðustu brekkurnar. Þegar heim var komið var liðið sent í sturtu og húsmóðirin skipaði fyrir (eins og henni er einni lagið) og hleypti öðrum á undan sér í sturturnar (hér eru tvær sturtur svo það tók fljótt af). Svo þegar komið var að mér kófsveittri konunni (eftir hjólatúrinn) þá vildi nú ekki betur til en svo að það var farið að flæða upp úr niðurföllunum á neðri hæðinni (í þvottahúsi og baðherbergi). Það sama var að gerast í hinni íbúðinni svo það var líklega stífla í frárennslinu og frúin (þessi sveitta) gat gleymt því að fara í sturtu og mátti reyna að bleyta þvottapoka mjög hratt til að strúkja af sér mesta svitan, óskemmtilegur andskoti. Nágrannarnir (í næstu íbúð) tóku að sér að redda pípara og stíflulosun daginn eftir.

Morguninn (í gær) eftir hafði vatnið sem var ofan niðurfalls lekið niður svo ég stalst í sturtu enda frekar klístruð og ókræsileg, það varð til þess að það flæddi aftur upp úr niðurföllunum á baðherberginu og þvottahúsinu (ekki mikið samt bara smá), sturtan var samt ákaflega hressandi og ein af þeim bestu sem ég hef farið í. Hún var nógu hressandi til að ég gat haldið áfram við þá iðju að týna dót leigusalans úr eldhússkápunum og koma mínu fyrir og ganga frá dóti úr baðherbergiskassanum (þurfti bara að passa mig á pollinum). Þegar yngri sonurinn vaknaði þennan morgun var hann rauðflekkóttur á handleggjum, hálsi, bringu og eyrum, ásamt því að vera hálf óhuggulegur í framan rauður og þrútinn. Eftir að hjúkkumamman var búin að skoða hann hátt og lágt var niðurstaðan sú að hann væri með ofnæmi fyrir sólarvörninni sem hún nánast baðaði hann upp úr deginum áður. Eftir því sem líða tók á daginn fór útlitið skánandi svo nú hefst leitin mikla að sólarvörn sem barnið þolir.

Plan dagsins (eftir að vinnudegi bóndans lauk) var að fara á skattstofuna og skrá mig og strákana inn í landið og sækja um kennitölur, en þar sem hún lokaði snemma var því frestað um einn dag og ákveðið að sinna þörfum eldri drengsins í staðinn. Þær þarfir voru að fara í ákveðna golfbúð inni í Bergen til að ath með golfsett sem átti að vera afmælisgjöf frá okkur foreldrunum og ömmu og afa á Smárabrautinni. Við náðum í golfbúðina rétt fyrir lokun, fengum fína þjónustu og versluðum þetta fína sett á nokkrum mínútum (sem var Darra að skapi því hann þolir ekki búðir). Það gekk illa að koma golfsettinu í bílinn það komst hvergi fyrir fyrr en búið var að rífa það úr kassanum, svo afgreiðslumaðurinn fékk að eiga hann. Næst lá leiðin í Ikea þar sem verslaður skildi einn Jonas (skrifborð sem Darri hafði augastað á) við nánari skoðun á Jonasi komumst við á því að við kæmum honum ekki með nokkru móti í bílinn svo planið er að fara og sækja hann á pallbíl á morgun (laugardag), við gátum hinsvegar verslað ýmislegt smálegt sem okkur vanhagaði um og m.a. er komin upp þessi fína sorpflokkunarstöð í eldhúsinu.

Fáfnir Freyr sá ýmislegt spennandi í Ikea sem honum langaði í og dundaði sér við að skrifa niður hina ýmsu hluti á blað ásamt verði og voru teknar nokkrar rökræður um hvað hann þyrfti sérstaklega að eignast og hvað ekki. Hann hreifst af nokkrum skrifborðum og dýrindis skrifborðsstólum og ekki síst tölvunum sem voru staðsettar á þessum borðum. Rökræður um tölvueign voru nokkuð áberandi og nokkuð skrautlegar á köflum. Komst að því að ferð í Ikea með barn með ADHD og mótþróaröskun þarfnast líklega aðeins meiri andlegs undirbúnings sérstaklega fyrir barnið já og foreldranna líka, þetta var svoldið snúið á köflum en hafðist allt og prinsinn var nokkuð sáttur í lokin (sennilega ísinn sem hann fékk við útganginn). Ég krosslegg bara putta og vona að hann sé búinn að gleyma öllum hlutunum sem hann skrifaði niður á blaðið sem er reyndar ekki mjög líklegt við nánari umhugsun (krakkinn er minnugri en fíll).

Tankbíllinn mætti um það leiti sem við komum heim til að losa stífluna í lögninni svo nú get ég sturtað mig að vild. Ekki veitir af fyrir húsfrúnna á meðan hún aðlagast þessum hita ;)

Dagurinn í dag er helgaður skattstofunni hér á staðnum því hún er víst að fara í sumarfrí í þrjár vikur takk fyrir. Og svo erum við boðin í grillpartý í kvöld til einnar af þessum einhleypu sem eru með eiginmanninum í kór.

Það var rigning þegar ég vaknaði í morgun en nú er sólin farin að skína sem mér finnst ekkert slæmt, vona bara að yngri prinsinn brenni ekki. Gleymdi að setja nýju sólarvörnina á smáblett áður en hann fór að sofa svona til að finna út hvort hann þolir hana áður en ég baða hann upp úr henni.

Bestu kveðjur til ykkar allra, ég ætla á svalirnar með kaffibollan og kanna hitan á sólinni.

8 comments:

Amalía Ragna said...

Gaman að lesa þetta hjá þér,það eru greinilega fjölbreytt verkefni að kljást við á nýjum stað.Kær kveðja til ykkar úr sólarlausum nesjunum.

Ofurpési said...

Það er greinilega að ýmsu að huga :) Gangi ykkur allt í haginn!

Íris said...

Takk fyrir og kommentið sem oftast, það er sko uppáhalds hjá mér að lesa komment það yljar mér um hjartarætur ekki að það sé ekki nógur hiti hér :)

Anonymous said...

Skemmtilegt að vanda Íris mín, gott að heyra að þér líst vel á. Held svei mér þá að skollið sé á sumar hér líka frúin á bænum vel rauð eftir gærdaginn,veit svei mér ekki hvort ég á að voga mér út í hornið mitt í dag.Óska ykkur alls hins besta og þið hafið það sem best öllsömul.Knús og kveðja Sæa.

Mamma said...

Takk fyrir skemmtileg skrif,sé að þú ert farin að safna aftur,greinilega ekki fengið nóg af síðustu flutningum :-).Knús í þitt hús.

Hrafnhildur Halldórsdóttir said...

Gott að allt gengur vel hjá ykkur Íris mín, bið að heilsa strákunum þínum

Íris said...

Takk fyrir kveðjurnar og mamma ég keypti nú bara nauðsynjar ;)

Frú Sigurbjörg said...

Líst vel á sorpflokkun! Allt of langt síðan ég hef kíkt hingað til þín Íris mín, á greinilega marga skemmtilega lesninguna í vændum : )