Yngri sonurinn var að fara í afmæli og nennti ekki að skrifa sjálfur á kortið svo hann bað mig um það, sem ég og gerði. Þegar við vorum að keyra honum í veisluna var hann að handfjatla kortið og allt í einu gellur úr aftursætinu
"Mamma þér actually (hann slettir ensku barnið) tókst að skrifa þetta rétt!!"
Það var að sjálfsögðu ekki annað hægt en að springa úr hlátri :)
Hann er einstaklega duglegur og virkilega iðinn við að leiðrétta foreldra sína, þegar þeir skrifa, lesa eða tjá sig á norsku. Stundum er það pínlegt, oftast fyndið en það kemur líka fyrir að það sé pirrandi hehehe.
Pilturinn lærir að mestu svokallað bókmál í skólanum en það kemur fyrir að það slæðist einhver nýnorska með í lesmáli. Við hjónin, tölum að mestu bókmál en líklega þó einhverja blöndu af bókmáli, nýnorsku og stríl (sveitalúða málýska) annars hef ég ekki hugmynd um það ;) en ég hef þó fengið að heyra það öðru hvoru í vinnunni að það sé svo gaman að heyra mig tala nýnorsku, sem eru þá einhverjar setningar sem ég hef gripið á lofti og tileinkað mér.
Um daginn átti drengurinn að lesa heima. Þegar hann var búinn að lesa í smástund fyrir pabba sinn biður pabbi hans hann um að vanda sig og lesa betur, það skiljist nú bara ekki það sem hann sé að segja...það kom smáþögn og gott ef hann ranghvolfdi ekki augunum svo sagði hann "pabbi, þetta er nýnorska"..........................
Það er eiginlega bráðmerkilegt að fylgjast með því hvað tungumál liggja vel fyrir honum. Hann skiptir á milli íslensku, norsku og ensku eins og ekkert sé.
Kærasti heimasætunnar er að hálfu enskur, en fyrst þegar þeir hittust ræddi sá stutti við hann á norsku og það var ákaflega gaman að heyra hann tala áreynslulaust og án þess að þurfa að velta því fyrir sér hvað hann ætlaði að segja eða hvernig. Svo uppgötvaði stráksi að það var möguleiki að tala ensku við hann og þá notar hann tækifærið og talar eingöngu enskuna (með amerískum hreim og það miklum). Það gerir hann líka áreynslulaust og eins og hann hafi haft ensku sem annað tungumál frá fæðingu. Ótrúlegt að fylgjast með þessu.
Góðar stundir
4 comments:
Þessi strákur er bara gullmoli. Kveðja Hildur móðursystir
Hann er með gott eyra og fína greind. Er hann þá ekki músíkalskur? Það fylgir oft góðri málakunnáttu. Kærust í kotið frá okkur Bróa.
Jú hann er músíkalskur.
Frábært að heyra hvað þetta liggur vel fyrir honum, greinilega klár strákur. Skemmtilegt að fylgjast með því hvað krakkarir eru fljótir að aðlagast nýju umhverfi. Vildi óska að það væri jafn auðvelt fyrir okkur fullorðna fólkið. Maður er alltaf svo mikill Íslendingur e-ð :)
Post a Comment