Wednesday, February 22, 2012

Hugleiðing

Eins og ég hef nefnt þá á ég það til að hugsa alltof mikið. Um daginn þegar heilinn var ofvirkur í hér um bil tilgangslausum hugsunum þá fór ég meðal annars að velta því fyrir mér hvað starfið mitt er í raun og veru fjölbreytt og að ég held að fólk sem hefur ekki unnið í heilbrigðisgeiranum eða við umönnun geri sér bara alls ekki grein fyrir því hvað starfið er fjölbreytt. Þó það sé ljótt að segja það þá heyrði ég oft þegar ég var búin með mitt sjúkrliðanám að nú væri ég löggilltur skeinari. Smart ekki satt, ætli þetta sé almenn hugmynd um starf þeirra sem starfa við umönnun aldraðra? Hver er hugmynd fólks um störf hjúkrunarfræðinga? Ég hef grun um að fólks sjái fyrir sér að við séum alltaf með sprautuna á lofti eða pilluglasið, séum að setja plástra hér og þar svona svo eitthvað sé upp talið.

Mitt starf sem hjúkrunarfræðingur á hjúkrunarheimili er ákaflega fjölbreytt vægast sagt. Jú, jú ég á það vissulega til að sprauta fólk. Og ég sé um að taka til lyf og gefa lyf. Mitt aðalstarf er samt að vera talsmaður þjónustuþegans, t.d í samskiptum við lækna og annarra fagstétta í heilbrigðisgeiranum. Það er að halda utan um þá þjónustu sem hann fær og að reyna af öllum mætti að sjá til þess að hann fái þá þjónustu sem hann þarf, þarna kemur m.a inn í að útvega þau hjálpartæki sem viðkomandi þarf á að halda og fái þá umönnun sem hann þarfnast. Einnig sé ég um skráningu allskonar upplýsinga og mat á þróun sjúkdóms og getu þjónustuþega. Að sjálfsögðu er ég líka í umönnunarhlutverki í öðrum skilningi líka. Ég aðstoða þjónustuþega við að viðhalda persónulegu hreinlæti, hvað er nú það spyrja sumir kannski, en í þessu felst m.a aðstoð við böðun, klósettferðir, tannhirðu, klæðnað og fleira. Þjónustuþegin er aðstoðaður við allar athafnir daglegs lífs, þar sem hann þarfnast aðstoðar, t.d aðstoð við að nærast, þvo sér og klæða sig. Einnig er það okkar hlutverk að viðhalda færni þjónustuþegans við athafnir daglegs lífs, leiðbeina þegar þarf (t.d þegar viðkomandi hefur gleymt hvernig á að gera ákveðna hluti) og hvetja, vera tilbúin að aðstoða þar sem þarf. Að vera talsmaður þjónustuþega er ábyrgðarmikið starf og ég held að hjúkrunarfræðingar allstaðar séu alltaf að berjast fyrir því að þjónustuþegi fái þá þjónustu sem honum ber og í því felst meðal annars að vaktirnar séu almenninlega mannaðar. Held að það sé því miður þannig allstaðar í heiminum að það sé ætlast til þess að hver starfsmaður sinni of mörgum sjúklingum, og það er svekkjandi að geta ekki veitt jafn góða þjónustu og maður vildi. En við gerum okkar besta með alltof fátt starfsfólk (því miður).

Sáraskipti og að meta og ákveða meðferð á sárum er stundum partur af starfinu. Það að skipuleggja starf dagsins í samráði við annað starfsfólk ásamt því að skipuleggja hjúkrun og meta hjúkrunarþörf þjónustuþega er líka hluti af starfinu. Að vera til staðar fyrir þjónustuþega og fjölskyldu hans þegar á þarf að halda, að geta hlustað eftir því sem fólk er að segja og að lesa í tilfinningar, hegðun og samskipti er eiginleiki sem hjúkrunarfræðingar þurfa að hafa. Held að margir átti sig ekki á því að samskipti, stuðningur og kannski í raun hjúkrun aðstandenda er oft stór hluti af starfinu.

Umönnun deyjandi er að óumflýjanlegur þáttur í starfi hjúkrunarfræðings á hjúkrunarheimili. Og mér persónulega finnst það ákaflega gefandi starf. Að bera ábyrgð á því að einstaklingi líði sem best á síðustu dögum, klukkutímum og mínútum þessa lífs er áskorun og þegar vel til tekst er maður ákaflega sáttur. Við þessar aðstæður er maður líka í mjög nánum samskiptum við aðstandendur og hjúkrun/umönnun þeirra er ekki síður mikilvægur þáttur. Að vera tilbúin að hlusta, að geta útskýrt og svarað spurningum, verið stuðningur og veitt styrk og hlýju er nauðsynlegt, og þegar ég sem hjúkrunarfræðingur upplifi að ég hafi verið allt þetta þá er ég svo óendanlega sátt.

Á mínum vinnustað þá þvæ ég líka og brýt saman þvott. Ég elda stundum graut og smyr brauð og baka, vaska upp og þurrka. Ég aðstoða fólk við að borða, veiti félagsskap og aðstoða með samskipti við aðra þjónustuþega (það er mjög gaman þegar tekst að fá sem flesta í samræður um líf og störf þeirra), les, fer í gönguferðir með þjónustuþegum, syng fyrir og með þjónustuþegum og stundum jafnvel dansa ég. Aðstoða við ýmiskonar styrktarþjálfun, nudda o.fl.

Á heilabilunardeild (þar sem er fólk með Alzheimer og heilabilun af öðrum orsökum) þarf maður að vera flinkur að lesa í aðstæður og líkamstjáningu. Maður þarf að gera sér far um að þekkja hvern og einn þjónustuþega ákaflega vel, þar sem að þetta fólk er ekki alltaf fært um að tjá sig eða að segja hverjar þarfir þeirra eru. Það koma oft upp óvæntar og sérstakar aðstæður sem maður þarf að geta tæklað og unnið úr. Stundum getur það verið vægast sagt flókið að fá þjónustuþegan til samvinnu svo maður þarf að eiga ótakmarkað magn af þolinmæði. Þess vegna skiptir upplýsingaflæði á milli vakta ákaflega miklu máli og að skrifa svokallað rapport (skráning upplýsinga) um hvern og einn. Í upphafi vaktar lesum við okkur svo til um atburði hjá hverjum og einum, líðan, næringu, svefn og ef einhverjar breytingar hafa orðið á högum viðkomandi, heilsu eða meðferð.

Hér hef ég líka kynnst alveg nýjum aðstæðum og það er það að einstaklingur endurupplifir atburði og hræðslu frá stríðsárunum. En hér á Sotra var þýski herinn með aðsetur og það voru unnin hér ýmis voðaverk. Að upplifa óttan, kvíðan og skelfinguna í gegnum einn þjónustuþegan var alveg nýtt fyrir mér og svolítið yfirþyrmandi í fyrstu en eins og með annað þá lærir maður hvernig á að bregðast við.

Stundum á kvöldvöktum er ég svokölluð A-vakt. En þá er ég með yfirumsjón í húsinu þ.e að ef eitthvað kemur upp á öðrum deildum þá er leitað til mín. Ef starfsmaður tilkynnir veikindi þá þarf ég að kalla út annað starfsfólk. Sé um að húsinu sé læst á réttum tíma og geng úr skugga um að allar hurðir séu læstar sem eiga að vera læstar og allt sé í lagi í húsinu áður en ég skila af mér vaktinni. Er í samskiptum við læknavakt ef þarf og síðast en ekki síst ber ég ábyrgð á því að rétt sé brugðist við ef það kemur upp bruni.

Ég er ánægð með starfið mitt og finnst mjög gefandi, það er fjölbreytt og mér leiðist aldrei í vinnunni.

Ég er stolt af því að vera hjúkrunarfræðingur.

11 comments:

Frú Sigurbjörg said...

Mér leiðist þessi vanvirðing sem þú tæklar mjög vel hér. Þeir sem hafa kallað þig "skeinara" ættu að gera sér grein fyrir því að þeir gætu þurft á slíkri þjónustu að halda síðar meir, og öll þurfum við á hjúkrun að halda á e-m tímapunkti og á hvaða adurskeiði sem er. Takk fyrir að vera hjúkrunarkona!

Þórgunnur Lilja said...

Gaman að lesa þennan pistil :) Starfið okkar er svo sannarlega miklu meira en að skeina!!! En eitt enn.... það er ekki ypsilon í hugleiðing :)

Íris said...

hahahahaha var einmitt að átta mig á því að ég hefði sett ypsilon þarna og finnst það ákaflega ljótt hehehehe

Egga-la said...

Ég verð að viðurkenna að mér kvíður fyrir því að verða gamalmenni því allt of fátt ungt fólk í dag vill vinna í heilbrigðisgeiranu. Vann við ummönnun aldraðra í nokkur ár eftir að ég flutti hingað og það var gott starf og maður vissi þegar maður kom heim á kvöldin að maður hafði gert eitthvað sem skifti máli. Þú mátt sko alveg vera stolt af þínu starfi.

Anonymous said...

Góður pistill eins og vanalega. Já held að þetta sé stundum svolítið vanþakklátt starf sem þú ert í. En með því að minna mann á þá er hægt að breyta þessari hugsun. Þegar maður er búin að lesa yfir þá finnst mér þetta frábært starf og mikið fjölbreytt. Segi eins og þessi sem póstar á undan mér, TAKK fyrir að vera hjúkrunarkona. Kveðjur og knús Hildur móðursystir.

Anonymous said...

Góður og vel skrifaður pistill ! Segir allt sem segja þarf.

Guðrún Sigfinns

Anonymous said...

Frábær pistill hjá þér mín kæra og ég veit að þú ert alveg fædd í þetta hlutverk, því að þú ert svo ljúf og hlý manneskja. Verst að við erum jafngamlar því að ég hefði alveg viljað vera á elliheimili þar sem þú ynnir :) en kannski verðum við bara saman á elliheimili og drekkum og reykjum í laumi eins og í gamla daga hehehehe.

Heiða Björk said...

Ég hef alltaf dáðst að þeim einstaklingum sem leggja það á sig að vera hjúkrunarfræðingar. Þetta er sko ekki starf sem er öllum fært. Hjúkrunarfræðingar eru hetjur upp til hópa!

Anonymous said...

Frábært hjá þér Íris mín. Ég greip svona í þetta núna en les betur í kvöld, er svo bissí kona, hahaha.
Ég kvitta aftur þegar ég er búin að lesa vel. Knús mín kæra. Guðlaug frænka

Anonymous said...

Þú ert yndisleg og eru Sotrarar mjög svo heppnir að hafa fengið ykkur fjölskylduna til sín!
Bestu kveðjur úr hornfirsku rigningunni!
Árdís

Ameríkufari segir fréttir said...

Þetta! var vel skrifaður pistill. Hann var fullur af væntumþykju og auðmýkt. Hann ætti líka vel heima á fréttamiðlum. Húrra fyrir þér.