Saturday, February 23, 2013

Vonbrigði

Ég fór full eftirvæntingar í vinnuna á fimmtudaginn. Fyrsti vinnudagur eftir að vera búin að vera frá vinnu í næstum 4 vikur. Hlakkaði til að hitta íbúa hjúkrunarheimilisins og samstarfsfólk mitt. Hlakkaði til að verða til gagns. Það er nefnilega eitthvað við það að vinna, að vera til gagns, sem maður kannski uppgötvar enn betur þegar maður getur ekki unnið.

Ég get svo sem viðurkennt að ég fann að skrokkurinn var ekki fullkomlega eins og hann á að sér að vera og þó ég væri full eftirvæntingar þá var þarna smá kvíði einhver staðar í felum á bak við eftirvæntinguna.

Eins og venjulega var mikið að gera, og eiginlega extra mikið að gera þar sem einn íbúinn var lasinn. Þar sem starfsfólkið var á meiri þönum en venjulega þá verða íbúarnir órólegir. Þannig að vaktin varð þannig að ég settist ekki niður fyrr en kl 21:30 til að skrifa rapport, sorrý ég lýg því, ég náði að setjast niður í c.a 5 mín um 20:30 til þess að borða rúnstykkið mitt.

Þegar vaktin var búin, þá varð ég að kyngja því að ég væri líklega ekki að fara á fullt í mitt 70% stöðugildi. Ég var bara búin á því og þegar leið á kvöldið og nóttina var skrokkurinn undirlagður af verkjum. Ég varð svekt, sár, og kannski mest reið.

Eftir svefnlitla nótt fór ég á fund með deildarstjóranum mínum og við komumst sameiginlega að þeirri niðurstöðu að það væri sennilega lítið vit í því að ég reyndi að tækla þessa 70% vinnu, svo á mánudag þá á ég tíma hjá heimilislækninum og það er spurning hvað kemur út úr þeim fundi. Hvort ég verði í veikindaleyfi að hluta, þ.e vinn kannski 30-40% af stöðunni minni og verði í veikindaleyfi restina í einhvern tíma eða hvort ég verði bara að lúffa og bíta í það súra að ég geti þetta ekki.

Ég er bara ekki tilbúin að kyngja því að ég geti ekki unnið vinnuna sem ég elska. Ég vil trúa því að ég verði betri í skrokknum og geti haldið þessu áfram.

Ég er að reyna að vera jákvæð og ég held meira að segja að mér takist það að mestu leiti. Stundum hefur það samt verið fjandi erfitt og neikvæðnin hellist yfir mig. Það er bara ótrúlegt hvað verkir geta dregið úr manni alla orku. Ég hef átt verkjalausa daga og það er gott, líka næstum verkjalausa daga og svo daga þar sem verkirnir víkja ekki frá mér. Þetta er kannski ekki óbærilegir verkir, en þeir eru þarna alltaf og veita engan grið.

Kannski það sé lýsandi fyrir hvernig mér hefur liðið, þá hef ég ekki gert rassgat í þessar vikur sem ég hef verið heima. Ég hef ekki tekið upp pensil og málað mynd, ég hef ekki saumað. Ég kláraði reyndar lopapeysuna mína. Ég hef farið út að ganga, nánast á hverjum degi og lítið annað.

Það jákvæða er að ég get nýtt mér þessa reynslu í hjúkrun. Held að það sé bara gott fyrir þá sem annast sjúka að hafa upplifað það að vera veikur og finna til.

Þó að ég hafi þurft að tuða smá og skrifa mig frá pirringnum þá þýðir það ekki að ég ætli að gefast upp, alls ekki. Ég er Íslendingur og bít á jaxlinn og þrjóskast áfram, eða nei, kannski var ég búin að gera það of lengi og er þess vegna í þessari stöðu sem ég er í núna. Allt í lagi, en ég gefst ekki upp, ætla að vinna í mínum málum. Læra að takast á við þetta og lifa lífinu brosandi út að eyrum. Hlutirnir gætu verið verri, ekki satt.

Hætt að væla.

Njótið andartaksins og alls þess sem góða sem í kringum ykkur er. Njótið þess að vera til núna. Við vitum aldrei hvenær lífið tekur u-beygju og ég held að allt það góða og skemmtilega sem maður hefur upplifað ásamt öllu því sem maður hefur áorkað geri mann hæfari til að takast á við u-beygjurnar. Já og ekki gleyma að fjölskylda og vinir eru stór þáttur af lífinu og algjörlega ómissandi að vera í góðu sambandi við fólkið sitt.

Góðar stundir.


6 comments:

Anonymous said...

Áatandið er ekki gott hjá þér Íris mín, passaðu þig á að ofgera þér ekki. Þó við viljum taka þátt í öllu er það bara ekki hægt, verðum að læra að velja og hafna. Stundum er það svo að maður hefur ekki orku í neitt nema rétt að skrimta daginn. Það kemur bara af öllu afli ef maður getur ekki hamið sig. Ekki skrítið þó við verðum stundum dálítið þunglynd, verst þykir mér að það er svo erfitt að fá veikindarleifi hér. Vona að þetta lagist eitthvað hjá þér dúlla. Kveðja frá Hildi móðursystur :)

Anonymous said...

Þú ert auðvitað búin að kynna þér LDN undralyfið ??? Hef verið svolítið að lesa um það. Kannski eitthvað sem gagnast, það er stóra spurningin.Nú annars bara bíta á jaxlinn og bölva bæði í hljóði og upphátt eins og sönnum Íslendingi sæmir.. já já,, ég veit,, hægara sagt en gert. Knús og bestu kveðjur frá gömlu ömmusystur.

Ameríkufari segir fréttir said...

Ég er hrifin af því að þú raðar tilfinningunum upp hjá þér, ef ég get sagt sem svo. Nú ferðu á fullt í að læra á líkamann þinn aftur, og svo að lokum þá kannski sérðu hvað gengur fyrir þig og hvað ekki. Með þessa góðu lund, þá rétturðu úr kútnum, því trúi ég. Þú ert sterk, stutt í hláturinn og ert ekkert blávatn. Gangi þér vel mín kæra. Kveðjur héðan, Svanfríður.

Anonymous said...

Farðu vel með þig vinan.

Kveðja frá Hornafirði,
Guðrún Sigfinns

Frú Sigurbjörg said...

Æ kæra Íris, get ekki gert mér í hugarlund hvernig er að vera í þinni stöðu núna, en ef ég gæti myndi ég faðma þig fast að mér og kyssa þig á kinn. Haltu í jákvæðnina vinkona, það kemur e-ð annað gott í staðinn inn í líf þitt. Baráttu- og vinakveðja!

Anonymous said...

Ég á Íris mín ekkert ráð nema að hugsa fallega til þín, en uppgjöf er ekki í boði. Farðu vel með þig með kærri frá okkur Bróa.