Friday, August 5, 2011

Nýja vinnan

Er á hjúkrunarheimili sem er í sirka 15+ aksturfjarlægð frá heimilinu. Heimilið var opnað 2004 og er svona "modern" hjúkrunarheimili eins og stýran orðaði það. Kommúnan rekur þjónustuna en húsið er í eigu einhvers félags. Íbúarnir eru 40 talsins en þeir leigja sitt herbergi, sem er lítil studíóíbúð, af eigendunum hússins. En skilyrði fyrir því að að geta leigt svona íbúð er að einstaklingurinn þurfi umönnun/þjónustu allan sólarhringinn. Kommúnan rekur svo þjónustuna sem veitt er. Heimilið skiptist í 4 deildir. Tvær heilabilunardeildir og tvær almennar. Inn á hverri deild eru 10 svona litlar "íbúðir". Sameiginleg setustofa og borðstofa ásamt eldhúsi og nokkurs konar lyfjaherbergi eða vakt.

Hver "íbúð" er ekki stór en þar smá eldhússkot með skápum og hægt að hafa lítinn ísskáp og kaffikönnu t.d., svo er sæmilegt pláss fyrir rúm og sófasett eða borðstofuborð og stóla, eða hvað sem fólk vill. Svo er nokkuð stórt baðherbergi í hverri íbúð, með sturtu og plássi fyrir þvottavél og þurrkara og þurrkgrind. Svo er útgangur í hverri íbúð út á litla verönd.

Hver og einn leigir sína íbúð og er með sitt dót í henni, ásamt sængum, koddum, rúmfötum, handklæðum og slíku. Þvottavél og þurrkari er í eigu íbúans og er hans þvottur þveginn í hans þvottavél í hans eigin íbúð. Einnig sér hann sér sjálfur (eða ættingjar) um að þær hreinlætisvörur sem hann þarf séu til. Einnig sér hann eða ættingjar um að kaupa sín lyf (sem eru svo niðurgreidd eða eitthvað þess háttar af tryggingum) en starfsfólk sér um að skammta og gefa þau, nema íbúinn geti og vilji sjálfur sjá um það. Þegar viðkomandi getur ekki lengur verið í eigin rúmi þá fær hann sjúkrarúm hjá heimilinu en öll hjálpartæki eins og lyftarar, hjólastólar, göngugrindur, baðborð, loftdýnur og fleira er fengið að láni hjá hjálpartækjabanka. Mér skilst að tryggingakerfið borgi leiguna fyrir viðkomandi.

Viðkomandi er þjónustaður eins og hann sé heima hjá sér. Mat fær hann á heimilinu og borðar annað hvort í sameiginlegu rými eða inni hjá sér. Það er eldað í eldhúsinu á hverri deild  í hádeginu á laugardögum (minnir mig) aðra daga kemur hádegismaturinn frá öðru hjúkrunarheimili í kommúnunni (þar sem er mjög stórt eldhús). Morgunmatur, kvöldmatur og kaffi er tekið til í eldhúsi deildarinnar en það er í opnu rými ásamt borð- og setustofu.

Auðvitað eru matartímar á nokkuð ákveðnum tímum en tíminn er nokkuð rúmur, t.d er gert ráð fyrir að morgunmatur sé frá sirka átta, hálfníu til kl 10:15. Það er ekkert verið að eltast mikið við klukkuna þannig lagað og fólk er ekki vakið til þess að vera búið að borða á ákveðnum tímum eða miðað við að allir séu klæddir fyrir klukkan eitthvað ákveðið. Fólk er aðstoðað á fætur þegar það vaknar. Ég er búin að vera á annarri heilabilunardeildinni og þar er mikil áhersla lögð á rólegheit og að gera hlutina þegar fólkið er tilbúið til þess en ekki þegar starfsfólkinu hentar. Baðdagar eru nokkuð skipulagðir en samt eru þeir ekkert heilagir ef viðkomandi langar, þarf eða er tilbúin á öðrum degi þá er það bara þannig.

Á morgunvaktinni eru 3 og stundum 4 starfsmenn á hverri deild (á 10 einstaklinga) á kvöldin eru það tveir og hálfur starfsmaður á hverri deild, þ.e tveir fastir og einn sem skiptist á milli tveggja deilda. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn.

Í húsinu er líka dagdeild og ýmsar uppákomur reglulega í sameiginlegu rými fyrir allar deildir og það er farið í allskonar ferðir með þá sem það geta ásamt dagdeildinni. Einnig er í húsinu hárgreiðslukona, sjúkra- og iðjuþjálfi ásamt fótsnyrtikonu. Í kringum húsið er frábær garður þar sem er góð aðstaða fyrir gönguferðir og útiveru.

Mér líst mjög vel á þetta og andrúmsloftið er mjög jákvætt og gott, allavega á deildinni sem ég hef verið á núna í aðlögun. Hlakka bara til að takast á við þetta.

Kærar kveðjur og munið eftir kertaljósinu nú þegar farið er að dimma.

8 comments:

Anonymous said...

Hæ hæ, líst bara vel á þetta hjá þér,virðist vera með allra huggulegasta móti, annað en hér þar sem ókunnugt fólk kúldrast saman í herbergi og klósett í enda gangs.Vona að þú haldir áfram að fíla þetta.Bestu kveðjur Sæa.

mamma said...

Þetta hljómar allt saman voða spennandi.Vona að allt gangi vel.Knús á ykkur öll.

Ameríkufari segir fréttir said...

Þetta hljomar vel og vona ég að þér eigi eftir að líka starfið og við fólkið allt.Svo gaman að fylgjast með þér.Góðar kveðjur,Svanfríður.

Anonymous said...

Hæ ;) Þetta hljómar allt mjög spennandi. Vonandi áttu eftir að fíla þetta ;) Kveðja Hildur

Heiða Björk said...

þetta hljómar svo sannarlega móðins. Gangi þér vel í nýju vinnunni og vonandi verður hún bara æðisleg og algjörlega þér að skapi.
Svo gaman að fylgjast með þessu ævintýri ykkar. Stuðkveðjur :)

lulli said...

er ekki bara flott að læra norskuna hjá gamla folkinu.talar eflaust rolega og hefur nogan tima :) flott hjá þér.

Guðlaug said...

Gengur illa að kommenta, en gangi ykkur vel. Mér líst vel á þetta Íris mín með kærri kveðju frá Gullu Hestnes

Frú Sigurbjörg said...

Til hamingju með starfið!!! Þú hefur auðvitað rúllað atvinnuviðtalinu upp... á norsku? : )