Ég er að hugsa um að deila með ykkur ævintýrum mínum frá því um kvöldarmatarleyti föstudagsins 13. jan til kl 04 laugardagsins 14. jan. Allt sem hér er ritað gerðist og er satt, þó það verði kannski aðeins skreytt með orðum. Þegar allir þessir hlutir áttu sér stað þá fannst mér þeir alls ekki fyndnir en ég er búin að hlæja að þeim eftir að pirringurinn rann af mér, svo ykkur er velkomið að hlæja hátt ef þið finnið hjá ykkur þörf til þess.
Ósköpin byrjuðu þegar kvöldmaturinn var eldaður. Í boði var heimabökuð pizza sem má segja að hafi verið eldbökuð, ég mæli ekkert sérstaklega með eldbakstir svona í heimahúsum allavega ekki í ofninum sennilega betra að nota eitthvað annað. En þetta atvikaðist þannig að þegar pizzan var tekin úr ofninum byrjaði bökunarpappírinn sem undir henni var að loga. Hann skíðlogaði og á meðan við hjónin reyndum að slökkva eldinn þá svifu mislogandi pappírsflyksur út um allt. Þetta fór allt vel en pizzan var bragðbætt með dassi af brunnum bökunarpappír. Hún bragðaðist bara sæmilega, þó ég segi sjálf frá.
Þegar líða fór á kvöldið fór hjúkrunarfræðingurinn að hafa áhyggjur af heimasætunni sem var búin að vera með magaverki frá því um morgunin. Ég fór að reyna að meta ástandið (líkamsmatið hjá IT kom sér vel). Einkennin sögðu mér að það væri möguleiki á því að daman væri með botnlangabólgu, ég var búin að horfa fram hjá þessum verkjum heimasætunnar allan daginn (svona eins og hjúkrunarfræðingar eiga til að gera þegar heimilisfólk þjáist af ýmsum kvillum). Þegar hér var komið taldi ég að réttast væri kannski að hafa samband við læknavaktina svona til vonar og vara. Þau vildu endilega fá að kíkja á dömuna þar sem þeim fannst að sjúkdómsgreining mín gæti verið rétt. Eftir skoðun á læknavaktinni vorum við sendar á Haukeland sjúkrahúsið til að meta ástandið enn frekar.
Ég taldi nú að það gæti nú ekki verið flókið að komast á þetta blessaða sjúkrahús, frúin tæknivædd með GPS tæki í bílnum (sem á það reyndar til að senda mann ótrúlegustu krókaleiðir). GPS-ið reyndist ágætlega framan af, tókum reyndar nokkrum sinnum ranga beygju og gerðum gelluna í tækinu alveg óða. Eftir akstur um þröngar einstefnugötur komum við að húsaþyrpingu sem við töldum að væri sjúkrahúsið, en við vorum nokkuð vissar á því að við værum nú ekki nálægt aðalinnganginum. Rúntuðum aðeins um en fundum aldrei neitt sem gat hugsanlega verið inngangur, hvað þá bílastæði. Mér fannst þetta reyndar allt frekar undarlegt, reiknaði með fleiri bílastæðum við svona stórt sjúkrahús. Allt í einu sáum við skilti sem á stóð Akut-mottak, við þangað. Til að komast inn á bílastæðið þurfti ég að hringja hjá vaktmanni sem sagði mér að ég þyrfti svo að færa bílinn um leið og ég gæti. Við hringdum bjöllu á Akut móttökunni og tók á móti okkur alúðlegur hjúkrunarfræðingur. Neibb við vorum ekki á réttum stað, þetta var barnadeildin. Þið þurfið að fara í aðalbygginguna, mér féllust hendur búin að keyra marga hringi þarna og sá engin skilti sem vísuðu á aðalbyggingu. Konu greyið sagði þá að við gætum farið bara í gegn hjá þeim, niður með lyftu og svo í þessa átt og beygja svo hérna, hélt hún......................eftir að hafa spáð og spekúlerað í smá stund ákvað hún að fylgja okkur. Við gengum allskonar krókaleiðir í gegnum kjallaran, heimasætan lét sig hafa að þramma þetta þó hún væri frekar þjökuð af verkjum.
Á réttan stað komumst við, þar sem daman var sett í rúm og skoðuð hátt og lágt og teknar blóðprufur og svona. Meðan við biðum eftir niðurstöðum blóðprufanna ákvað ég að núna væri líklega gott að fara og færa bílinn. Spurði hvert ég ætti að fara og fékk einhverja leiðalýsingu en var hleypt út um bakdyr, beint af deildinni í staðinn fyrir að fara í gegnum aðalbygginguna. Ég fann bílinn eftir smá labb og þá hófst nú leitin að aðalbyggingunni og bílastæðinu. Hring eftir hring keyrði frúin, orðin vægast sagt pirruð og pínu syfjuð. Sá eitthvað sem gat hugsanlega verið móttaka, lagði bílnum inn í minnsta og þrengsta bílastæðahús sem ég hef séð, þar voru eiginlega fleiri súlur/stöplar en bílastæði. Gekk að þessari móttöku sem mér fannst frekar lítil fyrir svona stórt sjúkrahús, enda var þetta sjúkrahótelið. Næturvörðurinn sagði að það væri í lagi að hafa bílinn þarna og vísaði mér veginn að aðalbyggingunni, labbar bara þarna inn á milli húsanna og þá ættir þú að finna skilti sem vísa veginn að aðalbyggingunni.
Á stað gekk ég í myrkrinu (ekkert verið að spandera í of mikla lýsingu þarna frekar en annars staðar) var búin að ganga í nokkra stund fram og til baka áður en ég fann skilti sem vísaði veginn að aðalbyggingunni. Kom að húsi þar sem var skilti fyrir ofan hurð og á skiltinu stóð aðalbygging. Mér fannst þetta frekar aumingjalegt eitthvað, engin móttaka fyrir innan dyrnar (sem voru læstar) en ég hringdi bjöllunni og vaktmaður svaraði í dyrasíman, ég náði rétt að segja ég er aðstandandi áður en hann ýtti á hnapp og dyrnar opnuðust. Ég gekk inn og fyrir framan mig var stigi, ég gekk upp hann og inn um dyr. Þá var ég stödd á miðjum gangi heila- og taugadeildarinnar, ég horfði aðeins í kringum mig og sá ekki hræðu, þannig að ég ákvað að gáfulegast væri bara að koma mér út. Fór sömu leið til baka en dyrnar út voru læstar og ég komst ekki út um þær.
Þá prófaði ég stigann niður. Endaði ofan í kjallara einhverjir leiðarvísar voru þar á veggjum svo ég hélt af stað, þeirri hugsun skaut upp að kannski yrði ég þarna að villast í marga klukkutíma og fyndi aldrei leiðina út. Þarna þvældist ég um ýmsa ranghala innan um sjúkrarúm og súrefniskúta og allskonar dót. Aldrei mætti ég einni einustu hræðu en ég átti alveg eins von á því að öryggisvörður mundi nú koma til þess að athuga hvað ég væri að veltast. Þegar mér var eiginlega hætt að standa á sama þá rambaði ég fyrir einhverja ótrúlega heppni á aðallyfturnar og komst aftur á Akút deildina eftir að hafa villst um sjúkrahússvæðið og kjallaran í klukkutíma.
Þegar hér var komið var búið að ákveða að heimasætan yrði flutt upp á deild og höfð þar til eftirlits, það var bara verið að bíða eftir móðurinni. Blóðprufurnar höfðu ekki sýnt neitt óeðlilegt en þau vildu hafa hana áfram og sjá hvernig málin þróuðust. Ég fylgdi dömunni upp á deild og fullvissaði mig um að hún yrði í góðum höndum, og mér var lofað að það yrði hringt í mig ef einhverjar breytingar yrðu á líðan hennar.
Þá var komið að því að koma sér út og finna bílinn minn aftur (á þessum tímapunkti var ég farin að sjá rúmið mitt í hyllingum enda klukkan að nálgast 4). Nú fór ég niður með lyftunni í móttökuna sem var risastór og þrjár útgönguleiðir um að velja. Rakst á öryggisvörð sem ég sagði hvar bílnum mínum væri lagt og spurði hvaða leið væri best að fara. Þegar ég kom út var ég stödd í risastóru bílastæðahúsi, nú var að finna leið út, sem ég fann fljótlega. Þegar ég kom út úr húsinu sá ég að ég var stödd við hliðina á húsinu sem ég hafði farið inn í fyrr um nóttina og talið að væri aðalbyggingin, greinilega gamli spítalinn. Ég fann bílinn minn fljótt og ætlaði nú aldeilis að drífa mig heim, þegar ég bakkaði út úr stæðinu var ég mjög upptekin af því að passa mig að bakka ekki á eina af þessum fáranlega mörgu súlum/stöplum sem þarna voru. Ég steingleymdi hins vegar súlunni sem var við hliðina á bílnum og skellti mér í smá súludans (mæli alls ekki með þannig dansi á bíl, og það er sennilega frekar ógáfulegt að keyra þegar athyglisgáfan er næstum sofnuð) hliðarspegillinn kom inn um rúðuna sem fór í mask og farþegahurðin beyglaðist. Þegar hér var komið sögu þá var skapið hjá frúnni orðið frekar tæpt og ég þó nokkur ljót orð fengu að fjúku út í algleymið.
Ég losaði bílinn af súlunni, steig út og skoðaði skemmdirnar, tróð speglingum sem dinglaði laus inn um brotnu rúðuna og ók af stað heim. Ég gerði mér grein fyrir því að þetta leit ekki vel út, það var eins og ég hefði brotist inn í bílinn og stolið honum, það hefði toppað ævintýri dagsins ef einhver árvökull vegfarandi hefði tilkynnt mig til lögreglunnar.
Mikið rosalega var ég fegin þegar ég var komin heim og gat skriðið upp í rúmið mitt.
Af sjúkrahúsdvöl dótturinnar er það að frétta að hún er komin heim, ennþá með botnlangan og virðist bara nokkuð frísk (sem betur fer).
Ég er ennþá hálf gáttuð á því hvað ég gat komist auðveldlega inn á spítalan (ekki um aðalinngang) án þess að gera almenninlega grein fyrir ferðum mínum, að ég tali nú ekki um að ég gat vafrað um kjallarann í lengri tíma óáreitt.
Ég á eftir að kanna hvað súludansinn muni kosta mig...........................
Á meðan á þessum ævintýrum stóð þá var mér ekki skemmt, en guð hvað ég er búin að hlæja mikið að þessum óförum mínum, verður sennilega fyndið þar til ég þarf að borga fyrir viðgerð á bílnum.
Ég get sem betur fer sagt svona í lokin að þetta er ekki alveg venjulegur dagur í mínu lífi, þó ég eigi það til að vera ótrúlega seinheppin ;)
Góðar stundir.
9 comments:
fegin að það er ekki bara ég sem á svona daga.
Segi það sama og hún Egga-la hér á undan. En það er oft gott að geta horft í bakspegilinn og hlegið að óförum sínum. Knús í hús. Kv. Guðný Svavars
Hahahaha já það er gott ap geta hleigið að óförum annara og líka sínum :) Vonandi færðu ekki voða dýra viðgerð. Knús, knús, Guðlaug móðursystir
Jahérnahér.. hvernig væri nú að spítalinn myndi splæsa í nokkrar ljósaperur og skilti??!!
Gott að það endaði allavega vel með heimasætuna :)
Hahahahahha föstudagurinn 13 ekki satt hahahaha. En gott að allt endaði vel, knúsaðu heimasætuna frá mér. Kv Hildur
Jahérna! Ég viðurkenni að ég skellti upp úr einu sinni (ok,tvisvar) en þá þegar þú ert að ranghalast þarna. Mikið er gott að allt sé í lagi með heimasætuna og vona ég að svo verði áfram. Hafið það gott!
Góð saga, vel skrifuð, er farinn að hlakka til næstu - eða þarnæstu - jólabókavertíðar!
En þessir þó Nojarar - tíma ekki einu sinni að kveikja ljósin:)
Kæru þið, ef ég hefði ekki viljað láta hlæja að þessari sögu þá hefði ég ekki sett hana hér inn og ekki sagt nokkrum frá ;)
Eysteinn kannski kemur jólabók á eftirlaunaaldrinum ;) Hér er ekki verið að spandera í of mikla útilýsingu skal ég segja þér. Fá ljós og ég held að það séu ekki nema 15 watta perur í þeim
Elsku Íris mín, það krimti í mér fyrst, svo sagði ég óó, nú og svo hló ég. Það er ekki alveg í lagi að einhver skuli geta valsað svona um rangala hússins, það eru nefnilega ekki allir heiðarlegir. Kærust í bæinn þinn frá okkur Bróa. Og fyrir þá sem eru ekki vissir: Rangali skal það vera, þótt ranghali sé kannski í lagi. (ég mátti til!) Gulla
Post a Comment