Sunday, July 31, 2011

Undirbúningur hafinn


Fór á fætur kl 6:30 (sem er mjög ókristilegur tími) til þess að skutla bóndanum í vinnuna. Gerði þetta líka á föstudaginn (spurning hvort það eigi að hafa áhyggjur af frúnni). Svo á meðan drengirnir (aðalega sá yngri) sofa þá nýti ég tímann til að fá mér kaffibolla í þögninni og undirbúa mig fyrir starfsviðtalið sem verður núna á miðvikudaginn. Planið er að geta tjáð mig eins mikið og mögulegt er á norsku því ég ætla að reyna að heilla konuna upp úr skónum. Ekki geri ég það með því að framvísa norsku hjúkrunarleyfi því ég er að bíða eftir vottorði um starfsleyfi frá íslenska Landlæknisembættinu svo ég geti sent inn gögn hér og þá líða nokkrar vikur þar til ég fæ norska leyfið í hendurnar (tómt vesen), spurning hvort konan geti ráðið mig þar sem þetta er ekki komið í lag. Búin að blóta því að hafa ekki haft vaðið fyrir neðan mig og sótt um norskt sjúkraliðaleyfi fyrir löngu þá hefði ég getað byrjað þannig. Alltaf gott að vera vitur eftir á. Sjáum til hvernig þetta gengur og vonandi næ ég að heilla stýruna upp úr skónum ;)

Annars er allt fínt að frétta af okkur og við höfum það ljómandi gott. Fáfnir Freyr lék við nágrannadrenginn um daginn en þeir hafa ekki smollið saman aftur eru báðir eitthvað smá feimnir, en það kemur vonandi. Í þessum tveimur húsum sem standa hér hlið við hlið eru samtals 9 börn á aldrinum tveggja til tíu eða ellefu ára og svo eru það unglingarnir mínir tveir, sem sagt 11 börn svo það er mikið fjör hér og ætti að vera hægt að leika. Svo vonandi fer Fáfnir að hrista af sér feimnina og taka þátt í fjörinu.

Þegar ég skutlaði Nökkva í vinnuna í morgun sá ég að það er að færast líf í skólanna. Starfsfólkið er að týnast til vinnu eftir sumarfrí. Skólarnir byrja svo þann 18.ágúst svo alvaran fer að taka við af sluksinu. Erum búin að fara og kíkja á skóla strákanna svona að utan og skoða skólalóðina í skólanum hans Fáfnis, okkur fannst hún flott. Við förum svo í viðtöl og heimsóknir þangað einhverjum dögum áður en fyrsti skóladagur hefst.

Darri Snær er að spá í að skella sér á námskeið hjá golfklúbbnum til þess að fá græna kortið (leyfi til að spila á aðal vellinum), ég er enn að melta það hvort ég eigi að skella mér með honum. Ég hafði litla trú á því að ég ætti eitthvað erindi á aðal völlinn, þar sem ég hef ekkert spilað og er nýbyrjuð að æfa mig, en mér gekk svo fjári vel á æfingavellinum í gær (var bara tveimur höggum yfir Nökkva og fjórum yfir Darra) að ég held bara að ég spái alvarlega í að skella mér með drengnum. Við getum þá stutt hvort annað í að reyna að skilja innihald námskeiðsins.

Kveð í bili, hafið það sem allra best.

3 comments:

Anonymous said...

Alltaf gaman að lesa. Vonandi gengur viðtalið vel, held að þú spjarir þig alveg í norskunni ;) Um að gera að skella sér með Darra í gólfið. Kveðja Hildur

Ameríkufari segir fréttir said...

Tu tu í viðtalinu.Hlakka til að heyra hvernig fór.Þú ert frábær að ná viðtali rétt eftir að þú flytur í landið! Ég hef trú á þér:)

Anonymous said...

Mín kæra, Svanfríður mín setti linkinn á mína síðu, ekki kunni ég það. Gott að lesa frá þér og vonandi gengur allt eins vel og hægt er. Þið eruð jú aðlögun. Svo bara að taka eitt skref í einu! Kær kveðja frá steratrölli á næturbrölti, en Brói sendir draumakveðju.