Thursday, January 26, 2012

Allt og ekkert :)

Gærdagurinn að vakna (25.01.12)

Undirrituð hefur ekki lent í neinum hremmingum frá síðasta bloggi. Bíllinn er ennþá beyglaður og speglalaus með svartan ruslapoka í stað rúðu. Ég hætti mér nú ekkert mikið út af eyjunni þ.e. inn í Bergen á drossíunni í þessu ásigkomulagi (er það í einu orði eða hvað?) enda frekar óþægilegt að skipta á milli akreina þegar útsýnið er sama og ekkert.

Annars gengur lífið hjá okkur sinn vanagang og öllum gengur vel. Ég er svo stolt af rollingunum mínum að ég er alveg við það að kafna úr monti. Þau eru öll að standa sig svo frábærlega vel.

Hávaðinn í áramótasprengingunum
 er ekki vinnsæll, jafnvel þó þær
væru aumingjalegar :)
Yngri drengurinn stendur sig vel í skólanum og er farinn að tala norsku þar svona af og til. Mér skilst að það komi dagar þar sem hann talar nánast bara norsku og gleymi enskunni þó hún sé ríkjandi, hann reynir að tala ensku við þá fullorðnu samt svona í byrjun. Hann er farinn að vera meira með 3.bekk og það gengur fínt, leikur mikið við þau úti í frímínútum. Í gær fór hann með þeim í smá ævintýraferð út í skóg, þar sem var leikið í feluleik, kveikt bál til að ylja sér við, pylsur þræddar upp á grein og grillaðar yfir bálinu. Hann kom heim í skýjunum eftir ferðina, fannst þetta æðislegt. Það er ekki laust við að mér finnist tilhugsunin um að hann þurfi jafnvel að skipta um skóla ekki spennandi.

Spaugarinn minn á erfitt með að
sleppa grettunum við myndatöku
Eldri drengurinn (spaugarinn mikli) er að standa sig glimrandi vel í skólanum. Hann er nánast eingöngu orðið inn í 10.bekknum og líkar það mun betur en að vera í innflutningsbekknum. Hann tók jólaprófin (svipuð og samræmduprófin) með stæl og fékk mjög góðar einkunnir. Svo tók hann norskt mállýskupróf (dialektu) nú á dögunum. Já, í norsku þá eru þau prófuð í mállýskunum, þurfa að geta útskýrt framburðarmuninn á milli mállýska og vita hvar hvaða mállýska er töluð, bæði bóklegt og hlustun. Það er skemmst frá því að segja að pilturinn fékk 3 á prófinu (einkunnir hér eru frá 0 eða 1 til 6) og mér finnst það fjandi gott hjá honum, honum gekk ekkert sérstaklega vel í hlustunarþættinum en hitt gekk vel. Núna erum við farin að spá í framhaldsskóla, hér þarf að sækja um fyrir 1.mars. Hann veit hvað hann vill læra en ekki alveg komið á hreint hvaða skóla hann vill sækja um. Fyrir áramót var hann staðráðinn í að sækja um í FAS og fara til Íslands, en núna langar hann bæði í skóla hér og í FAS. Spurning hvað verður ofan á, vona að hann sættist á að prófa eitt ár hér. Það er verið á fullu að skipuleggja bekkjarferðalag og safna fyrir því. Í fyrstu var ætlunin að fara til Íslands og var drengurinn staðráðinn í að fara með, svo var farið að pæla í öðrum möguleikum og þá var hann ákveðinn í að fara ekki í ferðina ef Ísland yrði ekki fyrir valinu. Nú er búið að ákveða einhverja ævintýra-hyttuferð innanlands, og gaurinn ætlar að skella sér með og móðirin er alsæl með það. Körfuboltaæfingar stundar hann af kappi og hefur gaman af þó að liðinu hafi ekki gengið mjög vel í keppnum.

Falleg er hún heimasætan
Af heimasætunni er það að frétta að hún er á leiðinni á norskunámskeið og er bara nokkuð spennt fyrir því. Hún fékk tækifæri til að vinna á netaverkstæðinu hjá pabba sínum fyrir jólin og á milli jóla og nýárs. Sjálfboðaliðastarfið í skólanum hans Fáfnis er enn til staðar. Hún má mæta þegar hún vil en hún mætir þar nánast á hverjum degi. Henni finnst þetta rosalega gaman og fær að hjálpa mikið til. Hún hefur aðalega verið að aðstoða inn í innflutningsbekknum og þau eru ánægð með hjálpina sem þau fá þar, enda hefur fjölgað í bekknum og þau segja að það muni mikið um aðstoðina, ekki verra að fá líka að læra smá norsku í leiðinni. Hefur verið mikið að aðstoða einn nemandann sem hefur átt aðeins erfitt og hún er sú eina sem hann hlustar á, svo það er áskorun en ánægjulegt í leiðinni því þeim gengur vel saman. Daman er líka á fullu í Þorrablótsnefnd Íslendingafélagsins ásamt pabba sínum og finnst það bara gaman. Hún er harðákveðinn í að sækja um framhaldsskóla hér og stendur valið á milli tveggja skóla, er að vega og meta hvorn hún á að velja. Ætlar á braut sem heitir Design og handverk, hugurinn stefnir svo í framhaldinu (eins og er) í gullsmíði eða blómaskreytingar en hún þarf að byrja á að taka eitt ár á þessari braut, hvort sem hún velur. Annars var hún að tala um það líka að henni finndist svo gaman að vinna með börnunum að hún týmdi varla að hætta þar, svo eitthvað nám tengt því gæti líka komið til greina.



Af okkur hjónum er það að frétta að við erum sátt við lífið og tilveruna, afskaplega ánægð með hvort annað og börnin okkar. Gengur vel í vinnunni hjá okkur báðum. Bóndinn er að verða búinn að fylla kvóta viðskiptavina sem verkstæðið getur tekið við, er núna í Austevoll í viðræðum við einhverja sem vilja koma í viðskipti við hann. Nóg að gera hjá mér í vinnunni, fæ fullt af aukavöktum (stundum meira en ég vil, það er þetta með erfiða orðið nei) ofan á 50% sem ég er með fast. Ég er að flakka á milli allra deildanna (sem eru 4) og það er bara gaman að fá smá tilbreytingu.
Um það bil hálfsmánaðarlega (stundum í hverri viku) hittum við nokkra íslendinga og syngjum með þeim. Við vitum ekki alveg hvort við eigum að kalla okkur kór eða sönghóp. Höfum aðalega verið að syngja okkur til skemmtunar og þá oftast hver með sínu nefi, en nú er planið að taka málið alvarlegri tökum og fara að syngja raddað og æfa upp nokkur lög almenninlega. Hvað við gerum svo með það er spurning, kannski verða bara stórtónleikar í Grieghallen (tónlistarhúsið í Bergen) hvað veit maður ha,ha,ha. Svo hittist þessi hópur líka reglulega ásamt mökum og borðar góðan mat, skálar í einhverju góðu, syngjum og dönsum. Nökkvi og Yrsa eru eins og áður sagði í þorrablótsnefnd íslendingafélagsins. Blótið verður þann 4.febrúar og ætlar frúin þangað að sjálfsögðu. Hlakka til að fá mér snúning og skála kannski eins og einu sinni til tvisvar.

Það er ýmislegt að gerjast í kollinum á okkur varðandi búsetu. Við erum að spá í hvort við eigum að vera hér áfram eða fara til Íslands aftur. Eins og staðan er í dag þá langar okkur að vera lengur hér og þá er spurningin hvort það eigi að leigja íbúðina sem við erum í áfram, færa okkur aðeins um set og finna aðeins ódýrara leiguhúsnæði eða bara jafnvel að kaupa. En við viljum halda okkur hér á Sotra, langar ekki að flytja inn í Bergen. Nánari fréttir af þessu öllu síðar.

Tré með hjartað á réttum stað eða ekki :) Það er allavega hjarta þarna.

Þá er einni langlokunni enn lokið :) Spurning um að reyna að hafa styttra á milli blogga svo þau verði ekki svona löng.

Kærar kveðjur og verið góð hvort við annað elskurnar.

14 comments:

Anonymous said...

Það er svo gaman að fá fréttir af ykkur, sérstaklega svona góðar. Mér finnst þessi sönghópur mjög sniðugur, væri til í að vera í svona afslöppuðum kór ;)
Gott að heyra að börnin blómstra og þið líka.
kærar kveðjur til ykkar héðan úr snjónum
xxx Hrafnhildur

Anonymous said...

Gaman að sjá hvað allt gengur vel hjá okkur. Það er sko meira en að segja það að stökkva út með famelíunni. Þið eruð dugleg :)
Og Híhí en skemmtilegt hjartatré !

kv.Aníta hjúkkusyss

Anonymous said...

Já það er sko gaman að lesa fréttir af ykku, sérstaklega svona góðar fréttir :) Er ekki um að gera að vera þarna aðeins lengur og safna meiru í reinslu-sarpinn?? ;) Og auðvitað er Ísland best :) Haldið áfram að njóta ykkar. Knús frá Guðlaugu móðursystur

kollatjorva said...

Gaman að lesa góðar fréttir :)
knús og koss :)

Ingi St. said...

Flott blogg og gaman að sjá hvað þið hafið það gott. Í sambandi við norsku mállýskurnar var það eitthvað tengd nýnorsku og bókmáli?

Íris said...

Ingi mállýskurnar eru alveg utan við nýnorsku og bókmál, mállýskurnar eru framburðarmunur á milli landshluta, svipað og norðlenska og skaftfellska t.d. Ansi mikið af þeim hér, málið snýstu um mun á framburði á m.a. L-i og R-i og svo a og e endingar svo eitthvað sé nefnt (er ekki alveg nógu vel að mér í þessu). Nýnorskan og Bókmál eru svo sér kapítuli, en þau læra bæði í skólanum. Það er reyndar líka misjafnt eftir stöðum hvað mikil áhersla er lögð á nýnorskuna og sumir skólar eru það sem kallað er nýnorskir (þá er það aðalmálið og kennt á því).

Anonymous said...

Alltaf gaman að lesa hjá þér Íris, ekkert vera að stytta bloggin, þau eru skemmtileg svona löng :).

Gott að allt gengur svona vel hjá ykkur, maður verður nú að fá að koma í heimsókn áður en þið flytjið aftur heim :) !

kv Heba Björg.

amaliaragna said...

Þoldi ekki að geta ekki kvittað.

Anonymous said...

Eg kiki her stundum. Gaman ad fylgjast med ykkur a nyjum slodum.

Kv.G.Sigfinns

Íris said...

Góð Amalía :) Heba Björg þú ert alltaf velkomin

Anonymous said...

Hæ hæ, eins og vanalega alltaf svo gaman að lesa bloggið þitt og yndislegt að heyra hvað allt gengur vel hjá ykkur öllum.
Knús í hús...Sæa ömmusystir.;))

Anonymous said...

Nú auðvitað les maður allt blogg sem kemur frá þér, frábær lesning ;) Gaman hvað allt gengur vel og hvað það gengu frábærlega hjá krökkunum. Sðurning um að vera lengur þar sem þið eruð komin, fá aðeins meira í reynslu-sarpin eins og Guðlaug segir. Vertu svo áfram dugleg að skrifa svo við getum fylgst með. Kær kveðja og knús á ykkur öll Hildur móðursystir ;)))

Frú Sigurbjörg said...

Frábært hjarta og frábærar fréttir af ykkur öllum. Mér sýnist þið öll fyrirmyndarfólk með hjartað á réttum stað.

Heiða Björk said...

.. eða bara skrifa oft löng blogg? Það er svo gaman að lesa löng blogg :)

stuðkveðja!