Ég var búin að ákveða að þetta blogg yrði myndablogg. En ég hef ekki tekið neinar myndir svo kannski næsta blogg verði myndablogg.
Hér svífur andi jólanna yfir vötnum. Ég held að við hugsum öll heim til fjölskyldu og vina á einn eða annan máta núna á aðventunni. Yngri drengurinn uppgötvaði um daginn að norski jólasveinninn á ekki 12 bræður, og hann er ekkert fyrir það að veltast um byggðir landsins löngu fyrir jól til að setja smotterí í skó norskra barna. Honum var bent á að íslensku jólasveinarnir væru svo fjölhæfir og kraftmiklir að kannski leggðu þeir leið sína um allan heim og færðu íslenskum börnum eitthvað í skóinn, hann róaðist nú aðeins við það (held samt að hann sé næstum því hættur að trúa á þann skeggjaða).
Eldri börnin tala mest um að nú verði engin purusteik hjá ömmu og afa á jóladag, og þeirra helstu áhyggjur eru að móður þeirra takist ekki að láta puruna lukkast :) eru mikið búin að spurja hvort ég ætli ekki að æfa mig neitt í að elda purusteik. Ég hef ekki hugsað mér að taka neina æfingu í purugerð, læt bara á það reyna á jóladag hvort það tekst eða ekki.
Við hjónin vöknuðum upp við vondan draum þegar við áttuðum okkur á að nú yrði engin skata á þorlák, en við lifum það af. Kannski við prófum bara Lutefisk sem tengist jólahefðinni hér, spurning hvort hann sé nógu úldinn fyrir okkar smekk, mér skilst að hann lykti allavega illa.
Það er svo margt sem tengist jólunum í hugum okkar, að það verður skrítið að gera þetta allt öðru vísi þetta árið. Kaffi hjá mömmu og pabba seint á aðfangadagskvöld hefur verið hluti af okkar jólahefð, Purusteikin á jóladag ásamt stórfjölskyldunni á Hornafirði, áramótin hjá mömmu og pabba og að horfa á brennuna frá gömlu mjólkurstöðinni og nú síðustu árin höfum við alltaf hitt sama fólkið þar og sumir hafa skálað í koníaki (ég áttaði mig bara á því nú um daginn að það var orðið partur af áramótunum að hitta Bessý, Magga og börn þar).
Jólin í ár verða öðruvísi, en við ætlum að njóta þeirra saman þó söknuður eigi eflaust eftir að lita þennan tíma eitthvað aðeins. Er að spá í að kaupa stórt púsluspil, og svo getum við púslað og spilað til skiptis. Það er líka planið að hitta kunningja (íslendinga sem verða líka hér um jólin).
Norðmenn eru ekki eins ákafir í jólaskreytingum utandyra og við íslendingar, en það er nú einn og einn Öddi hér líka ;) Það er að verða jólalegt hér þó snjórinn sé ekki farinn að láta sjá sig en mér skilst að það gæti breyst í dag.
Ég er búin að vera á aðventukvöldi í vinnunni (með íbúunum) þar sem borðaður var jólamatur og jólasöngvar sungnir. Við vorum í íslenskri jólamessu í gær, hún var hátíðleg og að heyra ó, helga nótt fyllir alltaf hjartað af jólum (samt öðruvísi en þegar sterkar hornfirskar karlmannsraddir syngja það) svo var jólaball á eftir. Í vikunni verður samvera hjá innflutningsbekknum hans Fáfnis Freys og er foreldrum, ömmum, öfum og systkinum boðið, allir eiga að koma með eitthvað matarkyns frá sínu heimalandi og krakkarnir munu verða með skemmtiatriði, við erum mjög spennt fyrir þessu. Svo skilst mér að við hjónin eigum eftir að fara á jólahlaðborð með vinnunni hans Nökkva.
Annars er aðalmálið á dagskrá núna að heimasætan læri norsku. Hún er að fara í viðtal í skólan hans Fáfnis í dag og mun að öllum líkindum verða aðstoðarmanneskja þar í desember. Við ákváðum að ath hvort þeim litist ekki vel á að fá sjálfboðaliða til að hjálpa til í skólastarfinu fram til jóla og það var svona vel tekið í það. Það er byrjunin og svo er hún aðeins að melta það hvort hún haldi áfram í atvinnuleit eða fari í skóla eftir áramótin.
Vona að þið séuð að njóta aðventunnar í stresslausum huggulegheitum ásamt vinum og ættingjum.
Bestu kveðjur til allra þarna úti.
6 comments:
Alltaf gaman að lesa pislana þína Íris mín. Knús á ykkur öll. Kveðja frá guðlaugu móðursystur
Gaman að lesa og fá að fylgjast með ykkur. Bestu kveðjur úr kuldabolanum sem blæs ísköldu á okkur núna. Sæa.
Hafið það gott á aðventunni.. Það eru alltaf skrítnu jólin sem festast best í minningunni. Það verður gaman fyrir ykkur að rifja upp norsku jólin í framtíðinni :)
Elsku Íris mín, þið skapið ykkur jól hvort sem puran heppnast eður ei. Allir sakna sinna á þessum tíma þannig að enginn á neitt auðveldara en hinir. OH, alltaf svoo djúp. Ég sendi þér svo mikla hjartahlýju að þú hlýtur að finna það. Gulla og Brói
Kommentið sem ég skrifaði hjá mömmu datt út og sama er hér..ég var búin að skrifa athugasemd en nú sé ég hana ekki:( Þessi jól eru upphaf að einhverju nýju og verða áreiðanlega erfið að vissu leyti en svo pottþétt góð og falleg líka:)
Nú er nýr tími í ykkar lífi og þið munuð skapa ykkar jólahefðir. Það góða við að sakna er að finna hverja maður elskar og hvað skiptir okkur máli. Þið eigið eftir að njóta ykkar svo vel, fjölskyldan, um hátíðarnar. Ég bara veit það : )
Post a Comment