Við krakkarnir ásamt tengdamömmu lögðum af stað frá Höfn til Reykjavíkur á föstudagsmorgun í leiðindaveðri. Ferðin til Reykjavíkur gekk ljómandi vel. Skiluðum tengdamömmu af okkur og héldum svo í pizzaveislu til mömmu og pabba á Sólvallagötuna. Þegar leið að háttatíma var spennan farin að magnast hjá þeim yngsta og honum gekk ekkert voðalega vel að sofna, sofnaði ekki fyrr en rúmlega miðnætti. Klukkan fjögur var liðið ræst til að leggja af stað í langferð.
Í Keflavík komst ég að því að það er ekkert sniðugt að leggja upp í langferð og eiga ekki kreditkort, ég gat sem sagt ekki fundið stæði fyrir bílinn því ég átti ekki kreditkort til að borga fyrir stæðið. Maginn fór í hnút þar sem ég var búin að henda krökkunum út með farangurinn og þarna rúntaði ég um hring eftir hring, frábært! Ég endaði á því að skilja bílinn eftir þar sem maður affermir bílana, og vonaði bara að bílageymsluaðilarnir hirtu hann þar en ekki löggan (svona ykkur að segja þá gekk það eftir).
Smá stress svona í upphafi var alls ekki ávísun á það sem koma skildi. Það gekk allt ljómandi vel eftir þetta, Yrsa þurfti reyndar að sjá á eftir ilmvatninu sínu í ruslið í öryggiseftirlitinu og öll öryggishlið sem ég átti eftir að fara í gegnum píptu hátt og snjallt á mig. Ástæðan var brjóstahaldarinn minn, spurning um að vera bara með allt frjálst á leiðinni heim. Einnig komst ég að því að ég er minni pæja en ég hélt og reynslunni ríkari mun ég ekki þramma um flugstöðvarbyggingar í hælaháum skóm framar.
Fyrsti áfangi var rúmlega 2. klst flug til Osló. Afþreyingakerfið stytti Fáfni Frey stundir á leiðinni, þetta er algjör snilld. Ég var búin að heyra að ég gæti ekki notað eigin headphones í þetta heldur þyrfti að kaupa í vélinni, en það er rugl það er vel hægt. Við komumst stórslysalaust í gegnum tollinn fengum okkur smá að borða og kíktum aðeins út í sólina sem skein glatt í höfuðborg Noregs. Ég var búin að hafa áhyggjur af því að ég mundi villast í flugstöðinni en það voru óþarfa áhyggjur, ekkert mál að finna innanlandsflugið og tékka sig inn. Þegar við vorum komin í gegnum öryggiseftirlitið var ekki laust við að ég andaði léttar því ég var með svakalegt magn af gjaldeyri í handtöskunni og var búin að óttast að menn vildu fá einhverjar skýringar á þessu magni af peningum, héldu kannski að ég væri eiturlyfjasali eða eitthvað, sá fyrir mér gúmmíhanska smella á hendi..................
Flugið til Bergen tók 40 mín. Við hliðina á okkur sat íslensk kona sem spjallaði mikið, hún spilar í Sinfóníunni og var ennþá hugfanginn eftir að hafa spilað í Hörpunni. Spjallið stytti okkur mínúturnar sem liðu hratt og áður en við vissum af vorum við komin í fangið á Nökkva, og mikið var það ljúft.
Bergen tók á móti okkur með rigningu og bóndinn var búinn að kaupa bleika regnhlíf handa frúnni sinni (held reyndar að hann hafi bara langað í hana sjálfum). Fáfni Frey fannst merkilegt að á leiðinni "heim" keyrðum við í gegnum fjögur jarðgöng. Á leiðinni upp í hverfi höfðu eldri börnin orð á því að þetta væri bara eins og að keyra upp í Lón (Stafafellsfjöll) nema vegurinn væri bara malbikaður.
Okkur líst ljómandi vel á íbúðina og börnin búin að eigna sér herbergi. Við tékkuðum líka á mollinu þegar við fórum að kaupa í matinn og heimasætan varð hugfangin og er búin að leggja inn umsókn hjá foreldrunum um lán.
Sunnudagsmorgun tók á móti okkur með grenjandi rigningu, sem er þó nokkurn vegin lóðrétt sem er vissulega kostur. Veðurspáin lofar hins vegar blíðu í næstu daga og ég vona svo sannarlega að hún standi við það. Við hjónin erum að kubba með þeim yngsta og bíða eftir að eldri börnin vakni. Erum jafnvel að spá í að kíkja í Sædýrasafnið í dag. En umfram allt ætlum við bara að njóta þess að vera saman.
Hafið það gott, það ætla ég að gera.
4 comments:
Njóttu!
njótið veðurblíðunar i norge :)
Frábært að lesa. Njótið þess nú að vera saman og hafið það sem best ;) Kveðja Hildur og co
Kannski er ekkert kúl að segja þetta en ég fékk tár í augun við að lesa þennan pistil. Ó hvað er yndislegt að þið eruð komin,eruð saman og að ykkur líst vel á. Njótið samverunnar!
Post a Comment