Tumi flutti til okkar 18.janúar, vegna ofnæmis sem kom upp hjá fyrrverandi eigendum. Tumi er alveg sérstaklega prúður og góður hundur. Hann hefur heldur betur fangað hjörtu okkar nýju fósturfjölskyldunnar.
En nú að því sem fyrirsögnin vísar til. Ég er búin að vera frá vinnu síðastliðna viku vegna þess að líkaminn hefur verið í hálfgerðu verkfalli. Ég hef verið orkulaus og með verki um allan skrokk, svo dagarnir hafa eiginlega bara farið í það að sitja og stara út í loftið, þannig lagað séð. Tumi hefur þó séð til þess að ég hef farið í göngutúra hér um bil á hverjum degi. Án hans hefði ég sennilega myglað. Það hefur þó verið þannig að það hefur þurft átök til að koma mér út en mikið ofboðslega hefur það verið gott fyrir líkama og sál þó ég hafi ekki átt orku í neitt meira það sem eftir var dags. Hugsa samt að Tuma hafi ekki fundist þessir göngutúrar neitt sérlega skemmtilegir enda hefur frúin farið yfir á hraða skjaldbökunnar, en hann hefur verið ótrúlega þolinmóður og skilningsríkur við mig blessaður.
Í þessu aðgerðarleysi hefur hugurinn verið á flugi. Óhjákvæmilega hef ég velt því fyrir mér hvað sé eiginlega í gangi með mig, hvort ástandið komi til með að skána, hvort grunur minn og læknisins sé réttur að það sé vefjagigt sem plagar mig. Hvort ég hreinlega eigi eftir að halda það út í vinnunni minni, þar sem líkamlegt álag er þó nokkuð eða hvort ég þurfi að fara að velta fyrir mér öðru starfsumhverfi. Ég fæ hnút í magan við þá tilhugsun. Ég hef þó sérstaklega mikinn áhuga á sárum og gæti vel hugsað mér að starfa eitthvað á þeim vettvangi en þá þyrfti ég að öllum líkindum að sækja vinnu inn í Bergen og eyða ansi löngum tíma í umferðarteppu á hverjum degi, finnst það voða lítið freistandi.
Hugurinn hefur líka sent mig inn í heim dagdrauma. Mig hefur dreymt um jarðskika, niður við sjó, krúttlegt hús og góða hlöðu eða útihús. Jebb ég er ekkert að grínast. Sé fyrir mér gallerí í hlöðunni/útihúsinu, aðstöðu til að mála og sauma, jafnvel selja og kynna íslenska hönnun. Kannski selja gistingu, þegar ég nenni ;)
Hver veit kannski rætist draumurinn einn góðan veðurdag. Það kostar ekkert að láta sig dreyma.
Góðar stundir
4 comments:
Sæl elskan. Gaman að lesa eins og alltaf og gott að heyra af Tuma kallinum, það er verra með fjárans gigtina. Gangi þér vel í baráttunni kæra frænka. Kveðja frá Guðlaugu móðursystur.
Gott að eiga svona góðan Tuma! Þeir tveir eru flottir saman :)
Hlaðan hljómar dásamlega en umferðarteppan ekki svo dásamlega, hvað þá vefjagigtin! vona að þú hressist..
Það er nauðsynlegt að láta sig dreyma þó draumarnir rætist ekki allir. Leitt að heyra með heilsufarið, óska þér alls góðs og vona að þú sért að hressast.
Vefjagigt er nú ekki það sem þú baðst um. Vonandi færðu einhverja bót og kannski rætast draumarnir. Já, og Tumi er flottur með kærri frá okkur Bróa
Post a Comment